17.02.1954
Sameinað þing: 33. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í D-deild Alþingistíðinda. (3081)

20. mál, endurskoðun varnarsamnings

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það er nú orðið býsna langt um liðið síðan þáltill. þessi á þskj. 20 var hér síðast til meðferðar. Þess vegna er viðbúið, að það sé tekið að fyrnast yfir þær umræður, sem þá fóru fram. Ég hafði þá kvatt mér hljóðs, einkum til þess að svara nokkrum atriðum, sem fram höfðu komið í ræðum tveggja hv. þm. Alþfl., en báðir þeir þingmenn höfðu gert afstöðu Þjóðvfl. til herstöðvamálsins að umtalsefni. Voru það þeir hv. 4. þm. Reykv. og hv. 1. landsk. Ég vil nú, þótt seint sé, svara þeim lítillega, áður en ég vík nokkuð að þeim efnum, sem síðar hafa gerzt varðandi herstöðvamálið, þar sem eru samningaumleitanir þær, sem okkur er tjáð að nú fari fram hér í Reykjavík um breytingar á hernámssamningnum eða einhverjum ákvæðum hans.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði í ræðu þeirri, er hann flutti um þessa þáltill., að ég hefði látið í ljós eindreginn fögnuð yfir till., sem hér er til umræðu. Þetta er að vísu ekki alveg rétt. Fögnuður minn var takmarkaður, enda er fljótséð við samanburð, að á þessari till. og þáltill. þeirri, sem við þjóðvarnarmenn flytjum á þskj. 21, er grundvallarmunur. Við teljum þjóðarnauðsyn að losna hið fyrsta við erlendan her úr landi. Alþýðuflokksmenn fara hins vegar fram á endurskoðun samningsins, en ekki uppsögn, enda lýsti hv. 4. þm. Reykv. því yfir mjög skorinort í ræðu sinni, að flokkur hans telji uppsögn ekki tímabæra. Hitt var alveg hárrétt hjá hv. þm., að ég lét í ljós fögnuð minn yfir því, sem ég taldi jákvætt í till: þeirra Alþýðuflokksmanna, en það var einkum þrennt: Í fyrsta lagi tillaga þeirra um lokun herstöðvanna. Er gleðilegt til þess að vita, að þeirri stefnu virðist mjög hafa aukizt fylgi nú upp á síðkastið. Mér þótti ánægjulegt að heyra, að hv. 4. þm. Reykv. lýsti því yfir, að Alþfl. allur fylgdi þessu atriði í þáltill. þeirri, sem hér um ræðir. Það var — ef mig misminnir ekki — nokkur nýjung, en vissulega ánægjuleg. Annað atriði þessarar þáltill., sem að sjálfsögðu er til verulegra bóta frá mínu sjónarmiði og okkar þjóðvarnarmanna, er um styttingu á uppsagnarfresti samningsins úr 18 mánuðum, svo sem nú gildir raunverulega, og niður í 3 mánuði. Í þriðja lagi tel ég mjög gott, að fram skuli koma í till. og þó einkum í grg. hennar, að framkvæmd varnarsamningsins hafi verið með þeim hætti og á þann veg á málum haldið af hálfu íslenzkra yfirvalda, að gagngerðra endurbóta sé þörf. Lagði hv. 1. flm. mikla áherzlu á þetta atriði í framsöguræðu sinni, og tók hv. 4. þm. Reykv. að ýmsu leyti undir þá gagnrýni. Annars notaði hv. 4. þm. Reykv. drjúgan hluta af máli sínu til þess að breiða eins konar blæju yfir ýmislegt af því; sem flokksbróðir hans, hv. 1. landsk., sagði ákveðnast og einarðlegast í framsöguræðu sinni. Þingmaðurinn tók það a: m. k. tvívegis fram, svo að enginn þyrfti að vera í neinum vafa, að Alþfl. teldi ekki tímabært, eins og nú væri ásfatt í alþjóðamálum, að segja upp varnarsamningnum frá 1951. Með öðrum orðum: Alþfl. virðist ekki vera þeirrar skoðunar, að rétt sé að stefna að því að losna við herinn að hálfu öðru ári liðnu. Hv. 4. þm. Reykv. minntist heldur ekkert á það, eins og flokksbróðir hans gerði, að þeir Alþýðuflokksmenn ætluðu að sýna fullkomna dirfsku í mati sínu á því, hvenær ástandið í alþjóðamálum væri með þeim hætti, að réttmætt væri að segja samningnum upp. Ég er vissulega dálítið hræddur um, að þeirrar stundar sé nokkuð langt að bíða, er allir hv. þm. Alþfl. sýna af sér þá dirfsku að krefjast brottfarar Bandaríkjahers úr landi. Kannske reynist ég ekki sannspár um þetta, og væri þá vel.

Ég vil þá víkja nokkrum orðum að hv. 1. landsk. (GÞG) og þeim ræðum, sem hann hefur flutt í þessu máli. Hann sneri sér mjög að okkur þjóðvarnarmönnum — og mér sérstaklega — í ræðu þeirri, sem hann hélt hér síðast um þetta mál. Leitaðist hv. 1. landsk. við að sýna fram á það, að ég hefði í ræðu, þegar þáltill. þessi var fyrst til umr., hvikað frá hlutleysisstefnu Þjóðvfl., og hefur flokksblað hans, Alþýðublaðið, haldið hinu sama fram og jafnvel gert mér upp orð í því sambandi. Hér er um algeran misskilning að ræða hjá hv. þm. Fastar vil ég ekki kveða að orði. Eins og ég gerði nokkra grein fyrir í útvarpsumræðum þeim. sem fram fóru í vetur um þáltill. okkar þjóðvarnarmanna um uppsögn herstöðvasamningsins, er stefna Þjóðvfl. í utanríkismálum í meginatriðum hin sama og hv. 1. landsk. barðist ötullega fyrir allt fram til vorsins 1951, þegar hann illu heilli lét þröngva sér út af þeirri braut, sem hann hafði áður gengið. Sú stefnubreyting virðist hafa haft þær afleiðingar fyrir hv. 1. landsk., að síðan er hann, að því er bezt verður séð, áttavilltur í afstöðu til hersetu og hernaðarbandalaga. Honum liður eitthvað svipað og manni, sem tapað hefur réttri leið í dimmviðri á heiðum uppi, stundum vill hann halda í þessa átt, stundum í hina.

Hv. þm. leggur mikla áherzlu á það í ræðum sínum og greinum um utanríkismál, að aðrar smáþjóðir Evrópu treysti ekki á hlutleysi og vopnleysi, heldur leitist við að koma upp hjá sér hervörnum, þess vegna hljótum við Íslendingar, þar eð við eigum ekki, að hans dómi, að stofna íslenzkan her, að njóta herverndar Bandaríkjanna. Þetta túlkaði hv. þm. allrækilega í greinaflokki, sem hann ritaði um utanríkismál í Alþýðublaðið s. l. sumar. Ég las þann greinaflokk frá upphafi til enda og fannst stundum næsta átakanlegt við þann lestur, hvernig greinarhöfundur var að leita, jafnvel á ólíklegustu stöðum, að rökstuðningi fyrir þeirri stefnu eða réttara sagt áttavillu, sem einkennt hefur afstöðu hans síðan 1951. Og þá var þetta atriði, sem ég nú nefndi, ein helzta röksemdin. Svo heyrði ég í útvarpsumræðum í vetur, að helztu verjendur hersetunnar eru farnir að hampa mjög þessari röksemd, þ. á m: hæstv. dómsmrh., hæstv. fjmrh. og — ef ég man rétt — einnig hv. þm. Str., formaður Framsfl.

En hversu haldgóð er nú þessi röksemd? Þegar hún er athuguð nánar, held ég að komi í ljós, að hún er næsta haldlítil. Ástæðan er sú, að Ísland hefur algera sérstöðu, hvort sem litið er á landfræðileg eða söguleg rök:

1) Ísland er ekki hluti af meginlandi Evrópu eins og þau smáríki, sem hv. 1. landsk. og skoðanabræður hans eru sífellt að nefna. Það hefur aldrei eins og þau orðið fyrir árásum af neinu meginlandsveldi Evrópu.

2) Ekkert ríki Evrópu hefur eins og Ísland lýst yfir ævarandi hlutleysi og vopnleysi. Önnur Evrópulönd hafa haft vígbúnað frá aldaöðli, svo að segja. Í þessu efni er því mjög ólíku saman að jafna, þar sem þessi ríki eru annars vegar og Ísland hins vegar. Í þessu sambandi vil ég spyrja hv. 1. landsk.: Telur hann líklegt, að norskir jafnaðarmenn mundu þola það að hafa t. d. 200 þús. manna amerískt herlið rétt fyrir utan Oslóborg, ef Norðmenn hefðu engan her sjálfir og hefðu ekki haft her öldum saman? Nei, þeir mundu áreiðanlega ekki þola það. Þó að Norðmenn hervæðist, af því að þeir eru meginlandsþjóð, hafa þeir harðneitað Bandaríkjunum um herstöðvar í Noregi, jafnvel um dvöl nokkur hundruð flugmanna þar í landi.

3) Ísland tilheyrir landfræðilega ekki siður vestur- en austurhelmingi jarðar. Það hefur aldrei, eins og ég áðan sagði, orðið fyrir árás neins ríkis á meginlandi Evrópu. Hins vegar hefur það á síðustu tímum mátt sæta stöðugri ásælni úr vesturátt. Það er sú hætta, sem við verðum að horfast í augu við nú í dag, og þess vegna tel ég fávíslegt að láta grillur um hugsanlega hættu úr öðrum áttum villa okkur svo sýn, að við gefum upp allt viðnám fyrir þeim háska, sem þegar ógnar okkur við eigin bæjardyr.

Hv. 1. landsk. hefur haldið því fram í ræðum, að hlutleysisstefna okkar þjóðvarnarmanna tákni óvild eða jafnvel fjandskap í garð vestrænna lýðræðisþjóða. Þetta er ekki rétt. Hlutleysisstefnan táknar aðeins það, að við viljum reyna að forða landi okkar frá þeim voða að verða yfirlýstur styrjaldaraðili. Þetta hefur hv. þm. skilið áður, þó að hann virðist tæplega skilja það nú. Honum fórust svo orð í febrúarmánuði 1949, með leyfi hæstv. forseta:

„Hlutleysi táknar heldur ekki nú í dag, að menn geti ekki eða vilji ekki gera upp á milli málstaða höfuðdeiluaðilanna í vestri og austri, heldur að menn vilji ekki taka þátt í styrjöld milli þeirra. Sem stefna í utanríkismálum er hlutleysi þjóðréttarhugtak, en ekki siðgæðis- eða stjórnmálaafstaða.“

Undir þessi orð get ég tekið og vil gera þau að mínum. Í þessu sambandi vil ég lýsa því yfir, til að taka af öll tvímæli, ef einhver þættist vera í vafa þar um, að við þjóðvarnarmenn erum algerir og einlægir lýðræðissinnar, tökum ákveðna afstöðu gegn einræði, í hvaða mynd sem það birtist.

Hv. 1. landsk. talaði mikið um vestrænar lýðræðisþjóðir og skyldur okkar gagnvart þeim og málstað þeirra. Hann var að panta svör við því, hvort við þjóðvarnarmenn teldum ekki, að við Íslendingar ættum að hafa samstöðu með vestrænum lýðræðisþjóðum. Áður en ég svara þessu beinlínis, vil ég vekja athygli hv. þm. á því, að vissulega væri fræðilegra af háskólaprófessor, sem er vanur að skilgreina hugtök, að athuga, að það virðist nú orðið úrelt að tala um lýðræðisríki annars vegar og einræðisríki hins vegar. Nákvæmara væri að spyrja, hvort við ættum að hafa samstöðu með vestrænum lýðræðisríkjum og þeim einræðisríkjum, sem þeim þóknast á hverjum tíma að hafa bandalag við. Er Spánn lýðræðisríki? Hafa ekki Bandaríkin tekið upp hernaðar- og efnahagssamvinnu við Spán? Og hvað gæti á næstu missirum gerzt í Vestur-Þýzkalandi, sem nú virðist stefna óðfluga að hervæðingu með aðstoð Bandaríkjanna undir forustu Adenauers kanslara? Sér ekki hv. þm., hver þróunin getur orðið þar á næstu missirum? Er ekki unnið kappsamlega að því að gera Vestur-Þýzkaland að herveldi á nýjan leik, jafnvel undir svipuðum kjörorðum og tíðkuðust á blómadögum Hitlers ?

Fyrir ekki mjög löngu birtist í Alþýðublaðinu fróðleg grein um ástand og horfur í Vestur-Þýzkalandi. Þar var bent á þá ömurlegu staðreynd, sem frjálslynd blöð víðs vegar um heim hafa rætt mjög síðustu mánuði, að Vestur-Þýzkaland virðist stefna óðfluga í átt til einræðis, jafnvel nazisma. Og hvað getur skeð í Bandaríkjunum sjálfum, kannske á næstu missirum eða allra næstu árum? Hv. 1. landsk. veit engu síður en ég, að í því mikla landi heyja stöðugan hildarleik lýðræðissinnuð öfl annars vegar og misjafnlega illa grímubúnar einræðisstefnur hins vegar. Er hv. 1. landsk. fær um að ábyrgjast það, að menn á borð við McCarthy hrifsi ekki í sínar hendur stjórnartaumana hjá þessari voldugu þjóð? Það væri ömurleg tilhugsun fyrir Íslendinga að vera í nánu bandalagi við ríkjahóp, þar sem McCarthy gæfi tóninn, en nánustu bandamenn hans væru Spánn Francos og einhverjir nýnazistar í hervæddu Þýzkalandi. Það gæti farið svo, ef þróunin yrði þessi, að fleiri en Austur-Evrópuþjóðir teldu sér ógnað af slíkum endurfæddum möndulveldum. Ætli það mundi ekki fara um Frakkland og jafnvel England, ef svo væri komið?

Það þýðir ekki að segja, að þetta sé fjarstæða. Mörg ískyggileg teikn benda til þess, að slík geti þróunin orðið og það jafnvel á skömmum tíma. En færi eitthvað á þessa leið, hverjum þætti þá girnilegt hlutskipti Íslendinga, ef þeir hefðu bundið sig fasta á hernaðarklafa Bandaríkjanna og einræðisríkja þeirra, sem þeim fylgdu að málum, þegar svo væri komið? Ég veit, að hv. 1. landsk. þætti það ekki fýsilegt.

Ég vil þá víkja lítillega að öðru atriði, þróuninni í Englandi. Það getur að sjálfsögðu engum dulizt, að þegar hefur orðið breyting á utanríkispólitík Breta frá því, sem verið hefur undanfarin ár. Þeir eru byrjaðir að móta utanríkisstefnu, sem ekki er eins háð stefnu Bandaríkjanna og áður. Fyrr en varir getur runnið upp sú stund, að þar verði gagnger stefnuhvörf. Margt bendir til þess. Og það vonum við 1. landsk. vafalítið báðir, að við næstu þingkosningar þar í landi vinni Verkamannaflokkurinn sigur og taki þar við stjórnartaumum að nýju.

Nú er vitað, að utanríkismálastefnu Bevans, hins mikilhæfa forustumanns vinstri armsins, vex stöðugt fylgi innan flokksins, og það mun því verða hún, sem setur verulegan svip á stjórnarstefnuna. En hver er stefna Bevans í alþjóðamálum? Hún kom allgreinilega fram á flokksþingi Verkamannaflokksins s. l. haust. Þar báru vinstri menn flokksins fram till. að stjórnmálaályktun og komust m. a. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Flokkurinn harmar það, að verulegum hluta af iðnaði landsins hefur verið breytt úr iðnaði í þágu friðvænlegrar uppbyggingar í hergagnaiðnað. Lítur flokkurinn svo á, að sú þróun sé óheillavænleg, hafi gert Breta um of háða Bandaríkjunum og aukið óeðlilega hlutdeild þeirra í hinu kalda stríði. Ber því nauðsyn til, að dregið sé hið bráðasta úr vígbúnaði Breta, þar eð hann ógnar nú öllu hagkerfi landsins.“

Þessi ályktun átti miklu fylgi að fagna á flokksþinginu, þó að orðalagi hinnar endanlegu ályktunar væri að vísu breytt nokkuð í óákveðnari átt til að ná fullu samkomulagi. Allt um það ríkti sá andi á flokksþinginu, að því er aðalmálgagn Verkamannaflokksins, Dally Herald, skýrir frá, að — eins og þar stendur — flokkurinn sé reiðubúinn til að snúa baki við þeirri pólitík, sem hefur verið þröngvað upp á England og Vestur-Evrópu með hinu kalda stríði.

Margt fleira gæti ég tilfært, sem bendir ótvírætt í þá átt, að England muni á næstu missirum taka upp sjálfstæðari og óháðari stefnu gagnvart pólitík Bandaríkjanna en það hefur gert fram að þessu. Vill hv. 1. landsk. raunverulega binda okkur enn um óákveðna framtíð herbúnaðarklafa Bandaríkjanna, hver sem þróunin verður í heimsmálunum? Ég hef ástæðu til að draga þá ályktun af orðum hans ýmsum, að hann vilji það ekki. En hví þá ekki að stíga skrefið hiklaust, eins og við þjóðvarnarmenn leggjum til, æskja endurskoðunar hervarnarsamningsins og síðan uppsagnar, þegar er lög leyfa?

Bollaleggingar hv. 1. landsk. um það, að ég hafi í ræðu minni um utanríkismál, þeirri er ég flutti, er till. þessi var hér fyrst til umr., hvikað frá yfirlýstri hlutleysisstefnu flokks míns, eru á fullkomnum misskilningi byggðar. Ég held því hins vegar fram, nú eins og þá, og tel það ekki á neinn hátt í ósamræmi við hlutleysisstefnuna, að eftir að út í blóðuga styrjöld er komið getur reynzt nauðsynlegt vegna aðsteðjandi hættu að gera ráðstafanir, sem ekki hefði komið til mála að gera undir neinum öðrum kringumstæðum. Til er það, sem kallað er neyðarvörn eða neyðarréttur. Slíkan rétt hafa þjóðir ekki síður en einstaklingar, þegar lífi þeirra og tilveru er ógnað. Ég lít svo á, að þó að til þess kynni að koma, eftir að styrjöld væri skollin á, að við Íslendingar yrðum að nota slíkan neyðarrétt til sérstakra ráðstafana, þyrfti það ekki að tákna það, að við féllum frá hlutleysisstefnu, ef okkur hefði auðnazt að taka hana upp aftur. Við töldum okkur til neydda, Íslendingar, eða forráðamenn okkar, að þiggja hervernd Bandaríkjanna 1941, og var þó ekki litið svo á almennt, að við hefðum með því skrefi varpað hlutleysisstefnunni á bug. Við gerðum það raunverulega ekki fyrr en árið 1949 með inngöngunni í Norður-Atlantshafsbandalagið. Minna má líka á það, að ekki hafa Svíar horfið frá hlutleysisstefnu, og töldu þeir sig þó til neydda í síðustu styrjöld að veita öðrum styrjaldaraðilanum sérstök og næsta mikilvæg réttindi.

Ég vil þá víkja stuttlega að þeim atburðum, sem síðastir hafa gerzt í sambandi við dvöl Bandaríkjahers á Íslandi. Hér eru nú hafnar viðræður um breytingar á hernámssamningnum, viðræður milli fjölmennrar bandarískrar sendinefndar og íslenzkrar nefndar, sem ríkisstj. hefur tilnefnt. Ég tek eindregið undir þá gagnrýni, sem fram hefur komið á þann málatilbúnað, sem íslenzk stjórnarvöld hafa haft uppi í sambandi við undirbúning þessara viðræðna. Til samningagerðarinnar er stofnað með þeirri vítaverðu leynd, sem einkennt hefur meðferð íslenzkra stjórnarvalda á utanríkismálum undanfarin ár. Ekki hefur verið fyrir því haft að kynna utanrmn. og þaðan af síður Alþ., að hverju er stefnt með þessari samningagerð. Það er að vísu upplýst, að einn fundur hafi verið haldinn í hinum þrengra hring innan utanrmn., og þó ekki fyrr en einn nm. hafði krafizt fundar bréflega. Að öðru leyti hefur Alþ. og utanrmn. verið algerlega sniðgengin, eins og þeim aðilum komi þessi mál ekki við.

Fyrir Alþ. liggja nú tvær þáltill. og eitt frv., sem fjalla um herstöðvamálið. Afgreiðsla þeirra mála hefur dregizt svo á langinn, að ekki hefur fengizt úr því skorið, hver er vilji meiri hluta Alþ. að því er varðar hernámssamninginn, t. d. hve langt Alþ. vill ganga um breytingar á honum. Hefði ríkisstj. haft fullan vilja á því að kippa í lag, þótt ekki væri nema verstu agnúunum á hernámssamningnum, var henni að sjálfsögðu að því mikill styrkur við samningagerðina að geta vitnað til vilja Alþ. í þeim efnum. Hefur hv. 2. þm. Reykv. sýnt fram á þetta í ræðu hér á Alþ., og get ég alveg tekið undir röksemdir hans um það atriði.

Þó að við þjóðvarnarmenn séum þeirrar skoðunar, að eina lausnin á vandamálum hersetunnar sé sú, að hernámssamningnum sé sagt upp og herinn hverfi úr landi, þá erum við fúsir til að styðja hverja þá viðleitni, sem að því miðar að draga úr því óláni, sem af hersetunni stafar, meðan enn er ekki þingfylgi fyrir því að stíga hið stærra skrefið. Við teljum, eins og ég hef áður lýst yfir, að þáltill. sú, sem hér liggur fyrir á þskj. 20, sé til bóta í nokkrum mikilvægum atriðum, og munum því veita henni stuðning. Jafnframt vil ég enn einu sinni leggja áherzlu á það, að stefna okkar þjóðvarnarmanna í utanríkismálum er sú, að Íslendingar geti losnað úr allri hernaðarsamvinnu og þar með sloppið við þá geigvænlegu hættu, sem því er samfara að hafa á friðartímum skipað sér í ákveðna hernaðarfylkingu. Þetta er kjarni þeirrar hlutleysisstefnu, sem okkur ber að mínum dómi að fylgja.