17.02.1954
Sameinað þing: 33. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í D-deild Alþingistíðinda. (3083)

20. mál, endurskoðun varnarsamnings

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þar sem þetta mál er búið að vera mjög lengi á dagskrá hér í hv. Sþ. og miklar umr. hafa þegar farið fram um það, hefði ég talið æskilegt, að þessari umr. hefði getað lokið á sem stytztum tíma, enda hef ég þegar talað í þau þrjú skipti, sem frsm. er leyft að taka til máls samkv. þingsköpum. Hins vegar hefur hv. 8. þm. Reykv. nú flutt ýtarlega og efnismikla ræðu„ sem í sjálfu sér hefði verið ástæða til að taka til allrækilegrar meðferðar. Það er þó ekki hægt að þessu sinni, eins og hæstv. forseti hefur þegar tekið fram, og mun ég því verða að láta mér nægja örstuttar athugasemdir við ræðu hans. Vænti ég, að að því búnu verði málinu loksins vísað til nefndar.

Ég vildi í þessum athugasemdum mínum fyrst og fremst taka fram eftirfarandi: Hvað er það í raun og veru, sem okkur Alþýðuflokksmönnum samkv. þeirri till., sem þegar liggur fyrir af okkar hálfu varðandi herverndarsamninginn, ber á milli við hv. Þjóðvfl.? Það er kunnara en frá þurfi að segja, að í innanlandsmálum hefur ekki borið mikið á ágreiningi milli okkar, eins og þau mál hafa verið túlkuð af hálfu Þjóðvarnarflokksmanna, þó að þeir hafi að vísu ekki rætt þau mikið. En hvað er það, sem fyrst og fremst ber á milli í utanríkismálunum? Af því vildi ég leyfa mér að draga upp örlitla mynd.

Ég ætla fyrst að nefna það, sem mér virðist við vera sammála um, ef dæma ber eftir þeim þskj., sem liggja fyrir frá báðum flokkunum. Það er í fyrsta lagi, að Íslendingar taki að sér þær framkvæmdir, sem óunnar eru enn á grundvelli herverndarsamningsins frá 1951, og að erlendir verktakar og erlendir starfsmenn hverfi þegar í stað úr landi. Í öðru lagi, að rétt sé og sjálfsagt að afmarka hernaðarsvæðin á samningssvæðunum og greina þau skýrt frá þeim hluta Keflavíkurflugvallar, sem notaður er til annarra þarfa en hernaðarþarfa. Í þriðja lagi að binda dvalarrétt hermannanna, meðan þeir eru hér, við samningssvæðin. Og í fjórða lagi að undirbúa það, að Íslendingar taki að sér rekstur, viðhald og gæzlu þeirra mannvirkja, sem hér þurfa að vera. Ekkert hefur komið fram af hálfu hv. þjóðvarnarmanna, sem gefi til kynna, að þeir séu þessum atriðum ósammála, en um þau öll er fjallað í þáltill. okkar Alþýðuflokksmanna. En þetta er í raun og veru kjarni allra þeirra dægurmála, sem herverndarsamninginn snerta. Þetta er kjarni málanna, sem nú eru efst á baugi, og þar virðist mér um engan ágreining vera að ræða á milli þeirra og okkar.

Ágreiningurinn kemur hins vegar fram í eftirfarandi atriðum: Þjóðvarnarmenn vilja segja herverndarsamningnum upp nú þegar án þess að gera jafnframt nokkrar ráðstafanir til þess að tryggja rekstur og gæzlu þeirra mannvirkja, sem hér hefur verið komið upp og kostað hafa hundruð milljóna króna og þau ríki, sem við erum samningsbundin í bandalagi við, telja bráðnauðsynlegt, jafnvel lífsnauðsynlegt, að hér séu og ekki gæzlulaus. Við viljum hins vegar láta undirbúa það hæfilega, að þessi mannvirki og þá fyrst og fremst radarstöðvarnar þurfi ekki að vera gæzlulausar, þótt bandaríski herinn fari, við viljum, að Íslendingar sjálfir verði sem fyrst færir um að taka gæzlu þeirra í sínar hendur. Í öðru lagi: Þjóðvarnarmenn vilja lýsa yfir algeru, eilífu hlutleysi Íslands í styrjaldarátökum milli þjóða. Við teljum slíkt ekki ráðlegt, eins og málum er nú skipað í heiminum, vegna þess að í Vestur-Evrópu eða Ameríku er ekkert ríki, sem hefur lýst yfir ævarandi hlutleysi og til greina kæmi fyrir Ísland að mynda nokkurt hlutleysisbandalag við. Þess vegna þýddi hlutleysisyfirlýsing nú algera einangrun Íslendinga í heimsmálum, í utanríkispólitík, hún þýddi það, að ef styrjöld brytist út, yrðum við að sætta okkur við hlutskipti hernuminnar þjóðar, því að mjög fáir munu svo óraunsæir á alþjóðamál, að þeir geri sér ekki grein fyrir því, að þegar í upphafi styrjaldar mundu lýðræðisríkin austan og vestan við Ísland, þ. e. a. s. fyrst og fremst Bretland og Bandaríkin, æskja hér eftir sams konar aðstöðu og þau höfðu í síðustu styrjöld. Hlutleysisyfirlýsing nú mundi auðvitað þýða, að Íslendingar ættu að neita um slíka aðstöðu. Allir þeir, sem líta raunsæjum augum á utanríkismál og hafa í huga reynslu liðinna áratuga á þessu sviði, vita líka, að sú hlutleysisyfirlýsing yrði ekki virt. Sú aðstaða sem Ísland getur veitt, mundi verða notuð til varnar siglingaleiðum og loftleiðum um norðanvert Atlantshaf, og þess vegna mundi hlutleysisyfirlýsing nú þýða það, að við værum að kalla yfir okkur hernám af hálfu þessara þjóða í styrjöld, sem ef til vill kynni að skella á. Ein ástæðan enn, og í raun og veru sú þýðingarmesta, fyrir því, að óráðlegt væri að lýsa yfir algeru hlutleysi nú eftir reynslu síðustu styrjaldar, er sú, að við værum sjálfir alls ófærir um að vernda hlutleysi okkar í styrjöld, sem brjótast kynni út. Vegna þess að við lýsum jafnframt yfir algeru vopnleysi og eigum fyrst og fremst að halda fast við það samkvæmt minni skoðun, gætum við ekki átt neinn þátt í því að halda opnum siglingaleiðum um norðanvert Atlantshaf, en það, að þeim siglingaleiðum sé haldið opnum, er okkur sjálfum lífsnauðsyn. Í þeim efnum yrðum við í styrjöld, sem brjótast kynni út, að eiga allt undir öðrum og þá fyrst og fremst undir lýðræðisríkjunum báðum megin við Ísland. En það er grundvallarsjálfsmótsögn í utanríkispólitík lands að lýsa yfir algeru hlutleysi og neita allri samvinnu við nálæg ríki, en ætla sér samt sem áður að eiga allt undir þeim um það að vernda brýna lífshagsmuni sína. Ég tel óráðlegt, að Íslendingar, eins og nú háttar, lýsi yfir algeru hlutleysi samhliða algeru vopnleysi sínu, vegna þess að þeir eiga engan kost á að ganga í nokkurt bandalag, sem mundi geta tryggt þeim, að þeir gætu verndað þetta hlutleysi sitt og gætt jafnframt þeirra brýnu lífshagsmuna sinna, sem eru í því fólgnir, að siglingaleiðum umhverfis landið sé haldið opnum.

Niðurstaðan er því sú, að mér virðist, að um helztu dagsins mál á sviði utanríkismála sé ekki verulegur ágreiningur milli okkar og Þjóðvfl., heldur sé ágreiningurinn fyrst og fremst um það mál, hvort tiltækilegt sé nú þegar að segja samningnum upp án nokkurra annarra ráðstafana jafnhliða og hvort hverfa eigi aftur að algeru hlutleysi. Satt að segja skil ég ekki, að sú afstaða hv. Þjóðvfl. geti staðizt rækilega umhugsun og raunhæfa gagnrýni, að það sé stætt á því fyrir Íslendinga að segja herverndarsamningnum upp án þess að gera nokkrar, bókstaflega nokkrar ráðstafanir, er komi í staðinn. Það er meira ábyrgðarleysi en vit væri í fyrir Íslendinga að gera að stefnu sinni. Vil ég þó engan veginn draga úr þeim ummælum mínum, sem ég hef áður viðhaft og lagt alveg sérstaka áherzlu á, að Íslendingar eigi að láta þann her, sem nú dvelur hér í landinu samkv. samningi, hverfa á brott hið allra fyrsta og þegar í stað og Íslendingar hafa lokið þeim undirbúningi, sem þeir sjálfir telja nauðsynlegan til þess að unnt sé að gera þá ráðstöfun, og auðvitað jafnframt líka með því fororði, að Íslendingar sjálfir telji með því öryggi sínu ekki stefnt í hættu. Og hlutleysi er nú svo óraunhæf leið í utanríkismálum, að menn hljóta að átta sig á, að til annarra ráða verði að grípa.

Þessa stuttu grg. um það, hvað ég telji flokkum okkar bera á milli tel ég í raun og veru vera alveg fullnægjandi svar við efnishlið þess máls, sem hv. 8. þm. Reykv. gerði hér að umræðuefni.

Að síðustu vildi ég svo svara með örfáum orðum því, sem hv. þm. beindi til mín alveg sérstaklega. Hann sagði, að ég mundi hafa breytt um stefnu í afstöðu minni til utanríkismála í grundvallaratriðum árið 1951. Þetta er misskilningur. Grundvallarskoðanir mínar á höfuðviðfangsefnum utanríkismála í heiminum og að því er Ísland varðar eru enn alveg þær sömu og þær hafa verið allt frá því að ég myndaði mér um þær fastmótaðar skoðanir. Það, sem breytzt hefur, er ástandið í heiminum og aðstaða Íslands. Hún er gerbreytt frá því, sem var á árunum 1946–49. Hún er orðin allt önnur nú en hún var þá. Það vita allir. Á árunum 1946–48 sérstaklega var mjög um það rætt í Vestur-Evrópu að koma upp bandalagi Vestur-Evrópuríkjanna, sem skyldi verða eins konar þriðja valdið í heiminum og vega salt milli stórveldanna tveggja, sem einkum áttust og talið var að mundu eigast við, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, og vera hlutlaust í átökum þeirra á milli, að vísu ekki vopnlaust, en hlutlaust í átökum þeirra á milli. Ég hafði mjög mikla samúð með þessum skoðunum, dró enga dul á það, lét þess getið hvað eftir annað í ræðu og riti, og á grundvelli þessara skoðana minna mótaðist afstaða mín til Keflavíkursamningsins og Atlantshafssamningsins. Fram á árið 1949, eða þegar menn tóku endanlega afstöðu til þess máls, var enn engan veginn útséð um það, að sú stefna yrði ofan á, að heimurinn skiptist fyrst og fremst í þrjár fylkingar, en ekki tvær. Ég er enn þeirrar skoðunar, að það væri æskilegt, að þróun málanna gæti orðið á þann veg. En mér kemur ekki til hugar, að það væri rétt eða skynsamlegt fyrir Íslendinga að miða utanríkisstefnu sína við það, að ástand í heimsmálum væri allt annað en það er í raun og veru nú í dag. Ef ástand heimsmála breyttist skyndilega gersamlega, sem ég vil engan veginn fortaka að það kunni að gera á næstu árum, ef t. d. Þýzkaland fengi fullt sjálfstæði og lýsti yfir hlutleysi, að vísu ekki vopnlausu hlutleysi, sem engum í Þýzkalandi kemur til hugar, og önnur ríki í Vestur-Evrópu og Norður-Evrópu tækju sömu afstöðu, þá yrði það raunhæfur möguleiki í utanríkispólitík Íslendinga að tengjast þessum ríkjum, og þá gæti Ísland jafnframt lýst yfir hlutleysi og haldið fast við vopnleysi sitt, vegna þess að það væri þá í bandalagi við ríki, sem væru reiðubúin til þess að verja hlutleysi alls ríkjabandalagsins. En meðan slík aðstaða er ekki fyrir hendi, er hlutleysi auðvitað ekki raunhæfur möguleiki í íslenzkri utanríkispólitík, vegna þess að við viljum jafnframt halda fast við algert vopnleysi. Ef við værum reiðubúnir til þess að taka upp vopnaburð og verja hlutleysi okkar, svo sem Svíar og Svisslendingar hafa gert, þá væri þó veik von til þess. Þá mætti segja, að ekki væri fullkomlega út í bláinn fyrir Íslendinga að ræða þann möguleika að taka upp hlutleysisstefnu. En þá er brotið gegn því, sem ég tel að eigi að vera fyrsta boðorðið í íslenzkri utanríkispólitík, að taka ekki upp vopnaburð. Og meðan við viljum það ekki, er hlutleysi óframkvæmanlegt, þegar ekki er völ á tengslum við nokkurt hlutleysisbandalag, sem væri reiðubúið til þess að verja hið sameiginlega hlutleysi.

Hv. 8. þm. Reykv. spurði, hvort ég teldi, að Verkamannaflokksmenn í Noregi mundu vilja veita 200 þús. manna amerísku herliði víst rétt við Oslóborg. Ég er fullviss, að þeir mundu ekki vilja það, enda hafa þeir þegar hafnað slíkum kröfum. En þeir hafa gert annað í staðinn, ég vil ekki segja jafnþungbært eða þungbærara, því að slíkar byrðar á ekki að meta eða vega til jafns hvora við aðra. Það, sem þeir hafa gert, er að leggja á sig óheyrilegar fjárhagsbyrðar til þess að vera reiðubúnir til þess að verja land sitt eða taka þátt í hinum sameiginlegu vörnum Norður-Atlantshafssvæðisins, og þeir eru jafnframt reiðubúnir til þess að leggja 16 mánaða herskyldu á alla unga menn í landi sínu til að taka þátt í þessum sameiginlegu vörnum. Ég gæti þá eins spurt hv. 8. þm. Reykv.: Væri hann reiðubúinn til þess að mæla með því, að Íslendingar lögleiddu hjá sér sams konar byrðar og Norðmenn hafa lagt á sig, m. a. vegna þess, að þeir hafa viljað neita þeim tilmælum, sem þeim hafa borizt um vist erlends hers í landinu? Væri hann reiðubúinn til þess að mælast til þess við Íslendinga, að þeir lögleiddu hjá sér 16 mánaða herskyldu eins og norski Verkamannaflokkurinn, sem hann virðist vilja taka sér til fyrirmyndar, hefur viljað gera í sínu landi?

Hv. 8. þm. Reykv. vitnaði í stefnu Bevans í Bretlandi, sagði að vísu ekki beint, að hann aðhylltist sams konar stefnu og þeir þjóðvarnarmenn hér, en orð hans hefði ef til vill mátt skilja þannig. Það vildi ég leiðrétta. Það er mesti misskilningur. Bevan var og er ákveðinn stuðningsmaður Atlantshafsbandalagsins og auðvitað brezks vígbúnaðar, jafnvel þó að hann hafi talið, að of miklar byrðar hafi verið lagðar á brezkt atvinnulíf og brezkan almenning vegna vígbúnaðarins. Bevan hefur aldrei haldið því fram, að Bretland, eitt út af fyrir sig, ætti að taka upp hlutleysisstefnu, hvað þá heldur, að það ætti að aðhyllast stefnu algers vopnleysis. En hitt er annað mál, að Bevan var eins og margir fleiri á þeirri skoðun á árunum 1946–48 og er það enn, að æskilegra væri, að ýmis ríki í Vestur-Evrópu mynduðu bandalag, mynduðu þriðja aflið, sem vegið gæti salt á milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna. Það er hans skoðun, en ekki sú, að æskilegt eða rétt væri fyrir, ekki einu sinni Bretland, hvað þá nokkurt annað einstakt ríki í Vestur-Evrópu, að taka upp stefnu einangraðs hlutleysis, að ég nú ekki tali um, ef það væri samhliða algeru vopnleysi.

Ég þakka svo hæstv. forseta fyrir þolinmæði hans við mig og óska nú að síðustu eftir því, að málinu verði að þessari umræðu lokinni vísað til hv. utanrmn.