19.11.1953
Sameinað þing: 18. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í D-deild Alþingistíðinda. (3090)

21. mál, uppsögn varnarsamnings

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Fyrsta málið, sem við þm. Þjóðvfl. Íslands lögðum fyrir Alþ., var till. sú til þál., sem hér er til umr. í kvöld. Sú till. fjallar um uppsögn varnarsamnings þess, sem gerður var milli Íslands og Bandaríkja Norður-Ameríku og undirritaður 5. maí 1951. Jafnframt er í till. okkar lagt til, að gerðar séu þegar í stað ráðstafanir til að koma eftir föngum í veg fyrir spillingu þá og böl, sem leiðir af dvöl hins erlenda hers, meðan hann enn er í landi.

Engum mun koma það á óvart, þótt við þjóðvarnarmenn flyttum þetta mál fyrst allra hér á Alþ. Því hefur mjög verið á loft haldið af andstæðingum okkar, að barátta gegn herstöðvum á Íslandi sé eina mál Þjóðvfl. Þetta er að vísu alrangt, eins og öllum þeim, sem vita vilja, má vera fullkunnugt. Þjóðvfl. Íslands hefur markað sér stefnu í öllum höfuðmálum þjóðarinnar, framsækna, róttæka og þjóðlega stefnu, sem byggist á þeirri grundvallarskoðun, að Íslendingar geti og verði að standa efnahagslega og menningarlega á eigin fótum. Sú stefnuyfirlýsing hefur verið birt í blaði flokksins, rædd þar og skýrð, en auk þess komið út sérprentuð. Þetta vil ég láta koma hér fram vegna margendurtekinna staðhæfinga andstæðinga okkar um hið gagnstæða. Hins er svo ekki að dyljast, að eins og nú er högum háttað, telur Þjóðvfl. Íslands enga nauðsyn brýnni en þá að fá bægt frá dyrum þjóðarinnar þeim voða, sem stafar af dvöl erlends hers í landinu og sívaxandi hervirkjagerð.

Við þjóðvarnarmenn fórum þess á leit þegar í þingbyrjun, að útvarpað yrði umr. um þáltill. okkar, þá er hér liggur fyrir. Nú hefði ef til vill mátt ætla, að stjórnarflokkunum hefði þótt þetta kærkomið tækifæri til að verja gerðir sínar í hernámsmálunum í áheyrn alþjóðar. Reyndin varð þó sú, að krafa okkar þjóðvarnarmanna um útvarpsumræður varð stjórnarflokkunum ekki meira fagnaðarefni en svo, að þeir vildu báðir humma þær fram af sér eða jafnvel losna við þær með öllu. Alþfl. og Sósfl. svöruðu málaleitun okkar játandi. Frá stjórnarflokkunum heyrðist hins vegar hvorki stuna né hósti vikum saman, þar til nú nýlega, eftir mikla eftirgangsmuni, er loks tókst að knýja fram svör. Flokkurinn, sem er svo smekklegur að kenna sig við sjálfstæðishugsjónina, svaraði hreinlega neitandi. Hann kærði sig ekkert um útvarpsumræður um þessi mál. Kannske er honum það ekki láandi, þvílík sem saga hans er orðin í sjálfstæðis- og þjóðernismálum. Framsfl. var með undanbrögð og vífilengjur, kinokaði sér við að neita hreinlega, en taldi opinberar umr. um þessi mál þó ekki tímabærar.

Að þessum svörum fengnum endurtókum við þjóðvarnarmenn kröfu okkar um útvarpsumr., og samkvæmt ótvíræðum fyrirmælum þingskapa urðu þær þá að fara fram, hvort sem stjórnarliðum líkaði betur eða verr.

Ég mun ekki eyða löngum tíma til að ræða forsögu herstöðvamálsins, enda er hún öllum landslýð kunn. Þó get ég ekki hjá því komizt að bregða upp nokkurri mynd af því, hvernig íslenzk skammsýni og undanlátsemi hefur orðið þess valdandi, að Bandaríki Norður-Ameríku hafa í nokkrum áföngum náð að verulegu leyti því takmarki, sem þau höfðu sett sér varðandi Ísland þegar í lok síðustu heimsstyrjaldar. Því er haldið fram sem höfuðröksemd af hálfu þeirra manna, sem gerðu herstöðvasamninginn og reyna að verja hann, að hann réttlætist af því, að ella mundi svo fara, að tiltekin einræðisþjóð úr austri legði Ísland undir sig og gerði það að bækistöð sinni. Allir vita, að hér er átt við Rússa, og sé ég ekki ástæðu til að hafa um það tæpitungumál. Þessi saga um yfirvofandi árás á Ísland af hálfu Rússa hefur verið sögð svo oft og af svo áhrifamiklum mönnum, að margir eru þeir Íslendingar, sem hafa fengizt til að trúa henni. Hins vegar bendir margt til þess, að áhrifamenn Bandaríkjanna hafa hvorki fyrr né síðar lagt mikinn trúnað á þá sögu, heldur séu þeir með herlið hér og hervirkjagerð í allt öðrum tilgangi en þeim að verja Ísland og íslenzku þjóðina fyrir hugsanlegri innrás. Skal ég nú rökstyðja þetta.

Árið 1944, lýðveldisárið, sællar minningar, þegar sýnt þótti, hvernig síðustu heimsstyrjöld mundi lykta, tóku þær raddir að gerast næsta háværar í Bandaríkjunum, sem heimtuðu örugga og varanlega aðstöðu á Íslandi, hvað sem styrjaldarlokum liði. Í ágústmánuði það ár, þegar íslenzka lýðveldið var tæpra tveggja mánaða, mælti Tom Conally, þáverandi formaður utanríkismálanefndar Bandaríkjaþings, eftirfarandi orð: „Á Atlantshafi þurfa Bandaríkin að ná samningum um leigu til langs tíma á öllum bækistöðvum og eyjum þar, en ef auðið reynist, ættu Bandaríkin að kosta kapps um að eignast þessar eyjar.“ Á öðrum stað í sömu ræðu sagði hann: „Það er okkur lífsnauðsyn að hafa bækistöðvar á Íslandi.“

Þetta ár og hið næsta bárust okkur þrásinnis þær raddir vestan um haf, að gera þyrfti eitt af þrennu, semja við okkur um leigu á hernaðanbækistöðvum um langa framtíð, bjóða okkur það kostaboð að verða 49. ríkið í Bandaríkjunum eða kaupa okkur hreinlega fyrir dollara, eins og Alaska hafði verið keypt á sínum tíma.

Eins og allir Íslendingar muna, fóru Bandaríkin fram á það við íslenzk stjórnarvöld síðla árs 1945 að fá leigðar herstöðvar á Íslandi til 99 ára, en samkvæmt fastri venju um orðalag milliríkjasamninga táknar það hið sama og um aldur og ævi. Þá voru Rússland og Bandaríkin, stórveldin tvö, sem nú heyja híð kalda stríð um áhrif og yfirráð í heiminum, enn í nánu bandalagi. Þessi miklu ríki höfðu þá um skeið snúið bökum saman, barizt gegn sameiginlegum óvini, nazismanum, og unnið dýrkeyptan, en dýrmætan sigur. Nýlokið var ægilegasta hildarleik, sem sögur fara af, og blóðið naumast storknað í valköstum vígvallanna. Heita mátti á þessum tíma fullkomin eining meðal sigurvegaranna, sem vörpuðu nú öndinni léttara eftir eldraun margra styrjaldarára. Þjóðir heims þráðu frið, þráðu það eitt að binda sár sín og reisa það úr rústum að nýju, sem jafnað hafði verið við jörðu í styrjöldinni. Þá voru engar viðsjár milli þjóða, enginn ótti við nýja styrjöld, ekkert kalt stríð. Ógnir mestu styrjaldar veraldarsögunnar voru hverju mannsbarni í fersku minni, og allir væntu þess, að langt friðartímabil færi í hönd. Var Bandaríkjunum á þessum tíma ógnað af nokkurri þjóð, svo að þau þyrftu þess vegna á hernaðarbækistöðvum í annarri heimsálfu að halda? Stóð Íslandi þá ógn af Rússum, svo að Bandaríkin þyrftu þess vegna að bregða við til að vernda okkur fyrir þeim? Er nokkur Íslendingur svo skyni skroppinn, að hann svari þessum spurningum öðruvísi en neitandi?

Málaleitun Bandaríkjamanna til íslenzkra stjórnarvalda um ævarandi herstöðvar á Íslandi, borin fram á þessum tíma, er opinber og augljós sönnun þess, hvað Bandaríkin ætluðust og ætlast fyrir, að því er Ísland varðar. Ætlun þeirra var og er sú að innlima Ísland í hervirkjakerfi sitt, alveg án tillits til þess, hvort friðvænlega eða ófriðvænlega horfir í heiminum. Þetta eru staðreyndir, sem íslenzka þjóðin verður að gera sér fulla grein fyrir og skoða allt, sem fram hefur farið síðan í skiptum Bandaríkjamanna og Íslendinga, í ljósi þeirra.

Þegar ráðamenn í Bandaríkjunum fengu ekki árið 1945 framgengt kröfunni um ævarandi herstöðvar, gáfust þeir ekki upp. Þeir skiptu einungis um aðferð. Í stað þess að ganga hiklaust til verks, þá sáu þeir, að hér yrði að fara krókaleiðir. Nauðsyn bæri til að komast aftan að íslenzku þjóðinni, án þess að hún skynjaði hættuna, fyrr en það væri um seinan. Nú sóttist Bandaríkjamönnum leiðin greiðar en áður. Á undraskömmum tíma tókst að svínbeygja marga þá forustumenn íslenzku þjóðarinnar, sem fyrr höfðu í háværum ræðum og löngum blaðagreinum lýst yfir því, að ekkert réttindaafsal Íslendinga kæmi til greina, herseta í landinu táknaði afnám sjálfstæðis þjóðarinnar og mundi, er til lengdar léti, ógna lífi hennar og tilveru. Sumir þessara manna voru vafalaust orðnir svo ánetjaðir amerískum dollar og amerískum áróðri, að þeir vildu óðfúsir ganga að öllum kröfum, sem þaðan komu, að svo miklu leyti sem þeir þorðu af ótta við íslenzku þjóðina. Eina skýringin á afstöðu annarra manna, sem ég efast ekki um að vilja vel, þótt þá hafi hent það slys að láta fleka sig til fylgis við vondan málstað, — eina skýringin á afstöðu slíkra manna er sú, að þeir hafi ekki gert sér grein fyrir því, hvar fiskur lá undir steini, ekki skynjað það, að Bandaríkin höfðu aðeins tekið upp nýja aðferð til að ná hér varanlegum ítökum og yfirráðum.

En hér bar einnig fleira til. Á styrjaldarárunum hafði íslenzka þjóðin fengið handa á milli meira fé en nokkru sinni áður. Mörgum þjóðfélagsþegnum — og forustumönnum þjóðárinnar ekki sízt — reyndist næsta ósýnt um fjárreiðurnar. Þeir höguðu sér eins og ráðdeildarlaus unglingur, sem skyndilega fær mikið fé milli handa. Gáleysisleg meðferð fjármuna einkenndi allt stjórnarfar. Þar var fæst í hófi, svo sem hentaði lítilli þjóð, en nóg um bruðl og fordild. Fjármunum þjóðarinnar var ausið á báða bóga, stundum til nytja, en einnig af fullkominni léttúð í óstjórn og sukk. Um stríðsgróðann svo kallaða og meðferð hans mátti segja eitthvað svipað og í vísunni stendur: „Sumt var gaman, sumt var þarft, sumt vér ei um tölum.“

Loks var svo komið, að ráðamenn íslenzkir sáu síðustu milljónir þessara miklu fjármuna renna gegnum greipar sér. Þeir horfðu nú fram á vaxandi fjárhagserfiðleika ríkis og þjóðar. Nú voru góð ráð dýr. Stjórnendur þjóðarinnar gátu ekki hugsað sér að breyta um stefnu. Þeir gátu ekki hugsað sér að segja landsmönnum satt og rétt um hag þeirra og ganga síðan á undan með góðu eftirdæmi um lækningu verðbólgu og skynsamlega meðferð fjármuna. Þeim var það óbærileg tilhugsun að breyta um stjórnarhætti að einu eða neinu leyti. Þeir treystu sér ekki til að láta af því óhófi og munaði, sem þeir höfðu vanizt á að veita sjálfum sér, gæðingum sínum og fjölmennu málaliði. Þar mátti úr engu draga. Skrifstofubákn hins opinbera varð að halda áfram að þenjast út og soga til sín æ meira fjármagn og vinnuafl frá framleiðslunni. Fjölmennar sendinefndir skyldu sendar út um allar jarðir, búnar ríkulegum farareyri úr sjóði borgaranna. Ekki þótti annað koma til mála en að eyða milljónum í tildur við utanríkisþjónustu, rétt eins og værum við vellauðug milljónaþjóð. Lúxusbílar ríkisstj. og gæðinga hennar urðu að renna sem áður um götur höfuðstaðarins á kostnað skattþegnanna. Í engu mátti breyta um lífsvenjur. Öllu skyldi hagað með sama hætti og værum við enn auðug þjóð, sem flest gæti veitt sér. En hvernig mátti þetta verða?

Forráðamenn þjóðarinnar eygðu nú nýja leið til að halda þessum hrunadansi áfram. Þeir komust að raun um, að Bandaríkin mundu láta okkur njóta þess fjárhagslega, ef óskum þeirra og tilmælum um bækistöðvar á Íslandi yrði fullnægt. Smámannleg var sú afstaða að vísu að láta von um efnaleg fríðindi ráða viðhorfi til mála, sem vörðuðu sjálfstæði þjóðarinnar og rétt hennar til að búa ein að landi sínu. En valdhafana skorti bæði hug og dug til að taka á vandamálum efnahagslífsins af manndómi og festu. Þá skorti þrek til að segja þjóðinni, að nú yrði hún að fórna í bili og taka á sig óþægindi um stund, meðan verið væri að kveða niður draug verðbólgunnar og koma íslenzku efnahagslífi á réttan kjöl. Í stað þess völdu þeir sér þann kostinn að taka sér betlistafinn í hönd og hefja við Bandaríkin verzlun, þar sem sum helgustu réttindi þjóðarinnar voru gerð föl og af hendi látin fyrir dollara. Hófst þá hið ógeðslega samband milli réttindaafsals og erlendrar íhlutunar annars vegar og fjárgróðavonar hins vegar, sem síðan hefur leitt yfir íslenzka þjóð vansæmd og margvíslega ógæfu. Allir landsmenn þekkja vörðurnar við þennan veg smánarinnar: Keflavíkursamning 1946, inngöngu í Atlantshafsbandalag 1949, herstöðvasamning 1951. Forustumenn hernámsflakkanna skortir að vísu hreinskilni til þess að játa hið beina samband milli amerískra herstöðva á Íslandi og fjárgjafa þeirra, sem Bandaríkin hafa lagt í bljúgar betlihendur íslenzkra stjórnarvalda. En hér hefur átt sér stað kaupskapur, sem mig skortir orð til að lýsa svo sem vert væri.

Málsvarar herstöðvanna segja, að hið ameríska herlið sé hér okkur Íslendingum til verndar. Hver er sannleikurinn í þessu? Hann er sá, að ef til styrjaldar kynni að draga, þá væri hag okkar verst komið, ef hér væru fyrir herstöðvar og hernaðarmannvirki, og því verri yrði okkar hlutur sem slík mannvirki væru meiri og dreifðari. Þá væri fyrir fram litið á okkur sem styrjaldaraðila, og við mundum vissulega fá að súpa af því seyðið. Hægt er að ráða af líkum, hvernig ófriður milli hinna mestu hervelda nútímans mundi háður, ef styrjaldarbrjálæði hæfist á ný. Ófriðarþjóðirnar mundu að sjálfsögðu leggja kapp á að vinna herstöðvum óvinanna eins mikið tjón og framast væri kostur. Það væri að vísu hugsanlegt, að það tækist að verja landið, en þjóðinni mundi enginn her neina vörn geta veitt. Hversu öflugt herlið og hversu stórfelldur vígbúnaður sem hér væri, mundi ekkert fá varnað því, að kjarnorkusprengjum og öðrum stórvirkum drápstækjum yrði varpað á hið verndaða land. Þessi hervernd, eða réttara sagt hervæðing, mundi því, ef til ófriðar drægi, ekki aðeins verða íslenzkri þjóð fánýt, heldur verri en engin. Þegar er verndarþjóðin svo kallaða lenti í styröld, mundi samband okkar við hana gera land okkar að ófriðarsvæði og þjóð okkar raunverulega að ófriðarþjóð. Það mundi leiða yfir hana svo stórkostlegt böl og tortímingu, að manni hrýs hugur við þá tilhugsun. Hið eina, sem íslenzkri þjóð gæti orðið vernd í, ef ný styrjöld brytist út, er vissulega það að vera sem fjærst herstöðvum og hernaðarátökum.

En ef svo skyldi nú fara, sem maður hefur leyfi til að vona, að þjóðir heims beri gæfu til að sleppa við ragnarök nýrrar heimsstyrjaldar, hvert mundi þá verða hlutskipti Íslands, ef hér yrði til frambúðar leyfð herseta stórrar og voldugrar þjóðar? Sakir fámennis höfum við Íslendingar algera sérstöðu meðal þjóða. Við verðum að muna það, að 10 þúsund manna herlið á Íslandi jafngildir 250 þúsundum í Noregi, 300 þúsundum í Danmörku og 10 milljónum í Bandaríkjunum sjálfum. Ætli þessum ríkjum þætti ekki vá fyrir dyrum, ef svo fjölmennt setulið annarrar þjóðar hefðist þar við árum og áratugum saman? Langæ herseta með svo fámennri þjóð sem Íslendingum teflir tilveru hennar í vísan voða. Við mundum kalla yfir okkur þau örlög, sem eru jafnvel verri en dauðinn sjálfur. Íslenzka þjóðin mundi smám saman farast í sínu eigin landi, glata máli sínu, menningu og þjóðerniserfðum, öllu því, sem Íslendingum var og ætti að vera dýrmætast.

Við Íslendingar höfum nú búið við erlendan her í landi okkar í hálft þriðja ár. Sá her hefur hreiðrað um sig með þeim hætti, að ekki er um það að villast, að Bandaríkjamenn hyggja hér til langdvalar. Það hefur komið í ljós, eins og vita mátti, að hersetan veldur íslenzku þjóðinni margvíslegri ógæfu, sem hlýtur að verða því meiri, því lengur sem þetta ástand helzt. Svo mun jafnan fara, þar sem erlent setulið hefur bækistöðvar að staðaldri. Ótalin eru þau ungmenni, stúlkur og piltar, sem beðið hafa siðferðislegt skipbrot vegna samskipta við herinn. Það vakti alþjóðarathygli í fyrra, er yfirvöld skýrðu svo frá, að 100 íslenzkar stúlkur, sem verið hefðu tíðir gestir á Keflavíkurflugvelli, fengju þar nú ekki lengur aðgang sakir drykkjuskapar, lauslætis og annarra vandræða, sem af þeim hlytust. Þess er skammt að minnast, að eitt af dagblöðum höfuðstaðarins, Alþýðublaðið, skýrði frá himinhrópandi dæmi, einu af mörgum, um uppeldisáhrif þau, sem íslenzk ungmenni verða fyrir á flugvellinum. Piltur um tvítugt, sem hafði farið þangað í atvinnu, hætti öllum störfum og lagðist í drykkjuskap, hafði þó nóg áfengi og jafnvel fé handa á milli. Komust vandamenn hans að því, að hann varð sér úti um áfengi með þeim hætti að útvega hermönnunum stúlkur. Vitað er, að Íslendingar, sem á vellinum hafa unnið, hafa fengið fjölda slíkra tilboða frá hermönnum.

Flokkarnir þrír, sem kölluðu yfir okkur ameríska herinn vorið 1951, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur, hafa allt fram að alþingiskosningunum í vor verið næsta samtaka um að halda uppi vörnum fyrir samninginn og framkvæmd hans, svo aumlega sem þó hefur verið á verðinum staðið af hálfu íslenzkra yfirvalda. Öll gagnrýni, jafnvel á hreinum framkvæmdaatriðum, var talin fjandskapur við íslenzka hagsmuni og þjónkun við Rússa. En nú hefur að nokkru skipazt veður í lofti. Allir þessir þrír flokkar eru á augljósu undanhaldi.

Alþfl., eða nokkur hluti hans, varð fyrstur til að leggja á flóttann. Kom það fram þegar í kosningabaráttunni í vor, þótt afstaða flokksins væri að vísu með því marki brennd, sem einkennt hefur þann flokk nú um skeið, að þora aldrei að taka hiklausa afstöðu. Er mönnum fráleitt úr minni liðið, að fyrir kosningar var aðalmálgagn Alþfl. einn daginn að burðast við að verða andvígt aukinni hervirkjagerð, jafnvel hersetu, annan daginn virtist það vera með hvoru tveggja og þriðja daginn bæði með og móti. Nú hafa tveir af forustumönnum Alþfl. mannað sig svo upp, að þeir hafa hér á Alþ. borið fram þáltill. um endurskoðun herverndarsamningsins. Fara þeir þar meðal annars fram á mikla styttingu á uppsagnarfresti samningsins, taka undir kröfu okkar þjóðvarnarmanna um lokun herstöðvanna og gagnrýna ýmislegt, sem hneykslanlegast er um framkvæmd samningsins.

Forustumenn Framsfl. hófu sitt undanhald allmiklu síðar. Þegar till. kom fram um það á flokksþingi Framsfl. s. 1. vor að víta núverandi dómsmrh., þáverandi utanrrh., fyrir slælega frammistöðu í sambandi við framkvæmd samningsins, reis upp fyrrv. forsrh., núverandi hæstv. landbrh., Steingrímur Steinþórsson, og lýsti yfir því, að hann mundi tafarlaust segja af sér, ef slík till. yrði samþykkt. Bætti hann því við, og það var auðvitað hárrétt, að ríkisstj. öll bæri sameiginlega ábyrgð á framkvæmd samningsins, framsóknarráðherrarnir ekki síður en hinir. Margir minnast þess og, að formaður Framsfl. tók að sér það ógæfusamlega hlutverk í útvarpsumræðunum fyrir síðustu kosningar að gerast höfuðmálsvari hersetunnar. En fyrir nokkrum dögum birti Framsfl. hins vegar till. um athugun herverndarsamningsins, tillögur, sem samþykktar höfðu verið af miðstjórn flokksins og lagðar fyrir ríkisstj. sem umræðugrundvöllur. Till. eru að vísu óljósar um margt og í ýmsum atriðum í algerri mótsögn við fyrri kenningar Framsfl. Sá flokkur hefur fram að þessu lagt áherzlu á, að svo kölluðum varnarframkvæmdum hér verði hraðað sem mest, en nú á hraði hernaðarframkvæmdanna að fara eftir því, hve mikil verður vinnuaflsþörf íslenzkra atvinnuvega. Skyldi ekki einhverjum detta í hug, að þessi till. sé ærin sönnun þess, að trúin á kenninguna um hættuna miklu, sem stafar af Rússum, sé minni en þessir menn hafa viljað vera láta? Kannske framsóknarforingjarnir séu nú fullvissir um það, að Rússar muni fresta öllum hernaðaraðgerðum, ef atvinna yrði næg á Íslandi næstu árin? Till. þessar bera það með sér, að þær eru samdar af skelkuðum mönnum, enda er mér ekki grunlaust um, að Framsfl. sé nú orðinn enn hræddari við þjóðvarnarmenn en Rússa. En að þessu slepptu, þá eru till. Framsfl. augljós sönnun þess, að sá flokkur er einnig á greinilegu undanhaldi. Framsfl. tekur nú undir þá till., sem fyrst kom fram í blaðinu Frjálsri þjóð, þegar er það blað hóf göngu sína, till., sem Þjóðvfl. hefur jafnan barizt fyrir: lokun herstöðvanna.

Svo er jafnvel komið, að ungir sjálfstæðismenn eru teknir að gera samþykktir um nauðsyn þess að endurskoða herstöðvasamninginn og fá einhverja agnúa hans lagfærða. Meira að segja sagði Morgunblaðið hérna um daginn, að Hamiltonfélagið ameríska á Keflavíkurflugvelli hagaði sér ekki eins og skyldi gagnvart íslenzku starfsfólki. Þóttu það ærin tíðindi úr þeirri átt, þótt alkunnugt sé að vísu, að þetta illræmda félag hefur bæði fyrr og síðar þverbrotið flestöll íslenzk lög, sem snert gátu starfsemi þess á einhvern hátt.

Undanhaldið er svo greinilegt sem verða má. Flótti er að bresta hjá hernámsflokkunum á öllum vígstöðvum. Hvað hefur gerzt, sem veldur þessum flótta? Er það hugarfarsbreyting hjá forustumönnum fyrrgreindra flokka? Enginn þarf að ætla að svo sé. Er það barátta Sósfl. gegn hernáminu? Engum dettur í hug, að hún hafi borið meiri árangur eftir en fyrir kosningar. Þeirra barátta er óvirk vegna þess, að hún er tengd hinum alþjóðlega kommúnisma. Það, sem skeð hefur, er það, að þjóðin gerir sér í sívaxandi mæli ljósa grein fyrir því, hver voði stafar af hersetunni. Þeim fjölgar stöðugt, sem sjá það, að á vandanum er aðeins ein lausn: uppsögn herstöðvasamningsins og brottför alls bandarísks herliðs af íslenzkri grund. — Þá hefur það einnig gerzt síðan í vor, að þjóðin hefur eignazt flokk, sem berst fyrir þessari stefnu, án nokkurra annarlegra sjónarmiða. Undanhald flokkanna þriggja stafar ekki hvað minnst af því, að þeir óttast sívaxandi fylgi Þjóðvfl. Íslands, sem tekizt hefur á mjög skömmum tíma að ná meiri fótfestu og fá meiri hljómgrunn hjá þjóðinni en flesta óraði fyrir. Andstæðingarnir vita vel, að þeir eru að stórtapa fylgi til Þjóðvfl. Þeir gera sér einnig ljóst, að fjöldi manna víðs vegar um land hefur mikla samúð með baráttu flokksins fyrir íslenzkum málstað, þótt þeir hafi enn ekki skipað sér í raðir hans. Þess vegna reyna forustumenn hinna flokkanna nú að stöðva flóttann með því að bera fram sýndartillögur sínar. En þjóðin mun tæplega treysta loforðum þeirra öllu lengur. Til þess þekkir hún fortíð þeirra allt of vel. Þeir hafa lofað áður og brugðizt loforðum sínum. Hvers virði eru loforð slíkra manna, gefin fyrir hræðslu sakir við þverrandi fylgi? Þau eru einskis virði.

Stefna Þjóðvfl. Íslands í herstöðvamálinu er hiklaus. Hún er mörkuð í þáltill. þeirri, sem hér er til umr. Stefnan er þessi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni:

1) að æskja nú þegar endurskoðunar á varnarsamningi milli Íslands og Bandaríkjanna frá 5. maí 1951, svo og að leggja fyrir Alþ. frv. til uppsagnar samningsins, þegar er endurskoðunarfrestur sá, sem í samningnum er ákveðinn, heimilar uppsögn hans;

2) að krefjast þess, að Bandaríkin fækki nú þegar stórlega herliði sínu hér á landi;

3) að neita Bandaríkjaher um leyfi til byggingar allra frekari herstöðva eða hernaðarmannvirkja á Íslandi;

4) að loka bækistöðvum Bandaríkjahers algerlega, þar til herliðið er flutt af landi brott, og einangra herinn innan þeirra stöðva;

5) að koma nú þegar í veg fyrir, að hermenn eða starfsmenn á vegum Bandaríkjahers hafi á leigu húsnæði í íbúðum Íslendinga;

6) að sjá svo um, að ekki verði fleiri Íslendingar ráðnir til starfa hjá herliðinu en nú eru þar, svo og að íslenzkum atvinnuvegum verði gert kleift að taka í sína þjónustu innan eins árs alla þá Íslendinga, sem nú vinna í þágu herliðsins. Meðan Íslendingar starfa innan bækistöðva hersins, sé herinn einangraður frá hinu íslenzka starfsliði og girt fyrir öll ónauðsynleg samskipti þeirra í milli;

7) að stöðva nú þegar rekstur hinnar bandarísku útvarpsstöðvar á Keflavíkurflugvelli;

8) að sjá að öðru leyti um, að ekki verði á neinn hátt gengið á rétt Íslands í sambandi við framkvæmd varnarsamningsins, meðan hann er í gildi.“

Góðir Íslendingar, Er þetta ekki stefna, sem allir þjóðhollir menn geta sameinazt um? Þessi stefna — og hún ein — getur forðað þjóðinni frá því hlutskipti að farast í landi sínu á friðartímum. Þessi stefna — og hún ein — forðar þjóðinni frá þeim örlögum að verða fyrir fram ákveðinn þátttakandi í hugsanlegri styrjöld. Þessi stefna — og hún ein — er íslenzk stefna.