19.11.1953
Sameinað þing: 18. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í D-deild Alþingistíðinda. (3092)

21. mál, uppsögn varnarsamnings

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Svo skammt er síðan utanríkismál urðu aftur að gildum þætti í íslenzkum þjóðmálum, að þess er varla að vænta, að þjóðin hafi enn gert sér fulla grein fyrir öllum hliðum þeirra vandamála, sem við blasa á þessu sviði. Ýmsir virðast þó gera ráð fyrir því, að skilningur þjóðarinnar á þeim vanda, sem henni er á höndum, sé miklu minni en hann áreiðanlega er í raun og veru. Í blöðum og á mannfundum er oft haft í frammi svo grunnfærnislegt tal um þessi efni, að það vekur furðu. Ofstækistilfinningum er beitt fyrir áróðursvagn, en skynsemin ekki höfð með í förinni. Þessari aðferð er ýmist beitt til þess að æra menn af ótta við rússneska árás eða að telja mönnum trú um, að hagsmunum þjóðarinnar sé bezt borgið í algerri utanríkispólitískri einangrun. En hér eru firrur á ferð. Er sannarlega kominn tími til þess, að umr. um utanríkismál verði skynsamlegar rökræður í ríkari mæli en átt hefur sér stað.

Kjarni íslenzkrar utanríkisstefnu á auðvitað að vera að varðveita sjálfstæði þjóðarinnar, að tryggja henni viðunandi öryggi og veita henni skilyrði til nauðsynlegra viðskipta- og menningartengsla við aðrar þjóðir. Um þetta getur varla verið ágreiningur. Um hitt getur okkur hins vegar greint á, hvernig þessu marki verði náð. Skoðanir manna á því hljóta fyrst og fremst að grundvallast á mati á utanríkispólitískri og hernaðarlegri aðstöðu Íslands og heimsástandinu í heild.

Mér virðist gæta þrenns konar meginviðhorfa til þessara mála. Í fyrsta lagi er sú skoðun, að mikil hætta sé á því, að Sovétríkin gerðu tilraun til þess að hertaka Ísland þegar í upphafi stríðs, sem brjótast kynni út milli austurs og vesturs. Það er bjargföst sannfæring mín, að Ísland sé sem betur fer ekki í slíkri hættu, eins og styrkleikahlutföll eru nú á norðanverðu Atlantshafi, sem betur fer. Þetta er ekki ný skoðun og ekki upp fundin af mér. Í skýrslu, sem 3 íslenzkir ráðherrar gáfu um för til Washington vorið 1949 og viðræður við bandaríska ráðamenn, var sagt, að Atlantshafsþjóðirnar mundu, ef til ófriðar kæmi, óska svipaðrar aðstöðu hér á landi og þær höfðu í síðasta stríði. Á það var ekki minnzt, að hætta væri á því, að Ísland yrði vígvöllur þegar í upphafi stríðs, svo að miða þyrfti landvarnir hér við að afstýra slíku. Þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið síðan í utanríkis- og varnarmálum, hafa og alls ekki verið við það miðaðar að afstýra slíkri hættu. 1951 var á það fallizt, að hér væru til bráðabirgða staðsettar hersveitir, sem í mættu vera allt að 3900 manns. Hvaða heilvita manni dettur í hug, að 3900 manna her gæti varið þetta stóra land, ef á það yrði ráðizt? Þegar við þetta bætist, að hvorki ríkisstjórn Íslands né Bandaríkjanna hefur séð ástæðu til þess, að liðið væri ávallt jafnfjölmennt og það má þó vera, verður augljóst, að hlutverk þess hefur ekki verið að koma í veg fyrir rússneska hertöku. Ef hér væri um bráða árásarhættu að ræða, væri og algerlega óverjandi að hafi engar ráðstafanir gert til verndar almennum borgurum, svo sem með byggingu loftvarnarbyrgja, undirbúningi að skipulögðum brottflutningi frá Reykjavík o. s. frv.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir grundvallar Sjálfstfl. málflutning sinn í utanríkismálum fyrst og fremst á því, að um þessa árásarhættu sé að ræða, og tillögur þær, sem skýrt hefur verið frá, um byggingu nýs hernaðarflugvallar, hafa verið rökstuddar á þennan hátt. Alþfl. lýsti sig þegar á s. l. vori algerlega andvígan því, að heimiluð yrði bygging nýs hernaðarflugvallar eða leyfðar auknar hernaðarframkvæmdir.

En þótt við eigum ekki að miða stefnu okkar við það, að við séum í hættu, sem við erum ekki í, megum við samt ekki draga af þessu þá ályktun, að við þurfum og eigum ekkert samstarf að hafa við aðrar þjóðir í utanríkis- og öryggismálum, en það er kjarni hlutleysisstefnunnar, sem Sósfl. og Þjóðvfl. aðhyllast. Rétt er að vekja sérstaka athygli á því, að alls enginn munur er á stefnu Sósfl. og Þjóðvfl., eins og hún birtist í tillögum þessara flokka hér á Alþingi og í stefnuyfirlýsingum þeirra, sem þó er að vísu ekki haldið mjög á loft. Báðir þessir flokkar telja, að Íslendingar eigi, jafnvel við núverandi aðstæður, að lýsa yfir ævarandi hlutleysi.

Rök kommúnista fyrir þessari afstöðu eru einföld og auðskilin Sovétríkjunum og bandamönnum þeirra væri augljós hagur að því, að Ísland væri algerlega hlutlaust. Nú er það kunnara en frá þurfi að segja, að sannur kommúnisti telur hagsmuni Sovétríkjanna og síns eigin lands ávallt fara saman. Þess vegna er eðlilegt, að kommúnistar telji það, sem er Sovétríkjunum hagkvæmast, einnig vera hagkvæmast fyrir Íslendinga.

Það hefur hins vegar farið lítið fyrir því fram að þessu, að þjóðvarnarmenn flyttu sérstök rök fyrir þessari kenningu, og það örlaði ekki á neinum slíkum rökum í ræðu hv. 8. þm. Reykv., Gils Guðmundssonar, áðan. Málflutningur þjóðvarnarmanna hefur fyrst og fremst beinzt að því að gagnrýna framkvæmd herverndarsamningsins og ástandið á Keflavíkurflugvelli. Ég er þeim sammála um flest, sem þeir hafa sagt um það efni. Framkvæmd fyrrv. ríkisstj. á herverndarsamningnum var með þeim hætti, að hún verður ekki kölluð annað en hneyksli, og ástandið á Keflavíkurvelli er fyrir löngu orðið algerlega óviðunandi. En það er ekki nóg að hafa neikvæða stefnu. Það er ekki nóg að gagnrýna. Þegar kemur að hinu jákvæða í stefnu Þjóðvfl., reynist allt byggt á sandi.

Forvígismenn flokksins hafa einkum reynt að rökstyðja kenninguna um algert hlutleysi og vopnleysi, miðað við núverandi kringumstæður, með þessu tvennu: að sú stefna muni auka líkur á því, að Ísland haldist utan við næstu styrjöld, og hún muni líklegri til þess að forða Íslandi frá árásum.

Ég ætla að víkja að síðara atriðinu fyrst. Hið eina, sem Íslendingar geta gert til þess að draga úr líkum á því, að árásir verði gerðar á land þeirra, er að leyfa ekki, að héðan verði gerðar árásir á aðra. Það hefur ekki verið leyft, og það á aldrei að leyfa. Hlutleysisyfirlýsing bætir aðstöðu Íslendinga ekkert í því sambandi.

Þá kemur að spurningunni um það, hvort hlutleysisyfirlýsing nú mundi auka líkur á því, að Ísland héldist utan við næstu styrjöld. Eru leiðtogar Þjóðvfl. í raun og veru svo grunnhyggnir, að þeir geri sér þess ekki grein, að engin von er til þess, að Ísland geti staðið algerlega utan við styrjöld, sem háð yrði milli Bandaríkjanna og Bretlands annars vegar og ríkis á meginlandi Evrópu hins vegar? Því hefur þegar verið lýst yfir, m. a. af stjórn Bandaríkjanna við 3 íslenzka ráðherra vorið 1949, að í styrjöld mundu hin vestrænu lýðræðisríki óska hér sams konar aðstöðu og í síðasta stríði. Er ekki öllum Íslendingum ljóst, að vesturveldin telja þessa aðstöðu svo mikilvæga, að þau mundu taka hana, ef þeim yrði neitað um hana, svo sem þau gerðu í upphafi síðasta stríðs?

Spurningin, sem við Íslendingar verðum að svara, er þessi: Eigum við að láta þessa aðstöðu í té af fúsum vilja og með samningi, eða eigum við að neita um hana og skipa okkur þannig á bekk með óvinum hinna vestrænu lýðræðisríkja og kjósa okkur hlutskipti hernuminnar þjóðar í stríði? Undir svarinu við þessari spurningu er það svo komið, hvað rétt er talið að gera, þegar styrjöld er talin yfirvofandi.

Þeir, sem gera sér ljóst, að Ísland og hin vestrænu lýðræðisríki hafa sömu hagsmuni af því, að siglingum um hafið umhverfis Ísland sé haldið opnum, vilja auðvitað svara málaleitun um slíkt játandi. Þeir, sem fylgja vilja stefnu hins algera hlutleysis, þ. e. a. s. Sósfl. og Þjóðvfl., hljóta hins vegar að svara henni neitandi, en með því kalla þeir yfir þjóðina erlent hernám í stríði og auk þess fjandskap þeirra þjóða, sem ráða hafinu umhverfis landið og við erum algerlega háðir hvað snertir aðdrætti til landsins.

Þetta væru afleiðingar hlutleysisstefnunnar, miðað við núverandi kringumstæður. Þrátt fyrir þetta halda Sósfl.-menn fast við það, að neita ætti vesturveldunum um sömu aðstöðu hér og í síðasta stríði, en afstaða Þjóðvfl. virðist eitthvað vera á reiki, rétt eins og leiðtogar hans hafi ekki áttað sig á því, hvað felst raunverulega í hlutleysisyfirlýsingu nú. Þegar till. okkar Alþýðuflokksmanna um endurskoðun varnarsamningsins kom til umr. í upphafi þings, beindi ég þeirri fyrirspurn til þingmanna Þjóðvfl., hver væri afstaða flokks þeirra til þessa grundvallaratriðis. Mér til mikillar undrunar svaraði hv. 8. þm. Reykv., Gils Guðmundsson, þessari fyrirspurn minni þannig orðrétt:

„Hann spurði einnig, hv. þm., hvað við þjóðvarnarmenn vildum að gert væri, ef styrjöld bæri að höndum. Vitanlega verður hverju sinni að taka afstöðu til mála eins og þau liggja fyrir, og ég vil svara þessu í sem allra stytztu máli með þeim orðum, sem hann sjálfur sagði: Það verður vitanlega að láta hagsmuni Íslands hverju sinni ráða því, hvernig við tökum afstöðu gagnvart hverjum þeim vanda, sem að höndum ber.“

Þetta var fyrsta ræðan, sem hin nýkjörni þm., Gils Guðmundsson, flutti um utanríkismál. Hann reyndist ekki reiðubúinn til þess að svara því með jái eða neii, hvort flokkur hans vildi verða við tilmælum hinna vestrænu lýðræðisríkja um sams konar aðstöðu hér og í síðasta stríði, ef styrjöld brytist út á ný. Þetta mundu margir kalla að koma upp og gata og það meira að segja á grundvallarspurningu. Með tilliti til þessa var býsna spaugilegt að heyra hv. 8. þm. Reykv., Gils Guðmundsson, gagnrýna Alþfl. hér áðan fyrir að hafa ekki tekið hiklausa afstöðu. Hv. þm. sagði, að hagsmunir Íslands ættu að ráða því, hvort svarað yrði með jái eða neii. Hann virðist þá gera ráð fyrir því, að hagsmunir Íslands geti verið þeir, að svara eigi með jái. En þá væri horfið frá yfirlýstri stefnu Þjóðvfl. um ævarandi hlutleysi, og það er ekki beint meðmæli með stefnu flokks, að fyrsti þm. hans skuli ekki hafa treyst sér til þess að halda skilyrðislaust fast við hana í fyrstu ræðunni, sem hann flytur á Alþ. Og hv. þm. virðist einnig gera ráð fyrir því, að hagsmunir Íslands geti verið þeir, að svara eigi með neii, svo sem kommúnistar vilja. Ég vil nú spyrja þann þm. Þjóðvfl., sem talar hér á eftir, hver sé afstaða þeirra til þessa grundvallaratriðis, eins og aðstæður eru nú, og biðja hann um að svara afdráttarlaust með jái eða neii.

Ég hef oft furðað mig á því, hversu algengt er, að menn hugsi óljóst og óskýrt, þegar utanríkismál eru á dagskrá, ef til vill af því, að tilfinningar móta afstöðu manna um of. Það er augljóst, að ríki getur ákveðið að vera hlutlaust í hernaðarátökum stórvelda, ef það er ekki vopnlaust og þannig reiðubúið til að verja hlutleysi sitt eins og Svíþjóð og Sviss. Það er einnig augljóst, að ríki getur verið vopnlaust, ef það er ekki hlutlaust, þ. e. a. s., ef það er algerlega í skjóli annars ríkis. En ekkert ríki getur verið bæði hlutlaust og vopnlaust, nema land þess sé ekki talið hafa neina hernaðarþýðingu. Yfirlýsing Íslendinga 1918 um hlutleysi og vopnleysi grundvallaðist auðvitað á því, að þeir treystu því, að land þeirra væri ekki talið hafa hernaðarþýðingu, svo sem verið hafði á liðnum öldum. En nú veit hvert mannsbarn, að svo er ekki lengur. Íslendingar gætu þó enn fylgt hlutleysisstefnu, ef til væri eitthvert hlutlaust ríki, eða helzt hlutlaust ríkjabandalag, sem hefði sömu hagsmuna að gæta og við Íslendingar og við gætum þá leitað tengsla við. En í öllum heiminum er nú ekki til eitt einasta hlutlaust ríki eða ríkjabandalag, sem til greina kæmi fyrir okkur Íslendinga að leita bandalags við. Ef við eigum að halda fast við algert vopnleysi, eins og ég tel að við eigum undir öllum kringumstæðum að gera, þá er algert hlutleysi miðað við núverandi kringumstæður, óraunsæ óskhyggja, sem snertir hvergi við raunverulegum vandamálum þjóðarinnar. Sjá menn ekki auðveldlega hið fáránlega í þeirri afstöðu að sitja í landi, sem vitað er að er hernaðarlega mikilvægt, og að lýsa yfir algeru hlutleysi, en láta síðan fylgja yfirlýsingunni aðra yfirlýsingu um það, að ekkert skuli gert af neinum til þess að verja hlutleysið?

Þegar stofnun Atlantshafsbandalagsins var á döfinni 1948–49, þá horfði málið allt öðruvísi við. Þá var einmitt um það rætt í Vestur-Evrópu að mynda hlutlaus ríkjabandalög. Sænskir og danskir jafnaðarmenn voru því t. d. eindregið fylgjandi, að myndað yrði norrænt varnarbandalag, sem yrði hlutlaust í hernaðarátökum stórveldanna, og þar með andvígir því að Svíþjóð og Danmörk gerðust aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Af sams konar ástæðum var ég og margir hér á landi andvígir aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Ef af stofnun norræns hlutleysisbandalags hefði orðið, hefði hlutleysisstefna orðið raunhæfur möguleiki í íslenzkum utanríkismálum. En alveg eins og danskir jafnaðarmenn urðu fylgjandi aðild að Atlantshafsbandalaginu, þegar Norðmenn höfnuðu till. um norrænt varnarbandalag, hafa skilyrði Íslendinga sem vopnlausrar þjóðar til þess að fylgja hlutleysisstefnu orðið að engu við það, að ekkert hlutleysisbandalag er nú til í Evrópu. Þess vegna urðu Íslendingar að gera einhvern herverndarsamning við eitthvert Atlantshafsríki, eins og gert var 1951. Annað hefði verið að neita staðreyndum.

Sú stefna, sem Sósfl. og Þjóðvfl. berjast fyrir hér, á sér nær ekkert fylgi í Vestur-Evrópu utan kommúnistaflokkanna. Ég hefði gaman af því, ef sá þm. Þjóðvfl., sem á eftir að tala hérna í kvöld, gæti nefnt mér einhverja kunna stjórnmálamenn í Vestur-Evrópu, sem mæla með því í löndum sínum, að lönd þeirra lýsi yfir algeru hlutleysi og vopnleysi, eins og nú er ástatt í heiminum, og fleiri en ég hefðu gaman af að heyra nöfn þeirra. Ég ætla þó að vara hann við að nefna fyrrverandi norskan verkamannaflokksþingmann, Jakob Friis, sem er í ritstjórn blaðs, sem Frjáls þjóð hefur vitnað oftar í en nokkurt annað blað, þótt það sé lítið þekkt, og heitir Orientering. Ég sé það nefnilega í bók eftir hann, að hann hefur á sínum tíma greitt atkvæði með aðild Noregs að Atlantshafsbandalaginu, með samningnum um vopnasendingar Bandaríkjanna til Noregs og með fjárveitingu til landvarna í Noregi. Hann var fylgjandi hlutlausu varnarbandalagi Norðurlanda og er það enn. En þar eð af því varð ekki, hefur honum ekki dottið í hug að hegða sér eins og af því hafi orðið. En það er þess konar háttalag, sem forustumenn Þjóðvfl. mæla með við Íslendinga.

En fyrst við eigum ekki að miða stefnu okkar við það, að rússneskt hernám sé yfirvofandi í upphafi styrjaldar, né heldur lýsa yfir algeru hlutleysi, hver á þá að vera utanríkisstefna okkar? Utanríkisstefna þjóðarinnar á að grundvallast á þeirri staðreynd, að það eru sameiginlegir hagsmunir okkar og ríkjanna sitt hvorum megin við Atlantshaf, og þá fyrst og fremst Bandaríkjanna, Bretlands og Noregs, að siglingaleiðunum umhverfis landið og loftleiðunum um það svæði sé haldið opnum í ófriði. Héðan er auðveldara að verja þessar leiðir en frá nokkrum öðrum stað. Í styrjöld eigum við þess vegna að leyfa, að það sé gert, og við eigum að leyfa þann undirbúning að því, sem óhjákvæmilegur er talinn, svo sem að hér séu byggðar radarstöðvar og að Keflavíkurvelli sé komið í það horf, sem nauðsynlegt er talið. En við eigum aldrei að leyfa hér meiri hernaðarframkvæmdir en þær. sem óhjákvæmilegar eru, til þess að landið geti í stríði gegnt þessu hlutverki við varnir siglinga- og loftleiðanna.

Þessi stefna getur haft það í för með sér, að við verðum á sérstaklega viðsjárverðum tímum að leyfa fámennu erlendu liði víst í landinu í stuttan tíma, þar eð við eigum að halda fast við það að hervæðast ekki sjálfir. En við eigum að gæta þess vel að láta slíkt lið ekki vera hér degi lengur en algerlega óhjákvæmilegt verður talið.

Það er nú kominn tími til að undirbúa brottflutning þess liðs, sem heimiluð var vist hér 1951. Sósíalistar og þjóðvarnarmenn virðast hugsa sér, að liðið sé látið fara, án þess að nokkrar ráðstafanir séu gerðar í framhaldi af því. Þeir hafa engar till. gert um það, að Íslendingar eigi að búa sig undir að taka við rekstri Keflavíkurflugvallar, hvað þá radarstöðvanna. Það er engu líkara en þeir hugsi sér að láta eigi mörg hundruð milljóna mannvirki á Keflavíkurflugvelli grotna niður gæzlulaus, og þeir virðast vera á móti því, að radarstöðvarnar séu byggðar.

Alþfl. gerir sér ljóst, að um leið og herinn er látinn fara, þá verða Íslendingar að geta tekið að sér rekstur þeirra mannvirkja, sem búið er að koma upp eða verið er að koma upp. Þess vegna hefur hann ekki lagt til, að herverndarsamningnum sé sagt upp nú þegar, þar eð af uppsögn hans mundi hljótast tafarlaus stöðvun þeirra framkvæmda, sem verið er að vinna að, og erfiðleikar í sambandi við sérmenntun þeirra Íslendinga, sem taka ættu við störfum í þessu sambandi, auk, þess sem herinn færi hvort eð er ekki fyrr en eftir 18 mánuði. Af þessum sökum hefur Alþfl. flutt till. um endurskoðun herverndarsamningsins, þótt hv. 6. landsk., Finnbogi R. Valdimarsson, hafi talið sér sæma hér áðan að rangtúlka till. og ummæli hv. 4. þm. Reykv., Haralds Guðmundssonar, hér á þingi nýlega.

Það, sem Alþfl. hefur lagt til í till. þeirri, sem við hv. 3. landsk., Hannibal Valdimarsson, fluttum í upphafi þings fyrir hönd hans og var fyrsta till., sem fyrir þingið var lögð um þessi mál, er þetta:

1) Íslenzkir aðilar annist allar þær framkvæmdir, sem ákveðnar voru samkvæmt herverndarsamningnum 1951 og enn er ólokið, þ. e. a. s. hinn erlendi verktaki, sem hér hefur starfað, verði látinn fara og sömuleiðis allir erlendir verkamenn.

2) Sá hluti Keflavíkurflugvallar, sem eingöngu eða fyrst og fremst þarf að nota í hernaðarþágu, sé girtur og öll almenn umferð um hann bönnuð.

3) Hafinn verði þegar í stað undirbúningur þess, að Íslendingar taki í sínar hendur rekstur, viðhald og gæzlu þeirra mannvirkja, sem byggð hafa verið og byggð verða samkvæmt herverndarsamningnum, en leita skal samninga við Bandaríkin eða Atlantshafsbandalagið um greiðslu kostnaðar, sem af því hlýzt. Ekki skal þó þjálfa Íslendinga til neinna hernaðarstarfa.

4) Þegar Íslendingar hafa menntað starfsmenn til þess að taka að sér þessi störf, skal Alþ. geta ákveðið með þriggja mánaða fyrirvara, að herlið Bandaríkjanna skuli hverfa frá Íslandi, en meðan það er enn í landinu, skal það eingöngu dveljast á þeim stöðum, sem það hefur fengið til umráða.

Í þessari till. felst hiklaus og skýr stefna, raunhæf og þjóðholl stefna. Að óbreyttum aðstæðum tel ég, að láta eigi herinn hverfa úr landinu, þegar er Íslendingar hafa búið sig undir að taka við rekstri, viðhaldi og gæzlu þeirra mannvirkja, sem hér er um að ræða. Það er undir Íslendingum sjálfum komið, hvenær það verður.

Ég vildi mega óska þess, að Alþingi Íslendinga beri gæfu til þess að ráða vel fram úr þessu mesta vandamáli, sem nú steðjar að Íslendingum. Til þess standa ýmsar vonir. Framsfl. hefur lagt fram till., sem ganga að ýmsu leyti í svipaða átt og till. Alþfl., þótt allt of lítið sé að vísu í þeim sagt um aðalatriði málsins, sem er undirbúningurinn að því, að Íslendingar taki sjálfir að sér rekstur og viðhald mannvirkjanna. Jafnvel ungir sjálfstæðismenn hafa samþykkt till., sem benda til þess, að þeir sjái nú orðið ýmislegt, sem aflaga fer.

Mikill vandi hvílir nú á herðum íslenzkra ráðamanna. Þeir eiga að móta utanríkisstefnu þjóðarinnar af dirfsku og hreinskilni. Á því má ekki leika nokkur vafi, að við teljum okkur til hinna vestrænu lýðræðisþjóða, að við ætlum að taka tillit til hagsmuna þeirra í stríði og friði, en viljum jafnframt, að þær taki tilllt til hagsmuna okkar. Við viljum vera vinir vina okkar, en við viljum ekki vera peð í neins konar stórveldatafli. Við viljum ekki vera leppríki eins eða neins og á einskis framfæri nema þess lands og þess sjávar, sem fætt hefur og klætt hraust og gáfað fólk í þessu landi í þúsund ár. Engir hagsmunir þessarar þjóðar eru brýnni en þeir, að hún fái að vera ein í landi sínu á venjulegum tímum. Það, sem hún gerir á sérstökum hættutímum, má aldrei verða að varanlegu ástandi.

Erlendir menn eiga vafalaust erfitt með að skilja ríkar þjóðernistilfinningar Íslendinga og þann varhug, sem þeir að jafnaði gjalda við erlendum áhrifum. En þeir eiga líka erfitt með að skilja, að 150 þús. manns skuli reyna að halda uppi sjálfstæðu menningarríki og takast það. Slíkt tekst heldur ekki án ríkrar þjóðernistilfinningar. Við verðum auðvitað að gæta þess, að þessar tilfinningar verði ekki að ofstæki eða óvild til annarra þjóða, en án þeirra værum við ekki það, sem við erum.

Stærri þjóðum finnst vafalaust torvelt að taka mikið tillit til jafnfás fólks og byggir þetta land, en þær verða að gera sér ljóst, að þetta fáa fólk er heil þjóð, sem hefur byggt land sitt helmingi lengur en hvítir menn hafa búið í Ameríku, þjóð, sem á sér glæsta söguöld, en minnist einnig aldalangra þjáninga undir erlendu oki og hefur nú á síðustu öld sótt fram til sjálfstæðis og stórbættra lífskjara. Þetta sjálfstæði vill hún vernda, því að hún sér í því tákn alls þess, sem henni er heilagast. Hún á engin vopn til þess að vernda það og ætlar sér ekki að smíða þau. Hún ætlar sér eingöngu að vernda það með ást sinni á landinu og tryggð sinni við það. Þess vegna er hún viðkvæm fyrir hverjum skugga, sem á það fellur.

Aðrar þjóðir, sem Íslendingar hafa náin skipti við, þurfa ekki að óttast, að þessar tilfinningar leiði þá á villigötur. Hörð lífsbarátta hefur verið þessari þjóð strangur skóli. Náttúran, landið og sagan hafa mótað hana þannig, að hún bregzt ekki sjálfri sér. Og sá bregzt heldur ekki öðrum, sem aldrei bregzt sjálfum sér.