19.11.1953
Sameinað þing: 18. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í D-deild Alþingistíðinda. (3095)

21. mál, uppsögn varnarsamnings

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hv. þm. Gils Guðmundsson lét svo sem hindra hefði átt þessar útvarpsumræður. Jafnframt varð hann að játa, að flokkur hans átti skýlausan rétt til þess að fá þær, hvenær sem hann bæri kröfur fram um þær. Þess vegna var sjálfsagt að reyna, hvort hann hefði kjark til að neyta þessa réttar síns, og er vel, að hann hefur nú gert það.

Yfirsýn þingmannsins og skilningur á alþjóðamálum lýsti sér í yfirliti því, sem hann gaf um alheimsmálin í upphafi ræðu sinnar. Hann gleymdi þar örlögum baltnesku þjóðanna, Pólverja og annarra þeirra þjóða, sem Rússar lögðu undir sig á styrjaldarárunum og sýndu þar með útþensluþrá sína, sem síðan hefur æ ofan í æ orðið berari. Kommúnistaeðlið leyndi sér ekki hjá þm. Það var ekki að ástæðulausu, að ræðumaður kommúnista hér áðan kallaði þjóðvarnarmenn „samherja“ sína.

Vera kann þó, að skýringin á hinni furðulegu blindu Gils Guðmundssonar á hinar þýðingarmestu staðreyndir í alþjóðamálum sé meðfram sú, að hann hafi asklokið fyrir sinn himin. Hann sá sem sagt þá skýringu helzta á vörnum Íslands, að Íslendingar hefðu látið kaupa sig fyrir dollara. Þannig talar maðurinn, sem styðst við flokk, sem haldið er uppi fyrir dollara Sigurðar Jónassonar. Hann býsnaðist líka yfir lúxusbílunum. Væri ekki ráð, að hann skoðaði fyrst bílana, sem standa fyrir utan flokksskrifstofu hans í löngum röðum, áður en hann kastar steinum á aðra?

Kommúnistalærdómurinn kom þó skjótlega upp aftur. Gils Guðmundsson ítrekaði hér gamla hótun Einars Olgeirssonar um, að atómsprengju yrði varpað á Ísland, ef við færum ekki að vilja kommúnista í utanríkismálum. Þjóðvarnarmenn og lærimeistarar þeirra, kommúnistar, eru áreiðanlega betur kunnugir fyrirætlunum forráðamanna hins alþjóðlega kommúnisma en aðrir Íslendingar. Því fer þess vegna fjarri, að ég treysti mér til að neita því, að ráðgert sé í kommúnistahóp, að varpað skuli atómsprengju á Ísland. Hitt veit ég með vissu, að líkurnar fyrir árás á landið verða þeim mun minni, sem betur er séð fyrir vörnum í landinu. Ef Ísland væri óvarið og til nýrrar stórstyrjaldar kæmi, mundi verða kapphlaup um það, hver af styrjaldaraðilum næði hér fyrst fótfestu. Þá mundi barizt um landið og voðinn vera vís. Með sæmilegum vörnum verða líkurnar til slíkra átaka miklu minni en ella. Það er mesti misskilningur, að til þess að koma í veg fyrir slíka skyndiárás þurfi að vera óvígur her eða tugir þúsunda hermanna í landinu. Að óvörum verður ekki nema tiltölulega fámennu liði komið í landið. Ef það ætti engum vörnum að mæta, gæti það greitt götuna fyrir miklu meiri liðstyrk, er fylgdi skjótlega á eftir. Jafnvel fámennt lið getur hins vegar hrundið slíkri árás í bili, og dvöl þess tryggir skjóta hjálp. Sá liðsstyrkur, sem nú er í landinu, þótt ekki sé mannfleiri en raun ber vitni um, veitir þess vegna mjög mikið öryggi gegn árásum. Fullkomið öryggi í þessum efnum fæst hins vegar aldrei, ef svo illa fer, að til styrjaldar komi. Öllu máli skiptir þess vegna, að komið verði í veg fyrir nýja stórstyrjöld. Að því hlýtur viðleitni okkar sem annarra frelsis- og friðarunnandi þjóða fyrst og fremst að stefna. Nýtt ófriðarbál verður uggvænlegt fyrir allar þjóðir heims, ekki síður fyrir okkur Íslendinga en aðra. Því veldur lega landsins og hernaðarþýðing þess í nútímastyrjöld. Við skulum í fullri hreinskilni gera okkur grein fyrir þeim hættum, sem að okkur steðja, ef til slíkrar styrjaldar kemur. Þær eru áreiðanlega miklar. En nokkuð er þá til þess vinnandi að koma í veg fyrir, að ný heimsstyrjöld brjótist út. Í því skyni gerðumst við aðilar Atlantshafsbandalagsins og samþykktum síðar að hafa um sinn erlent varnarlið í landi okkar. Auðvitað höfum við með þessu lagt kvaðir og nokkur óþægindi á þjóð okkar. Því neitar enginn. En er það að ástæðulausu?

Það er sagnfræðileg staðreynd, óhagganleg, að kommúnistar hrifsa til sín yfirráð hvarvetna þar, sem ekki er nógu sterklega tekið á móti. Ef þeir létu þetta undan fallast, mundu þeir bregðast þeim boðskap, er þeir vita helgastan, þeim, að engri þjóð geti liðið vel, nema hún lúti kommúnistískri stjórn. Frægt er orðið, þegar Halldór Kiljan Laxness lýsti því við árás Rússa á Pólverja haustið 1939 orðrétt. „að ekki væri hægt að sjá nokkurt hneyksli í því, að 15 milljónir manna eru þegjandi og hljóðalaust innlimaðir undir bolsévísmann.“ Þetta voru orð skáldsins. Ætli honum og félögum hans þætti meira hneyksli, þótt 150 þúsundir Íslendinga færu sömu leiðina?

Við vitum um hinn mikla áhuga Leníns fyrir örlögum Íslands. Hann lýsti því strax 1920, hverja hernaðarþýðingu Ísland hefði og að það mundi ekki geta haldið hlutleysi í nýrri styrjöld. Atvik síðustu heimsstyrjaldar sýna, hversu ríka áherzlu Bretland og Bandaríkin lögðu á að hindra, að óvinaríki þeirra fengju vald á Íslandi. Þau þurftu ekki á Íslandi að halda til þess að gera héðan árásir á Þýzkaland, en þeim var lífsnauðsyn að hindra, að Þjóðverjar fengju hér fótfestu til árása bæði í austur og vestur, auk þess sem bækistöðvar á Íslandi gerðu samgöngur á sjó og í lofti yfir Atlantshaf mun öruggari en ella. Á sama veg mundu vesturveldin nú ekki þurfa að gera árásir frá Íslandi á óvinaríki sitt, ef til nýrrar stórstyrjaldar kæmi. Flest lönd Atlantshafsbandalagsins liggja miklu nær höfuðstöðvum hins alþjóðlega kommúnisma en Ísland. Atlantshafsbandalagið, sem beint og óbeint tekur til mikils hluta Evrópu, nema þeirra landa, sem eru á valdi kommúnista, þarf ekki, ef styrjöld brýzt út, að sækja til Íslands í því skyni að gera héðan árásir á Austur-Evrópu, þar sem stöðvar þess á meginlandinu og í Englandi eru miklu nær. En nú sem fyrr mundi lýðræðisþjóðunum það óbætanlegt tjón, ef óvinir þeirra næðu Íslandi á sitt vald, og einmitt þess vegna er yfirvofandi hætta á, að tilraun til slíks yrði gerð, og þeim mun meiri sem varnir væru hér veikari.

Auðvitað væri miklu þægilegra rétt í bili að loka augunum fyrir þessum staðreyndum og kaupa sér með athafnaleysi frið fyrir rógi kommúnista og nokkurra skammsýnna manna út af vörnunum. Til þess þyrfti enga dirfsku, heldur það hugarfar að forða sér frá óþægindunum með því að svíkja þjóðina, sjálfstæði hennar og jafnvel tilveru. Og sízt bætir það úr skák um afneitun staðreyndanna, þótt það sé gert undir því yfirskini, að ef slík hætta væri fyrir hendi, gætum við ekki kinnroðalaust falið öðrum að verja landið, heldur yrðum að gera það sjálfir. Því miður erum við svo fáir, að ekki munar verulega um okkur til varnar landinu, ef verulega reynir á, og þess vegna höfum við ekki annað úrræði en að leita bandalags við önnur ríki, sem hafa að þessu leyti sömu hagsmuni og við.

Sú fullyrðing, að vegna þess að andstæðingar lýðræðisþjóðanna geti ekki haldið Íslandi í stríði, muni þeir ekki reyna að taka það, fær ekki staðizt, því að jafnvel þó að hernám Íslands af hálfu ofbeldisárásaraðila stæði aðeins stutta stund, mundi það geta gert ómetanlegt tjón. Héðan væri hægt að gera skyndiárásir bæði á löndin til austurs og vesturs og trufla alla umferð um norðanvert Atlantshaf. Ýmsir halda, að ný stórstyrjöld mundi verða mjög skammvinn, vegna þess að á stuttum tíma væri hægt að koma til vegar slíkum eyðileggingum. að úrslitum réði. Ef sú kenning er rétt, er greinilegt, að einmitt í slíkri styrjöld gæti Ísland haft meginþýðingu. Sú staðreynd, að hægt væri að hertaka Ísland fyrirhafnarlaust, af því að það væri með öllu óvarið, kynni því að vera lokaástæðan, sem réði því, að ofbeldisárás væri hafin.

Með þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu og vörnum á Íslandi höfum við lagt lóð okkar á vogarskálina friðnum til framdráttar. Og hver er sá, sem ekki kýs fremur núverandi ástand en nýja heimsstyrjöld?

Að sjálfsögðu vona allir góðviljaðir menn, að núverandi ástand breytist svo í friðarátt, að ekki sé þörf á erlendu varnarliði á Íslandi. En því fer fjarri, að enn sé svo. Löngun lýðræðisþjóðanna til friðar er að vísu svo rík, að menn grípa hvert tækifæri, sem horfir þangað, fegins hendi og reyna í lengstu lög að vona, að nú horfi svo, að eigi séu sömu líkur til yfirvofandi hörmunga nýrrar heimsstyrjaldar sem áður. Í von sinni um betri tíma halda sumir, að Fróðafriður sé á næstu grösum, aðeins ef ofbeldismaðurinn staldrar við um sinn eða ef í milliríkjaviðskiptum er ekki eingöngu við haft orðbragð götustráksins. Þessi tilfinning gerir jafnt vart við sig á Íslandi sem í öðrum lýðræðislöndum. Alls staðar heyrast raddir um, að nú hljóti að mega slaka á klónni, draga úr vörnunum, af því að versta hættan sé liðin hjá. En þeir, sem svo tala, gleyma því, að ef hættan er minni, sem enginn veit þó með vissu, er það fyrst og fremst vegna þess, að þau lönd sem áður voru óvarin, eru nú varin, svo að árásarmaðurinn hefur ekki jafngreiða yfirferð sem áður. Það er einmitt aukið valdajafnvægi í heiminum, sem á hefur komizt við varnir lýðræðisþjóðanna, sem gerir að verkum, að nú virðist friðvænlegra en stundum fyrr. Sú stefna að efla samtök lýðræðisþjóðanna hefur þess vegna nú þegar sannazt að vera rétt, enda sést, að ófriðaröflin, forsprakkar hins alþjóðlega kommúnisma, hafa beinlínis gert um það samþykkt að láta nú vinalegar en áður, ekki vegna þess að þeir hafi breytt um skoðun, heldur til þess að reyna með þessu að sundra lýðræðisþjóðunum. — Enginn sá, sem yfirsýn hefur, lætur hins vegar ginnast til að hverfa af þeirri braut, sem til friðarins leiðir. Raunveruleg breyting á hugarfari forsprakka hins alþjóðlega kommúnisma, ef fram kemur í verki, eða nógu öflug samtök lýðræðisþjóðanna tryggja bezt friðinn. Þessi skilningur lýsti sér t. d. í samþykkt, sem flokksþing verkamannaflokksins brezka gerði í lok september s. l. og hljóðar svo:

„Á meðan árásarhætta er, verður Bretland ásamt bandamönnum sínum að taka á sig byrðarnar af varnarráðstöfunum.“

Þetta sýnir álit forsprakka brezku verkamannasamtakanna og flokksins, sem þó eru í stjórnarandstöðu, — álit þeirra á heimsútlitinu nú.

Yfirgnæfandi meiri hluti Íslendinga er sömu skoðunar, eins og glögglega kom fram við síðustu kosningar, um þetta og brezki verkamannaflokkurinn. Við viljum leggja fram okkar skerf til þess, að friður megi haldast, jafnvel þó að af þeim ráðstöfunum leiði nokkra röskun á okkar högum um sinn, vegna þess að sú hætta er smávægileg við þá hættu, sem yfir okkur vofir, ef nýtt heimsstríð skellur á.