02.12.1953
Sameinað þing: 20. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í D-deild Alþingistíðinda. (3107)

21. mál, uppsögn varnarsamnings

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er nokkuð óvenjulegt, en hefur þó nokkrum sinnum komið fyrir, að stjórnarflokkarnir hafa neitað að vísa máli hér til nefndar. Nú er náttúrlega sannleikurinn sá, að ekki er víst, að þetta sé alltaf gert af illum hug, að neita að vísa málum til nefndar, svo framarlega sem ætla má, að málið haldi áfram við umræðu. Hins vegar er greinilegt, af hvaða hug það er gert, ef mál eru þar með stöðvuð. Það hefur áður fram farið fyrri hluti umr. um þetta mál, og ég vildi nú leyfa mér að æskja þess við hæstv. forseta, að þar sem almennt hefur ekki verið gengið út frá því af þm., að síðari hluti fyrri umr. um þetta mál færi fram í dag, því að ég býst við, að flestir aðrir þm. en handjárnaðir þm. stjórnarflokkanna hafi gengið út frá því, að þetta frv. mundi fá eðlilega meðferð í nefnd, þá vildi ég leyfa mér að æskja þess við hæstv. forseta, að umr. um þetta mál sé nú frestað og haldið áfram síðar. Ég álít, að þetta sé það þýðingarmikið mál, að fyrst meiri hl. hér á þingi hefur ekki viljað láta athuga það í n., þá þurfi það að fá frekari umr. á þingi, þegar menn eru við því búnir að ræða það. Ég vildi þess vegna leyfa mér að æskja þess við hæstv. forseta, að síðari hluti þessarar fyrri umr. færi ekki fram nú, heldur yrði frestað. Ég veit meðal annars, að fulltrúi Sósfl. í utanrmn., sem hefur vafalaust gengið út frá því að fá þetta mál til meðferðar, mun vafalaust vilja fá tækifæri til þess að láta í ljós sitt álit á þessu máli frekar en þegar hefur verið gert við umr. málsins. Ég vonast þess vegna til þess, að hæstv. forseti geti orðið við þessari ósk.