11.11.1953
Sameinað þing: 15. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í D-deild Alþingistíðinda. (3134)

48. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir flest af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði í sambandi við þá, sem hann kallar aumasta allra, að það sé tími til þess kominn, að eitthvað sé fyrir þessa menn gert.

Hér á þskj. 133, 90. mál, er frv. til l. um breyt. á l. nr. 55 25. maí 1949, um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra. Tveir hv. þm. flytja þetta frv. Fyrri flm. er hv. þm. borgarstjórinn í Rvík. — Það er gert ráð fyrir því með þessu frv., að það fé, sem hefur safnazt í gæzluvistarsjóð, verði notað til þess að reisa og reka gæzluvistarhæli fyrir drykkjusjúka menn. Í gæzluvistarsjóði munu nú vera um 3 millj. kr., og árlega safnast í þennan sjóð 700–800 þús. kr. Það virðist því vera tímabært að taka þetta fé og nota það í því skyni, sem því upphaflega var ætlað.

Eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram, þá er, eins og lögin eru nú, gert ráð fyrir, að bæjar- og sveitarfélög reisi og reki gæzluvistarhæli, en fái til þess styrk, úr ríkissjóði. Ég held, að það sé mjög óheppilegt, að sveitarfélögin séu að byggja og reka slík hæli. Ég held, að það hljóti að vera heppilegra og praktískara, að byggt verði eitt landshæli fyrir drykkjusjúka menn og þeim safnað þar saman. Reksturinn hlýtur að verða miklu ódýrari á þann hátt en ef farið væri að byggja mörg hæli víðs vegar um landið, þar sem aðeins væru fáir sjúklingar eða vistmenn. Og þetta frv., sem ég nú nefndi, fer fram á það, að l. sé breytt í þessa átt og að sá þátturinn, sem er mest aðkallandi, gæzluvistarhæli fyrir drykkjusjúka menn, verði reist og rekið fyrir fé gæzluvistarsjóðs og að þetta hæli yrði þá nokkurs konar landshæli, sem tæki við drykkjusjúkum mönnum, ekki aðeins hér úr Rvík, heldur víðs vegar annars staðar að af landinu, ef þeir skyldu vera fyrir hendi. En þetta er að vísu ekki nema einn þátturinn, en sá veigamesti og sá, sem kallar mest að, þ. e. að meðhöndla drykkjusjúka menn, þessa ógæfumenn, á mannúðlegan hátt og leitast við að hafa bætandi áhrif á þá, þannig að þeir geti aftur orðið nýtir borgarar í þjóðfélaginu.

Ég held, að það sé stórt spor í rétta átt að samþ. frv. á þskj. 133, sem hér var til umr., og að það út af fyrir sig gæti bætt mikið úr því ástandi, sem nú ríkir. — Nú mun einhver segja, að fé gæzluvistarsjóðs muni hrökkva skammt til þess bæði að reisa og reka hælið, en reynslan sker úr því, hversu þetta hrekkur langt, og víst má telja það, að gæzluvistarsjóður hefur að óbreyttum lögum fastar tekjur árlega á meðan áfengissalan er jafnmikil og hún nú er, 700–800 þús. kr., og það er töluverður peningur, auk þess sem þessi stofnun gæti ef til vill með ýmsu öðru móti haft fjársöfnun, því að þessi stofnun hlyti að fá samúð allra góðra Íslendinga og njóta stuðnings og styrks, ef með þyrfti í frekari og ríkari mæli en það, sem gæzluvistarsjóði áskotnast af áfengisgróðanum.

Ég vildi aðeins láta þessi orð falla og vekja athygli á frv., að það er spor í rétta átt og stefnir að mestu að því marki, sem hæstv. flm. till. á þskj. 51 vill ná.