11.11.1953
Sameinað þing: 15. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í D-deild Alþingistíðinda. (3136)

48. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. þm. Barð. sagði í niðurlagi ræðu sinnar, að hann vildi ekki viðurkenna, að sveitarfélög eigi að bera nokkurn kostnað af stofnun og rekstri drykkjumannahæla. Það skiptir í þessu efni ekki nokkru máli, hvað hv. þm. vill viðurkenna eða viðurkenna ekki. Orð hans eru ekki lög á Íslandi, heldur samþykkt Alþ., og Alþ. hefur ákveðið í gildandi l., að sú skylda hvíli á sveitarfélögum að koma upp drykkjumannahælum fyrir hina eiginlegu drykkjusjúklinga og jafnframt sjúkrahúsdeild við sjúkrahús til þess að veita þeim drukknu mönnum móttöku, sem teknir eru úr umferð á almannafæri. Það skiptir engu máli fyrir það, hvað séu lög í landinu, hvað hv. þm. Barð. segir hér í ræðustóli. Það er texti gildandi laga, sem sker úr um það, hvað sveitarfélög eiga að gera og hvað þau eiga ekki að gera, og texti gildandi laga er þannig, að þessar framkvæmdir eiga að vera í höndum sveitarfélaga, og þau eiga að hljóta til þess styrk úr ríkissjóði, eins og hæstv. heilbrmrh. gat um í sinni ræðu, af stofnkostnaði.

Hv. þm. vildi kenna mér og hv. 2. þm. Rang. og enn fremur landlækni og yfirlækninum á Kleppi það, að þessi lög hafi ekki komið til framkvæmda, sem vissulega ber mjög að harma. Þetta eru algerlega tilhæfulausar ásakanir. Það hefur verið ágreiningur um, hvort rétt hafi verið að setja lögin í því formi, sem þau voru sett, það er rétt, en það er gersamlega út í bláinn að kenna þeim mönnum, sem hafa viljað láta framkvæma lögin eins og þau eru, um það, að þau hafi ekki verið framkvæmd. Ég skil ekki slíkan hugsunarhátt. Yfirlæknirinn á Kleppi, landlæknirinn og fyrrv. heilbrmrh. töldu þessi lög vera eðlileg og æskileg eins og þau eru og hafa ekki viljað breyta þeim. Hvernig er þá hægt að kenna þeim um það, að sveitarfélögin hafi ekki farið eftir lögunum? Það mætti kannske segja, að það, að sveitarfélögin og sérstaklega Reykjavíkurbær skuli ekki hafa framkvæmt lögin, væri afsakanlegt, ef lögin hefðu verið sett gegn vilja hans, en það er alls ekki svo. Lögin voru þvert á móti sett sumpart eftir ósk forráðamanna Reykjavíkurbæjar og í fullu samráði við borgarstjórann í Reykjavík og bæjarstjórnarmeirihlutann. Það er mér kunnugt um, því að ég átti sæti í þeirri n., sem þetta lagafrv. flutti á þingi 1949, þegar það varð að lögum. Þá mættu borgarstjórinn í Reykjavík og fulltrúar frá bæjarráði á fundum n. og lýstu allir yfir eindregnum stuðningi sínum við frv. eins og það var. Lögin voru samþ. samhljóða, að því er ég held, a. m. k. hér í hv. Nd. Síðan hafa forráðamenn Reykjavíkurbæjar skipt um skoðun á málinu, og nú vilja þeir, að sú stefna verði upp tekin, að ríkið eitt byggi drykkjumannahælið. Á það vildi fyrrv. heilbrmrh. ekki fallast, ekki landlæknirinn og ekki yfirlæknirinn á Kleppi. Nú er ég að vísu þeirrar skoðunar, að ég teldi mjög óheppilegt, að endalaus ágreiningur um þetta atriði, hvort lögin skuli vera eins og þau nú eru og þingið samþykkti samhljóða eða hvort þeim skuli breyta, skuli verða til þess að koma jafnharkalega niður og raun ber vitni á þessum aumu sjúklingum, sem hér er um að ræða, og ég tel vel koma til mála að athuga það frv., sem nú er nýflutt í hv. Nd., af fyllstu vinsemd, til þess að binda enda á þetta hvimleiða deilumál, því að deila um þetta, hvor aðilinn skuli hafa framkvæmdina með höndum, ríki eða sveitarfélög, má ekki verða til þess að tefja hana, svo bráðnauðsynleg sem hún er, ár eftir ár. Það er mér fullljóst. En hitt kann ég ekki við, að hv. þm. Barð. skuli vera að ásaka þá embættismenn, sem hér er um að ræða, fyrir afskipti þeirra af málinu, þegar þau eru þau ein að vilja halda fast við fjögurra ára gömul lög, sem voru samþykkt einróma, að því er ég bezt veit, í hinu háa Alþ. Þá er skörin farin að færast upp í bekkinn, ef embættismenn, sem vilja framfylgja nýsettum lögum, eiga að hljóta ákúrur fyrir það að vilja halda lögunum í heiðri og fyrir það að vilja ekki á næsta eða næstnæsta ári, eftir að þau eru sett, fallast á, að þeim sé breytt. Hitt er svo annað mál, að ef í ljós kemur, að lögin fást ekki framkvæmd eins og þau nú eru, — og mér finnst margt benda til þess, — þá kemur það óneitanlega til alvarlegrar athugunar að breyta l., og um það mun þetta þing væntanlega fjalla.

Hv. þm. hafði það eftir yfirlækninum á Kleppi, að hann hefði talið geðsjúklinga bezt geymda í moldarkofum. Ég hygg, að ekki þurfi mörg orð til að benda á það, að hér hljóti ummæli yfirlæknisins að vera meira en lítið úr lagi færð, og er í raun og veru nóg að benda á þetta sem sönnun þess, að varlega ber að taka önnur ummæli hv. þm., sem hann hefur eftir öðrum embættismönnum, þegar hann hefur þannig eftir sjálfum yfirlækninum á Kleppi. Varðandi hitt, að landlæknirinn hafi talið drykkjusjúklinga bezt geymda í kjallaranum í Reykjavík, lögreglustöðinni í Reykjavík og á Arnarhóli, er það sama að segja.

Gildandi lög um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra voru sett að forgöngu landlæknisins og samin af honum í samráði við ráðherra hans og að nokkru leyti í samráði við bæjaryfirvöldin í Reykjavík. Í þeim lögum er einmitt gert ráð fyrir því, að tekinn sé upp sá háttur að hætta að færa ölvaða menn í kjallarann í Reykjavík, heldur skuli komið upp sjúkrahúsdeild, þangað sem þessir sjúklingar skuli færðir, þannig að þeir fái læknismeðferð. Á þessu geta allir menn séð, hversu dæmalaus þau ummæli hv. þm. eru, sem hann hefur eftir landlækninum í þessu sambandi. Hitt er ekki sök heilbrigðisstjórnarinnar, að þessi sjúkrahúsdeild hefur ekki enn komizt upp, því að það átti að vera verk bæjaryfirvaldanna eða sveitarfélaganna að koma henni upp.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um málið í tilefni af þeim ræðum, sem fluttar hafa verið. Ég fagna mjög þeim ummælum hæstv. heilbrmrh., sem hann lét í ljós og báru vott um það, að hann hefur ríkan skilning á því, um hvílíkt nauðsynjamál hér er að ræða. Ég fagna einnig þeim ummælum, sem fram komu í ræðu hv. þm. Barð. (GíslJ) og báru vott um það, að hann hefur nú enn sem fyrr ríkan skilning á því, að hér er um hið brýnasta vandamál að ræða. Ég tek það því ekki svo hátíðlega, þó að hv. þm. reyni að gera þetta mál, eins og svo mörg önnur, að einhverju leyti að flokkspólitísku deilumáli. Ég legg minna upp úr því en hinu, sem kom ótvírætt fram í ræðu hans, að hann hefur skilning á því, að hér er um vandamál að ræða, sem krefst brýnnar úrlausnar, og ég vildi eindregið vænta þess, að það takist um það góð samvinna nú á þessu þingi að hrinda málinu í framkvæmd, þannig að sá smánarblettur verði þveginn af íslenzku þjóðfélagi, að kjallarinn í lögreglustöðinni í Reykjavík sé í raun og veru eina drykkjumannahælið, sem íslenzka ríkið á.