07.12.1953
Neðri deild: 35. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Frsm. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er ekkert misræmi milli þeirra talna, sem hæstv. viðskmrh. og ég höfum nefnt um þessi efni. Þær eru hvorar tveggja algerlega réttar. Því miður er ekki komið handrit að ræðu minni frá þingskrifurum, en það er alveg tvímælalaust, að ég marggat þess í ræðu minni, að mínar tölur væru um gjaldeyrissöluna. Hið sama kemur fram í nál. mínu, en þar segir svo einmitt um þetta efni, með leyfi hæstv. forseta:

„Á tíu fyrstu mánuðum þessa árs nam gjaldeyrissala til kaupa á frílistavörum aðeins 40.6% af allri gjaldeyrissölunni, 12.3% var fyrir bátagjaldeyrisvörum, 31.5% fyrir vörum, sem háðar eru almennum leyfisveitingum, og 15.6% fyrir öðru en vöruinnflutningi.“

Það er því alveg tvímælalaust, að orð mín um þetta efni hefur ekki verið hægt að misskilja. Og þess vegna eru allar þær tölur, sem ég hef nefnt, fullkomlega réttar. Hitt er auðvitað nákvæmlega jafnrétt, að ef tekinn er vöruinnflutningurinn einn og reiknuð út hlutdeild frílistans, þ.e.a.s. öðru en vöruinnflutningi sleppt, og stærstu liðirnir þar eru ferðakostnaður, námskostnaður og flutningsgjöld, — ef því er sleppt og frílistinn reiknaður af vöruinnflutningnum einum, þá verður sú prósenttala náttúrlega eilítið hærri og sömuleiðis prósenttala bátalistans og leyfisveitingalistans. En þetta skakkar ekki miklu. Enn þurfa þó að taka alveg skýrt fram og gera sér alveg ljósa grein fyrir því, hvort menn eiga við prósentur af heildargjaldeyrissölunni eða hvort menn eiga við prósentur af heildarinnflutningnum, — svo að tölur okkar beggja hæstv. viðskmrh. eru algerlega réttar.

Í frásögn af upplýsingum mínum í tveimur blöðum, sem ég man eftir að sagt hefur verið frá þeim í, blaði míns flokks og blaði hv. Framsfl., var skýrt þannig frá tölum mínum, eins og ég sagði þær, þ.e., að átt hefði verið við gjaldeyrissöluna, svo að það fer ekkert á milli mála, að það tók ég skýrt fram í ræðu minni.