12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í D-deild Alþingistíðinda. (3172)

116. mál, efnahagskreppa

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég vona, að mér takist að kveikja í hæstv. ríkisstj. Ég vona, að hæstv. ríkisstj. lifni dálítið við, þegar kemur að þessu frv. Þetta er mál, sem hún kannast máske dálítið betur við en það mál, sem við ætluðum að fara að ræða áðan og hún hindraði þá.

Þessi þáltill. á þskj. 229 fjallar um það, að skipuð sé nefnd til þess að athuga ráðstafanir til varnar utanaðkomandi efnahagskreppu. Ég býst við, að ég þurfi ekki að lýsa því, hvað efnahagskreppa sé, fyrir hv. þm., a. m. k. þeir eldri af þeim muna nokkurn veginn eftir kreppunni 1930 og hvað hún þýddi fyrir Ísland þá og hvað viðkvæmt okkar land er fyrir slíkum efnahagskreppum eins og þá dundi yfir. Það eru öll sólarmerki, sem benda á, að það sé í uppsiglingu samsvarandi kreppa nú í Bandaríkjunum, og ég býst við, að sérstaklega hæstv. ríkisstj. kippist við, þegar minnt er á þau. Þar er slík kreppa að byrja. Sjálfir hagfræðingar Bandaríkjanna, sem flestir eru þá ekki upp á allt of marga fiska, hafa þegar slegið því föstu, að það sé byrjað það, sem þeir kalla afturkipp, þegar þeir eru hræddir við að nota orðið kreppu, því að þeir óttast kreppu meira en styrjöld og reyna þess vegna venjulega að beita orðum, sem eru ekki alveg eins viðkvæm og tala ekki eins hræðilegu máli til fjöldans, sem enn man eftir kreppunni, sem geisaði yfir Bandaríkin 1930 og árin þar á eftir. Þá flosnuðu yfir 12 millj. bænda upp í Bandaríkjunum, þá urðu yfir 20 millj. verkamanna atvinnulausir í Bandaríkjunum og skelfingarnar frá þeim tíma eru enn þá í minnum manna. Þess vegna óttast menn sjálft orðið kreppu og reyna meira að segja að loka augunum fyrir því þar vestra, þegar hún er að dynja yfir. Þó hafa hagfræðingar Bandaríkjanna, sem reyna að sýna fram á, að kreppa sé ekki í aðsigi, slegið því föstu, að framleiðslan í Bandaríkjunum muni minnka á þessu yfirstandandi ári, og engir af þeim hagfræðingum, sem komu saman þar á hagfræðingaþingi nýlega, álita, að sú minnkun mundi verða um minna en 5%, en margir sögðu, að hún mundi verða mun meiri en það. Associated Press, fréttahringurinn ameríski, hefur í sínum fréttum látið út ganga, að það megi búast við allmiklu meiri afturkipp í Bandaríkjunum en þeim.

Vestur-Evrópuþjóðirnar líta nú þegar mjög kvíðnar til þess fyrirbrigðis, sem er að hefjast þar í Bandaríkjunum. Þær sjá, að svo framarlega sem framleiðsla Bandaríkjanna minnkar um meira en 5%, jafnvel þó að það yrði nú ekki 15%, eins og margir álíta, þá muni það þýða, að því meira sem markaðurinn hrynur innanlands því meira herði þeir á útflutningnum, því skarpari verði sóknin frá hálfu ameríska auðvaldsins til þess að reyna að brjótast inn í markaði annarra landa. Því meira sem kreppan harðnar heima fyrir í Bandaríkjunum, því harðvítugri verði samkeppnin á öðrum mörkuðum og því erfiðara verði þess vegna fyrir þá sem eru keppinautar Bandaríkjanna, að standast þar. Sérstaklega hefur þess orðið vart í Bretlandi og Frakklandi, að menn óttast þar slíka kreppu, ekki aðeins að Bandaríkin og samkeppnin frá þeim komi þarna til með að harðna, heldur líka þeir gömlu keppinautar Englands eins og Þýzkaland og Japan komi til með að verða ákaflega tilfinnanlegir keppinautar, þegar út í vægðarlausa baráttu auðvaldsríkjanna á milli um minnkandi markað sé komið.

Hver forustumaður þjóðar, sem eitthvað hugsar um, hvað í vændum sé í efnahagsmálum, hefur gert að umræðuefni þessa yfirvofandi kreppu.

Forsætisráðherra Danmerkur, Hans Hedtoft, sagði í nýársboðskap sínum í vetur, að hann óttaðist, að kreppan frá 1930 endurtæki sig, og hann benti um leið á það, að Danmörk hefði verið knúin til þess að opna sinn litla markað ekki aðeins fyrir heilbrigðri samkeppni, heldur líka fyrir „dumping“, og það er alveg vitanlegt, hvað forsætisráðherra Danmerkur átti við. Hann átti við þá viðskiptaþvingun, sem Bandaríkin beita þau lönd, sem þau hafa náð tökum á.

Butler fjármálaráðherra Bretlands var nú nýlega að ljúka við ræðu, þar sem hann gerði grein fyrir þeim afturkipp, eins og hann orðaði það, sem búast mætti við í Bandaríkjunum og Bretar þyrftu að búa sig undir að mæta.

Svíar og þeirra efnahagsstofnun hefur nú þegar slegið því föstu, hver hætta sé á ferðum viðvíkjandi kreppu, og gert sínar ráðstafanir í þessu sambandi.

M. ö. o.: Það er ekkert spursmál um það, að efnahagskreppa er í uppsiglingu. Þeir, sem vilja loka augunum fyrir slíku, fara að eins og strúturinn, stinga höfðinu í sandinn, eða þá að þeir vilja láta kreppuna dynja yfir okkar land.

Afstaða Íslands gagnvart kreppu í auðvaldsheiminum er sú, að okkar land er svo að segja næmast allra landa fyrir kreppu, vegna þess að við eigum meira undir útflutningi en nokkur önnur þjóð í veröldinni. Hér mundi nú vera byrjuð kreppa, svo framarlega sem ríkisstj. hefði ekki á síðasta ári gert sína stóru viðskiptasamninga við Sovétríkin. Hér mundi nú þegar vera byrjuð mjög tilfinnanleg kreppa, sem hefði komið í ljós í minnkandi freðfisksframleiðslu og minnkandi útgerð, svo framarlega sem þeir samningar hefðu ekki verið gerðir. Það, sem hefur dregið úr því enn þá, að afleiðingar þeirrar kreppu, sem er að skella á í Bandaríkjunum, dyndu yfir okkar land, er þess vegna það, að við höfum leitað í austurveg um okkar viðskipti og tekizt að nokkru leyti að bjarga okkur í svipinn með því.

Nú mundi ég vilja spyrja hæstv. ríkisstj., ef hún þá gæti fengið málið, eins og hún fékk áðan: Hvað er það, sem hæstv. ríkisstj. hefur í undirbúningi í þessum efnum? Er það rétt, og er það satt, að Bandaríkin hafi nú þegar bannað ríkisstj. að halda áfram viðskiptasamningunum við Sovétríkin? Er það rétt, að það sé nú þegar í undirbúningi af hálfu ríkisstj. að eyðileggja þá viðskiptasamninga? Er það rétt, að sú togarastöðvun, sem ríkisstj. er nú að framkalla á Íslandi með sínu aðgerðaleysi í þessum málum, sé liður í því að gera ómögulegt fyrir Íslendinga að framleiða eins mikinn freðfisk og þeir geta selt? Er þarna ein samanhangandi keðja af skemmdarverkum, sem verið er að vinna gagnvart okkar atvinnulífi? Það er greinilegt, að sú togarastöðvun, sem ríkisstj. nú er að skipuleggja, kemur til með að grafa grunninn undan okkar efnahagslífi. Það er farið að tala um það nú þegar að selja togarana úr landi. Það er farið að tala um það nú þegar að binda í allt sumar svo og svo mikið af þeim. Það er m. ö. o. alveg greinilegt, að það er verið að undirbúa slík skemmdarverk gagnvart íslenzku atvinnulífi, að önnur eins hafa aldrei verið unnin. Á sama tíma eru málgögn, sem ríkisstj. stendur á bak við, að tala um það, að Íslendingar þurfi að fara að koma upp íslenzkum her. Seinast í dag eru þau málgögn, sem skyldust eru Sjálfstfl. og gefin út suður á Keflavíkurflugvelli, að impra á því sem einni aðallausninni í málunum, sem hér eru fram undan. Á sama tíma sem á að hlaupa frá öllu hér á Alþingi, þannig að togarastöðvun dynji yfir, á að herða á undirbúningnum undir myndun íslenzks hers.

Ég held, að það, sem er að gerast í okkar efnahagslífi nú, sé undirbúningur undir að svipta okkur því efnahagslega sjálfstæði, sem var lagður grundvöllur að á árum nýsköpunarstjórnarinnar, með togarakaupunum, með vélbátakaupunum og með því að efla sjávarútveginn eins mikið og þá var gert. Það er sá grundvöllur, sem Ísland hefur byggt þá tiltölulega góðu lífsafkomu á, sem verið hefur hér síðustu 10 árin, og það er sá grundvöllur, sem sterkastur er undir okkar efnahagslega sjálfstæði, og þennan grundvöll er nú verið að undirbúa að eyðileggja. Ef við eigum að vera sjálfstæð þjóð, þá verðum við að geta verið efnahagslega sjálfstæð. Ef við eigum að vera efnahagslega sjálfstæð þjóð, þá verðum við að lifa af því að reka okkar eigin atvinnuvegi, þá verðum við að lifa af því að reka okkar sjávarútveg og okkar landbúnað og okkar iðnað, en ekki af því að útbúa hernaðarmannvirki fyrir erlendar þjóðir. Ef við eigum að geta haldið uppi eðlilegu íslenzku atvinnulífi, þá þurfum við þess vegna ekki aðeins að halda okkar framleiðslutækjum gangandi og sjá um, að þau afkastamestu þeirra séu notuð til fulls, heldur þurfum við líka um leið að tryggja, að við höldum þeim mörkuðum, sem við erum búnir að vinna, og aukum þá. Nú hefur það verið þannig undanfarið, að það hefur ekki verið hægt að uppfylla einu sinni þær óskir, sem fram hafa komið um að fá fisk frá þessu landi, og á sama tíma er verið að leggja togurunum, á sama tíma er verið að reka fleira og fleira fólk suður á Keflavíkurflugvöll. Þetta er á sama tíma sem við sjáum efnahagskreppu vera í uppsiglingu í Bandaríkjunum og við þess vegna þurfum að verða sem allra óháðastir Bandaríkjunum efnahagslega. Það er vitanlegt, að okkar viðskiptajöfnuður við Bandaríkin var þannig á síðasta ári, að það skakkaði yfir 100 millj. kr., sem við keyptum meira þaðan en það, sem við gátum selt þangað. Og Bandaríkin koma til með að leggja enn þá meiri áherzlu á það á þessu ári heldur en þau gerðu á því síðasta að selja vörur án þess að kaupa í staðinn. Við þurfum þess vegna að reyna að skipuleggja okkar viðskipti þannig, að við sogumst ekki inn í þá efnahagskreppu, sem þar er í uppsiglingu.

Hvað hafa þjóðirnar í Vestur-Evrópu gert til þess að reyna að búa sig undir að mæta þeirri efnahagskreppu, sem þær sjá að er í uppsiglingu í Bandaríkjunum og þær vilja forðast eins og pestina? Þjóðirnar í Vestur-Evrópu hafa verið í óða önn hver á fætur annarri að taka upp viðskiptasambönd við sósíalistísku löndin, hafa verið að auka stórkostlega sölu sína þangað og kaup sín þaðan. Bretland er nú að smíða togara fyrir Sovétríkin, á sama tíma sem menn hér á Íslandi eru að tala um að fara að selja okkar nýsköpunartogara. Það er þess vegna alveg auðséð, að það ráð, sem Vesturevrópuþjóðirnar finna, er að reyna að tryggja sér þá markaði, sem þær vita að engin kreppa kemur við. Í sósíalistískum þjóðfélögum er engin hætta á kreppu, kreppa er þar ekki til. Kreppa er aðeins kapítalistískt fyrirbrigði. Þær kapítalistísku þjóðir Vestur-Evrópu vita þetta, og þær framkvæma þess vegna þá pólitík, sem þær nú eru byrjaðar á, að afla sér markaða og koma á viðskiptum við sósíalistísku löndin. Það var sú leið, sem Ísland fór 1944–46, þegar viðskiptin við þau lönd voru opnuð af nýsköpunarstjórninni. Það var sú leið, sem lokuð var, eftir að Marshall-pólitíkin byrjaði hér heima. Það var sú leið, sem opnuð var aftur á síðasta ári og nú á auðsjáanlega að fara að reyna að loka á ný til þess að gera okkur eingöngu háða Bandaríkjunum og kreppunni sem þar er í uppsiglingu.

Ég álit, að hvaða skoðun sem við annars höfum á stjórnmálum og sósíalisma og kapítalisma, þá beri okkur að reyna að finna ráðstafanir til þess að firra Ísland þeirri kreppu, sem yfir vofir frá Bandaríkjunum. Ég álít, að við ættum að reyna að sameina okkar krafta um það að finna aðferðir, sem gætu tryggt Íslandi, að það losnaði við slíka kreppu. Einu möguleikarnir eru að mínu áliti þeir að auka okkar viðskipti við Evrópu, við Vestur-Evrópu og við Austur-Evrópu, við þau lönd, sem ýmist sjálf þekkja ekki neina kreppu, eða þau lönd, sem í vaxandi mæli eru að fara inn á þá braut að efla viðskipti við sósíalistísku löndin.

Þessi till. fjallar þess vegna um, að ríkisstj. skipi nú eftir tillögum Alþingis 7 manna nefnd til þess í fyrsta lagi að rannsaka þá fyrirboða, sem nú þegar verður vart í efnahagslífi Bandaríkjanna og fleiri auðvaldslanda um, að kreppa sé þar að hefjast, og í öðru lagi gera till. til ríkisstj. og Alþingis um, hvaða ráðstafanir skuli gera í efnahagsmálum Íslands. Till. fjallar um, að af þessum 7 mönnum skuli 5 tilnefndir af þingflokkunum, einn af hverjum, en 2 skuli útnefndir af ríkisstj. án tilnefningar. Ríkisstj. mundi þá eiga meiri hl. í þessari nefnd. Hins vegar álit ég, að allar skoðanir flokkanna þurfi að komast þarna að, til þess að hægt sé að benda á sem flest dæmi og sem flestar leiðir, sem hægt sé að fara til þess að forða Íslandi út úr þeirri hættu, sem yfir vofir. Upprunalega þegar ég flutti þessa till., sem var í desember, hafði ég vonazt eftir, að það mundi vera hægt að ná samkomulagi um afgreiðslu þessarar till. þá þegar í desember, þannig að sú nefnd, sem skipuð væri, gæti starfað í janúar og febrúar og skilað 1. marz, og við það var miðað. Það varð nú ekki, og þá hef ég lagt hér fram brtt. um, að í stað „1. marz“ komi „1. okt.“, þannig að ef þessi nefnd væri skipuð nú, þá ætti hún að skila áliti í haust.

Nú er enginn efi á því, að svona nefnd gæti náttúrlega tekið margt fleira til athugunar en það, sem hérna væri um að ræða. Náttúrlega væri út af fyrir sig hægt að samræma verkefni svona nefndar því verkefni. sem hæstv. ríkisstj. leggur til að önnur 7 manna nefnd sé sett í til þess að athuga viðvíkjandi togaraútgerðinni. Sannleikurinn er, að þessi verkefni fléttast á ýmsan hátt saman, þó að það sé miklu víðtækara mál, sem ég er hérna með, og ég álít nú fyrir mitt leyti, að bezt væri að halda þessu alveg aðgreindu.

Ef þetta mál hefði komið nokkru fyrr til umr. og sýnt hefði verið, að hæstv. ríkisstj. væri dálítið betur viðtalshæf viðvíkjandi málum nú undir þinglokin en hún reyndist vera í síðasta málinu, sem við vorum að ræða, þá hefði ég fyrir mitt leyti lagt til, að þessu máli yrði vísað til allshn. og síðan haldið áfram umr. um það, þegar málið kæmi úr nefnd, og mundi enn sem komið er ekki setja mig upp á móti því, ef slík till. kæmi fram.

En hitt vil ég undirstrika, að ef við ætlum að reyna að byggja upp sjálfstætt þjóðfélag í okkar landi, þá verður það að byggjast á efnahagslegu sjálfstæði. Ef við ætlum að viðhalda okkar efnahagslega sjálfstæði, þá verður það að byggjast á því, að við getum aukið stórkostlega okkar framleiðslu, og það þýðir um leið okkar útflutning, og það þýðir, eins og nú standa sakir, fyrst og fremst okkar sjávarútveg. Það þýðir hins vegar, að við verðum að finna fleiri markaði nú og við verðum að hagnýta betur en við gerum nú þá markaði, sem þegar eru. En við skulum gera okkur ljóst, að það er harðnandi samkeppni um þessa markaði. Það er harðnandi samkeppni af hálfu þeirra landa, sem þegar eru að verða fyrir kreppunni. Það veitir þess vegna ekki af, að allir þeir kraftar, sem við höfum yfir að ráða í þessum efnum, allur sá góði vilji, sem til væri af hálfu þingflokkanna og ríkisstj., væru hagnýttir til þess að reyna að finna ráð í þessum efnum. Þess vegna hef ég lagt til, að þessi nefnd væri þannig skipuð, að allir þingflokkarnir ættu fulltrúa í henni, en ríkisstj. ætti þar samt meiri hl.

Ég þykist nú vita, að hæstv. ríkisstj. vilji ekki sérstaklega mikið með svona mál gera. Hún hefur komið upp alveg sérstakri stofnun í okkar þjóðfélagi, sem á að veita henni ráðleggingar um þessi efni. Og hún virðist treysta manni, sem Bandaríkin hafa sent hingað heim til þess að stjórna okkar efnahagsmálum, manni, sem var sendur hingað með gengislækkunarlögin, þeim manni, sem ef hann hefði að einhverju leyti fengið með þeim ráðum, sem hann hefur beitt, að ráða hér 1944, hefði aldrei lagt í neitt af þeirri nýsköpun, sem þá var lagt í. m. ö. o. látið fram hjá vitandi fara öll þau tækifæri, sem við hagnýttum í stríðslokin til þess að reisa okkar atvinnulíf úr rústum og til þess að opna fyrir Íslandi næga markaði í Evrópu. Ég er ákaflega hræddur um, að ríkisstj. með þeim sterku tengslum, sem tengja hana við auðvald Bandaríkjanna, fari óheillavænlega mikið eftir ráðleggingum þessa manns og líti á það sem einhver vísindi, sem hann boðar í sambandi við efnahagsmálin. Það er það hættulegasta, sem fyrir okkur getur komið, ef Ísland á að sogast inn í þá kreppu, sem nú er að byrja í Bandaríkjunum, ef Ísland á að slitna úr efnahagssambandinu við Evrópu til þess að sogast niður í þá hringiðu, sem þar er að skapast nú. Þess vegna álít ég, að það væri vel farið, ef nú væri hægt að ná samkomulagi um slíka nefndarskipun eins og ég hér hef lagt til, og ég þykist vita, að svo framarlega sem sú nefnd ynni vel, þá sæi hún sömu leiðirnar og þær þjóðir, sem Ísland annars hefur upp á síðkastið haft mest samstarf við í Vestur-Evrópu, hafa séð: að reyna að auka sín viðskipti fyrst og fremst við sósíalistísku löndin í heiminum og því næst við öll þau önnur lönd, þar sem hægt er að skapa nýja markaði.

Ég vildi því leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. sé þessari till. vísað til síðari umr., en þætti bezt, ef hægt væri að sleppa við að senda þetta mál til allshn., en mundi þó ekki setja mig upp á móti því, ef till. kemur fram um það.