10.02.1954
Sameinað þing: 32. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í D-deild Alþingistíðinda. (3178)

120. mál, iðnfyrirtæki

Flm. (Jónas Rafnar):

Herra forseti. Það er alkunnugt, að þróun iðnaðarins hefur verið mjög ör hér á landi síðari árin. Segja má, að hvert iðnaðarfyrirtækið hafi risið upp af öðru á ótrúlega skömmum tíma og eldri fyrirtæki hafi stórum fært út kvíarnar. Þessi tiltölulega nýtilkomni atvinnuvegur okkar Íslendinga hefur notfært sér alla möguleika, eftir því sem fjárhagurinn og aðrar aðstæður hafa frekast leyft. Það getur nú ekki lengur farið á milli mála, að iðnaðurinn er nú orðinn engu síður mikilsverður þáttur í atvinnulífi okkar en sjávarútvegur og landbúnaður, og það þarf ekki annað en að blaða í gegnum hagskýrslurnar og önnur rit, sem gefa upplýsingar um búskaparhætti landsmanna, til þess að sannfærast um hina miklu þýðingu iðnaðarins.

Með ári hverju hefur því fólki fjölgað, sem bæði beinlínis og óbeinlínis hefur lífsuppeldi sitt á einhvern hátt frá iðnaðinum, og gera má hiklaust ráð fyrir því, að iðnaðarþróuninni eigi enn eftir að vaxa ásmegin við nývirkjanir Laxárinnar og Sogsins. Rafvæðing landsins mun halda áfram, og allir vita, hvers konar bylting á öllum sviðum kemur í kjölfar hennar. Segja má, að flestöll meiri háttar iðnaðarfyrirtæki nema ullarverksmiðjur og iðjuver, sem vinna úr sjávarafurðum, séu nú staðsett í Reykjavík. Ég hef t. d. fengið upplýsingar um það, að í Félagi ísl. iðnrekenda eru yfir 120 fyrirtæki í Reykjavík á móti 20 fyrirtækjum utan Reykjavíkur. Iðnrekstur Sambands ísl. samvinnufélaga, sem fer stöðugt vaxandi, er einkum bundinn við Akureyri og Reykjavík og hverfandi annars staðar. Að þessari þróun liggja sjálfsagt margar ástæður og vildi ég aðeins drepa lítils háttar á nokkrar þeirra.

Þá er fyrst að benda á það, að í Reykjavík sjálfri er stærsti markaðurinn fyrir framleiðsluna innanlands. Fyrirtæki í Reykjavík kostar því miklu minna til flutninga en fyrirtæki úti á landi. Í Reykjavík er hægara en víðast hvar annars staðar að ná í þjálfað vinnuafl, og í Rvík eru allar lánastofnanirnar, og þar ættu því að vera mestu möguleikarnir fyrir öflun lánsfjár. Meðan leita þarf til nefnda og ráða um innflutning, hafa fyrirtæki í höfuðstaðnum allt aðra og betri aðstöðu en fyrirtæki úti á landsbyggðinni. Það var ekki lítið fé, sem forstöðumenn fyrirtækja úti á landi vörðu í ferðakostnað, meðan höftin voru hér í algleymingi, og hraðsímtölin við allar nefndirnar í höfuðstaðnum voru einn af hæstu liðunum í rekstrinum, þótt broslegt þyki. Þá má benda á það, að opinber gjöld hafa sennilega verið lægri í Rvík en víðast hvar annars staðar á landinu.

Ég geri nú ráð fyrir því, að flestir liti svo á, að ekki sé hagstætt fyrir þjóðarheildina að einskorða iðnað landsmanna að mestu við Reykjavík og nágrenni, æskilegra sé, að iðnaðarfyrirtækin séu ekki síður staðsett úti á landsbyggðinni, þar sem skilyrði eru fyrir hendi. Það er margt, sem mælir gegn því að sentralisera iðnaðinn, þ. e. a. s. að binda hann við tiltölulega afmörkuð svæði. Í ófriði má búast við meiri eyðileggingu og þar af leiðandi enn meiri skorti, flutningskostnaður landbúnaðarafurða hlýtur að vera meiri og dreifingaraðstaðan öll verri. En það skiptir þó mestu máli í þessu sambandi, að vinnuaflið verður óstöðugra, þar sem iðnaðurinn er ekki fyrir hendi og búast má við atvinnuleysi, a. m. k. yfir vetrarmánuðina, eins og reynslan hefur margoft sýnt okkur. Með dreifingu iðnaðarins verður meira jafnvægi í byggð landsins og jafnari afkoma manna, hvar sem þeir eru búsettir í landinu. Erlendis er sú stefna nú mjög uppi, að það opinbera stuðli beinlínis að því, að ný iðnaðarfyrirtæki rísi upp utan stórborganna. Má í því sambandi benda á ýmsar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið í Englandi nú síðari árin og miða einmitt í þá áttina.

Á undanförnum árum hefur orðið vart við verulegt atvinnuleysi í mörgum kauptúnum og bæjarfélögum, sérstaklega yfir vetrarmánuðina. Norðanlands og austan verður sjór ekki stundaður að vetrinum nema að litlu leytl. Eina leiðin til að fullnægja athafnaþörf fólksins í þessum landshlutum til frambúðar er, að þar rísi upp iðnaður. Með iðnaðinum kemur aukin atvinna og betri lífskjör fyrir fólkið, sem nú býr við erfiðar aðstæður.

Með till. þessari er ætlazt til þess, að ríkisstj. láta athuga sem fyrst, hvað unnt sé að gera til þess að auka iðnað utan höfuðstaðarins, með það fyrir augum að koma í veg fyrir atvinnuleysi og stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Að athugun lokinni verði lagðar fram raunhæfar till. til úrbóta. Ríkisstj. hefur það á stefnuskrá sinni að tryggja landsmönnum sem varanlegasta atvinnu. Tel ég því víst, að till. fái góða afgreiðslu hæstv. ríkisstj., nái hún samþykki Alþingis.

Ég tel ekki ástæðu til þess að ræða hér þær leiðir, sem ef til vill eru færastar til þess að ná þeim tilgangi, sem till. miðar að. Ég vil þó taka það fram, að nauðsynlegt verður að skapa iðnaðinum utan Reykjavíkur fyrst um sinn betri aðstöðu en í Reykjavík. Til þess að það valdi sem minnstri röskun, verður að láta fyrirgreiðsluna fyrst og fremst ná til nýrra iðnaðargreina, svo að þeir. sem leggja út í nýja tegund iðnaðar, kjósi af eigin hvötum að velja verksmiðjunni stað utan höfuðstaðarins, þar sem góð skilyrði eru fyrir hendi. Tillögumenn telja, að fyrirgreiðslan gæti m. a. verið í eftirgreindum atriðum: Skatt- og útsvarsfrelsi fyrstu starfsárin, og í því sambandi má benda á fordæmi frá 1938, þegar útgerðarfyrirtækjum botnvörpuskipa voru veitt skattfríðindi vegna fjárhagsörðugleika þeirra. Stofnlán með hagstæðum kjörum til lengri tíma. Þá kemur til greina fyrirgreiðsla um útvegun dreifingartækja, svo sem bifreiða, fyrirgreiðsla og aðstoð við uppsetningu dreifingarmiðstöðvar í Reykjavík fyrir innlend iðnfyrirtæki til þess að skapa þeim jafnari markaðsaðstöðu. Og svo mætti benda á fyrirgreiðslu um gjaldeyrisyfirfærslu til kaupa á efnivörum og vélum til iðnaðarins. Í þessu sambandi mætti að sjálfsögðu benda á ótalmargt fleira, en ég sé ekki ástæðu til þess að fara nánar út í þetta, þar sem till. sjálf gengur út á athugun, sem að sjálfsögðu mun þá liggja fyrir og þá ástæða til þess að taka afstöðu til málsins.

Ég vil svo óska eftir því, að till. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umræðu og til hv. allshn.