12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í D-deild Alþingistíðinda. (3191)

138. mál, kosningar og kosningaundirbúningur

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst geta þess, að í nál. allshn. Sþ. á þskj. 503 hefur láðst að geta um það, að hv. 2. þm. Skagf. var veikur, þegar nefndin fjallaði um málið, og tók því engan þátt í afgreiðslu þess, þó að hann eigi sæti í nefndinni.

Allshn. hefur athugað þessa till., en hún er um það að skora á ríkisstj. að skipa 5 manna milliþn. eftir tilnefningu þingflokkanna til þess að gera till. um það, hvernig komið verði í veg fyrir misnotkun fjár í kosningum til Alþingis og til bæjar- og sveitarstjórna. Ég skal játa það, að nefndin ræddi ekki mjög mikið um málefni till. eða þann sérstaka tilgang, sem liggur til grundvallar henni. En nefndin fór aftur á móti fljótlega að ræða um það, að ekki væri vanþörf á að athuga víðtækari breytingar á kosningalögunum og enn fremur að það væri nauðsyn að taka kjördæmaskipun landsins til athugunar. Það er kunnugt, að það hafa starfað hér milliþn., sem hafa átt að semja frv. að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland, — ég man nú ekki, hvað þær nefndir eru orðnar margar, en allmargar eru þær, — en lítill árangur hefur af þessu orðið. Ég geri ráð fyrir, að það atriði, sem einna mest hefur strandað á, hafi einmitt verið kjördæmaskipunin, og þess vegna var það, að allshn. fannst rétt, að ef nefnd væri skipuð á annað borð til þess að athuga kosningalögin, annaðhvort í heild sinni eða einhverja þætti þeirra, þá væri henni einnig falið að athuga um kjördæmaskipun landsins, hvernig henni yrði bezt fyrir komið, því að ég hygg, að það verði ekki gott að aðskilja þessi tvö mál algerlega. Ég veit ekki, hvort það geta orðið samdar verulega róttækar breytingar á kosningalögunum út af fyrir sig. ef ekkert er rótað við kjördæmaskipuninni eða stjórnarskránni að því leyti.

Nú er það ekki svo, og það vil ég taka skýrt fram, að mér finnist sjálfum persónulega liggja svo mikið á nýrri stjórnarskrá, því að stjórnarskrá íslenzka lýðveldisins er ákaflega svipuð stjórnarskrám annarra vestrænna lýðræðisþjóða, svo að mér finnst það ekki svo ákaflega nauðsynlegt, nema þá helzt að því er kjördæmaskipunina snertir. En hvað sem er um mitt álit, þá er það orðin almenn skoðun hjá þjóðinni, að það beri að setja nýja stjórnarskrá, og Alþingi hefur orðið fyrir miklu aðkasti út af því að vera ekki búið að því, og ég hef orðið var við það, að ýmsir menn í landinu og jafnvel menn, sem ekki eru beinlínis heimskir, standa í þeirri meiningu, að íslenzka lýðveldið hafi enga stjórnarskrá. Fleiri ríkisstjórnir hafa og lofað endurskoðun á stjórnarskránni. Af þessum ástæðum þótti okkur í allshn. rétt, að þetta erfiðasta atriði stjórnarskrármálsins yrði jafnframt tekið til athugunar í nefnd, sem skipuð væri til þess að endurskoða kosningalögin.

Við höfum því gert brtt. á þskj. 503, í fyrsta lagi um það að binda starf þessarar nefndar eingöngu við kosningar til Alþingis og athugun á kjördæmaskipuninni, en sleppa því, sem upprunalega stóð í till.: „kosningar til bæjar- og sveitarstjórna“. Það er miklu einfaldara mál og mundi mjög fara eftir því, hvernig kosningar til Alþingis yrðu í einstökum atriðum.

Till. allshn. er því sú, eins og sést á þskj. 503, að Alþingi skori á ríkisstjórnina að skipa eftir tilnefningu þingflokkanna 5 manna nefnd til þess að endurskoða lög um kosningar til Alþingis og til þess að athuga og gera till. um kjördæmaskipunina, og fyrirsögn breytist svo samkvæmt því.

Samkvæmt orðalagi till. sjálfrar og brtt. n. er það augljóst, að þar sem lagt er til, að ríkisstj. skipi nefnd samkvæmt tilnefningu þingflokkanna, 5 manna nefnd, þá er átt við það, að hver þingflokkur skipi einn mann í þessa nefnd, og þingflokkarnir eru 5, m. ö. o. minnsti flokkurinn, sem hefur ekki nema 2 menn á þingi, skipar einnig mann í slíka nefnd. Það er auðvitað ekki eftir reglum hlutfallskosninga, en það má þó segja, að þetta fyrirkomulag hefði þann kost, að sem flest sjónarmið kæmu fram og mestar líkur kynnu að vera til þess, að það næðist allsherjar samkomulag um skipun þessara mála, og væri auðvitað gott að komast hjá deilum um þau. Þetta er engin ný uppáfinning hjá flm. þessarar till. né heldur allshn., því að að frumkvæði ríkisstj, var á sínum tíma skipuð 8 manna milliþn. í stjórnarskrármálið, þannig að hver af fjórum flokkum þingsins tilnefndi 2 menn í þá nefnd. Vitanlega skiptir engu máli fyrir flokkana eða a. m. k. mjög litlu máli, hvort þeir verða í meiri hluta eða minni hluta í þessari n. Aðalatriðið er það, hverjum hlutanum, ef nefndin klofnar, meiri hl. þjóðarinnar fylgir að málum. Það, sem jafnvel einn nefndarmaður leggur til, getur vel orðið samþ. af Alþingi. Þessi nefnd hefur ekkert vald, hún hefur bara tillögurétt, og á þessu byggðist það, að ég hygg, þó að við ræddum ekki mjög mikið um þetta í nefndinni, að nefndin gerði enga till. um breytingu á þessu. Ég skal að vísu játa, að það er beinlínis ekki hægt að hafa neitt á móti því, að slík nefnd fremur en aðrar nefndir í þinginu sé kosin beint af þinginu, og þá er skylt að hafa hlutfallskosningu, ef hún er kosin af þinginu.

Mun ég svo ekki hafa fleiri orð um þetta mál. Legg ég fyrir hönd n. til, að brtt. á þskj. 503 verði samþ.