09.12.1953
Efri deild: 31. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í B-deild Alþingistíðinda. (321)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. á þskj. 266, um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála, fjárfestingarmála o.fl., hefur fengið afgreiðslu í Nd. Er það hér til 1. umr. Ég veit nú ekki, hvort það er beinlínis þinglegt að óska eftir því, að 1. umr. verði ekki lengd úr hófi fram, þannig að það mætti takast að koma málinu í n. á þessum fundi, en ég hætti nú eigi að síður á að bera það upp. Ég vil samt sem áður fara nokkrum orðum um frv. eins og það liggur hér fyrir.

Ég geri ráð fyrir því, að hv. dm. hér í Ed. hafi fylgzt nokkuð með umræðunum í Nd., enda hefur einnig verið skrifað töluvert um málið og það sem sagt verið á hvers manns vörum undanfarna daga. Það er í sjálfu sér heldur ekkert undarlegt, því að frv. þetta markar nokkur tímamót og gefur mönnum ýmsar góðar vonir um aukið frelsi í viðskipta- og athafnamálum. Hafa þess vegna margir fagnað flutningi þessa frv. og gera sér þess fulla grein, að það er verið að innleiða aukið frelsi í landinu með því að lögfesta það.

Eins og 1. gr. frv. ber með sér, er ljóst, að möguleiki er á því að gera innflutninginn frjálsan að öllu leyti með reglugerð, sem ríkisstj. gefur út, ef hún treystir sér til að orða hana svo af gjaldeyrislegum ástæðum. Því miður er gjaldeyrisástand þjóðarinnar ekki það gott í dag, að ríkisstj. treysti sér til að ákveða, að innflutningurinn skuli vera að öllu leyti frjáls. En stefna ríkisstj. er að gera verzlunina eins frjálsa og unnt er hverju sinni. En ríkisstj. gerir sér grein fyrir því, að til þess að svo geti orðið, þarf gjaldeyrisforði að vera í landinu og gjaldeyrir það mikill fyrir hendi, að unnt sé að greiða þennan frjálsa innflutning hverju sinni. Ríkisstj. gerir sér grein fyrir því, að það er óhollt og það má ekki eiga sér stað, að innflutningur til landsins verði meiri en svo, að unnt sé að greiða hann af þeim gjaldeyristekjum, sem þjóðin kann að fá eða eignast. En með því að ákveða með 1. gr. frv., að ríkisstj. geti með reglugerð ákveðið hverju sinni, hverjar vörur skuli vera frjálst að flytja inn til landsins, hefur ríkisstj. þetta atriði í hendi sér. Og þeir, sem vilja frjálsan innflutning og telja það æskilegasta formið, geta, um leið og þeir vita um stefnu ríkisstj. í þessum málum, verið ánægðir með, að þetta skuli ákveðast með reglugerð, sem ríkisstj. getur út.

2. gr. frv. er ekki nema eðlileg og sjálfsögð, enda í samræmi við það, sem hefur gilt í lögum og hlýtur ávallt að vera í íslenzkum lögum, sem sé að banna að tollafgreiða vörur, sem ekki eru fluttar til landsins samkvæmt leyfum, eða á óleyfilegan hátt.

3. gr. frv. er um, að Landsbanki Íslands og Útvegsbanki íslands h/f hafi einkarétt til þess að verzla með erlendan gjaldeyri, og er það einnig í samræmi við það, sem hefur gilt.

4. gr. er um það, sem einnig hefur áður gilt, að útflytjendum og öðrum hérlendum aðilum sé skylt að selja Landsbanka Íslands eða Útvegsbanka Íslands þann gjaldeyri, sem þeir kunna að eignast.

Þá er það 5. gr., sem gerir ráð fyrir því, að stofnuð verði innflutningsskrifstofa og að innflutningsskrifstofunni veiti forstöðu 2 menn, sem ráða starfsfólk til skrifstofunnar og gera kostnaðaráætlun í sambandi við hana og leiti að því leyti samþykkis ríkisstj. Innflutningsskrifstofan má segja að komi í staðinn fyrir fjárhagsráð. Og þar sem fimm menn hafa áður stjórnað fjárhagsráði, er ætlazt til, að nú verði aðeins 2 menn, sem stjórna starfsemi innflutningsskrifstofunnar, og er það í samræmi við minnkandi verkefni frá því, sem verið hefur, að ætlazt er til, að 2 menn leysi nú af hendi það, sem 5 menn hafa áður verið önnum kafnir að starfa við, sem sagt fjárhagsráðsmennirnir. Það er enginn vafi á því, að með þessu breytta fyrirkomulagi sparast starfsfólk og húsnæði og öll framkvæmd þessara mála verður mun einfaldari en hún hefur áður verið vegna minnkandi skriffinnsku, og má þess vegna reikna með því, að þessi framkvæmd verði mun vinsælli en áður hefur verið, ekki sízt vegna þess, að með auknu frelsi verður mun fámennari hópur, sem þarf að leita til þessara manna, heldur en áður var, meðan fjárhagsráð var og hét og ekkert mátti gera í þessu landi nema að fengnu leyfi fjárhagsráðs. Það er enginn vafi á því, að þessi breyting hefur í för með sér það að gera alla þessa framkvæmd mun vinsælli og einfaldari, og almenningur í landinu mun finna það, að losað hefur verið á hafta- og skrifstofubákninu, sem hefur gert mörgum áður erfitt fyrir.

Samkvæmt 6. gr. taka forstöðumenn innflutningsskrifstofunnar sameiginlegar ákvarðanir samkvæmt þessum lögum, og hefur hvor þeirra rétt til þess að vísa ágreiningi um meiri háttar mál til ríkisstj. Þetta er eðlilegt ákvæði. Ef þessir 2 menn koma sér ekki saman um meiri háttar mál, þá er það vitanlega eðlilegt, að slíkur ágreiningur komi til ríkisstj. til úrskurðar.

Samkvæmt 7. gr. fara forstöðumenn innflutningsskrifstofunnar, að fengnum till. verðgæzlustjóra, með verðlagsákvarðanir samkvæmt l. nr. 35 26. maí 1950, um verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdóm. Verðgæzlustjóri skal annast birtingu verðlagsákvarðana og aðra afgreiðslu verðlagsmála. Undanfarið hafa verðlagsákvarðanir verið í fjárhagsráði, þannig að 3 menn hafa haft fast starf í fjárhagsráði við verðlagsákvarðanir, en verðgæzlan hefur svo verið annars staðar, og hefur því verðlagsákvörðun og verðgæzla verið í tvennu lagi. Með því að sameina þetta mun sparast töluverður kostnaður og fást betra samræmi í þetta en áður hefur verið með því að láta tvær stofnanir fjalla um þessi mál.

8. gr. frv. kveður svo á, að frjálst skuli vera að byggja ábúðarhús,þar sem hver íbúð ásamt tilheyrandi geymslu, þvottahúsi og þess háttar er allt að 520 m3, svo og peningshús, heyhlöður, verbúðir og veiðarfærageymslur. Enn fremur eru undanþegnar fjárfestingarleyfum framkvæmdir, sem kosta samtals allt að 40 þús. kr. M.ö.o.: Þessi grein léttir fjárfestingunni af öllum einstaklingum. Allt, sem snertir almenning í landinu, er raunverulega getið frjálst hvað byggingarmálin snertir, því að 520 m3 íbúð er ekki nein smáibúð, og þótt finnast megi menn, sem vilja byggja stærra, þá má fullyrða, að þeir eru tiltölulega fáir, sem kæra sig um stærri íbúð en hér er um að ræða, því að það er hvorki meira né minna en 7 herbergja íbúð með tilheyrandi þvottahúsi og geymslu, sem rúmast innan þessarar stærðar. Og það er alveg óþarft að tala um húsnæðisvandræði, ef almenningur í landinu telur heppilegt að byggja stærri íbúðir eða búa yfirleitt í stærri íbúðum. Það er mikil breyting, sem á verður samkv. þessari grein, miðað við það, sem áður hefur gilt, þegar ekkert hefur sem sagt mátt gera eða framkvæma án leyfis.

Ég býst nú við, að einhver segi sem svo: Ja, það hefur nú verið sama sem frjálst undanfarið að byggja bæði smáíbúðir og peningshús í sveitum. — Og rétt er það hvað snertir peningshús í sveitum, að þá hafa menn undantekningarlítið fengið leyfin, en þeir hafa eigi að síður orðið að sækja um leyfin, og þeir hafa orðið að sækja um skömmtunarseðil fyrir byggingarefni, og allt hefur þetta kostað snúninga, skriffinnsku og ýmiss konar vafstur, sem menn munu fagna að losna við í sambandi við þetta. — Hvað smáíbúðirnar snertir, þá er það nú svo, að þær hafa verið bundnar við 340 m3 stærð, og það eru náttúrlega ekki stórbyggingar, og við munum það rifrildi og óþægindi, sem ýmsir áttu í að stríða við fjárhagsráð, þegar þeir vildu hafa port á loftinu, til þess að einhver not mættu verða af því, en þessum mönnum var neitað um það og jafnvel talað um að refsa ýmsum fyrir að hafa port, sem höfðu nú ráðizt í það án leyfis fjárhagsráðs. Þegar allt þetta er athugað og að áður mátti ekki gera við þak á húsi, sem lak, nema með leyfi fjárhagsráðs, og það er borið saman við 8. gr. þessa frv., þá munu menn sjá, að hér er mikil breyting á orðin frá því, sem verið hefur.

Nú mun einhver spyrja: Hvers vegna er verið með þessi takmörk, 520 m3? Hvers vegna var ekki ákveðið, að fárfestingin skyldi vera að öllu leyti frjáls? Það er auðvelt að svara því. ríkisstj. þykir eðlilegt að þreifa sig áfram í þessum efnum og losa á höftunum smátt og smátt og taka sporið ekki stærra hverju sinni heldur en svo, að það megi örugglega ganga áfram og það þurfi ekki til þess að koma, að það þurfi að fara að stiga spor aftur á bak í áttina til hafta og þess háttar, sem við viljum losa þjóðina að öllu leyti við. Það er gert ráð fyrir því, að skömmtun á byggingarefni verði afnumin að öllu leyti, og sparast við það skriffinnska, snúningar og fyrirhöfn, sem einstaklingar hafa átt við að stríða undanfarið, að ógleymdum þeim mikla tíma, sem farið hefur í það að sækja skömmtunarseðla fyrir byggingarefni og bið á biðstofum, enda þótt þeir, sem við afgreiðsluna hafa fengizt, hafi verið allir af vilja gerðir og framkvæmt það eins vel og sanngjarnt var af þeim að heimta undir því fyrirkomulagi, sem þeir bjuggu við. Það felst ekki í þessu nein ásökun á þá menn, sem hafa fengizt við framkvæmdina. Ég geri ráð fyrir því, að þeir hafi unnið það vel og sómasamlega, en sá stakkur, sem þeim var sniðinn til þess að vinna í, var það þröngur, að það hlaut alltaf að verða óvinsælt og tiltölulega erfitt að standa í þeirra sporum.

9. gr. frv. gerir ráð fyrir því, að Framkvæmdabanki Íslands fylgist með fjárfestingu í landinn, og skal bankinn vera ríkisstj. til ráðuneytis um fjárfestingarmál. Skal Framkvæmdabankinn semja áætlun um þjóðartekjurnar, myndun þeirra, skiptingu og notkun. Hlutaðeigandi aðilum skal skylt að veita Framkvæmdabanka Íslands allar upplýsingar, sem hann þarfnast vegna þessa hlutverks. Í öllum menningarlöndum þykir sjálfsagt að semja þjóðhagsreikninga, og þjóðhagsreikningar byggjast m.a. á því, að unnt sé að fylgjast með fjárfestingunni og reikna út, hversu mikið fjármagn þjóðin lætur árlega í fjárfestingu. Þykir eðlilegt, að Framkvæmdabankinn annist þessa starfsemi, svo sem lagt er til í 9. gr. frv.

10. gr. frv. kveður svo á, að starfsmönnum innflutningsskrifstofunnar og öðrum, sem annast framkvæmd þessara l., sé bannað að gefa upp það, sem þeir kanna að frétta, og annað þess konar, nema því aðeins að það sé leyfilegt, og er það eins og áður hefur verið í lögum hér á landi. — Sama máli gegnir um 11. gr. Það er alveg í samræmi við það, sem áður hefur gilt, og þarfnast ekki skýringa.

Þá er það 12. gr. Þar er kveðið svo á, að innflutningsgjald skuli vera 1% af leyfisupphæð, og er það eins og það hefur verið núna undanfarið í framkvæmd. Nú mun einhver vilja spyrja, hvers vegna þetta leyfisgjald sé ekki lækkað, þegar vitað sé, að leyfin muni verða mun færri, sem gefin verði út, og starfsemin dragast mjög mikið saman, fólkinu fækkað og húsnæði minnkað og sem sagt allur kostnaður við þessa starfsemi minnkar. En það er eðlileg skýring á því, að með því að dregið verður úr leyfisveitingum vegna aukins frelsis, þá munu tekjur skrifstofunnar minnka að sama skapi, enda þó2t prósentgjald af leyfunum sé látið vera jafnhátt og það hefur verið áður.

Í 13. gr. er tekið fram, að þar sem talað er um ríkisstj., sé átt við ríkisstj. í heild, en ekki aðeins einn ráðherra. Er það eins og verið hefur áður, að fjárhagsráð hefur heyrt undir ríkisstj. alla, en ekki viðskmrh. Innflutningsskrifstofan mun einnig heyra undir ríkisstj. alla, en ekki aðeins undir viðskmrh.

Þá segir í 14. gr., að ríkisstj. setji reglugerð um nánari ákvæði og framkvæmd l. þessara, og er það í samræmi við það, sem ég minntist á áðan um 1. gr.

15. gr. þarf ekki skýringa við.

Þá eru hér ákvæði til bráðabirgða, og er það í sambandi við niðurgreiðslu á smjörlíki og smjöri. Eru það nú einu vörurnar, sem eru skammtaðar í þessu landi, og er það eingöngu vegna takmörkunar á niðurgreiðslunni.

Ég ætla svo ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. hér við 1. umr. Ég sagði áðan, að það væri ósk mín, að þetta frv. mætti ganga til n. í dag, þar sem ætlazt er til, að það verði að l. núna fyrir jólin. Ég er hins vegar ekki að mælast undan því, að umr. verði um frv., en ef hv. dm. teldu, að þeir gætu með góðri samvizku geymt aðalumr. til 2. umr., þá væri mér þægð í því, aðeins vegna þess, að frv. kæmist þá til n. og athugunar þar, og mundi það flýta fyrir afgreiðslu málsins.

Ég vil svo leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til fjhn.