10.03.1954
Sameinað þing: 39. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í D-deild Alþingistíðinda. (3219)

154. mál, friðunarsvæði fyrir Vestfjörðum

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ásamt hv. þm. V-Ísf. (EirÞ) flyt ég þáltill. á þskj. 395 um stækkun friðunarsvæðis fyrir Vestfjörðum. Efni till. er það, að við skorum á ríkisstj. að breyta 1. gr. reglug. frá 1952 um verndun fiskimiða umhverfis Ísland og förum fram á, að þessi 1. gr. reglug. taki þeirri breytingu, sem nú skal greina:

Að friðunarlínan fyrir Vestfjörðum á svæðinu milli Bjargtanga og Kögurs skuli dregin þannig, að hún liggi 16 sjómílum utar heldur en þeir grunnlínupunktar, sem hún er miðuð við, en það eru grunnlínupunktarnir nr. 43–47 í þessari reglugerð, þó þannig, að aðliggjandi takmarkalínur núverandi friðunarsvæðis að norðan- og sunnanverðu framlengist í beina stefnu, þangað til þær ná hinni nýju línu.

Það er eitt þeirra mála, sem útgerðarmenn og sjómenn á Vestfjörðum eru allir sammála um, að það sé nauðsynlegt að breyta friðunarsvæðinu á þann hátt, sem hér er farið fram á. Síðan reglug. frá 1952 var sett um nýja friðunarlínu umhverfis strendur Íslands, hefur það komið í ljós, að togaraágangur á Vestfjarðamið hefur stórkostlega aukizt. Ástæðan er sú, að við setningu hinnar nýju friðunarlínu lokuðust víðáttumikil flóasvæði, sem voru mjög eftirsótt togaramið áður, einkanlega í Faxaflóa og Breiðafirði, og við þessa útilokun af þeim miðum leituðu erlendir og innlendir togarar og togbátar með meiri þunga en áður á Vestfjarðamiðin. Afleiðingin hefur svo komið í ljós af þessu hvoru tveggja. Menn hafa þótzt merkja, að vegna friðunarinnar hér suðvestanlands hafi aukizt veiðiskapur á grunnmiðum, sprotafiskur sé nú að vaxa upp og aðstaða fyrir bátaútveginn að batna hér, en alveg hefur það gengið þveröfugt þar vestur frá, að við hina auknu ágengni botnvörpuskipanna þar hefur dregið úr aflamagni á vélbátamiðum frá ári til árs, svo að nú getur varla heitið, að löngum og löngum fáist bein úr sjó á Vestfjarða-bátamiðunum. Svo er komið, að útgerðarmennirnir á Vestfjörðum eru nú að fyllast slíku vonleysi, að það er algengt að heyra þá segja: Ja, ef til vill verður þetta seinasta vertíðin, sem við reynum að halda vélbátum úti, ef ekki verður bætt hér um og stækkað friðunarsvæðið fyrir Vestfjörðum. — Með nýju friðunarlínunni gerðist það, að víðast hvar urðu hin hefðbundnu vélbátamið innan við hina nýju línu, og vélbátaútgerðir fékk þar með aukna vernd, en á Vestfjörðum hagar þessu þannig til, að flest gömlu, hefðbundnu bátamiðin koma utan við hina nýju friðunarlínu. Vélbátarnir hafa því engan frið við sinn veiðiskap, ekki einu sinni frið með sín veiðarfæri fyrir togurunum, af því að þeir eru — einkanlega útlendu togararnir — mjög ágengir á þessi lóðamið vélbátanna. Þeir verða því að sækja grynnra en áður, og þar er engan fisk að fá. Togaraskipstjórar hafa sagt mér núna í vetur, að óvenjulega mikil fiskganga hafi komið upp að Vestfjörðum og að í djúpálnum út af Ísafjarðardjúpi hafi verið slík fiskgengd, að þeir muni ekki annað eins, en þar hefur líka verið krökkt af innlendum og erlendum botnvörpuskipum að veiðum, og við þessa margföldu girðingu togveiðiskipanna þarna úti fyrir hefur reynslan orðið sú, að fiskgöngurnar hafa ekki komið upp á bátasmíðin og vélbátaflotinn vestfirzki búið við sömu ördeyðuna og undanfarna vetur, nema hvað aflaleysið hefur verið öllu átakanlegra nú en nokkru sinni fyrr.

Allir Vestfirðingar, sem um sjávarútveg hugsa, og það gera þeir flestir af skiljanlegum ástæðum, telja hér horfa til landauðnar. Fundir hafa gert ályktanir um þetta, t. d. gerði seinasti þing- og héraðsmálafundur Vestur-Ísfirðinga samþykkt um þessi mál, og endaði sú ályktun á því, að það sé vitað og viðurkennt, að eftir að hin nýja friðunarlína var sett, hafi ágengni botnvörpuskipa stóraukizt fyrir Vestfjörðum.

Nú er spurningin sú: Hefur íslenzka ríkisstj. aðstöðu til þess að verða við þeirri brýnu ósk, sem hér er borin fram? Sem betur fer er það svo, að íslenzk lög gefa íslenzkri ríkisstj. algerlega frjálsar hendur um það að ákveða með reglug., hvernig friðunarlínan sé ákveðin og dregin. Með leyfi hæstv. forseta, vil ég leyfa mér, þessu til skýringar og sönnunar, að lesa 1. gr. l. um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins, en þau h eru nr. 44 frá 5. apríl 1948, og segir svo í 1. gr.:

„Sjútvmrn. skal með reglugerð ákveða takmörk verndarsvæða við strendur landsins innan endimarka landgrunnsins, þar sem allar veiðar skulu háðar íslenzkum reglum og eftirliti, enda verði friðun á landgrunninu á engan hátt rýrð frá því, sem verið hefur. Ráðuneytið skal einnig ákveða allar þær reglur, sem nauðsynlegar eru til verndar fiskimiðunum á ofangreindum svæðum. Ráðstafanir þessar skulu gerðar að fengnum till. Fiskifélags Íslands og atvinnudeildar Háskóla Íslands.“

Af þessu skýra lagaákvæði er það ljóst, að sjútvmrn. hefur hinar fyllstu heimildir, sem með þarf, til þess að ákveða friðunarlínu eins og nauðsynlegt er til verndunar fiskimiðanna, og reynslan sýnir, að það er nauðsynlegt að veita vestfirzku bátamiðunum aukna vernd. Í grg. segir enn fremur, eins og hv. þm. hafa nú heyrt, að friðunarlínuna megi ekki draga þannig, að friðun á landgrunninu verði nokkurs staðar fyrir aukinni rýrð, en það er alveg ljóst, að friðunin á Vestfjarðamiðunum hefur orðið fyrir rýrð. Það er á móti ákvæðum laganna, að Vestfjarðamiðin eru nú að eyðileggjast, og þess vegna verður þar einmitt samkvæmt anda þessara laga og bókstaf að bæta þar úr.

Nú mundi einhver segja: Er það ekki hættulegt að fara að hrófla við þeirri friðunarlínu, sem sett var 1952? Ef þetta verður gert fyrir Vestfirðingana, viðurkennandi þá brýnu nauðsyn, sem þar er fyrir hendi, verður þá ekki borin fram krafa hér og þar í öðrum landshlutum um það sama og þannig allt komið á ringulreið með þessa friðunarlínu? — Ég held, að það sé ekki ástæða til þess að óttast þetta, því að það stendur alveg sérstaklega á fyrir Vestfjörðum. Vélbátamiðin þar eru fyrir utan friðunarlínu. Það er óvíða kringum strendur landsins nema úti fyrir Hornafirði. Þar mun meginhluti af vélbátamiðunum líka vera fyrir utan friðunarlínuna, en þar eru engin eftirsótt togaramið fyrir utan, sem geri það að verkum, að bátarnir hafi engan frið á sínum veiðislóðum utan línunnar. Þeir geta þar stundað sínar veiðar, og þess vegna hafa engar óskir komið frá þeim um það, að línan verði þar færð út þeim til verndar. En aftur eru einhver beztu togaramið í heimi úti fyrir Vestfjörðum, og það er það, sem gerir að verkum, að friðunarlínan verður að færast út fyrir bátaveiðisvæðin, svo að þeir hafi þar aðstöðu til að stunda sínar veiðar. Halamiðin eru 50 sjómílur undan landi á Vestfjörðum, en hér er farið fram á, að friðunarlínan verði dregin 16 sjómílur frá andnesjunum.

Það verður því ekki hægt að segja, að með þessari breytingu, sem hér er farið fram á, sé höggvið nærri hagsmunum togaraútgerðarinnar. Þeir hafa sín Halamið óskert og aðganginn að þeim, en er aðeins bægt frá meginhlutanum af vélbátamiðunum. Þó ná vélbátamiðin enn þá lengra út en hér er um að ræða. Það er algengt, að bátarnir af Vestfjörðum rói 20–25, jafnvel upp í 30 mílur undan yztu nesjum. En með 16 sjómílna friðun væri þó meginþorrinn af miðum þeirra kominn inn fyrir línu og nyti þannig þeirrar verndar, sem virðist hér suðvestanlands þegar vera farin að bera árangur. Menn hafa því trú á, að þetta sé leiðin til þess að bjarga vélbátaútgerðinni vestur frá frá eyðingu.

Það hefur verið svo, og það mun verða svo um langan aldur, að Vestfirðingar þurfa að byggja sína lífsafkomu að miklu leyti á vélbátaútgerð, því að á landi verða þeir að lifa á fiskiðnaði fyrst og fremst, og það er og verður vélbátaútvegurinn, sem verður að útvega gott, fyrsta flokks hráefni til vinnslu fyrir fiskiðnaðarstöðvarnar. Hitt skal játað, að Vestfirðingar hafa líka góða aðstöðu til þess að notfæra sér afla af togurum og afli þeirra getur þar fremur en annars staðar verið nothæft hráefni fyrir fiskiðnað, af því að hann getur borizt þar nýrri að landi en annars staðar. En þarna verður þó þetta þrennt að haldast í hendur, vélbátaútgerð og togaraútgerð, og fiskiðnaðurinn á aðallega að byggjast á þeirri síðarnefndu.

Ég er alveg sannfærður um það, að hv. alþm. fallast á, að hér er borið fram nauðsynjamál undirstöðuatvinnuveganna á Vestfjörðum og að það er verið að fara fram á, að þeir fái réttan hlut sinn í samræmi við fengna reynslu. Það hefur ekki verið hlaupið af stað með þetta mál fyrr en reynslan var búin að tala — tala skýru máli.

Með hinni nýju friðunarlínu frá 1952 færðist friðunarlínan fyrir Vestfjarðasvæðinu aðeins út um eina kvartmílu, með nokkrum óverulegum undantekningum, þar sem gamla línan vék ofur lítið inn í Djúpkjaftinn, en aðallega og nálega eingöngu um eina kvartmílu. En víðs vegar annars staðar á landinu friðaði hin nýja lína mjög víðáttumikil veiðisvæði á grunnmiðum. Hitt er alveg rétt, að með þessu þarf að víkja frá hinni algildu reglu um, að friðunarlínan sé dregin fjórar mílur undan yztu nesjum.

Ég tel ástæðulaust að fjölyrða frekar um þetta mál. Með þáltill. okkar hv. þm. V-Ísf. fylgir uppdráttur, sem gerður var af kortagerðardeild vitamálaskrifstofunnar, og er þar ljóslega sýnt, hvernig hin nýja lína er hugsuð, og þarf engar útlistanir eða útleggingar um það, hvað fyrir okkur flm. vakir. Hitt verða svo hv. þm. að vega og meta, hvort ekki sé rétt með farið að því er snertir þær upplýsingar, sem gefnar hafa verið hér um erfiðleika vélbátaútgerðarinnar á Vestfjörðum, og að það hefur sífellt snúizt meira og meira á ógæfuhliðina, síðan hin nýja friðunarlína var dregin. Það virðast því liggja fyrir óyggjandi sannanir um það, að hér verði að ráða bót á, annaðhvort með breytingu á friðunarlínunni eða með því að horfast í augu við það, að vélbátaútgerð á Vestfjörðum leggist niður, og þá verður þjóðfélagið að gera ráðstafanir til þess að bæta þarna það stóra ófyllta skarð með því að hjálpa Vestfirðingum til að margfalda sína togaraútgerð. Ef hvorugt þetta verður gert, þá er alveg sýnt, að fólkið getur ekki haldizt við á Vestfjörðum. Þá verður að leggja landshlutann í eyði — og gera það þá heldur á skemmri tíma en lengri, til þess að það kosti ekki allt of miklar hörmungar og þjáningar.

Ég treysti því sem sagt og við flm., að hv. Alþ. samþykki þessa þáltill., og síðan verður að treysta því, að hæstv. ríkisstj. framkvæmi það, sem fram á, er farið: að breyta friðunarlínunni á þessu svæði eins og þar er farið fram á, og er það óyggjandi, að hún hefur til þess hinar fyllstu heimildir í löggjöfinni frá 1948 um vísindalega friðun landgrunnsins. — Ég legg svo til, að umr. verði nú frestað, en till. vísað til hv. allshn.