12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í D-deild Alþingistíðinda. (3240)

169. mál, stækkun þinghúslóðarinnar

Flm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég vona, að hv. þm. séu mér sammála um það, að kominn sé tími til, að Alþ. verði séð fyrir nægilegu lóðarrými fyrir þann húsakost, sem það þarf að nota í framtíðinni. Nú er það svo, að ef ætti að reikna með því lóðarrými, sem Alþ. hefur nú. mundi ekki vera hægt að hafa Alþ. á þeim stað, sem það er nú, því að það húsrými, sem Alþingi nauðsynlega þarf að fá í framtíðinni, getur ekki rúmazt á þeirri lóð, er Alþingi hefur nú yfir að ráða. Alþingishúsið var reist um 1880, og hefur því núverandi þinghús dugað Alþingi um 70 ár. Þegar þetta hús var reist, þá var það byggt af miklum stórhug, eins og þá hagaði til og eftir því sem þá voru fjárhagsástæður, en eins og öllum hv. þm. er kunnugt, eru þessi húsakynni fyrir löngu of lítil orðin. Þingið hefur, ef svo mætti segja, sprengt þau utan af sér. Hér er ekki húsrými fyrir þingið, nema þegar það situr í deildum. Hér er ekki húsrými fyrir nefndir til þess að halda fundi. hér er ekki húsrými fyrir ríkisstjórnina til þess að tala við menn eða ráða ráðum sínum, og hér er ekkert húsrými fyrir þingmenn, ef þeir þurfa að tala við menn. Þetta getur ekki gengið svona til frambúðar, það er öllum ljóst, og að því hlýtur að koma, að auka verður þann húsakost, sem Alþingi nú hefur. En til þess að það verði gert og til þess að til frambúðar verði bætt úr þessum vanda. verður að sjá Alþingi fyrir stærri lóð en það hefur nú.

Eins og kunnugt er, hefur ríkissjóður keypt hér tvær lóðir við þinghúsið, önnur er að vestanverðu við þinghúsið, og hin er að sunnanverðu. Báðar þessar lóðir hafa að sjálfsögðu á sínum tíma verið keyptar með það fyrir augum, að þeim mætti bæta við þinghúslóðina. En það hefur aldrei orðið úr því, að þessar lóðir yrðu lagðar við þinghúslóðina. Önnur lóðin, sem hér er að vestanverðu, er nú notuð fyrir alls konar fundahöld og skemmtanir, og við höfum hér nærtækt dæmi um þá nauðsyn, að hreinsað verði til hér í kringum þinghúsið. Við höfum nærtækt dæmi um það, þegar þm. geta varla hlustað hér á mikilsvarðandi umr. vegna hávaðasamrar auglýsingastarfsemi, sem fer fram í húsinu hér við hliðina á okkur. Þetta er að sjálfsögðu gersamlega óviðunandi, og verður að fást einhver úrbót í þessu máli.

Ég hef hugsað mér, að þinghúsið ætti að fá lóð milli Kirkjustrætis og Vonarstrætis, rétthyrnda lóð, sem að austanverðunni næmi við Templarasund, en að vestanverðunni við lóðamörkin, sem listamannaskálinn stendur á. Með þessu móti mundi þinghúsið fá nægjanlega stóra lóð til þess að fullnægja hverjum þeim húsakosti, sem þingið þyrfti á að halda í framtíðinni. Þinghúsið mundi þar að auki fá stóra og fallega lóð á þeim stað, sem þingið á að sitja til frambúðar. Það á að gera þetta nú. Það á að gera þetta, áður en orðið er of seint að fá þennan lóðarkost, sem ég hef nú nefnt.

Nýlega hafa verið samþykkt l. um þingfararkaup alþm. o. fl. Í 2. gr. þeirra l. er svo ákveðið, að reisa skuli þingmannabústað svo fljótt sem því verður við komið, og skal undirbúningur, svo sem staðarval, uppdráttur o. fl., hafinn nú þegar og honum lokið á árinu 1954. Ég minnist á þetta vegna þess, að ég tel sjálfsagt, að þingmannabústaður verði byggður á lóð þingsins, og ég tel, að þetta megi vel gera, ef ráð er í tíma tekið. Hér á suðvesturhluta þeirrar lóðar, sem ég hef nú nefnt, er að vísu húsbygging í einkaeign. Mér þykir sjálfsagt, að leitazt verði fyrir um kaup á þessari húseign og jafnframt því, sem framkvæmd yrði 2. gr. þeirra l., sem ég nú nefndi, yrði athugað, hvort ekki væri einmitt heppilegt að byggja þingmannabústað í sambandi við þá eign. En að sjálfsögðu þyrfti að gera uppdrátt að lóðinni allri og þeim byggingum, sem í framtíðinni væri fyrirhugað, að á henni risu upp. En ég hygg, að þó að ekki sé hægt að byggja nú fljótlega þær byggingar, sem hér þurfa að rísa vegna starfa þingsins, þá muni vera mjög skynsamlegt að athuga kaup á þessari lóð og e. t. v. að breyta eigninni til bráðabirgða í þingmannabústað. Þingmannabústaðurinn hlýtur, ef vel á að vera, að standa á þinglóðinni, og ég tel, að honum væri mjög vel valinn staður með því, að hann stæði á sunnanverðri lóðinni á móti tjörninni.

Ég vænti þess, að hv. þm. sjái nauðsynina á því, að þetta mál sé ekki látið lengur dragast en orðið er. Í kringum þinghúsið er ekki fallegt um að litast eins og nú standa sakir. Ég þarf ekki að lýsa fyrir þm., hvernig hér lítur út. Ég tel, að það sé þinginu til fullrar vansæmdar, hvernig umhorfs er í kringum þingstað Íslendinga. Ég tel, að úr því eigi að bæta hið allra fyrsta.

Hv. þm. Borgf. hefur borið hér fram brtt. á þskj. 578. (Gripið fram i.) Till. liggur fyrir núna. Þess vegna tel ég rétt að minnast á hana. Með þessari till. vill hann hindra það, að templarahúsið, sem nú er Templarasund 2. verði flutt af lóðinni. Ég tel hins vegar, að það hús eigi ekki að standa lengur á lóðinni en það þegar hefur gert. Ef ég man rétt, var þessi lóð keypt af ríkissjóði 1942, og þá var heimild gefin til þess, að húsið mætti standa á lóðinni til bráðabirgða. Nú hefur það staðið meira en heilan áratug á lóðinni, með því að leyfið hefur verið framlengt frá ári til árs. Ef ég man rétt, var hús og lóð keypt af góðtemplarareglunni, og hún var látin halda húsinu. Nú geri ég ráð fyrir því, að það sé ýmsum erfiðleikum bundið að fá þessar eignir, sem á lóðunum standa nú, fluttar burt af þeim, nema því aðeins að ríkissjóður taki nokkurn þátt í flutningskostnaði eða jafnvel borgi hann að öllu leyti. Þess vegna hef ég hugsað mér að leggja fram skrifl. brtt. sem viðbót við þá till., sem ég hef lagt fram á þskj. 468, en síðasti málsl. orðist svo, með leyfi forseta: „Heimilar Alþ. jafnframt ríkisstj. að verja fé úr ríkissjóði til þess að hreinsa og rækta lóðir þessar og til brottflutnings þeirra húsa, sem á þeim standa nú.“ Ég álit rétt, að ríkisstj. hafi heimild til þess að greiða þennan kostnað, ef hún telur þess þörf, en að sjálfsögðu verður það að vera á hennar mati, að hve miklu leyti hún telur nauðsynlegt að taka þátt í þessum flutningskostnaði.

Vegna þess, hversu skammt er nú þangað til þingi verður slitið, hafði ég hugsað mér að fara að dæmi hæstv. forsrh. og óska þess, að mál þetta sé borið undir atkvæði, án þess að því sé vísað til n. Ég fer ekki fram á það að vísu, ef einhverjir hv. þm. óska þess, að málinu verði vísað til n., en ég vona, að þeir skilji, hvers vegna þetta er gert. Það er gert vegna þess, að ég tel, að sé málinu vísað til n., þá séu ekki mikil líkindi til, að það komi aftur fyrir þingið.