12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í D-deild Alþingistíðinda. (3242)

169. mál, stækkun þinghúslóðarinnar

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Hv. flm. þessarar þáltill. hefur nú gert grein fyrir tilgangi hennar, og ég vil taka undir það með honum, að brýna nauðsyn ber til þess að skapa Alþingi betri starfsskilyrði með auknum og bættum húsakosti og enn fremur að sjá utanbæjarþingmönnum fyrir þingmannabústað. Hvort tveggja er mikil nauðsyn til þess að auðvelda störf Alþingis. Alþingi og ríkissjóður eiga nú lóðir hér í kringum alþingishúsið og eðlilegt, að með tímanum verði þær notaðar sem bezt í þágu Alþingis. Hins vegar tel ég skylt að benda á, að málið er ekki eins auðvelt og einfalt úrlausnar og gæti virzt af till. hv. þm. og ræðu hans. Ég vil benda hér á örfá atriði, sem ég vænti að hv. fjvn. taki til athugunar, áður en málið er endanlega afgreitt, og geri það að till. minni, að málinu verði þangað vísað.

Það, sem till. fer fram á, er í rauninni fyrst og fremst að fjarlægja þrjár byggingar, sem eru hér í grennd alþingishússins. Í fyrsta lagi er það byggingin á Kirkjustræti 12, og má vera að það geti orðið að skaðlitlu, vegna þess að innan skamms verði unnt að koma þeirri starfsemi, sem þar er, fyrir í annarri byggingu. Í öðru lagi er það myndlistarskálinn, sem á að fjarlægja. Sá skáli var nú upphaflega reistur til aðeins fárra ára, en hefur bætt úr mjög brýnni þörf og er í rauninni eini rúmgóði salurinn, sem til er hér til myndlistarsýninga. Þessi skáli er byggður aðeins til bráðabirgða, en meðan hann getur staðið og fullnægt þessu ætlunarverki sínu, þá tel ég sjálfsagt að nota hann, þangað til önnur salarkynni eru komin í staðinn. Hitt tel ég ekki koma til mála, að ætla að víkja listamannaskálanum burt skilorðslaust á þessu ári án þess að sjá fyrir öðrum húsakynnum fyrir myndlistarsýningar. Menn gætu sagt sem svo, að það mætti flytja skálann á aðra lóð, en þar til er því að svara í fyrsta lagi, að það mun allerfitt að finna aðra lóð hér á mjög hentugum stað til að flytja þennan skála á, og í öðru lagi tel ég mjög hæpið, að hann sé flutningshæfur, að hann sé þannig byggður. Þriðja byggingin, sem á svo að fjarlægja, er góðtemplarahúsið. Það er auðvitað líka aðeins tímaspursmál, hvenær það hverfur. Góðtemplarareglan hefur í undirbúningi byggingu templarahúss eða templarahallar og hefur verið úthlutað sérstakri lóð hér í bænum undir þá byggingu. Vitanlega tekur það nokkurn tíma að reisa hana. Fyrst og fremst má segja. að það velti á fjárfestingaryfirvöldunum, hvort slíkt verður leyft. Í öðru lagi er fjármagnið. Ég býst við, að eitthvað muni nú vera til í byggingarsjóði í þessu skyni, en hvað sem því líður, þá liggur það ekki fyrir nú, að á þessu ári verði tilbúið nýtt hús eða ný húsakynni fyrir þá starfsemi góðtemplarareglunnar, sem rekin hefur verið um langan aldur í þessu húsi. Ég tel ekki koma til mála að rífa eða skipa burt þessum aðalsamkomustað góðtemplarareglunnar, án þess að um leið sé hægt að benda á einhver önnur húsakynni eða að reglunni hafi gefizt kostur á því að koma upp sínu eigin húsi.

Nú kunna menn að segja: Það má flytja góðtemplarahúsið á aðra lóð. En þá spyr ég:

Hvar er sú lóð? Hefur Alþingi eða ríkisstjórnin einhverja lóð, sem er í eigu þessara aðila og hægt væri að bjóða góðtemplurum í staðinn, og þá á þeim stað, sem kæmi að verulegu leyti að sama gagni og sá staður, sem þeir hafa nú fyrir sína starfsemi?

Um leið og ég undirstrika þá nauðsyn, sem hv. flm. benti á um bætt starfsskilyrði fyrir Alþingi og þingmannabústað, þá vil ég þó benda á, að það má ekki flana svo að þessu, að hér séu rifin eða rekin burt hús, sem þjóna vissu mikilvægu hlutverki fyrir bæjarfélagið og þjóðfélagið, án þess að séð sé fyrir öðru í staðinn.

Ég vil nú taka undir orð hv. þm. Borgf., að ekki sé aðkallandi nauðsyn að losna við þessar byggingar, og átti hann þó sérstaklega við góðtemplarahúsið. Ég hef ekki og held ekki, að þm. hafi orðið fyrir neinum sérstökum óþægindum eða ónæði af þeirri starfsemi, sem fram fer í góðtemplarahúsinu, svo að ástæða sé af þeim ástæðum til að heimta húsið burt með þetta skömmum fyrirvara.

Ég vil enn fremur nefna eitt atriði. Það kom fram í ræðu hv. flm., að til greina gæti komið að byggja, — ég veit ekki, hvort ég hef skilið hann rétt, — að til greina gæti komið að byggja þar fyrir Alþingi eða sem þingmannabústað, sem góðtemplarahúsið stendur og e. t. v. Vonarstræti 8. Ég vil minna á í því sambandi, að á þeim skipulagsuppdráttum af Reykjavík, sem fyrir liggja, er ekki gert ráð fyrir húsbyggingu sunnan alþingishússins. Og í öðru lagi vil ég benda á það, að ef ráðhús Reykjavíkur yrði staðsett við Vonarstræti, þ. e. a. s. sunnan Vonarstrætis, en allar þær n., sem sérstaklega hafa um þetta fjallað, og sérfræðingar hafa sérstaklega bent á þann stað, þá mundi það rekast á að reisa ráðhúsið sunnan Vonarstrætis og þingmannabústað eða annað í þágu Alþingis norðan Vonarstrætis. Það hvort tveggja gæti ekki samrýmzt, þannig að annað hvort yrði vafalaust að víkja.

Ég taldi nú rétt að benda á þessi atriði hér strax við fyrri umr., en tel þau hins vegar það mikilsverð, að óhjákvæmilegt sé, að þm. athugi þau og gangi úr skugga um, hvaða möguleikar væru til þess að framkvæma þann brottflutning á þeim húsum, sem hér um ræðir, án þess að yrði að verulegu tjóni fyrir þessa starfsemi. Hitt tel ég mjög varhugavert og mun fyrir mitt leyti greiða atkvæði á móti því að samþ. till. óbreytta.