12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í D-deild Alþingistíðinda. (3243)

169. mál, stækkun þinghúslóðarinnar

Flm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Það er sýnilegt, að ef hv. þm. Borgf. og hv. 7. þm. Reykv. mættu ráða, verður seint hreinsað til í kringum alþingishúsið, og heyrist mér á ræðum þeirra, að þeim finnst ekkert liggja á að koma burt þessum skúrum, sem hér eru við lóð þinghússins, til lítillar prýði. Hv. 7. þm. Reykv. minntist á það í lok ræðu sinnar, að e. t. v. ætti að byggja ráðhús hér í nágrenninu og að þar gæti ekki hvort tveggja rúmazt, ráðhúsið og þinghúsið. Ég verð nú að segja, að þó að ég telji sjálfsagt og mikla nauðsyn á því. að byggt verði stórt og fallegt ráðhús hér í Reykjavik. geti það þó ekki komið til mála, að þinghúsið verðið látið víkja af sínum forna stað vegna þess, að hér á að byggja ráðhús. Að sjálfsögðu eru í stórri borg eins og Reykjavík margir staðir, þar sem með góðu móti má reisa ráðhús, þar sem það sómir sér vel, án þess að taka þurfi af þeirri einu lóð, sem Alþingi Íslendinga hefur til umráða, nema menn vilji, að þingið verði flutt af þeim stað, sem það er nú hér, og flutt þá hér eitthvað upp í holt fyrir austan bæ. Á þeim stöðum eru nú helzt lausar lóðir. Ég hygg, að fáir þeirra manna, sem nú sitja á Alþ., gætu hugsað sér, að Alþingi yrði flutt héðan burt eftir nokkur ár, vegna þess að ekkert lóðarrými væri hér til fyrir það. Víst er það, að Alþingi með vaxandi störfum getur ekki haldið áfram að vinna við þau starfsskilyrði, sem það hefur nú og hefur orðið að vinna við í mörg ár. Og ekki er ástæða til að fara í grafgötur um það, að Alþingi verður að fá betri starfsskilyrði og meiri húsakynni en það hefur nú.

Hv. 7. þm. Reykv. taldi, að sjálfsagt væri, að bæði myndlistarskálinn og góðtemplarahúsið fengju að standa um ótakmarkaðan tíma. Ég er mjög á öndverðri skoðun við hann í þessu máli. Það kann vel að vera að þessar bráðabirgðabyggingar þjóni nytsömum tilgangi að einhverju leyti. En það er rangt að halda þessum skúrbyggingum á lóð Alþingis, þó að það glappaskot hafi einu sinni verið gert að leyfa að byggja listamannaskálann við hliðina á Alþingi, sem aldrei skyldi hafa verið leyft. Ég geri ráð fyrir, að þeir menn, sem á sínum tíma voru því fylgjandi, að slík bygging yrði leyfð, hafi mjög séð eftir því að ljá því atkvæði sitt. Eins og ég gat um í minni fyrri ræðu, þurfum við ekki að fara langt til þess að sjá, hvað með þessu hefur verið fært að dyrum Alþ., þegar í skálanum er verið að halda hlutaveltur með slíkum glym, að þm. heyra ekki til þeirra manna, sem eru hér að halda ræður í salnum.

Hv. þm. gat enn fremur um það, að sjá þyrfti góðtemplarareglunni fyrir einhverjum stað til þess að flytja sitt hús á. Ég get ekki séð það. Hvorki ríkisstj.Alþ. ber nokkur skylda til þess að sjá góðtemplarareglunni stað fyrir það hús, sem hér er um að ræða. Lóðin var keypt á sínum tíma með því skilyrði, að húsið yrði flutt burt ríkissjóði og Alþingi að kostnaðarlausu, og ég get þess vegna ekki skilið, að það sé komin nokkur ný kvöð á Alþingi eða ríkissjóð um brottflutning þess og að sjá því fyrir lóð. Kaupin voru gerð með því skilyrði, að húsið yrði flutt í burtu, en því var lofað að standa á lóðinni, eftir að kaupin voru gerð, rétt til bráðabirgða. Síðan eru nú meira en tíu ár.

Ef viðbót sú, sem ég hef lagt fram við mína till., verður þess valdandi, að mönnum þykir, að nauðsynlegt sé að senda till. til n., sökum þess að hér sé um fjárútlát að ræða, þá er ég fús að draga hana til baka og mun þá gera það.

Hv. þm. Borgf. spurði að því, hvort ég álíti, að leggja ætti niður alþingisgarðinn og gera hann að byggingarlóð. Ég minntist aldrei á það í ræðu minni. Það, sem ég sagði, var það, að ég álít, að nú ætti að hreinsa til í kringum alþingishúsið og m. a. að stækka alþingisgarðinn og gera hér fallega lóð í kringum húsið. En það er ekki hægt nema með því móti að fá flutt burt þau hús, sem nú standa á nefndum lóðum. Ég vil láta hreinsa lóðina og rækta hana, þannig að það sé til sóma fyrir þá stofnun sem hér er til húsa.

Ég get ekki verið hv. þm. Borgf. sammála í því, að það sé engin ástæða til að flytja húsið, vegna þess að sjálft Alþ. þurfi varla að byggja svo mikið yfir sig, að það hús verði því Þrándur í Götu. Nei, ég er þeirrar skoðunar líka, að ekki eru líkindi til þess, að Alþ. þurfi fyrst um sinn að byggja svo stórt í viðbót við það hús, sem það hefur, að þetta hús þurfi þess vegna að hverfa. En þessi kumbaldi á að fara af lóðinni vegna þess, að það á að vera annað umhverfi kringum alþingishúsíð heldur en er í dag, því að það er til háðungar.

Ég hefði nú ekki búizt við því, að hv. 7. þm. Reykv. væri á móti því, að góðtemplarahúsið væri flutt, vegna þess að engin lóð væri til undir húsið í bænum. Ég efast ekki um, ef hann leitar vel, að þá mundi hann hafa bæði góðan vilja og fulla getu til þess að sjá þessu húsi fyrir lóð, þar sem það getur staðið til frambúðar og komið að sömu notum og nú. Sama er að segja um listamannaskálann. En þó að þessi hús séu notuð nú í ákveðnum tilgangi, er engin ástæða til að láta þau vera hér við dyrnar á alþingishúsinu til óprýði og skapraunar.