12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í D-deild Alþingistíðinda. (3247)

169. mál, stækkun þinghúslóðarinnar

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég vildi fyrst leiðrétta hér dálítinn misskilning, sem fram kom í ræðu hv. 3. þm. Reykv., flm. till. Ég hafði minnzt á það, að ef það yrði að ráði að reisa ráðhús Reykjavíkurbæjar sunnanvert víð Vonarstræti, í vikinu þar í tjörninni, þá mundu þær fyrirætlanir stangast á hugmyndir um að reisa nýja byggingu, þar sem góðtemplarahúsið eða sú lóð, sem því fylgir, nú er. Það yrði ekki unnt að samrýma það hvort tveggja, annað hvort yrði að víkja. Hann virðist hafa misskilið ummæli mín þannig, að ekki gæti rúmazt hvort tveggja ráðhús á þessum stað og alþingishúsið, það náttúrlega sagði ég ekki og átti ekki við.

Ég vil taka undir það með hæstv. dómsmrh., að það er sanngjarnt að veita hér eðlilegan frest og að sá frestur, sem gert er ráð fyrir í þessari till., er allt of skammur. Ég hef nú ekki orðið þess var, að þinginu væri sérstök nauðsyn búin að losna við þessi hús vegna óþæginda eða ónæðis, og það er í fyrsta skipti sem ég heyri það nú frá hæstv. forseta Ed., þm. Barð., að Ed. hafi stundum orðið að stöðva hávaða í listamannaskálanum, vegna þess að ekki hafi heyrzt til ræðumanna í hv. Ed. Ég hafði nú að vísu haldið, að í Ed. væru það rómsterkir menn og gustmiklir, að þeir létu ekki langsoltna listamenn kveða sig í kútinn, en það má vera, að einhver óþægindi stafi af þessu.

Það, sem ég er aðallega andvígur í þessari till. og öllum undirbúningi þessa máls, eru vinnubrögðin. Ég vil taka það fram, eins og ég gerði í minni fyrri ræðu, að ég tel brýna nauðsyn til þess að stækka þinghúsið eða byggja við það eða byggja hér nýtt hús, hvernig sem það yrði, til þess að bæta vinnuskilyrði Alþingis og alþm., og í öðru lagi tel ég brýna nauðsyn á því að byggja þingmannabústað fyrir utanbæjarþingmenn. Hins vegar verð ég að játa, að mér sýnist standa nokkuð upp á forráðamenn Alþingis og hæstv. ríkisstj. í þessu efni. og mér sýnist satt að segja byrjað hér á öfugum enda, að reka burt þessi hús, sem nú eru, með litlum fyrirvara, án þess að Alþingi sjálft eða ríkisstj. hafi gert einhverjar undirbúningsráðstafanir; því að hvaða undirbúningur hefur farið fram? Er búið að gera teikningar eða áætlanir um nýtt þinghús hér eða viðbyggingu við þetta þinghús? Mér vitanlega er það ekki til. Er búið að gera teikningar eða áætlanir að þingmannabústað? Er búið að gera skipulagsuppdrátt af þessari lóð Alþingis, hvernig á að hagnýta hana, hvar byggingar eiga að standa, hvar eiga að vera opin svæði? Mér vitanlega er enginn undirbúningur í þessa átt. Og mér finnst, að fyrsta skilyrðið til þess að þoka þessum málum áleiðis sé það, að hæstv. ríkisstj. eða forsetar Alþ. láti hefja þennan undirbúning, þannig að það liggi þó ljóst fyrir, hvernig á að hagnýta þessa lóð. Í öðru lagi er mér ekki vitanlegt, að fyrir liggi fjárveitingar til þess að stækka þinghúsið eða reisa þingmannabústað. Það er að vísu gert ráð fyrir því í l., sem nýlega voru afgr. frá Alþ., að undirbúningur sé hafinn að byggingu þingmannabústaðar. Fé er ekki fyrir hendi mér vitanlega. Og ég sannast sagna skil ekki þann mikla áhuga á því að skipa burt þegar á þessu ári þessum húsum, eins og samkomuhúsi góðtemplara og listamannaskálanum, án þess að fyrir liggi teikningar, uppdrættir og áætlanir að þingmannabústað, stækkun þinghússins eða fé til þessara framkvæmda. Mér finnst vera hér byrjað á öfugum enda og fyrst ætti að framkvæma þessar undirbúningsráðstafanir.

Ég tel, að það sé ekki rétt af Alþingi að reka burt fyrirvaralítið þessi hús, án þess að í einhver önnur hús sé að venda með þá starfsemi, sem þar hefur verið rekin. Eins og ég tók fram og hæstv. dómsmrh. minntist á, þá gegnir nokkuð öðru máli um Kirkjustræti 12 hér fyrir vestan alþingishúsið, vegna þess að sú starfsemi, sem þar er, verður væntanlega flutt í ný húsakynni á næstunni, og hæstv. ráðh. taldi þá sjálfsagt að rífa það hús til grunna þegar í stað. Að vísu er nú hér á leiðinni í gegnum þingið frv. til húsaleigulaga, og samkv. því er trúlegt í húsnæðisvandræðunum eins og þau eru, að húsaleigunefnd mundi banna slíkt og taka þetta húsnæði til íbúðar, eins og heimild er veitt til í húsaleigufrv., og gæti það náttúrlega valdið nokkrum örðugleikum um það að rífa húsið tafarlaust.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta. Ég vildi aðeins við þessa fyrri umr. benda á þessi atriði, sem ég hér hef getið, og ég vil endurtaka: Ég tel, að hæstv. ríkisstj. og forsetar Alþingis ættu fyrst að hefja þann undirbúning, sem er nauðsynlegur, láta skipuleggja lóðina, teikna upp þessi hús, sem á að byggja hér, athuga, hvernig þessu verður öllu saman bezt fyrir komið og lóðin bezt hagnýtt og að sjá fyrir fjárhagshliðinni, og þá hefur Alþingi hvenær sem er það í hendi sér að reka burt þessi hús, sem á lóðunum eru.

Ég tel auðvitað sjálfsagt, að um leið og þessum undirbúningi er eitthvað á leið komið, þá sé þessum aðilum settur viss hæfilegur fyrirvari til þess að flytja burt húsin og koma sér fyrir annars staðar. En eins og hér er gert ráð fyrir í till., að húsin séu rekin burt fyrir næstu áramót, en án þess að sá undirbúningur, sem ég gat um, liggi fyrir um hagnýtingu lóðarinnar, þau vinnubrögð get ég ekki fallizt á.