13.04.1954
Sameinað þing: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í D-deild Alþingistíðinda. (3266)

210. mál, framlög til bæjar- og sveitarfélaga

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Sú till. til þál., sem nú hefur verið tekin til umr., frá hv. 7. þm. Reykv. (GTh) og tveim öðrum hv. þm., fjallar um það, að ríkisstj. verði falið að greiða á þessu ári sem mestan hluta af ógoldnum lögboðnum framlögum ríkissjóðs til bæjar- og sveitarfélaga vegna stofnkostnaðar skóla, sjúkrahúsa, íþróttamannvirkja og hafnarframkvæmda. Það felst jafnframt í till., að ríkisstj. sé heimilað að greiða þessar upphæðir af tekjuafgangi ríkissjóðs 1953 og 1954 svo og að taka lán í þessu skyni, ef með þarf.

Samkvæmt þeirri skýrslu, sem flutt var nýlega hér á Alþ. af hæstv. fjmrh., virtist nú það koma fram, að ríkissjóður mundi ekki hafa mikið handbært fé af tekjum ársins 1953. Og segja má, að það sé nokkuð snemmt að ráðstafa nú í aprílmánuði tekjuafgangi ársins 1954. En hv. þm., sem þessa till. flytja, leggja það til,, að ef tekjuafgangurinn eða greiðsluafgangurinn 1953 og væntanlegur greiðsluafgangur 1954 reynist ekki nægur til þess að greiða það, sem þeir leggja til að greitt verði, þá verði tekið lán í þessu skyni. Það má því segja, að nokkur grundvöllur eða a. m. k. hugsanlegur grundvöllur sé fyrir þessari till., hvað sem greiðsluafgangi liður. Það er sem sagt að taka lán, og það er aðferð, sem allmikið hefur verið notuð, þegar einhverju skal til vegar koma.

Nú er það svo, að þegar ég sá þessa till., þá virtist mér nú svo, að ef að því ráði kynni að verða hnigið að leita eftir lánum til þess að inna þær greiðslur af hendi, sem hv. flm. hér sérstaklega nefna, þá væri rétt, að fleira kæmi til greina, ef farið væri að leita eftir lántöku á annað borð. Því er það, að ég hef leyft mér að flytja hér brtt. ásamt hv. 2. þm. S-M. (VH), og er hún á þskj. 869. Fleiri hv. þm. hafa orðið til þess að flytja brtt. við þessa till. Hv. þm. Str. (HermJ) hefur þegar mælt fyrir brtt., sem hann flytur ásamt hv. þm. Dal. (ÁB) á þskj. 867 um framlög til ræktunarsjóðs Íslands og veðdeildar Búnaðarbankans, og ég sé hér, að hv. þm. V-Ísf. (EirÞ) hefur flutt brtt., þar sem gert ráð fyrir, að fiskveiðasjóði Íslands verði látið í té starfsfé allt að 15 millj. kr.

Varðandi brtt. okkar hv. 2. þm. S-M. á þskj. 869 vil ég leyfa mér að minna á það, að hv. Alþ. hefur nú fyrir skömmu sett ný brúalög að frumkvæði samgmn. Nd. Ef ég man rétt, þá er í þessum nýju brúalögum gert ráð fyrir, að byggt verði nokkuð á annað hundrað brúa, smærri og stærri. Mig minnir, að þær séu eitthvað milli 130 og 140. Þar er um að ræða bæði nýjar brýr og endurbyggingu eldri brúa. Að vísu eru þarna teknar upp í hin nýju brúalög ýmsar brýr, sem áður hafa verið á brúalögum, en þarna eru þó um leið margar brýr teknar í lög, sem ekki hafa verið í lögum áður. Þessi lagasetning hefur gengið greiðlega gegnum Alþ., og er ekki að lasta það. En það má segja, að sá galli sé á, að jafnframt því sem þessar brýr hafa verið settar í lög, þá hefur Alþ. ekki gert neinar sérstakar ráðstafanir til þess að sjá fyrir auknum fjárframlögum til þessara nauðsynlegu framkvæmda. Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að minna á það, að ég flutti á þingi í vetur, fyrir nokkrum mánuðum, frv., þar sem gert var ráð fyrir sérstakri leið til þess að afla fjár til að byggja nokkuð af þessum brúm. Þannig er nú ástatt, að sumar þeirra brúa, sem elztar eru hér á landi, eru orðnar mjög ótraustar, svo ótraustar, að það er margra manna mál, að af þeim stafi töluvert mikil slysahætta fyrir þá, sem um þessar brýr verða að fara. Ég hafði við flutning þess máls, sem ég nefni, sérstaklega í huga eina slíka brú, sem ég þekki vel, en jafnframt er mér það ljóst, að líkt stendur á um fleiri. Og þessar gömlu brýr eru einmitt margar hverjar á stórvötnum landsins, þannig að það kostar ærið fé að byggja þær upp. Nú er það svo, að brúasjóðnum, sem stofnaður var með lögum fyrir nokkrum árum, hefur sérstaklega verið ætlað það hlutverk að byggja hinar stærri brýr, en tekjur hans eru mjög af skornum skammti miðað við það stóra hlutverk, og fer því þess vegna fjarri, að hann geti sinnt því til fullnustu. Ég lagði þess vegna til, að brúasjóðnum yrði aflað sérstakra tekna og að það yrði þá jafnframt ákveðið, að því fé yrði varið til þess að byggja upp þessar gömlu brýr, sem sérstök slysahætta stafar af.

Þetta mál var lengi til meðferðar í hv. samgmn. Nd., en án árangurs, því að sú hv. n., sem að vísu hafði mikinn áhuga fyrir nýjum brúalögum, skilaði aldrei áliti um þetta frv. Þegar sýnt þótti, að málið mundi ekki ná fram að ganga á þessum grundvelli og orðið var áliðið þings, var flutt í hv. Ed. annað frv., af þremur hv. þm. í þeirri hv. deild, um að afla brúasjóði nýrra tekna. En nú er þingið að ljúka störfum og sýnt, að það frv. nær ekki heldur fram að ganga.

Ég hef talið hlýða að rifja nokkuð upp gang þessa máls á því þingi, sem nú er að ljúka, til skýringar því, að ég hef flutt þá brtt., sem hér liggur fyrir á þskj. 869, ásamt hv. 2. þm. S-M. Ég álít, að það sé mjög aðkallandi og að ekki verði lengi hjá því komizt að afla brúasjóðnum nýrra tekna og þó alveg sérstaklega til þess að byggja upp þessar gömlu brýr, sem slysahætta stafar af, því að naumast er hægt að horfa upp á það ástand, að um þessar brýr, kannske eina eða fleiri, geti farið eins og á sínum tíma fór um brúna á Ölfusá, og Alþ. getur ekki lengi látið það mál afskiptalaust, eins og gert hefur verið að þessu sinni.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta mál. Má vera, að réttara hefði verið að mæla fyrir brtt. við síðari umr. málsins, en hv. 1. fim. till. ræddi í sinni framsöguræðu nokkuð um þær brtt., sem fram væru komnar, og var þannig tilefni til þess gefið, að fleira væri um þær sagt, enda er það nú svo, sérstaklega ef fara ætti að till. hv. 1. flm. og afgreiða þetta mál nú í nótt, án þess að því verði vísað til n., að þá er vissulega ekki vanþörf á því, að málið sé rætt nokkuð við báðar umr. og nú þegar við fyrri umr. gerð grein fyrir þeim brtt., sem lagðar hafa verið fram.