26.10.1953
Neðri deild: 10. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í D-deild Alþingistíðinda. (3272)

53. mál, bátagjaldeyrir

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða bátagjaldeyrinn almennt, ekki réttmæti hans eða óréttmæti og ekki heldur þá spurningu, hvort hann sé löglega á lagður eða ekki. Ég hef oft áður gert grein fyrir því hér í hv. d., að ég tel bátagjaldeyrinn í raun og veru vera tvöfalda skráningu á krónunni og að því leyti algert brot á þeirri stefnu, sem sjálf hæstv. fyrrverandi ríkisstj. lýsti, er hún lækkaði gengi krónunnar vorið 1950. Þessi tvöfalda gengisskráning er framkvæmd með þeim hætti, að innheimt er sérstakt gjald, lagðar er á sérstakar álögur á vissa tegund innflutningsins til þess að styrkja vissan atvinnuveg, og jafngildir þetta því algerlega tvenns konar skráningu á gengi krónunnar eða tollálagningu í sérstöku formi. Ég er hv. 2. þm. Reykv. sammála um það, að ég tel mjög hæpið, að þessi tvöfalda skráning á krónunni eða þessi tollheimta, hvernig svo sem maður á það vill líta, hafi við lög að styðjast. En þessa spurningu ætla ég ekki að ræða hér að sinni, heldur annað atriði í sambandi við þetta mál.

Ég bar fram í Sþ. fyrir skömmu fyrirspurn til ríkisstj. um það, hversu bátagjaldeyrisálagið hefði numið miklu á s. l. ári, og fékk þau svör hjá hæstv. forsrh.. sem ég kann honum þakkir fyrir, að álagið hefði numið 58 millj. kr. Einnig hafði ég um það spurt, hver kostnaður hefði orðið við álagningu þessa gjalds og greiðslu þess til þeirra, sem það áttu að fá, bátaútvegsmannanna. Það kvaðst hæstv. ráðh. ekki geta upplýst, þar eð ríkissjóður hefði engan kostnað af þessari starfsemi haft. Nú var það augljóst mál, að þetta gjald hefur ekki heldur runnið í ríkissjóð og ekki verið greitt bátaútveginum aftur úr ríkissjóði, svo að vel hefði mátt svara fyrri spurningunni einnig þannig, að ríkisstj. vissi ekkert um, hversu gjaldið næmi miklu, því að það kæmi ekki í ríkissjóð og ekkert væri úr ríkissjóði greitt í sambandi við það. En hæstv. ríkisstj. hafði samt aflað sér upplýsinga um hæð gjaldsins í heild, en ekki viljað afla sér eða ekki fengið upplýsingar um það, hversu kostnaðurinn við þessa starfsemi næmi miklum fjárhæðum. Ég hef því reynt upp á eigin spýtur að kynna mér málið, og niðurstaða mín hefur orðið sú, að ég hef orðið forviða á henni. Mig grunaði að vísu, að hér væri um miklar fjárhæðir að ræða og að hér væri hneykslismál á ferðinni. Þess vegna spurði ég. Þess vegna mun ég ekki heldur hafa fengið svarið. Ríkisstj. mun sjálf hafa gert sér grein fyrir því, að hér væri um hneykslismál að ræða. Ég hef nú komizt að vissum niðurstöðum í þessu sambandi og langar til að gera hv. d. þær kunnar hér.

Árið 1951 námu árituð B-skírteini í Landsbankanum, þ. e. a. s. þau skírteini, sem veita innflutningsrétt samkv. bátagjaldeyrislistánum, 107 millj. kr., þ. e. a. s. af framleiðslu 1951. Af framleiðslu 1952 námu hin árituðu B-skírteini 130 millj. kr., og af framleiðslu þessa árs nema árituð B-skírteini þegar 30 millj. kr., en A-skírteinin, þ. e. a. s. þau skírteini, sem gefin eru út þegar útflytjandinn flytur vöruna út, nema talsvert hærri fjárhæð. Frá byrjun hafa því árituð B-skírteini numið 267.3 millj. kr. Innflutningsréttindin, sem veitt hafa verið, nema því 267 millj. kr. Ef miðað er við þá tölu, sem hæstv. ríkisstj. gaf upp hér í fyrirspurnatíma s. l. miðvikudag, að bátagjaldeyririnn hefði á s. l. ári numið 58 millj. kr., en B-skírteini á því ári námu 130 millj. kr., og gert ráð fyrir sama hlutfalli á öllum B-skírteinum, sem út hafa verið gefin frá byrjun, þá nemur bátagjaldeyrisálagningin vegna útvegsins 119 millj. kr. Þessi álagning er þannig til komin, að lagt er 60% gjald á nafnverð B-skírteinanna vegna innflutnings frá öllum löndum nema clearinglöndunum svokölluðu, en 25% gjald á B-skírteinum, sem veita innflutningsrétt frá clearinglöndunum svokölluðu. En n. sú, sem hefur með þessa innheimtu að gera og greiðslu gjaldsins til bátaútvegsins, lætur innflytjendurna ekki greiða 60%, eins og almennt er talið að bátagjaldeyrisálögin nemi, heldur 61%, og tekur þannig 1% af nafnverði B-skírteinisins í svokallað skírteinisgjald, sem ætlað er fyrir kostnaði við starfsemi nefndarinnar. Hún tekur ekki heldur 25% af clearinglandaskírteinunum, heldur 26%. Hún tekur m. ö. o. 1% skírteinisgjald af nafnverði B-skírteinanna til að standa straum af kostnaði sínum. Nú upplýsti ég áðan, að árituð B-skírteini frá byrjun hafa numið 267.3 millj. kr. Skírteinisgjaldið til að standa straum af kostnaði n. hefur þannig numið 2 millj. 673 þús. kr., eða nærri 2.7 millj. kr. á tæplega tveimur og hálfu ári, sem bátagjaldeyriskerfið er búið að vera. Til greiðslu á kostnaði við þessa starfsemi, að leggja 25–60% gjald á þessi innflutningsréttindi og greiða það bátaútvegsmönnum, er m. ö. o. tekin rúm ein millj. kr. á ári í þennan tíma, sem fyrirkomulagið er búið að standa. Mér sýnist þetta bera vott um, að hér sé um að ræða eitt mesta og aldýrasta skriffinnskubákn, sem starfandi sé í landinu sem stendur. Og þetta skriffinnskubákn hefur verið sett upp af þeirri hæstv. fyrrverandi ríkisstj. og er haldið við af þessari ríkisstj., þessum ríkisstjórnum, sem hafa haft það sem eitt höfuðstefnuskráratriði sitt að draga úr skriffinnsku og lækka ýmsan skrifstofukostnað. Hversu mikið var ekki sagt í kosningunum s. l. vor, sérstaklega af hálfu Sjálfstfl., um nauðsyn þess að draga úr nefndarfargani og skrifstofukostnaði alls konar, og hversu mikil heit voru ekki strengd í þá átt? Hvað kemur nú í ljós við athugun á þessu máli? Að þarna hefur ríkisstj. undir sínum verndarvæng eitt dýrasta báknið, sem um að ræða í þjóðfélaginu núna, miðað við það verkefni, sem því er ætlað. Að hugsa sér, að það skuli vera tekin ein millj. króna á ári fyrir að innheimta þessar á s. l. ári 58 millj. frá innflytjendum og borga þær bátaútvegsmönnum. Hafa menn heyrt annað eins og þetta?

Það var von, að ríkisstj. væri ekki reiðubúin til þess að skýra frá því hér á Alþ., hversu miklu þessi kostnaður hafi numið. En það mega menn vita, að þessi kostnaður er þungbær fyrir almenning, þó að hann sé ekki greiddur úr ríkissjóði. Þetta er tollur, sem almenningur greiðir, því að innflytjendurnir leggja þetta auðvitað á vöruna. Til samanburðar má geta þess, að þetta er sama upphæðin og kosta fjögur ráðuneyti, atvmrn., viðskmrn., fjmrn. og samgmrn. Öll þessi fjögur rn., stærstu ráðuneytin. að utanrrn. frátöldu, kosta sömu upphæð og ein nefnd tekur til að innheimta nokkra milljónatugi frá innflytjendum og skila þeim til bátaútvegsmanna. Þetta er sama upphæð og hagstofan öll kostar. Það er fjórðungi meira en hæstiréttur kostar. Það er jafnmikið og allt sakadómaraembættið kostar. Það er meira en þriðjungur af launum allra héraðslækna á landinu. Það er um það bil þriðjungur af því, sem ríkið greiðir til landsspítalans, og það er helmingur af kostnaði menntaskólans í Reykjavík. Og þannig gæti ég lengi talið. Þarf ég að hafa fleiri orð um það, hvílíkt reginhneyksli hér er á ferðinni?

Við þetta mun svo það bætast, að þessi n., sem þessa úthlutun annast, er, að því er manni skilst, undanþegin allri endurskoðun á því, hvernig með þetta fé er farið. Ríkisstj. virðist telja sér það óviðkomandi, hvernig hún ráðstafar þessu fé og hvað mikið hún tekur í kostnað. A. m. k. veit ríkisstj. ekkert um það, — samkv. yfirlýsingu hæstv. forsrh. á síðasta fundi í Sþ., — hversu miklu þessi kostnaður nemur. Það er eins og hún telji sér alveg óviðkomandi, þó að það kosti eina milljón að flytja nokkra milljónatugi úr vasa almennings yfir til bátaútvegsins á ári.

Það er margt fleira, sem er að athuga við það skrifstofubákn, sem hér hefur verið hróflað upp, t. d. það, að þetta fyrirtæki liggur með milljónir, ef ekki tugi milljóna, a. m. k. með milljónir í innheimtufé frá útflytjendunum, áður en það skilar því til útvegsins, og það má geta nærri, hvílíka vaxtafúlgu þetta fé færir þessari stofnun, svo að hún hefur væntanlega meiri tekjur en bara leyfisgjaldið eitt.

Ýmislegt fleira er og athyglisvert í sambandi við þetta, og skal ég láta eins getið, áður en ég lýk máli mínu. Í reglunum um innflutningsréttindi bátaútvegsmanna er, svo sem allir, sem eru kunnugir þessum málum, vita, gert ráð fyrir því, að heimilt væri að flytja inn bifreiðar frá Tékkóslóvakíu gegn bátagjaldeyri fyrir allt að eina millj. kr. Af þessum innflutningi hefur ekki orðið. Af honum hefði verið greitt 25% leyfisgjald eða um 250 þús. kr. En nú hef ég nýlega frétt, að af þessum innflutningi muni ekkert verða, en í staðinn munu verða fluttir inn bílar frá Ítalíu fyrir 1½ millj. kr. og það sé í þann veginn verið að ganga frá reglum eða fyrirmælum um þetta. Allir þessir bílar munu einnig verða fluttir inn án gjaldeyris- og innflutningsleyfa, en samkv. bátagjaldeyrislistanum. Ítalía er í greiðslubandalagi Evrópu, og vegna þess munu innflytjendur fá heimild til þess að leggja 60%o bátagjaldeyrisgjald eða bátaálag á þennan bílainnflutning. Með öðrum orðum: Álagningin á bílana frá Tékkóslóvakíu, sem ætluð var að yrði um 250 þús. kr., verður á bílana frá Ítalíu um 900 þús. kr. Og þetta stendur til að gera eða er í þann veginn verið að gera án þess að á málið sé minnzt opinberlega og án þess að nokkuð sé athugað, hvort bátaútvegurinn eða þessi stofnun hefur nokkra þörf fyrir þessar tekjur til viðbótar. Það hefði verið hægt að útvega útvegsmönnum nákvæmlega sömu tekjur með því að minnka leyfisgjaldið, en það er náttúrlega orðið sjálfsagt fyrir löngu að lækka það a. m. k. um helming og þó væntanlega enn þá meira.

Þetta er eitt dæmi af ótalmörgum um vinnubrögð hæstv. ríkisstj. á því sviði, sem hér er um að ræða. Væri hægt að nefna um það fleiri dæmi, ef umr. lengdust og frekara tilefni gæfist til. En þetta ætla ég að láta nægja að sinni. Það kemur sem sagt í ljós, að undir verndarvæng hæstv. fyrrverandi og hæstv. núverandi ríkisstj. er starfandi óstjórnlegt skrifstofubákn, sem hefur tiltölulega lítilfjörlegt verkefni, en tekur þó til sinna þarfa um eina millj. kr. á ári. Og það virðist vera, að það hafi verið meining hæstv. ríkisstj. að leyna tilvist þessa hroðalega dýra skrifstofubákns. En sem betur fer tekst það ekki. Og þetta skrifstofubákn mun standa sem minnisvarði yfir ódugnað fyrrverandi ríkisstjórnar og þessarar, sem sönnun þess, hversu lítið hún meinar með því skrafi sínu að draga úr nefndarfargani og skrifstofubákni.