14.10.1953
Sameinað þing: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í D-deild Alþingistíðinda. (3288)

39. mál, stóreignarskattur

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Með l. nr. 128/1947 var kveðið á um ýmsar fjárhagsráðstafanir til þess að ráða bót á miklu öngþveiti, sem þá var talið ríkjandi í efnahagsmálum þjóðarinnar, í fjármálum hennar og atvinnumálum. Í þessum l. var verðlagsuppbót á laun launþega takmörkuð við 300 stig, og fólst í því allmikil kjaraskerðing hjá öllum launastéttum í landinu, sem kaup tóku samkvæmt vísitölu. Þar var enn fremur kveðið á um greiðslu fiskuppbóta á útfluttar sjávarafurðir, en tekna til greiðslu þeirra skyldi aflað með söluskatti á nær allar vörur og með eignaraukaskatti á þann eignarauka, sem orðið hefði í landinu frá árinu 1940.

Fyrsti kafli l. var um eignaraukaskattinn, og á það var lögð sérstök áherzla, að eignaraukaskatturinn skyldi vera framlag þeirra ríku í þjóðfélaginu til þeirra ráðstafana, sem verið var að gera og taldar voru óhjákvæmilegar. Lögð var á það sérstök áherzla, að sjálfsagt og eðlilegt væri, að þyngstu byrðarnar lentu á breiðustu bökunum, og greiðsla eignaraukaskattsins átti einmitt að vera framlag þeirra, sem breiðust hefðu bökin í þjóðfélaginu, til að standa undir þeim kostnaði, sem óhjákvæmilegar ráðstafanir voru taldar hafa í för með sér.

Þessi lög voru framkvæmd út í yztu æsar að öllu leyti nema því, að eignaraukaskatturinn var ekki greiddur. Því var frestað ár frá ári að innheimta hann, og þar kom, að ákvæði um hann voru algerlega felld niður. Með öðrum orðum: Framlag hinna ríku til þeirra ráðstafana, sem taldar voru óhjákvæmilegar 1947, var aldrei innheimt.

Lagaákvæðin um eignaraukaskattinn voru sameinuð l. um stóreignaskatt, sem samþ. voru 1950. Nú er árið 1953, og það er bráðum liðið. Mér hefur skilizt, að innheimtu stóreignaskattsins sé ekki lokið enn. Henni mun að vísu vera komið alllangt, en henni er ekki lokið. Það virðist því ganga mjög illa, eða réttara sagt, það virðist svo sem íslenzk stjórnarvöld hafi ekki sérstakan áhuga á því að láta hina ríku — að láta mennina með breiðu bökin greiða sinn hluta af þeim kostnaði, sem óhjákvæmilegar þjóðfélagsráðstafanir eru taldar hafa í för með sér. Það stendur ekki á að innheimta gjöldin af hinum minni máttar — af þeim tekjulægri, en þegar hinir ríku eiga í hlut, þá er málið dregið á langinn, hinum fyrri skatti var sleppt algerlega, og það gengur treglega að innheimta hinn síðari.

Þess vegna hef ég borið þessa fsp. fram. Mig hefur langað til þess að fá að vita, hvað þessi álagning er langt komin, hversu mikið er búið að innheimta og hversu mikið er ógreitt, hversu mikið kann að hafa verið greitt með fasteignum samkvæmt heimildum í l. sjálfum, hvað ríkissjóður kann að hafa fengið fyrir þessar fasteignir og hvort einhverjum hafi fylgt kvaðir, sem komið hafa til frádráttar matsverði, og hvort ríkissjóður hafi haft einhvern kostnað af þeim eignum, sem hann hefur tekið upp í skattinn.

Það hefur komið í ljós við framkvæmd þessara l., að þau eru mjög gölluð. Þar var kveðið svo á, að margfalda skyldi fasteignamat með ákveðnum tölum til að fá fram skattmatið. Þessi ákvæði voru undantekningarlaus, og var þetta mjög óhyggilegt. Jafnframt var kveðið svo á í l., að menn mættu greiða skattinn með þeim eignum, sem skattlagðar voru, og við því mati, sem ákveðið var í l. Þetta er í sjálfu sér eðlilegt og ekkert við því að segja, en það hefur komið í ljós við framkvæmdina, að lagaákvæðin hafa verið óskynsamlega fortakslaus, sérstaklega með tilliti til þess, að á eignum geta auðvitað hvílt ýmsar kvaðir, og nær náttúrlega ekki nokkurri átt að telja skattmat eigna, sem kvaðir hvíla á, það sama og skattmat eigna, sem engar kvaðir hvíla á. Sérstaklega varhugavert verður þetta, ef það er heimilað að greiða skattinn með hinum skattlögðu eignum. Þetta má skýra með ofur einföldu dæmi. Gerum ráð fyrir því, að maður eigi tvær eignir, aðra algerlega kvaðalausa og hina með kvöð, þannig að raunverulega sé síðari eignin verðlítil, kannske alveg verðlaus. Þær eru báðar skattlagðar eftir sömu reglum, sem auðvitað er fráleitt. Maðurinn getur þá samkvæmt reglum l. eins og þær eru borgað skattinn, sem lagður er á vegna verðmiklu eignarinnar, með verðlausu eigninni og þannig í raun og veru grætt á því, að stóreignaskatturinn er á lagður. Slíkar reglur eru auðvitað svo fráleitar, að ekki tekur nokkru tali. Mér hefur skilizt, að slík dæmi hafi komið fyrir og það fleiri en eitt, og vil ég gjarnan fá það upplýst. Jafnframt leikur mér forvitni á að vita, hvort þessari óeðlilegu framkvæmd er haldið áfram, að skattleggja eignir með nákvæmlega sama hætti, hvort sem á þeim hvíla kvaðir eða ekki, og hvort haldið er áfram að taka við eignum til greiðslu skattsins, þótt á þeim hvíli kvaðir. Þetta vildi ég leyfa mér að vænta, að hæstv. fjmrh. upplýsi í svörum sínum.