14.10.1953
Sameinað þing: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í D-deild Alþingistíðinda. (3289)

39. mál, stóreignarskattur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Fyrsta spurningin er um það, hvers vegna ekki er lokið endanlegri álagningu stóreignaskatts þess, sem innheimta skal samkv. lögum nr. 22 1950 og síðari breyt. á þeim lögum. Þessu vil ég svara þannig:

Lögum samkvæmt átti álagningu stóreignaskattsins að vera lokið fyrir febrúarlok 1951. Álagningu skattsins eða útreikningi hans eftir lögunum var þó lokið fyrir áramótin, þ. e. a. s. fyrr en tilskilið var í lögum, og tilkynningar sendar til gjaldenda fyrstu dagana í janúar og þær síðustu 8. jan. 1951. Að loknum kærufresti til skattstofu Reykjavíkur og ríkisskattanefndar varð að sjálfsögðu að reikna skattinn upp að nýju vegna breytinga, sem af kærum leiddi, og var því verki lokið í október 1951. En það skal tekið fram, að vegna þess, hvernig þessi skattur er á lagður, þá getur ein breyting hjá einum skattþegni gert það að verkum, að það verður að reikna upp skatt fjöldamargra, t. d. ef um hlutafélag er að ræða. Um áramótin 1951 og 1952 höfðuðu ýmsir gjaldendur skattsins mál á hendur fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs og kröfðust ýmist ógildingar á skattinum í heild eða einstökum atriðum álagningarinnar á þeim forsendum, að ekki hefði verið farið að lögum um álagningu hans. Þennan rétt höfðu menn að sjálfsögðu óskorað, að höfða þessi mál sem þriðju tilraun, eftir að kærur þeirra höfðu ekki verið teknar til greina af skattstjóra í fyrstu umferð eða ríkisskattanefnd í annarri umferð. Alls voru höfðuð á þennan hátt 19 mál á hendur ríkissjóði út af stóreignaskattinum. Varð um það samkomulag milli rn. og samtaka þeirra, sem gjaldendur skattsins höfðu myndað með sér, að ekki yrðu höfðuð fleiri mál en nauðsynlegt væri til þess að fá skorið úr öllum ágreiningsatriðum, en hins vegar fengju allir gjaldendur, sem eins var ástatt um, að njóta lækkana samkv. væntanlegum dómum, hvort sem þeir hefðu sjálfir höfðað mál eða ekki. Hæstiréttur hefur nú kveðið upp dóma í flestum þessara mála, og hefur ríkissjóður unnið þau öll í aðalatriðum. Virðast lækkanir skattsins samkv. þessum dómum ekki munu nema neinum verulegum fjárhæðum. Þá samþykkti Alþ. lög í jan. 1952 um lækkun skattsins vegna skuldataps, samkv. 2. kafla laga nr. 120 frá 1950, og eru þessi lög birt í Stjórnartíðindunum sem lög nr. 21 1952. Varð að gera breytingar á skattinum vegna þessara lagasetninga, og er það framkvæmt um leið og sú leiðrétting fer fram, sem gera verður eftir dómunum. Þessir lokaútreikningar eftir niðurstöðunum við þessi síðustu átök um skattinn, ef svo mætti segja, standa nú yfir og mun verða lokið um næstu mánaðamót, svo framarlega sem hæstiréttur hefur þá fellt dóm í einu eða tveimur málum, sem ódæmd eru, en hafa mjög litla þýðingu. Að lokaútreikningi skattsins og innheimtu er ekki löngu lokið, stafar því einvörðungu af framangreindum málaferlum og framangreindum málsskotum, en fyrir því öllu er gert ráð í l. um stóreignaskatt, og er ekki nema sjálfsagður hlutur, að menn geti leitað þannig réttar síns, og hefði því hv. fyrirspyrjandi getað sparað sér öll svigurmæli í garð þeirra, sem framkvæma þessi mál, um það, að framkvæmdin hafi verið dregin á langinn. Þvert á móti hefur þetta allt gengið hraðar en í raun réttri mátti búast við, af því að það hefur sífellt verið rekið á eftir, bæði þeim, sem höfðu sjálfa álagninguna með höndum, og eins þeim, sem úrskurðuðu kærur, og ýtt á sjálfa dómstólana að ljúka öllum þessum málum sem fyrst.

Þá kemur önnur spurningin: Hversu hárri fjárhæð nemur skattur sá, sem þegar hefur verið á lagður?

Við ákvörðun stóreignaskattsins eftir kærur til skattstofu Reykjavíkur og ríkisskattanefndar reyndist skatturinn alls 49 millj. og 252 þús., en sú upphæð hefur lækkað um nokkrar þúsundir vegna leiðréttinga, en um verulegar fjárhæðir er ekki að ræða. T. d. nemur lækkun þessi kr. 12200.00 hér í Reykjavík og svipaðri fjárhæð utan Reykjavíkur. Þá eiga eftir að koma til greina lítils háttar lagfæringar eftir þessum síðustu dómum, sem ég greindi hv. þingmönnum frá áður.

Þá kemur spurningin: Hversu mikið hefur verið innheimt?

Nú hefur ekki verið hafður sá háttur á að bíða með innheimtu skattsins í heild, þangað til öllu þessu væri lokið. Til þess að hraða innheimtunni sem mest, þá hefur verið haldið áfram með hana, þótt óútkljáð hafi verið æði mörg mál, eins og ég gat um áðan. Þrátt fyrir þessi málaferli og áhrif frá þessum þrætum er búið að innheimta núna nærri 42 milljónir af skattinum, og það, sem eftir er, verður innheimt á næstunni með lögtökum eða samningum, eftir því sem til þarf. Þess vegna hefði hv. þm. getað sparað sér að hafa fyrir fram svigurmæli einnig um þetta. Það hefði verið betra fyrir hann að bíða með að dæma, þangað til búið var að svara spurningunni.

Fjórða spurningin er: Hversu mikið hefur verið greitt með fasteignum?

Það eru 644034 kr., sem hefur verið greitt með fasteignum af þessum 49 milljónum. Og þá er spurt: Hversu mikið fé hefur ríkissjóður fengið fyrir þær fasteignir?

Seldar hafa verið nú þegar tvær fasteignir, og voru þær seldar ríkissjóði að skaðlausu. Söluverð þeirra var 149 þúsund. Um frekari sölu á þessum eignum hefur ekki enn þá verið samið, en beðið tækifæris að koma þeim út. Eins og menn sjá af þessu, hefur þessi heimild um það að afhenda eignir upp í skattinn verið svo lítið notuð, að lítil áhrif eða engin áhrif hefur á heildarmyndina, þó að hún hafi verið notuð í einstökum atriðum.

Svo kemur sjötta spurningin. — Ég tel gleggst að svara sjöttu og sjöundu spurningunni í einu lagi, og þær eru þannig: Hafa einhverjum þessara eigna fylgt kvaðir, og hafa þær þá komið til frádráttar matsverðinu? — Og sjöunda spurningin: Hefur ríkissjóður haft kostnað af einhverjum slíkum eignum, og þá hversu mikinn?

Í lögunum um stóreignaskatt er ákveðið, að öllum skattgreiðendum sé heimilt að afhenda skattlagðar fasteignir upp í skattinn með því verði, sem þær eru skattlagðar. Nú eru ákvæðin um fasteignirnar þannig í l., að skattleggja ber þær með fasteignamati, þreföldu, fjórföldu, fimmföldu og sexföldu, allt eftir því, hvar þær eru á landinu. Það er á almannavitorði, að fasteignir eru yfirleitt miklu verðmætari en nemur matsverði þeirra eftir þessari reglu stóreignaskattslaganna. Hefur því yfirleitt ekki komið til mála af eðlilegum ástæðum eða skiljanlegum ástæðum, að menn notfærðu sér þennan rétt til þess að greiða skattinn með fasteignum verðlögðum á því verðgildismati, sem í l. greinir, nema sérstaklega stæði á, eða m. ö. o. nema þannig stæði á, að fasteignamatið væri óvenjulega hátt á þessum eignum miðað við raunverulegt verðmæti þeirra, annaðhvort af því að eignirnar hefðu gengið úr sér, eftir að fasteignamatið fór fram, eða lægju afskekktar og væri lítið verðgildi þeirra eða þeim fylgdu einhverjar kvaðir, sem gerðu það að verkum, að skattgreiðandi teldi þær ekki þess virði, sem hið lögboðna stóreignaskattsmat gefur til kynna, eða a. m. k. ekki meira virði. Samkv. lögunum er ríkinu alveg skylt að taka á móti öllum fasteignum, sem skattlagðar hafa verið hjá hlutaðeigandi gjaldendum, upp í greiðslu stóreignaskatts þeirra, hvernig sem á stendur. Og þetta ákvæði virðist vera hugsað þannig hjá löggjafanum, að ákveði ríkisvaldið eign hjá skattþegni tilteknu verði til skatts, þá sé sanngjarnt, að hann geti afhent hana upp í skattinn.

Eins og áður segir, hafa menn mjög lítið notað sér þennan rétt til þess að afhenda fasteignir, sem og kemur fram af því, að samtals hafa verið afhentar upp í 49 milljónir fasteignir að fjárhæð 644 þús. Nú má vera, að einhverjir af þeim, sem enn eiga eftir að gera skil, ætli sér þetta, þó að mér sé það ekki kunnugt, en það getur ekki verið í stórum stíl. Algengasta ástæðan til þess, að menn hafa notfært sér réttinn til þess að afhenda fasteignir, sýnist sú, að fasteignunum hafa ekki fylgt lóðarréttindi til frambúðar eða fasteignir hafa verið svo afskekktar, að eigendur hafa talið sér þær verðminni af þeim ástæðum. — Eins og áður segir, hefur ríkissjóður þegar losað sig við að skaðlausu eignir að verðmæti 149 þús., en ýmsum eignum er óráðstafað enn þá.

Í einu dæmi notfærði Reykjavíkurbær sem lóðareigandi sér rétt sinn til þess að krefjast niðurrifs á fasteign, sem hafði verið afhent upp í skattinn, og varð ríkissjóður fyrir 22609 kr. kostnaði við að fjarlægja þessa eign eftir kröfu bæjarins. Og það er sá eini kostnaður — þetta er sem sagt svar við fsp. 7, ég hef fléttað þetta saman — sem ríkissjóður hefur haft af þessum eignum. Á hinn bóginn hafði ríkið haft um 17 þús. kr. leigutekjur af þessari eign, á meðan hún var í eigu ríkisins. Eign þessi var að fasteignamati 21 þús. kr. rúml. og var af skattgreiðanda afhent upp í skattinn með tilvísun til framangreindra ákvæða um rétt hans. Augljóst var, að þessari eign fylgdi hættuleg kvöð, en á hinn bóginn jafnaugljóst, að skylda ríkissjóðs til þess að taka eignina upp í skattinn var alveg ótvíræð, og var á engan hátt mögulegt að komast undan því. Var því ekki um annað að ræða en að taka við eigninni. Mér væri í raun og veru ekki skylt að segja meira um þetta en komið er, þetta er fullkomið svar við fyrirspurninni, en til þess að menn skilji betur samhengið í þessu máli, þá þykir mér rétt að geta um það í þessu sambandi, að þessi eign, sem reyndist svona lítils virði, af því að eftir rúmt ár vildi lóðareigandi ganga eftir því, að hún væri fjarlægð, og afhent var upp í skattinn og reyndist þannig í raun og veru einskis virði þegar til kom, af því að lóðareigandinn notaði sér þennan rétt, var hluti af miklu stærri eign, sem var í eigu þessa skattgreiðanda, og sams konar kvöð af hendi lóðareiganda hvíldi á allri þessari eign. Var öll þessi eign hjá skattgreiðanda metin að fasteignamati 144 þús. kr., og þegar búið var að margfalda það með sex, þá var hún metin til stóreignaskatts á 864 þús. Þessi eigandi kærði þessa skattlagningu og taldi hana ósanngjarna og vísaði til þeirra kvaða, sem voru í lóðarsamningnum, og taldi, að hún ætti að vera miklu lægra metin, þar sem umræddar kvaðir hvíldu á henni. En þeir, sem úrskurðuðu stóreignaskattskærurnar og áttu að gera það lögum samkvæmt, bæði skattstjóri og ríkisskattanefnd, töldu ekki heimild til annars í l. um stóreignaskatt en að skattleggja þessa eign fullu verði eftir þeim, þrátt fyrir kvöðina, og synjuðu kærunni frá þessum skattgreiðanda. Þá afhenti þessi skattgreiðandi hluta af eigninni upp í skattinn, eins og ég hef áður rakið. — Þetta þykir mér rétt að láta koma fram, til þess að það komi fram rétt mynd af málinu. Ýmis sorpblöð og óvandaðir menn hafa undanfarið verið að narta í mig út af þessu máli, fyrir að gera það, sem skylt var að gera lögum samkvæmt. En það verður allt þeim til skammar, þegar málið hefur nú verið upplýst.