14.10.1953
Sameinað þing: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í D-deild Alþingistíðinda. (3290)

39. mál, stóreignarskattur

Fyrirsrpyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hæstv. núverandi fjmrh. er, svo sem kunnugt er, einhver duglegasti skatt- og tollheimtumaður, sem setið hefur í embætti hans. Þess vegna kemur mér það mjög á óvart, að hann skuli telja það til afreka, að hann skuli hafa innheimt 42 millj. af 49 millj. kr. skatti á þremur árum, sem hann hefur til þess haft. Ég er þvert á móti þeirrar skoðunar, að það sé ámælisvert, að enn skuli vera óinnheimtar 7 millj. kr. af þeim stóreignaskatti, sem á átti að leggja samkv. l. frá 1950 og vera búið að leggja á 1951. Það er ekki sýnd þvílík linkind, þegar verið er að innheimta skatta hjá þeim, sem eru minni máttar í þjóðfélaginu og litlar eignir eiga og litlar tekjur hafa. Þeir verða að borgast á sama ári og þeir eru á lagðir, og eftir því er gengið af dugnaði af hálfu hæstv. fjmrh. og starfsmanna hans. En nú virðist hann vera ánægður með það, að stóreignamennirnir í landinu skuli enn eiga eftir ógreiddar 7 millj. af því, sem þeim hefur verið gert að greiða.

Ég vil vekja sérstaka athygli á því, að stóreignaskatturinn, sem á er lagður, nemur ekki 50 millj. kr. Þegar það er haft í huga, að þetta er jafnframt eignaraukaskatturinn frá árinu 1947, að þetta er m. ö. o. hlutdeild hinna ríku, hlutdeild stórgróðamannanna í þeim byrðum, sem lagðar hafa verið á íslenzka þjóð til viðreisnar atvinnulífinu síðan 1947, þá sést, hvílík forsmán hér er á ferðinni. Þetta er það, sem stóreignamenn eiga að skila aftur af þeim gróða, sem þeim hefur fallið í skaut síðan 1940. Hvað halda menn. að sá gróði sé mikill? Ég þori ekkert um það að segja, hvað íslenzkir stórgróðamenn kunna að hafa grætt síðan 1940, á þeim 13 árum, sem síðan eru liðin, en þá upphæð á ekki að telja í tugum milljóna, hana verður að telja í hundruðum milljóna. Það, sem hæstv. fjmrh. skýrði nú frá, að þeim sé ætlað að skila af þessum 13 ára stórgróða, eru tæpar 50 milljónir. Og með þetta er hinn bráðduglegi skattheimtumaður að því er virðist harðánægður, þrátt fyrir það að enn eru 7 millj. af því ógreiddar. Hver veit, hvenær þær kunna að vera greiddar?

Ég sagði, að ég þyrði ekkert um það að áætla, hversu miklu þessi stórgróði á 13 árum kynni að hafa numið, en ég vil aðeins minna á það, að samkv. skýrslu skattstofunnar voru á s. l. ári eignir 20 ríkustu einstaklinganna í Reykjavík 190 millj. kr. og 20 ríkustu félaganna 366 millj. kr. Tuttugu ríkustu einstaklingar og tuttugu ríkustu félögin í Reykjavík einni áttu m. ö. o. í fyrra 556 millj. kr. Og nú stendur hér hæstv. fjmrh., stoltur og ánægður, og skýrir frá því, að það, sem allir stóreignamenn í landinu eigi að skila aftur af stórgróða sínum síðan 1940, séu tæpar 50 milljónir, 1/10 af því, sem 20 ríkustu einstaklingarnir og félögin eiga samkv. athugun sjálfrar skattstofunnar, hans eigin starfsmanna. Menn hafa oft verið stoltir yfir litlu hér í þessum stól, en sjaldan af svo ósköp litlu eins og hér er af að státa.

Hæstv. ráðh. gerði sérstaklega rækilega að umtalsefni svörin við síðustu tveim spurningaliðunum varðandi afhendingar á fasteignum upp í stóreignaskattinn og kvaðirnar, sem á þeim hvíldu. Ég endurtek það, sem ég sagði áðan, að ég tel ekkert við að athuga regluna um greiðslu stóreignaskatts með skattlagðri eign. Sú regla er sjálfsögð. Það er hitt, sem ég fann að og finn að enn, að einmitt vegna þessarar reglu er matsreglan, sem gildir í l., mjög hættuleg, og einmitt vegna hennar bar ráðh. skylda til í öllum vafasömum tilfellum að skjóta til dómstóla skattmatinu á eignum, sem kvaðir hvíldu á. Það skilst mér raunar, að hæstv. ráðh. hafi gert, eftir að reynslan var búin að sýna honum, hversu þessar tvær reglur í samhengi gátu verkað hlægilega. Þær gátu m. ö. o. haft þau áhrif, að hægt væri að velta kostnaði við að fullnægja kvöð á eign af skattgreiðanda yfir á ríkissjóð, en það nær auðvitað ekki nokkurri átt. Ég skal ekki vefengja, að skýra megi lögin á þann hátt, að við þetta sé ekkert að athuga frá lagabókstafssjónarmiði séð. En samt hefur hæstv. ráðh. séð, að áhrif þessara ákvæða eru svo andkannaleg, að hann hefur, að því er mér skilst, skotið slíku máli til dómstóla og fengið þar þann úrskurð, að hann geti neitað að taka við eignum, sem kvaðir hvíla á. Það átti hann auðvitað að gera í upphafi. Þá hefði hann losnað við þann kostnað, sem ríkissjóður hefur nú orðið að bera, samkv. upplýsingum hans, 20 þús. krónur.