14.10.1953
Sameinað þing: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í D-deild Alþingistíðinda. (3295)

39. mál, stóreignarskattur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það þykir ef til vill prúðmannlegt orðbragð af hæstv. fyrrverandi menntmrh. að segja frá þessum ræðustóli, að a. m. k. tveir af þm. hafi það að atvinnu að rægja menn persónulega, en af öðrum en þeim, sem hafa verið menntamálaráðherrar, mundi það tæpast vera talið prúðmannlegt orðbragð. En maður veit þá, hvern mann maður hefur haft og með hvaða sérréttindum sem menntmrh.

Nú, hann þykist vera alveg saklaus eins og lamb í þessu umrædda máli hér. Spurningin er: Er það rangt, að það hafi verið Björn Ólafsson, sem var eigandi að þessum skúr, sem hæstv. fjmrh. hefur kallað skúrræksni, og það sem ég heyrði, að hann sagði áðan, að það hefði komið í ljós, að eignin hefði verið einskis virði, því að hann mun hafa orðið að taka þessa eign upp í skattgreiðslu frá þessum meðráðherra sínum fyrir 126 þús. kr., en viðurkennir, að það hafi kostað 22 þús. að rífa skúrræksnið og koma honum í burtu? Og hæstv. ráðh. þykist vera með góða samvizku fyrir það, þó að hann hafi borgað með þessum umrædda skúr, hann hafi haft lóðarréttindi þegar borgaður var með honum skatturinn, en kl. 12 á miðnætti sama dags hafi hann verið orðinn lóðarréttindalaus. Þetta er vissulega að hafa góða samvizku og berja sér á brjóst og þykjast vera réttlættur fyrir sjálfum sér En það er fáum gefið eins og þessum hæstv. fyrrverandi ráðh.

Ég endurtek það, að það leiðinlegasta af öllu leiðinlegu við þessa viðleitni til þess að borga skatta til ríkisins með öðru en peningum og peningaverðmæti er það, að við þetta mál eru riðnir kannske fleiri en einn af ráðherrum fyrrverandi ríkisstj. og voru þá ráðherrar, þegar þeir reyndu til þess að borga á þann veg, að hæstv. fjmrh. var í nauðvörn og varð að höfða mál í öðru tilfellinu út af þessari viðleitni til þess að borga skatt með ónýtum eignum hlutafélags, sem viðkomandi ætlaði að fá að borga sinn persónulega skatt með. Ég vona, að hæstv. Alþ. reyni að gera breyt. á þessum lögum, svo að hæstv. fjmrh. þurfi ekki að vera í slíkri nauðvörn og fara svo forflótta undan meðráðherrum sínum sem hann hefur orðið að gera í þessu máli vegna lagabókstafsins, sem hann hefur verið bundinn af, úr því að ráðherrar finnast slíkir, sem nota sér slíkan lagabókstaf, og þykjast góðir af.