10.12.1953
Efri deild: 32. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Frsm. minni hl. (Haraldur Guðmundsson):

Ég mun ekki setja mig gegn óskum hæstv. forseta í þessu efni og byrja þá ræðu mína á því að lesa það nál., sem ég hef afhent. Það er á þessa leið: [Sjá þskj. 291].

Í sjálfu sér hef ég ekki mjög miklu við þetta nál. mitt að bæta, en nál. og brtt. hv. meiri hl. svo og framsöguræða hv. þm. Barð. fyrir meiri hl. fjhn. gefur mér þó tilefni til að segja nokkru fleira.

Ég sé nú, að hæstv. meiri hl. fjhn. hefur fallizt á það, að orðalagið á 1. málsgr. 1. gr. frv. væri ekki alls kostar heppilegt, að segja þar, að það skuli vera frjálst, sem stjórnin segir að sé frjálst. Í stað þess að halda þessu orðalagi, þ.e.a.s. að gefa fyrirheit í 1. málsl. og taka þau aftur í 2. málsl., hefur nú meiri hl, horfið að því ráði að gefa engin slík loforð, engin slík bindandi fyrirmæli, heldur í staðinn komið með eins konar stefnuyfirlýsingu, og sú stefnuyfirlýsing felst í brtt. hv. meiri hl. á þskj. 290. Þar segir svo:

„Stefna skal að því að gera allan innflutning til landsins frjálsan. Meðan gjaldeyristekjur þjóðarinnar nægja ekki til þess, að svo megi verða, ákveður ríkisstj. hverju sinni, hvaða innflutningur til landsins skuli vera frjáls.“

Ég hefði nú kosið, úr því að hv. meiri hl. féllst á, að þetta væri mjög óheppilegt og óviðeigandi orðalag, sem var á gr., að hann hefði stigið skrefið til fulls, — ég meina með því, að hann hefði sagt: Meðan gjaldeyristekjur þjóðarinnar nægja ekki til þess, að svo megi verða — að innflutningurinn sé frjáls — ákveður ríkisstj. hverju sinni með reglugerð, hvaða innflutningur til landsins skuli vera bannaður eða háður leyfisveitingum, því að það er að sjálfsögðu það, sem almenningur í landinu vill vita, hvaða vörur það eru, sem þarf að sækja um leyfi til að fá að flytja inn. Hvernig stendur nú á því, að hv. meiri hl. getur ekki fallizt á að gera jafnsjálfsagða og eðlilega breytingu eins og þessa, úr því að hann er mér efnislega sammála um þetta? Hv. frsm. sagði, að það stafaði af því, að við gerðum samninga, sem kynnu að breytast árlega, við aðrar þjóðir og þyrftum að beina vörukaupum þar af leiðandi á ákveðin lönd. Þetta er rétt, við þurfum sjálfsagt að gera það framvegis. En ég sé ekki á nokkurn hátt, að það geri framkvæmdina erfiðari á þann hátt, sem ég hef bent á. Það yrði ákveðið hverju sinni með reglugerð, við hvaða lönd kauparéttur á ákveðnum vörum væri bundinn. Og það er einmitt það, sem almenningur og innflytjendur þurfa að fá að vita. Nei, ástæðan er ekki sú, að það séu neinir erfiðleikar á þessu í framkvæmd. Ástæðan er blátt áfram sú, að hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsflokkar telja ekki heppilegt, ekki líklegt til vinsælda — það var talað um það hér áðan — að segja berum orðum, hvaða vörur eru bannaðar. Það lítur miklu betur út, halda þeir, í augum fólksins að segja: Þessar vörur eru frjálsar — og pressa svo upp lista yfir þær. Það er hætt við, að mönnum fyndist kannske lítið til um frelsið, ef þeir fengju margra álna langa lista yfir allar þær vörur, sem hæstv. ríkisstj. hefur í hyggju að banna að flytja inn á hverjum tíma. Það er til að koma sér hjá því, það er til að geta auglýst í blöðum sínum: Nú er þessi vara frjáls — og forðast að nefna nokkra vöru, sem er ekki frjáls, sem þarf að sækja um leyfi eða ekki fæst leyfi fyrir. Það er óttinn við það, að skrafið um frjálsa verzlun sé kveðið niður og steindrepið að fullu, um leið og haftalistinn er birtur, sem veldur því, að hv. meiri hl. fjhn. kýs að hafa þetta orðalag á till., sem hér er greint.

Í sjálfu sér hef ég ekki fleira um brtt. hv. meiri hl. að segja. Hún er réttmæt viðurkenning og að því leyti spor í rétta átt, en því miður er þar staðnæmzt allfjarri því eðlilega marki, þ.e.a.s. réttinum, hvernig þessum málum skuli skipa.

Áður en ég held lengra með málið, þykir mér rétt að gera hér eina játningu, sem ég býst við að a.m.k. hv. frsm. meiri hl., vini mínum, þm. Barð., komi vel. Hún er sú, að ég er mjög vantrúaður yfirleitt á höft og hömlur á viðskiptum og innflutningi nema sem bráðabirgðaráðstafanir. Og ég hef aldrei leynt því, að ég hef álitið, að ef ástandið væri þannig í fjárhagsmálum og gjaldeyrismálum þjóðarinnar, að til langvarandi hafta þyrfti að grípa, þá væri eðlilegra og heppilegra að taka beinlínis upp sameiginleg innkaup fyrir þjóðina á þeim vörum, sem þar er um að ræða, því að það er ekki hægt að neita því, að höft og hömlur, umsóknir, beiðnir, skriffinnska og allt, sem því fylgir, dregur úr viðleitni manna og áhuga manna fyrir að bjarga sínum málum og er oft og einatt þeim nokkur fjötur um fót, þegar til lengdar lætur. Í öðru lagi virðist svo, þegar langvarandi höftum er beitt, sem þá myndist styrjöld milli þeirra, sem framkvæma höftin, og hinna, sem sækja um leyfin, og þá læra menn gjarnan að beita nýjum vopnum og nýjum aðferðum til þess að draga úr áhrifum haftanna. Ég hygg því og hef ekki leynt því fyrr, að það hefði verið miklu skynsamlegra að taka upp beinlínis sameiginleg innkaup á miklum hluta þeirra vara, sem háðar eru haftainnflutningi, í stað þess að halda þessu haftakerfi við, sem kostaði stórfé og getur þó aldrei fullkomlega náð tilgangi sínum. En fyrir því hefur enginn vilji verið hjá Alþingi og því tómt mál um það að tala sem framkvæmdaatriði, en þó vil ég gera þessa játningu hér nú.

Það, sem að sjálfsögðu er meginatriðið, það, sem er kjarni þess máls, hvað öll verzlunin getur verið frjáls og viðskiptin við útlönd á hverjum tíma, er fyrst og fremst, að ég ekki segi eingöngu, gjaldeyrisafstaða landsins gagnvart útlöndum. Þær einu raunverulegu aðgerðir, sem nokkuð duga til þess að gera verzlunina frjálsa, eru þær að búa svo um hnútana, að gjaldeyrisöflunin vaxi eða ákveðin gjaldeyriseyðsla sé lækkuð eða niður felld, t.d. með því að koma þeirri framleiðslu upp hér innanlands, sem ella hefði verið keypt frá útlöndum. Þetta er kjarni málsins, og ég veit, að hæstv. ríkisstj. og hennar flokkum er þetta fullkomlega ljóst. En í þessu frv., sem lofar frjálsri verzlun og segir, að að því stefni, að verzlunin skuli vera frjáls, er ekki eitt einasta pennastrik, ekki eitt orð, ekki punktur eða komma, sem til þess bendi, að viðleitni verði sýnd í því að auka gjaldeyristekjurnar eða draga úr gjaldeyriseyðslunni á þann hátt, sem ég áðan nefndi. Það er því hið fyllsta öfugmæli að tala um, að hér með þessu frv., sem eingöngu er um höft og hömlur, sé stefnt í þá átt að gera verzlunina frjálsa.

Eru þá líkur til, að gjaldeyrisástandið sé þannig nú gagnvart útlöndum, að verzlunin geti verið frjáls? Ég drap lítillega á það við 1. umr. þessa frv. og skal endurtaka nokkur atriði úr því. Verzlunarhallinn við útlönd hefur til uppjafnaðar, það sem af er árinu, nálgast talsvert 1 millj. kr. á dag, — er talsvert mikið á þriðja hundrað þúsunda um mánaðamótin okt.–nóv. Það vantar því upp undir það 1 millj. kr. á dag til þess, að útflutningurinn, okkar eðlilega gjaldeyrisöflun, hrökkvi til að borga innflutninginn. Nú skal það viðurkennt, að þetta eitt gefur ekki fullkomna mynd af gjaldeyrisviðskiptunum eða gjaldeyrisafstöðunni gagnvart útlöndum, því að við höfum fengið ýmsar aðrar gjaldeyristekjur en þær, sem koma inn fyrir seldar afurðir. Tvennt vegur þar mest. Annars vegar er sá gjaldeyrir, sem kemur inn í sambandi við dvöl varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og framkvæmdirnar þar. Mér er sagt, að þær gjaldeyristekjur muni hafa numið, a.m.k. núna síðari hluta þessa árs, ekki minna en sem svarar 1/2 millj. ísl. kr. á dag og kannske meiru, svo að það er augljóst mál, að það munar mikið um slíkar tekjur. Þá höfum við einnig fengið stórfé á okkar mælikvarða gegnum Marshallstofnunina á fyrri hluta þessa árs. Um þá gjaldeyristekjulind er það að segja, að hún er nú lokuð og læst, það drýpur ekki meira úr henni. Hvað sem menn annars segja um dvöl varnarliðsins hér og framkvæmdir þess, þá er augljóst mál, að það væri fullkomið ábyrgðarleysi, óafsakanlegt ábyrgðarleysi að reikna með slíku sem varanlegum gjaldeyristekjum fyrir okkur Íslendinga í framtíðinni. Þá mætum við þeirri bláköldu staðreynd, sem ég áðan dró hér fram, að eftir okkar viðskiptum við útlönd að dæma til þessa, þrátt fyrir blessun gengislækkunarinnar, þrátt fyrir blessun bátagjaldeyrisins eða kannske réttara sagt vegna þessara ráðstafana, skortir fast að því 1 millj. kr. á dag til þess, að við getum borgað þann innflutning, sem hingað til hefur verið veittur, með okkar útflutningi.

Þetta eru staðreyndir. Þetta er ástandið í gjaldeyrismálunum, þegar hæstv. ríkisstj. og hennar flokkar eru að prédika fyrir landsfólkinu, að nú eigi að breyta um stefnu, nú eigi að gera verzlunina frjálsa, nú eigi að fella niður höft og hömlur. Ég verð að segja, að mig furðar á þeirri dirfsku — ég kann ekki við að segja „óskammfeilni“ — (Gripið fram í.) ja, það er ljótara orð, og ég er ákaflega orðprúður alltaf – að halda þessu fram, vitandi allra manna bezt, hvernig ástandið er í gjaldeyrismálunum hjá okkur í dag. Nei, góðir hv. alþm., við skulum hara horfast í augu við þá bláköldu staðreynd, sem hv. þm. Barð. tók að vonum mjög greinilega fram áðan og skýrði ljóslega. Hann sagði, að fjárhagsráð væri orðin óvinsælasta stofnunin í landinu. Ég hygg, að þetta sé ekki fjarri lagi, sumpart kannske að maklegleikum og sumpart ekki. En fjárhagsráð hefur líka haft ákaflega örðugt hlutverk síðan 1950. Fram á árið 1949 var mér ekki kunnugt um óvinsældir fjárhagsráðs, a.m.k. hafa þær ágerzt stórkostlega frá lokum þess herrans árs 1949, enda hefur hv. fjárhagsráð haft ákaflega erfiðu hlutverki að gegna. Það hefur verið eins konar aurbretti á lúxusbílum ríkisstj. Það átti að framkvæma fyrir hana það, sem hún vildi ekki nærri koma og vildi ekki baka sér óvinsældir með að gera sjálf.

Þetta er nú sannleikurinn um hlutverk fjárhagsráðs. Í raun og veru eru það þeir tveir flokkar, eins og hv. þm. Barð. sagði, sem skipa ríkisstj. síðan 1950 og ráða málum landsmanna, sem bera alla ábyrgð á störfum fjárhagsráðs, segja því fyrir í stórum dráttum — ég meina ekki um hverja einstaka leyfisveitingu — segja því fyrir í stórum dráttum, hvernig það skuli haga sínum störfum, segja því fyrir um, að það megi ekki veita fjárfestingarleyfi til íbúða nema að vissu marki, en einmitt þetta hefur án efa átt einn ríkasta þáttinn í því að gera fjárhagsráð óvinsælt. Fjárhagsráð hefur, virðist mér, síðan samstjórnarflokkarnir tveir tóku við árið 1950, haft það hlutverk að taka á sitt bak þær óvinsældir, sem ríkisstj. með sínum aðgerðum í þessum málum skapaði hjá þjóðinni og beindi á fjárhagsráð til þess að reyna að koma þeim fram hjá sér. Þetta er vissulega erfitt hlutverk, sem fjárhagsráð hefur haft að gegna. Ríkisstj. hefur að verulegu leyti tekizt að koma óvinsældunum af sér og á það, en ekki með siðferðilegum rétti, það verð ég að segja.

Hv. þm. Barð. sagði í sinni löngu ræðu margt gott, þó að ég vilji nú ekki skrifa undir það allt saman, enda okkar sjónarmið kannske dálítið mismunandi. Hann lýsti því mjög átakanlega, hvílík ógnarleg helstefna hefði ríkt í okkar viðskiptamálum, ef mér skildist rétt, alla leið frá 1932 óslitið. Þá var sá ófögnuður upp tekinn að gera innflutning á ýmsum vörutegundum til landsins háðan leyfum, og svo ágerðist þetta. Svo lýsti hv. þm. því, hversu óskaplegt spillingarástand hefði skapazt hér í landinu vegna þessara aðgerða. En nú, sagði hann, nú er komið frv., sem markar tímamót í þessu máli. Það eru ekki smá tímamót. Í staðinn fyrir fjárhagsráð, viðskiptanefnd og innflutnings- og gjaldeyrisnefnd kemur nú innflutningsskrifstofa, þar sem tveir menn hafa alræðisvald og önnur sjónarmið en þeirra komast ekki að. Höftin og hömlurnar er allt saman eftir. Heldur nú hv. þm. í alvöru, að helstefnan verði nú einhver lífsstefna, þó að þessi óábyrgi oddamaður, eins og hann kallaði það, í fjárhagsráði hverfi nú út úr því? Ég hefði ekki trúað því, ef ég hefði ekki heyrt það af vörum hv. þm., að ekki væri nú ettir meiru slægzt í þessu frv. heldur en því að losna við óábyrgan Alþýðuflokksmann úr fjárhagsráði, því að sannleikurinn er sá, að þegar stjórnarflokkarnir standa þar saman, sem venjulega mun vera tilfellið, þá hefur hann engin áhrif, og jafnvel þó að ágreiningur rísi með þeim og hann geti skapað meiri hl. með öðrum hvorum hinna, þá verður ríkisstj. reyndar að skakka leikinn, et í það fer, samkvæmt reglum fjárhagsráðs.

En þessi lýsing hv. þm. á því, hve óheppileg væri skipun fjárhagsráðs nú, staðfestir einmitt ummæli mín hér áður um það, hvað fyrir ríkisstj. vaki í þessu efni. Hún telur sýnilega óheppilegt, að mörg og margvisleg sjónarmið komi fram við afgreiðslu mála í n., leyfisveitingar og slíkt. Þess vegna er að þrengja hópinn og sjá um, að enginn óábyrgur sé þarna að brúka munn og halda fram skoðunum, sem falla ekki saman við sjónarmið þeirra tveggja fulltrúa stjórnarflokkanna, sem þessi störf voru falin.

Hv. þm. gerði mikið úr því, að það mundi sparast á þessu stórfé. Ég hef nú mínar efasemdir í því. Ég verð að segja rétt eins og er. A.m.k. hefur hæstv. ríkisstj. ekki haft mikla trú á því, því að ekki er einu orði að því víkið í greinargerð frv., að neitt fé muni á þessu sparast, þvert á móti. Leyfisgjaldinu er haldið óbreyttu með öllu, og það bendir til þess, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki gert ráð fyrir því, að kostnaður mundi lækka neitt að ráði. Jú, það er fækkað um 3 menn í fjárhagsráði. En það munar nú engin ósköp um það í þeim mikla mat, sem þarna er um að ræða. Ég er dálitið orðinn varfærinn í því að leggja trúnað á sparnaðarráðstafanir í sambandi við breytingu á innflutningsmálum og verðlagsmálum og verðgæzlu og öðru slíku eftir þeirri niðurstöðu, sem virðist nú hafa orðið á sparnaðinum í sambandi við breytt verðlagseftirlit og verðgæzlu, sem mér skilst nú að hafi orðið nokkru minni en hæstv. ráðh. hafði gert sér vonir um a.m.k. og um einn tíma látið í veðri vaka. Ég mun því bíða þangað til reynslan sker úr því, hvað sparnaðurinn verður mikill af þessu, með að taka sem fullgildan sannleika frásagnir hv. þm. í því efni.

Í þessari sorgarsögu íslenzku þjóðarinnar allt frá 1932, þegar helstefnan var upp tekin, var þó, virtist mér á ræðu hv. þm. Barð., eitt ánægjulegt tímabil, en það var tímabil nýbyggingarráðs. Það var nú eitthvað annað en fjárhagsráð. Það vann mikil og stórkostleg afrek fyrir þjóðina. Störf þess verða seint fullmetin og verða seint fullþökkuð, sagði hv. þm. í líkræðustíl. Það sé fjarri mér að gera lítið úr störfum nýbyggingarráðsins. Það gerði ýmsa hluti góða. En það gerði líka stórkostleg mistök. En það merkilega er, að það, sem hefur haldið lofsamlegri minningu nýbyggingarráðs á lofti, er einmitt það, að það starfaði ettir sömu ákvæðum og nú á að feila úr gildi í fjárhagsráðslögunum, því að þau ákvæði í fjárhagsráðslögunum voru upp tekin sem framhald af því starfi, sem nýbyggingarráð hafði haft með höndum til þessa. Þess vegna finnst mér dálítið skjóta skökku við eftir þessi hugnæmu eftirmæli eftir nýbyggingarráð, sem hér voru flutt, að beita sér með slíkri hörku og offorsi fyrir því að fella úr gildi öll þau fyrirmæli í lögum, sem hníga í þá átt að halda áfram því, sem eftir var af störfum nýbyggingarráðs. En allt slíkt á, eins og áður hefur verið bent á, að þurrka út úr lögunum með þessu nýja frv., sem hér liggur fyrir. Þar á ekkert að vera nema vald stjórnarinnar til að setja höft og hömlur á hverjum tíma, eftir því sem hún metur ástandið og hennar geðþótti segir til um. Annað er ekki í þessu frv.

Hv. frsm. sagði, að í till. meiri hl. væri mörkuð sú stefna stjórnarflokkanna að gera allan innflutning frjálsan. Ég hef þegar bent á, að þetta er ekki nema orðin tóm, innantóm orð, falleg orð, sem ekki er veittur nokkur minnsti stuðningur í frv., sem hér liggur fyrir. Það er ekkert ákvæði, sem á nokkurn hátt er hægt að túlka í þá átt, að það auki gjaldeyristekjur þjóðarinnar. Öll slík ákvæði í fjárhagsráðslögunum eru þurrkuð burt. Það er ekki einn stafur í þessu frumvarpi, engin ákvæði, sem að því miða að auka verðmætasköpun hér innanlands, annaðhvort eða hvort tveggja til útflutnings eða til neyzlu hér í landinu, og þar með spara erlendan gjaldeyri. Um það er ekkert orð, engin viðleitni, engin vísbending fyrir innflutningsskrifstofuna, hvað á að hafa í huga, þegar hún veitir innflutningsleyfi. Samkvæmt þessum lögum er alveg jafnsjálfsagt að biðja um varalit og annað slíkt eins og vélar í mótorbáta. Gagnvart innflutningsskrifstofunni eru þessar vörur alveg jafnágætar. Hvort það er flutt inn glingur frá Englandi eða togari skiptir engu máli samkvæmt þessu frv., en fjárhagsráði var þó fyrirskipað í l. að miða leyfisveitingar sínar við það að auka gjaldeyristekjur og spara gjaldeyriseyðslu hér innanlands. Þetta er allt þurrkað út úr frv. auk annars, sem ég hef áður nefnt. Því hygg ég, að það sé mjög vægilega til orða tekið, að þetta fyrirheit eða stefnuyfirlýsing í 1. gr. minni helzt á stefnayfirlýsingu í öðru frv., sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fyrir Alþ., áfengislagafrv., sem var þannig, að stefnan sé að stuðla ekki að hófdrykkju, heldur hóflegri meðferð áfengis. Mér finnst þessi nýja stefnuyfirlýsing í innflutningsmálunum, þó að öðru leyti sé, helzt minna á þessa mjög rómuðu yfirlýsingu, sem áfengislagafrv. byrjar á, og er ég nú ekki viss um, að það hafi verið heppilegasta fyrirmyndin, sem hægt var að velja sér í þessum efnum, svo að ég segi alveg eins og er.

Ég vík svo að því að lokum, sem snertir brtt. mínar.

Aðaltill. mín á þskj. 292, 1. tölul., er sú, að allur innflutningur til landsins skuli vera frjáls og sömuleiðis útflutningur á vörum úr landinu. Þessi till. er beinlínis flutt í tilefni málflutnings hæstv. ríkisstj. og flokka hennar til þess að sannprófa, hvað mikil alvara felist að haki þessara yfirlýsinga. Ef loforðin um frjálsa verzlun eiga að vera annað en hjóm, ef hæstv. ríkisstj. trúir því, að það sé hægt að taka hana upp nú eða t.d. þegar þessi lög öðlast gildi eftir 2, 3 eða 6 mánuði, þá er bezt að segja það eins og er, og þá er rétt að gefa verzlunina frjálsa, láta hvern sem er fá að flytja inn hvað sem honum sýnist og selja sína vöru hvert sem honum sýnist. Ég þykist vita, að hæstv. ríkisstj. sé svo raunsýn í þessu efni, að hún játi, að þetta er ofmælt, sem hefur verið sagt í hennar yfirlý singum, og felli þessa till. Og ef hún er felld, tek ég aftur aðrar aðaltill. mínar.

Mér þykir rétt til þess að tefja ekki tímann að flytja einnig varatill. á sama þskj., og sú fyrsta þeirra lýtur að því, sem ég hef drepið hér á áður, að ég tel sjálfsagt, að reglugerðirnar, sem ríkisstj. gefur út samkvæmt þessum lögum, segi til um það, hverjar vörur skuli bannaðar á hverjum tíma, en ekki aðeins telja þær, sem frjálsar eru. Það var sú skipun, sem tekin var í upphafi, þegar innflutningshöftin voru sett á. Þá þótti sjálfsagður hreinleiki og heiðarleiki, að þær vörur væru upp taldar, svo að fólk vissi um það, sem þyrfti að sækja um leyfi fyrir. Hinar, sem ekki var auglýst að þyrfti að sækja um leyfi fyrir, gat þá hver maður keypt með venjulegum hætti. Till. mín lýtur að því, að reglugerðin ákveði, hvaða vörur skuli bannaðar eða háðar leyfisveitingum á hverjum tíma, en þær, sem þar eru ekki upp taldar, skuli vera frjálsar. Þá er enn fremur gert ráð fyrir því, að ríkisstj. geti ákveðið á hverjum tíma, hvaða gjaldeyrisgreiðslur skuli háðar leyfisveitingum. Mér finnst eðlilegt, að gjaldeyrir sé frjáls fyrir hverjar þær vörur, sem frjáls innflutningur er á, því að sé gjaldeyririnn ekki afhentur innan hæfilegs frests, þá er frelsið gert að engu með þeim hömlum, sem eru lagðar á nauðsynlegan gjaldeyri og útvegun hans.

Þá er gert ráð fyrir því í 2. brtt., að einstaklingum sé gert auðveldara að panta sér til eigin nota þær vörur, sem á annað borð eru frjálsar á hverjum tíma. Og til er stofnun í landinu, innkaupastofnun ríkisins, sem er til þess valin að hafa fyrirgreiðslu í þessu efni og safna þessum pöntunum saman. Þá fyrst er verzlunin frjáls, þegar hver maður getur pantað vörurnar frá þeim aðilum, sem hann kýs helzt, gengið fram hjá innlendum aðilum, kaupmönnum, kaupfélögum eða heildsölum, ef hann telur sig fá betri kjör með því að kaupa vörurnar beint frá útlöndum. Úr því að innkaupastofnun ríkisins er til, er ekkert auðveldara en að hún dragi þessar pantanir saman og afgreiði þær svo, þegar fólk óskar eftir því, sem ekki vill sjálft kaupa beint inn frá útlöndum.

Í þriðja lagi er svo till. um það, að bankarnir skuli jafnan skyldugir til að afgreiða gjaldeyri innan hæfilegs frests til kaupa á þeim vörum frá útlöndum, sem á annað borð eru frjálsar, því eins og ég áðan sagði, er frjáls innflutningur ekki nema orðið tómt, ef neitað er um gjaldeyri til að greiða fyrir vöruna. — Hinar aðrar brtt. mínar leiðir svo af því, sem ég nú hef sagt.

Ég hef svo ekki fleira að segja að þessu sinni. Ég hef markað mína lokaafstöðu í þessu máli eftir því, hvernig atkvgr. um till. minar fer. Fáist ekki sú efnisbreyting á frv., sem í þeim felst, sé ég mér ekki fært að greiða því atkv. og mun verða því andvígur.