10.02.1954
Sameinað þing: 32. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í D-deild Alþingistíðinda. (3310)

55. mál, bifreiðakostnaður ríkisins og opinberra stofnana

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér þykir vænt um, að þessi till. skuli nú loksins hafa verið tekin á dagskrá og til svars af hálfu hæstv. ríkisstj., en henni var útbýtt 14. okt. s. l., svo að ríkisstj. hefur haft á fjórða mánuð til þess að undirbúa svar sitt. Vona ég því, að það verði í samræmi við þann langa undirbúningstíma, rækilegt og ýtarlegt.

Það mun hafa verið fyrir 25 árum, eða 1928, að ríkissjóður keypti sína fyrstu bifreið til afnota fyrir ríkisstj. og ýmsa opinbera embættismenn. Þá var hér að völdum flokksstjórn Framsfl., en hv. Sjálfstfl. í harðri stjórnarandstöðu. Þessi kaup ríkissjóðs á einni bifreið sættu mikilli og harðri gagnrýni af hálfu þáverandi stjórnarandstöðu, hv. Sjálfstfl., og voru talin bera vott um mikið fjárbruðl og mikla óspilunarsemi. En síðan, á þessum 25 árum, hefur orðið á mikil breyting. Nú á ríkissjóður ekki aðeins einn bíl, heldur munu þeir bílar, sem ríkissjóður á eða hefur afnot af fyrir ráðherra sína og ýmsa opinbera embættismenn, skipta tugum, og heildarkostnaðurinn við þetta nemur vafalaust mjög stórum upphæðum. Það hefur aldrei tekizt að fá það upplýst fram að þessu, hversu miklu þessi kostnaður hefur numið, og það virðist vera svo mikið verk að telja hann allan saman, að hæstv. ríkisstj. hefur þurft til þess marga mánuði. En hér virðist þannig komið, að fyllsta ástæða sé til þess fyrir Alþingi og almenning allan að fá sem nákvæmastar upplýsingar um, hversu hér er haldið á málum, hvort hér sé um ráðdeildarsemi að ræða eða ekki. Þess vegna hef ég leyft mér að bera fram þessa fyrirspurn, en hún er um það, í fyrsta lagi, hversu ríkisstj. og ráðuneytin hafa margar bifreiðar í þjónustu sinni og hversu marga bifreiðarstjóra og hvað kostnaðurinn við þær hafi numið á s. l. ári, auðvitað að meðtöldum launum þeirra bifreiðarstjóra, sem fastráðnir eru við akstur. Enn fremur hef ég leyft mér að spyrja um, við hversu margar bifreiðar aðrar ríkissjóður greiðir kostnað að nokkru eða öllu leyti og hversu miklu sá kostnaður hafi numið, en það hefur verið á allra vitorði lengi, að ríkissjóður greiðir kostnað við ýmsar bifreiðar, sem ýmsir opinberir starfsmenn eða embættismenn eiga, en reka á kostnað ríkissjóðs.

Þá hefur það færzt mjög í vöxt á síðari árum, að ýmsar opinberar stofnanir og opinber fyrirtæki eigi bifreiðar til afnota fyrir forstjóra sína eða starfsmenn og greiði kostnað við þær að nokkru eða öllu leyti. Hef ég einnig spurt um, hversu miklu sá kostnaður hafi numið á árinu 1952. Og svo að síðustu, eftir hvaða reglum það fari, hvort rekstur bifreiðar sé að nokkru eða öllu leyti kostaður af ríkissjóði, opinberum stofnunum eða opinberum fyrirtækjum. En mér er ekki kunnugt um það, að birtar hafi verið neinar almennar reglur um það, hvenær ríkissjóður eða hið opinbera sjái ástæðu til þess að taka þátt í bifreiðakostnaði starfsmanna sinna. Þó hef ég nýlega frétt, að einhverjar reglur muni hafa verið settar um þetta af fjmrn.; en mér er ekki kunnugt um, að þær hafi verið birtar. Hins vegar hefur af því frétzt, að greiddir séu svonefndir bifreiðastyrkir í ýmsum stofnunum, meira að segja sumum hverjum, þar sem almenningur mun ekki koma auga á, að nokkur ástæða sé til þess að styrkja starfsmenn til bifreiðanotkunar eða styrkja þá til þess að aka milli húsa hér á kostnað ríkissjóðs.

Þessi fyrirspurn er fram borin af því, að ýmsir þingmenn og almenningur hefur talið, að bifreiðakostnaður ríkisstjórnarinnar hafi á síðari árum færzt svo mjög í vöxt, að farið sé að nálgast algert óhóf. En ef gera á skynsamlegar tillögur um einhvers konar endurskipulagningu á þessum málum í því skyni að halda hér sparlegar á en gert hefur verið, er auðvitað fyrst og fremst nauðsynlegt að fá heildarreikningsskil yfir það, hversu miklu þessi kostnaður nemi. Ég vona, að við fyrirspurnunum fáist glögg og góð svör, sem verða megi þingmönnum og almenningi til leiðbeiningar um það, hvernig málum þessum er komið, þannig að hægt verði síðar að gera skynsamlegar till. um endurskipulagningu á þessum málum á grundvelli þeirra upplýsinga, sem fram koma. En það hygg ég nokkurn veginn öruggt, að kostnaðurinn sé orðinn svo mikill, að ástæða sé til þess að taka mál þessi öll upp til nýrrar yfirvegunar og endurskipulagningar.