10.02.1954
Sameinað þing: 32. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í D-deild Alþingistíðinda. (3312)

55. mál, bifreiðakostnaður ríkisins og opinberra stofnana

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þessar ýtarlegu upplýsingar, sem hann veitti við fyrirspurnum mínum. Upplýsingarnar voru mjög fróðlegar og í rauninni svo efnismiklar, að nokkurn tíma þarf til þess að átta sig á þeim til fullnustu og dæma til hlítar um þá ráðsmennsku, sem hér er um að ræða. En fyrirspurnunum er glögglega svarað, og vildi ég mega vænta þess að geta fengið afnot af þeirri skýrslu, sem hæstv. ríkisstj. hefur látið gera um þetta mál, þar eð nokkrum erfiðleikum er bundið að skrifa allar þessar tölur eftir upplestri.

Það má þó teljast alveg augljóst af .þessum glöggu upplýsingum, að bifreiðanotkun á vegum ríkisins og opinberra stofnana er komin út í hið mesta óefni. Það er upplýst, að 260 stofnanir hafi bifreiðar á kostnað hins opinbera og að kostnaðurinn nemi hvorki meira né minna en 7.8 millj. kr., og auk þess njóti 85 aðilar bifreiðastyrks, nokkuð á áttunda hundrað þús. kr.

Það, sem helzt mátti finna að svörum hæstv. ráðh., var það, að hann gaf ekki glöggar upplýsingar um, eftir hvaða reglum hefði verið farið við úthlutun þessara bifreiðastyrkja og ákvörðun um það, hvort bifreiðakostnaður yrði borgaður að öllu leyti. En ég skil það þannig, að þessar reglur séu í raun og veru ekki til eða þá svo ófullkomnar, að ekki sé hægt að gefa gleggri svör en hæstv. ráðh. gaf um þetta efni, og er það auðvitað mjög miður, að svo skuli vera. En þegar um er að ræða næstum 8 millj. kr. útgjöld hjá ríkissjóði til þessa bifreiðarekstrar, þá má ekki minna vera en þessi útgjöld fari eftir algerlega fastmótuðum og fastskorðuðum reglum. Þær reglur vantar. Það ætti að setja um það lög, hvenær ríkissjóður teldi ástæðu til þess að styrkja bifreiðanotkun starfsmanna sinna og þá hversu mikið í hverju einstöku tilfelli. En mér virðist það alveg augljóst af þeim lista, sem hæstv. ráðh. las, að handahófs hefur gætt í því, hvaða embættismenn eða starfsmenn hafa verið látnir njóta þeirra hlunninda að fá ókeypis bifreiðanotkun á opinberan kostnað. Það væri hægt að nefna hliðstæð embætti, einvörðungu á grundvelli þeirrar skýrslu, sem hæstv. ráðh. las, þar sem annar embættismaðurinn hefur bifreið á kostnað ríkissjóðs, en hinn hefur það ekki. Slík dæmi eru vafalaust mörg og miklu fleiri en hægt er að átta sig á með mjög fljótum yfirlestri yfir það, sem skrifað er upp, svo að einstök dæmi um þetta vil ég ekki nefna að svo komnu máli til þess að eiga ekki á hættu að gera þar nokkrum órétt. En ég staðhæfi, að þessar upplýsingar, sem hæstv. ráðh. birti, gefa ótvírætt til kynna, að handahófs hefur gætt í þessum efnum. Og hin staðreyndin er enn fremur alveg ómótmælanleg, að fjárútlátin í þessu skyni eru komin út í hinar mestu öfgar.

Einn galli var enn á hinni annars ýtarlegu skýrslu hæstv. ráðh., að því er mér virðist, og hann er sá, að ekki er greint hjá ýmsum stofnunum á milli vörubifreiða og fólksbifreiða, svo sem hjá skipaútgerð og áfengisverzlun og flugmálum og nokkrum fleiri, þar sem ég geri ráð fyrir að kostnaður við rekstur vörubifreiða sé innifalinn í þeim tölum, sem þarna var um að ræða, og væri gott að fá upplýst, ef svo er ekki, en það kom ekki greinilega fram.

Ég skal ekki fjölyrða meir um þessar efnismiklu og athyglisverðu upplýsingar að svo komnu máli, heldur ljúka máli mínu með því að segja, að ég tel þessar upplýsingar stórmerkilegar og vera þannig vaxnar, að fyllsta ástæða sé til þess að taka bifreiðamál ríkisins upp í heild til gagngerðrar athugunar og endurskoðunar og þá helzt með sérstakri lagasetningu, þar sem gerð yrði gagngerð tilraun til þess að draga úr þessum óhóflega kostnaði og tryggja það, að því fé, sem veitt er í þessu skyni og nauðsynlegt er að veita, sé vel og skynsamlega og réttlátlega varið, en ekki af neinu handahófi.