22.10.1953
Sameinað þing: 10. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í D-deild Alþingistíðinda. (3318)

211. mál, húsnæði leigt varnarliðsmönnum

Fyrirspyrjandi (Bergur Sigurbjörnsson):

Herra forseti. Um leið og ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svarið, þá vil ég taka það fram, að ég býst við, að það hafi fleiri en hann orðið undrandi á því. hvað lágar tölur hann gat nefnt í sambandi við leigu hermanna hér í bænum. En auðheyrt var á hæstv. ráðh., að þær upplýsingar, sem hann hafði fengið, höfðu komið honum mjög á óvart, enda tel ég, að í hans svari hafi falizt skýring á því, hvers vegna þessar tölur voru svona lágar, þar sem ég gat ekki betur skilið en að það væru taldir löglegir leigusamningar hér á landi, ef t. d. íslenzk kona amerísks hermanns gerði hér leigusamning. Hefur þá væntanlega í rannsókn þeirri, sem hann gat um að gerð hefði verið, ekki verið farið nákvæmlega út í að athuga það, þó að einhverjir óviðkomandi, e. t. v. einhverjir tengdir slíkum fjölskyldum lauslega, stæðu að samningnum og væru samningsaðilar. Hitt nær ekki nokkurri átt, að það séu ekki nema sjö, og þó ekki nema einar fimm ítrúðir hér í bæ, sem leigðar séu amerískum hermönnum. En það verður að teljast mjög alvarlegt atriði, ef bandaríski herinn, sem hefur einn allra aðila í þessu landi möguleika á að byggja ótakmarkað yfir sig og sína, hefur líka til viðbótar því heimild samkv. varnarsamningnum til þess að láta einhverja og einhverja Íslendinga, hvort sem það væru konur hermanna eða aðrir, gera ótakmarkaða samninga fyrir sig um húsnæði hér í Reykjavík og til að kaupa íslenzkar barnafjölskyldur út á götuna.