10.12.1953
Efri deild: 32. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. fjhn. fyrir fljóta og góða afgreiðslu á þessu máli, sem hér er til umr. Og ég vil lýsa því yfir, að ríkisstj. er samþykk þeirri breytingu, sem gerð hefur verið við 1. gr. frv. Það er vitanlega engin efnisbreyting, það er aðeins orðalagsbreyting, og það er sjálfsagt að fallast á þessa breytingu, þar sem a.m.k. margir vilja halda því fram, að þetta orðalag fari betur í gr. heldur en eins og hún er í frv.

Hv. 4. þm. Reykv. talaði hér langt mál áðan, og hann vildi taka undir það, sem hv. frsm. sagði hér, að þessi breyting væri til bóta, og er það út af fyrir sig gott, að hv. minni hl. finnur eitthvað til báta í þessu frv., svo margt sem bann hefur við það að athuga.

Hv. 4. þm. Reykv. harmar mjög, að fjárhagsráð skuli vera að kveðja og völd þess og áhrif skuli vera að líða undir lok. Hann harmar mjög þau ákvæði fjárhagsráðslaganna, sem — eins og hann sagði — tryggðu landsfólkinu nægilega atvinnu, tryggðu það, að framleiðslutæki væru keypt til landsins, tryggðu það, að gjaldeyris væri aflað í þjóðfélaginn, tryggðu það, að landsfólkið fengi nægilegar vörur með réttu verði, og fleiri kosti, sem hann taldi upp í fjárhagsráðslögunum, en þetta frv. væri nú að afnema. Með þeirri tröllatrú, sem þessi hv. þm. virðist hafa á fjárhagsráði, og þeirri bölsýni, sem kom fram hjá honum í ræðunni út af því, að það skuli nú eiga að liða undir lok og það frv., sem hér er til umr., að lögfestast í staðinn, þá má ætla, að þessi ágæti og hv. þm. eigi ekki skemmtileg jól að þessu sinni.

En hvað er það nú, sem er fellt burt í fjárhagsráðslögunum og hefur gert þjóðinni svona mikið gagn eins og þessi hv. þm. vill fram halda? Hvernig hefur þetta verið á undanförnum 6–7 árum, sem fjárhagsráðslögin hafa verið í gildi? Hefur fólkið undir þessum lögum fengið nægilegar vörur á réttu og hagstæðu verði? Var það þannig, þegar stjórn Alþfl. fór með völd í landinu? Og var það þannig, að sú stjórn tryggði landsfólkinu nægilega atvinnu og sæi um, að gjaldeyrisöflunin væri nægileg hverju sinni, til þess að fólkið fengi nægilegar vörur og góðar vörur á réttu verði? — Þessi hv. þm. sagði hér áðan, að fjárhagsráð hefði verið óvinsælt eftir 1950, það hefði ekki borið á óvinsældum fjárhagsráðs fyrr en eftir þann tíma. Ég er nú dálítið hissa á því, að hv. þm. skuli koma fram með slíka firru hér í áheyrn okkar allra. Við munum það ástand, sem var hér í landi fyrir 1950, fyrstu ár fjárhagsráðs. Fjárhagsráð var stofnað 1947 eftir þessum ágætu lögum, sem hv. þm. las hér upp úr áðan. Og það var Alþfl., sem á þessum árum fór með stjórn landsins, fyrsta stjórn Alþfl. í þessu landi. Var það af því, að þessi stjórn notfærði sér ekki þessi ágætu lög, að allt var komið hér í strand, þegar þessi stjórn sagði af sér, að hér var vöruskortur og svartur markaður, að hér var töluvert um atvinnuleysi, að á þessum tíma var lítið keypt af framleiðslutækjum til landsins og atvinnuvegir landsmanna voru keyrðir í dróma og allt var komið í strand í árslok 1949, þegar stjórn Alþfl. kvaddi? Var það af því, að stjórnin notaði ekki lögin, að svona fór, eða var það af því, að lögin dugðu ekki? Ég vil halda því fram, að stjórn Alþfl. á árunum 1947–49 hafi viljað skapa nægilega atvinnu í landinu, hafi viljað hafa nægilegan vöruforða í landinu, enda þótt hún hafi ekki sýnt þá nauðsynlegu viðleitni, sem þarf til þess, að slíkt megi ske. Það dugir ekki fyrir neina ríkisstj. að hafa lagabókstaf, sem má vitna í, lagabókstaf, sem segir, að það eigi að tryggja fólkið fyrir atvinnuleysi, tryggja fólkinu nægilegar vörur, nema því aðeins að stjórnin hafi úrræði og raunsæi til þess að framfylgja þessum lögum og reglum. Ég held, að það sé óhætt að fullyrða það, að fjárhagsráð var óvinsælast á 2–3 fyrstu starfsárum sínum, á meðan Alþfl. fór með stjórn í landinu og á meðan vöruskorturinn var í landinu og svarti markaðurinn þróaðist hér og var í algleymingi. Það var í ársbyrjun 1950, eftir að minnihlutastjórn Sjálfstfl. markaði stefnuna og benti á leið út úr ógöngunum, að það fór að refa til, að menn fóru að sjá til lofts og gerðu ráð fyrir því, að framvegis gæti þessi þjóð komizt út úr vandræðunum og atvinnulífið ætti fyrir sér að ganga áfram. Það var með þeirri stefnu, sem mörkuð var í ársbyrjun 1950 af minnihlutastjórn Sjálfstfl., sem bent var á leiðir út úr ógöngunum. Og eftir að Sjálfstfl. og Framsfl. tóku höndum saman til þess að framkvæma þessa stefnu, þá fór að rofa til, þá fór að skapast möguleiki fyrir því að slaka á höftunum að nokkru leyti, og þá var byrjað á því að útrýma svarta markaðinum og gera mönnum yfirleitt fært að halda atvinnu sinni áfram. Þetta veit ég að hv. 4. þm. Reykv. viðurkennir í hjarta sínu og veit, enda þótt hann hér áðan kæmi hér upp, þegar hann var að andmæla þessu frv., og segði allt annað en það, sem hann veit, og það, sem hann meinar í þessu efni.

Hvers vegna hv. þm. leggur svona mikla áherzlu á að mótmæla þessu frv., sem hér er lagt fram til úrbóta og aukins frelsis fyrir alla landsmenn, er mér að nokkru leyti ráðgáta, enda þótt ég sjái að sumu leyti ástæðuna, sem sé þá, að vegna þess að hann er í stjórnarandstöðu, telur hann pólitíska og flokkslega nauðsyn á því að gera lítið úr þessu frv. ríkisstj. og sem sagt reyna að koma í veg fyrir, að ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hljóti verðugar vinsældir af þessari lagasetningu. Þetta er ekki nema mannlegt. Þannig gengur þetta oft í hinni pólitísku baráttu, og ég ætla ekki að kveða upp neinn áfellisdóm yfir hv. þm. fyrir það, þótt hann hér reyni að berja í brestina og halda sínum málstað fram.

Hv. þm. talaði um það, að ríkisstj. vildi hafa vald. Ég verð nú að segja, að það væri dálítið einkennileg ríkisstj. og lítilsvirði, ef hún vildi ekki hafa vald. Ég held, að það sé nauðsynlegt fyrir hverja ríkisstj. að hafa vald, en hver ríkisstj. þarf að fara vel með það vald, sem henni ,er gefið, og það er rétt, að þetta frv. tekur ekki af ríkisstj. vald til þess að ráðstafa og ákveða hverju sinni skipun innflutningsmálanna, fjárfestingarmálanna eða atvinnumálanna í þessu landi. Það tekur ekki valdið af ríkisstj., en það eykur lítið eða ekkert vald ríkisstj. frá því, sem hún hafði undir fyrri lögum um fjárhagsráð. Það er tekið fram í 1. gr. frv., að það skuli, eins og nú verður orðað, stefna að því að gera allan innflutning frjálsan, eftir því sem hægt er hverju sinni, og reglugerð verði gefin út um það. Það er löngu kunnugt, að það er stefna ríkisstj. að gera innflutninginn frjálsan eftir því sem hægt er. Og reglugerðin verður sniðin hverju sinni eins rúm og frekast er unnt. Og það er vitanlega veigamikill munur, hvort það er stefna ríkisstj. að hafa innflutninginn eins frjálsan og unnt er hverju sinni, hvort það er stefna ríkisstj. að hafa höft og hömlur meira en nauðsyn ber til, hvort það er stefna ríkisstj. að hafa landsverzlun og einkasölur. innlenda einokun í staðinn fyrir erlenda, sem hér var áður og gafst eins og okkur er öllum kunnugt um, eða hvort stefna ríkisstj. væri sama stefna og kemur fram í till. hv. 4. þm. Reykv., að einstaklingar færu að gerast innflytjendur og kaupa erlendan varning á smásöluverði. Ég undrast, að jafngreindur maður og hv. 4. þm. Reykv. skuli láta sér sæma að flytja till. um það, að einstaklingar í þessu landi fari að panta vörur á smásöluverði eftir vörulistum frá magasinum erlendis frá, á sama tíma og hann talar um, að gjaldeyrir þjóðarinnar sé af skornum skammti og það þurfi að gæta varúðar við og nauðsyn beri til að efla gjaldeyrisöflunina, til þess að þjóðin hafi nægilegan gjaldeyri á hverjum tíma. En á sama tíma ber hann fram till. um, að Pétur og Páll geti pantað vörur eftir vörulistum frá erlendum magasínum á smásöluverði. Það væri farið vel með gjaldeyrinn, ef þetta væri innleitt! Það hefur áður verið á það minnzt, að það væri ekki heppilegt, þegar íslenzkir sjómenn færu í verzlanir í erlendum hafnarbæjum og keyptu á smásöluverði, það væri ekki til þess að drýgja gjaldeyrinn, það væri heppilegra að gefa sjómönnunum tækifæri á einhvern annan hátt til þess að drýgja tekjur sínar heldur en að eyða gjaldeyrinum til óþarfa með því að kaupa á smásöluverði í erlendum hafnarbæjum. Það, sem er nauðsynlegt, er, að vörurnar séu keyptar á hagstæðu verði til landsins og að vel sé farið með gjaldeyrinn á hverjum tíma. Og það er samkeppni hinna vönu, menntuðu og þjálfuðu verzlunarmanna, sem tryggir það bezt af öllu.

Hv. þm. talaði um það, að með þessu frv. væri verið að tryggja, að flokkssjónarmiðin réðu í innflutningsmálunum, með því að nú væri fækkað úr 5 mönnum í 2 menn á innflutningsskrifstofunni, og það væri sýnilegt, að stjórnarflokkarnir ætluðu að láta flokksvaldið ráða. Þetta er náttúrlega reginmisskilningur hjá hv. þm. Breytingarnar, sem hugsaðar eru á skipan innflutnings-, gjaldeyris- og fjárfestingarmálanna með þessu frv., eru í því fólgnar að gera þessi mál einfaldari og framkvæmdina á allan hátt réttlátari en áður hefur verið, og ég er sannfærður um það, að þegar aðeins er um tvo menn að ræða, sem bera ábyrgð á þessu, í stað 5, þá verður öll framkvæmdin einfaldari og réttlátari en á meðan þeir voru 5. Ábyrgðin dreifist minna. Hún er á þessum 2 mönnum. Þeir geta ekki skýlt sér á bak við neina aðra, og ef ranglæti er framið, þá skellur það beint á þeim. Þeir geta ekki flúið eða skýlt sér á bak við aðra, en reynslan mun vitanlega skera úr því, hvort þessi spádómur minn og þessi sannfæring mín reynist ekki að öllu leyti rétt. Hitt eru svo óviðeigandi aðdróttanir og ég vil segja svigurmæli í garð núverandi ríkisstj. og stjórnarflokka að slá því hér fram, að það eigi að fara að nota þetta pólitískt eða láta flokksvaldið ráða, jafnvel til þess að niðast á einhverjum öðrum, t.d. andstæðingum.

Hv. þm. hefur áður minnzt á 8. gr. frv. og gerir lítið úr henni, þótt hann hafi nú sagt hér einhvern tíma, að þetta væri aðeins rýmkun, en sýndarrýmkun að mestu leyti, eins og hann orðaði það. Það er alveg í samræmi við það, sem stjórnarandstæðingar sögðu og gerðu í hv. Nd. við atkvgr. um þetta frv. Þeir greiddu allir atkv. á móti 8. gr. frv. Þeir greiddu allir atkv. á móti byggingarfrelsi. Ja, mér kom það dálítið einkennilega fyrir. Þeir voru á móti því, að byggingarfrelsi væri innleitt. Þeir eru á móti því, eins og stendur í 8. gr., að öll fjárfesting, sem snertir almenning í þessu landi, sé gefin frjáls. Þeir vilja hafa höft á byggingunum. Hvers vegna? Er það til þess að geta haldið áfram að skamma ríkisstj. fyrir það, að hún leyfi ekki byggingar yfir húsnæðislaust fólk? Er það til þess að geta skammað ríkisstj. áfram fyrir það, að hún vilji viðhalda heilsuspillandi íbúðum í kaupstöðum og kauptúnum? Ef þetta er ástæðan, þá er þetta óleyfileg hræsni og óleyfilegur málflutningur, óleyfileg málsmeðferð í hv. Alþ., og ég sé ekki, að það geti verið nokkur önnur ástæða fyrir því að vera á móti þessu, vegna þess að 8. gr. og frelsi í byggingum er svo þýðingarmikið fyrir allan almenning í þessu landi og svo mikið spor í áttina til frelsis og aukinna möguleika á því að fá sæmileg húsakynni, að það er ekki leyfilegt fyrir nokkurn vel hugsandi mann að standa hér á móti. — Þá segja þessir menn, að það sé nú lítið gagn í því að ákveða með lögum, að fjárfestingin skuli vera frjáls, en loka svo bönkunum fyrir fólkinu og neita því um lán. Það er náttúrlega rétt, að það er erfitt um lánsfé, og það hefur nú alltaf verið, en bæði fyrrverandi og núverandi ríkisstj. hafa reynt, eftir því sem mögulegt hefur verið, að greiða úr þessu með smáibúðalánum og gert miklu meira í þessum efnum en aðrar ríkisstjórnir, t.d. stj. Alþýðuflokksins á meðan hún fór með völd, - ekkert svipað. Það verður að segja, að það er stórt átak, sem gert hefur verið í því að útvega fólki lán til þess að koma þaki yfir höfuðið með þessum smáíbúðalánum, sem hafa verið veitt hundruðum manna í landinu undanfarið. Og það er stefna núverandi ríkisstj. að halda áfram á þeirri braut, eftir því sem mögulegt er, að hjálpa fólki til þess að fá lán til þess að byggja þannig nauðsynlega yfir sig.

Þegar hv. 4. þm. Reykv. er að tala hér um það, að þetta frv. sé ómerkilegt mál og sýndarfrv., vegna þess að það sé raunverulega ekki hægt að gefa innflutninginn frjálsan, þá leyfir hann sér samtímis að flytja hér till. á þskj. 292 um það, að innflutningurinn skuli vera að öllu leyti frjáls. Þetta stangast nú dálitið á. Og ég verð að segja það, að fram að þessu hef ég tekið hv. 4. þm. Reykv. dálítið alvarlega, ég hef álitið hann greindan, gegnan og reyndan þm., og þess vegna undrast ég, að hann skuli taka upp þessar till. hér á þessu þskj. og flytja þær í algerri mótsögn við það, sem hann sjálfur talar hér.

Höfum við gert okkur grein fyrir því, hvað þarf að ske í þessu þjóðfélagi til þess, að verzlunin geti orðið frjáls að öllu leyti? Við vitum það sennilega allir, að til þess, að það geti skeð, þarf atvinnulífið að standa í blóma. Það þarf að vera hér heilbrigt atvinnuástand, það þarf að vera hér heilbrigt ástand í fjármálum, bankamálum og peningamálum, og þegar það kemst á, getur verzlunin verið raunverulega frjáls.

Nú mun einhver spyrja: Er það ekki þannig í dag? Er ekki hægt í dag að segja, að verzlunin skuli vera að öllu leyti frjáls, vegna þess að þessi skilyrði séu að öllu leyti fyrir hendi? Ég segi: Það hefur færzt mikið í áttina nú undanfarið til þess, að þetta megi ske. Atvinnuástandið hefur batnað stórlega, og verið er að vinna að því, að peningamálin og fjármálin komist einnig í gott horf. Þessi skilyrði þurfa að vera fyrir hendi, til þess að innflutningurinn geti verið að öllu leyti frjáls. Það er ekki enn komið í það ástand, að við getum sagt þetta, en ríkisstj. er að vinna að því.

Af því að hv. 4. þm. Reykv. veit, að þessi skilyrði þurfa að vera fyrir hendi, til þess að innflutningurinn sé að öllu leyti frjáls, og hann samt sem áður flytur till. um frjálsan innflutning að öllu leyti, þá verð ég að segja það, að í till. hv. þm. felst fullkomið traust á núverandi ríkisstj., og getum við þess vegna sætt okkur vel við þann dóm, sem felst í flutningi þessarar till. En ríkisstj. telur ekki ástæðu til þess að samþ. þessa till., vegna þess að hún hefur samkv. 1. gr. möguleika til þess að gera verzlunina að öllu leyti frjálsa, þegar hún hefur gert það, sem þarf, til þess að það megi takast, þ.e. að koma atvinnumálunum, peningamálunum, fjármálunum og bankamálunum í heilbrigt horf að öllu leyti.

Nú vil ég segja það, að 1947 og 1949 var hér allt í haftadróma. Þá var hér stjórn Alþfl. Hún gerði ekki tilraun til þess að leysa höftin, hún gerði ekki tilraun til þess að koma atvinnumálum þjóðarinnar í heilbrigt horf né peningamálum og bankamálum. Hún gafst upp. Hún sigldi svo skútunni algerlega í strand og gafst upp, og aðrir tóku við og mörkuðu nýja stefnu og hafa á undanförnum árum náð miklum árangri með því að vinna eftir þessari nýju stefnu, þeim árangri að breyta verzlunarfyrirkomulaginu þannig, að í dag eru 63–64% af öllum innflutningi til landsins frjáls, á frílista. Er það mikil breyting frá því, sem var, þegar allt var skammtað og allt var bundið í höftum. En það er ekki enn nema 63–64% af innflutningnum frjálst, vegna þess að það er ekki enn búið að koma öllu í það lag eins og þarf að vera, til þess að þetta geti orðið, en ríkisstj. mun vinna að því eftir fremstu getu og losa á höftunum að svo miklu leyti og eins fljótt og unnt er.

Það verður að gera kröfur til þess, að allir þm. geri sér ljóst, að verzlunin og athafnafrelsið í þessu landi byggist á því, að þjóðin afli gjaldeyris. Það ættu allir að vita, að það má ekki flytja meira inn til landsins hverju sinni heldur en unnt er að greiða. Ég sagði hér við 1. umr. þessa máls, að gjaldeyrisástandið væri í dag ekki það gott, að við gætum gefið verzlunina að öllu leyti frjálsa, en gjaldeyrisástandið er í dag eigi að síður mjög sæmilegt. Það er betra en það var á sama tíma í fyrra. Ef við sleppum fyrirframgreiðslunum, þá er aðstaða bankanna nú gagnvart útlöndum þannig, að við eigum inni 100 millj. kr. 1. des. 1953, en á sama tíma 19ö2 68 millj., og ég hef hérna skýrslur hjá mér, sem ég tel ekki ástæðu til að lesa upp úr, en hv. 4. þm. Reykv. er velkomið að sjá, ef hann vefengir þessar tölur.

Ég segi: Þótt aðstaða bankanna við útlönd hafi batnað um 32 millj. kr. á þessu ári, þá er það ekki neitt til þess að hæla sér af, en það er sjálfsagt og rétt að upplýsa þetta, segja mönnum frá þessu, vegna þess að það sýnir, að við erum þó á réttri leið, við erum að vinna dálitið á hvað þetta snertir.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði hér áðan, að það væri slæmt, að við lifðum ekki eingöngu á eigin framleiðslu. Hann sagði það ekki með þessum orðum, en í þessari meiningu, að gjaldeyristekjur þjóðarinnar á þessu ári væru að nokkru leyti vegna varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, að nokkru leyti vegna Marshallaðstoðar, sem nú væri búið að loka fyrir. Og þetta er alveg rétt. Þannig hefur þetta verið, og vitundin um það, að þetta getur ekki orðið þannig til frambúðar, hlýtur að gera hverri ríkisstj. ljóst, að það ber að vinna að aukningu atvinnutækjanna og að aukningu gjaldeyris fyrir framleiðsluna, hvað sem lögum liður í þessu efni. Og núverandi ríkisstj. mun gera þetta, ekkert síður fyrir það, þótt einhver lagabókstafur í lögum um fjárhagsráð sé ekki lengur fyrir hendi. Hún mun ekki gera það neitt síður fyrir það, enda, eins og ég sagði hér áðan, dugði ríkisstj. Alþfl. ekki lagabókstafurinn á árunum 1947 og 1949, því að hún hafði ekki stuðning af þessum lagabókstaf, sem hv. 4. þm. Reykv. var hér að rexa um áðan, eða þá hafði ekki úrræði til þess að styðjast við hann. Og ég segi: Það er þá betra að hafa ríkisstj., sem hefur úrræði og veit, hvað þarf að ske og hvað þarf að vera fyrir hendi, til þess að þjóðin geti verið efnalega sjálfstæð og lifað á eigin framleiðslu, án þess að hafa lagabókstaf, heldur en úrræðalausa ríkisstj., sem hefur lagabókstaf til að styðja sig við, en hefur ekkert gagn af því.

Hv. 4. þm. Reykv. var að tala hér um, að það yrði nú ekki annar sparnaður við þessa breytingu heldur en það, að í stað 5 fjárhagsráðsmanna yrðu nú 2. Ég held hann hafi bara sagt það hér skýrum orðum, að það yrði ekki annar sparnaður. Hvað veit nú hv. þm. um þetta? Ef hann veit ekki betur, þá ætla ég að upplýsa hv. þm. og aðra hv. dm., að hér verður um töluverðan sparnað að ræða. Það verður um töluverðan sparnað að ræða í mannahaldi, í húsnæði og ekki sízt í skriffinnsku. — Hv. þm. talaði um, að það hefði litið sparazt við verðgæzluna og verðlagsákvarðanir, þótt hámarksákvæði hafi verið afnumin af ýmsum vörutegundum. Ég vil upplýsa hv. dm. um, að það er 8 mönnum færra núna í verðgæzlunni heldur en var, á meðan hámarksákvæðin voru á öllum vörum. Ég veit ekki, hvort þetta er nokkuð til þess að hrósa sér af, en það er staðreynd, — það er 8 mönnum færra, — og hlýtur þess vegna að hafa sparazt þarna sem nemur launum þessara 8 manna, enda þótt launagreiðslur hjá verðgæzlunni núna séu ekki lægri en þær voru fyrir gengisbreytinguna, vegna þess að laun hafa hækkað síðan til hvers manns. Þó hafa þessir menn, sem starfa við verðgæzluna, ekki hærri laun en ákveðið er í launalögum, og með þessu frv. er gert ráð fyrir því, að verðlagsákvörðun og verðgæzla verði sameinuð. Eins og núna er, starfa 3 menn að verðlagsákvörðun í fjárhagsráði. Þessu verður breytt og allt fengið verðgæzlunni, nema það, sem þessir tveir menn, sem veita innflutningsskrifstofunni forstöðu, hafa á hendi af verðlagsákvörðununum. En þessir 3 menn, sem nú starfa í fjárhagsráði að verðlagsákvörðunum, sparast náttúrlega og vitanlega margir menn, sem hafa unnið að fjárfestingarmálunum í fjárhagsráði, en fara þaðan algerlega og hætta þar starfi, vegna þess að ekki er lengur verkefni fyrir þá.

Ég veit ekki, hvort það er nokkur ástæða til þess að vera að tala hér öllu lengur. Ég hef drepið á flest þau atriði, sem hv. 4. þm. Reykv. var hér með áðan. Ég ætla, að þegar menn lita á frv. hér á þskj. 266 og bera það saman við fjárhagsráðslögin og það ástand, sem menn hafa orðið að búa við undir þeim lögum og framkvæmd þeirra laga, þá muni allir, — og ekkert síður þeir, sem eru í stjórnarandstöðu, en eiga eitthvað við atvinnurekstur, — þeir munu ekkert síður fagna flutningi þessa frv. heldur en aðrir, enda þótt þeir af vissum ástæðum telji rétt að gera lítið úr því.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði hér áðan, að það er vitanlega aðalatriðið hverju sinni og það hlýtur að vera aðalatriði hverrar ríkisstj. hverju sinni að efla framleiðsluna með öflun nýrra atvinnutækja og tryggja fólkinu í landinn nægilega atvinnu. Það er ekki hægt að tryggja nægilega gjaldeyrisöflun fyrir nauðsynjum þjóðarinnar og uppbyggingu atvinnulífsins nema með því, að þessir fáu menn, sem búa í landinn, hafi nægilega atvinnu. Það verður bezt tryggt með því að losa á fjötrunum, auka athafnafrelsið, til þess að þeir, sem hafa dug og getu til að starfa, fái notið sín. Þetta er hollt að gera sér ljóst, og það hefur verið nú upp á síðkastið unnið eftir þessari stefnu og verður haldið áfram að vinna eftir þessari stefnu, að þjóðin geti aflað sér nægilegs gjaldeyris fyrir nauðsynjum og að hér verði byggð upp nægileg atvinnutæki, til þess að fólkið hafi atvinnu. Þetta er og verður að vera höfuðverkefnið, því að okkur er ljóst, að það er ekki framtíð í því að byggja á gjaldeyristekjum, sem koma frá varnarliðinu eða á annan óeðlilegan hátt inn í landið. — Held ég, að ég hafi svo ekki þessi orð fleiri að sinni.