22.10.1953
Sameinað þing: 10. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í D-deild Alþingistíðinda. (3321)

211. mál, húsnæði leigt varnarliðsmönnum

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Ég verð að segja það, að ég á erfitt með að svara þessari síðustu fyrirspurn, því að hún kemur mér sáralítið við. Ég veit ekki, til hvaða ráðh. ætti að beina henni. Sennilega til þess, sem ætti að hafa eftirlit með gjaldeyrisverzlun hér á landi. Ég er búinn að vera það stutt í Reykjavík, að mér er alls ekki kunnugt um neina leigusamninga og hef a. m. k. ekki átt hlutdeild í neinum leigusamningum, þar sem samið sé um greiðslu í amerískum dollurum. Hvort það er, það get ég ekkert um sagt. Það er sennilega á fárra manna færi að gefa upplýsingar um slíkt. Slíkir hlutir mundu vera gerðir án þess, að vottar séu við hafðir, og það er eins og var til forna, að það varðar ekki við lög að blóta á laun. En ef opinbert er, þá auðvitað varðar það við gjaldeyrislögin. Ég vísa þessari fyrirspurn algerlega frá mér, því að ég get ekki svarað henni frekar.