22.10.1953
Sameinað þing: 10. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í D-deild Alþingistíðinda. (3324)

212. mál, ólöglega innfluttar vörur

Fyrirspyrjandi (Bergur Sigurbjörnsson):

Herra forseti. Félag ísl. iðnrekenda, en svo nefnast heildarsamtök helztu iðnrekenda í verksmiðjuiðnaði hér á landi, gefur út mánaðarrit, sem heitir Íslenzkur iðnaður. Ritstjóri þess rits er Páll Sigþór Pálsson, en ábyrgðarmaður Kristján Jóh. Kristjánsson, formaður Félags ísl. iðnrekenda, talinn einn af máttarstólpum Sjálfstfl., greindur maður og grandvar í hvívetna og seinþreyttur til vandræða. Íslenzkur iðnaður verður því, m. a. af hv. stjórnarflokkum, talinn mjög ábyrgt málgagn ábyrgra manna.

Í ágústhefti þessa blaðs er bréf, sem Félag ísl. iðnrekenda sendi fjmrn. 7. sept. s. l. Í bréfi þessu er frá því skýrt, að umrætt félag hafi tvísvar áður skrifað fjmrn., í fyrsta sinn 17. nóv. 1952, og borið fram ákærur út af því, að mikil brögð væru að því, að í verzlunum hér í Reykjavík og úti á landi væru á boðstólum vörur, sem fluttar væru inn með ólöglegum hætti og því tollsviknar. Einnig er þess getið, að félagið hafi skrifað viðskmrn„ tollstjóra og kært til sakadómara út af þessu ólögmæta framferði, en lítinn árangur séð af öllu því erfiði.

Í bréfinu til fjmrn. eru taldar upp 5 vörutegundir og þess getið, að þær séu ólöglega innfluttar, tollsviknar, eða eins og þar segir, með leyfi hæstv. forseta, að á markaðinn virðast koma ýmsar vörur, sem ekki eru fluttar inn á löglegan hátt og sleppa þannig undan tollgreiðslum.“

Mér er kunnugt um, að Félag ísl. iðnrekenda var reiðubúið að leggja fram óhrekjanlegar sannanir ákæruatriðum sínum til stuðnings, ef þess hefði verið óskað af hálfu fjmrn., en engar slíkar óskir bárust frá rn. né hafa enn þá borizt þrátt fyrir ítrekaðar kærur félagsins.

Það er eftirtektarvert, að vörur þær, sem kært er yfir að séu seldar tollsviknar á frjálsum markaði víðs vegar hér á landi, eru allar eða flestallar frá Bandaríkjunum. Þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það, hvernig á því stendur, enda hefur því oft verið haldið fram í blöðum, án þess að æðstu yfirvöld landsins mótmæltu, að stórkostlegt smygl væri rekið frá Keflavikurflugvelli, en hinn ameríski her, sem hér dvelst, nýtur þeirra fríðinda með meiru að búa við algert tollfrelsi.

Nú er það þekkt fyrirbæri víða erlendis, að bófafélög reka smygl í stórum stíl, og í sambandi við þau eru svo svartamarkaðs- og leynisalar, sem dreifa vörunum. En það er hins vegar hvergi þekkt á byggðu bóli, þar sem lög og réttur eru einhvers metin, að tollsviknar vörur séu seldar fyrir opnum tjöldum á frjálsum markaði fyrir framan nefið á og til háðungar öllum þeim yfirvöldum, sem gæta eiga laga og réttar og almenns velsæmis. Svo fullkomið og takmarkalaust virðingarleysi fyrir lögum og reglum þekkist hvergi, nema þá ef vera skyldi hér á landi. Og það er líka óþekkt með öllu, að æðstu yfirvöld þoli slíkt framferði þegjandi og hljóðalaust mánuðum saman, eftir að opinberar ákærur höfðu borizt um það, nema þá ef vera skyldi hér á landi.

Til þess að gefa hæstv. fjmrh. tækifæri til að afsanna það, að Ísland sé verr á vegi statt í þessum efnum en önnur lönd, og til að afsanna þær óbeinu sakargiftir um vítavert sinnuleysi í þessum efnum, sem bréf Félags ísl. iðnrekenda felur í sér, hef ég lagt fyrir hann nokkrar spurningar á þskj. 62, sem hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

„1) Hinn 17. nóv. 1952 barst fjmrn. bréflega ákæra frá Félagi ísl. iðnrekenda (sbr. málgagn félagsins í ágúst s. l.) um það, að í verzlunum hér á landi væru vörur, sem þangað væru komnar eftir ólöglegum leiðum og ekki hefði verið greiddur af tollur. — Lét fjmrn. þá þegar fara fram rannsókn vegna þessarar ákæru? Ef svo var ekki, hverjar orsakir lágu þá til þess, að það var ekki gert?

2) Hinn 1. apríl 1953 ítrekaði Félag ísl. iðnrekenda þessa ákæru með bréfi til fjmrn. Var þá fyrirskipuð rannsókn vegna þessarar ákæru? Ef svo var ekki, hverjar orsakir voru því valdandi, að svo var ekki gert?

3) Hinn 7. sept. s. l. endurtekur Félag ísl. iðnrekenda í þriðja sinn þá ákæru sína til fjmrn., að hér séu á boðstólum tollsviknar vörur á frjálsum markaði. — Hvað hefur sú athugun, sem fjmrn. þá fól tollstjóra að framkvæma, leitt í ljós?

4) Hefur ríkisstj. í hyggju að fyrirskipa sakamálshöfðun gegn þeim aðilum, sem brotlegir kynnu að reynast, ef ákærur Félags ísl. iðnrekenda væru á rökum reistar?

5) Hvernig er það tryggt almennt, að ekki séu hér á boðstólum tollsviknar vörur á frjálsum markaði?

6) Hvaða sérstakar ráðstafanir hafa verið gerðar og eru gerðar til þess að koma í veg fyrir það, að tollfrjálsar vörur hernámsliðsins á Keflavíkurflugvelli séu á boðstólum hér í verzlunum eða á annan hátt?“

Til viðbótar þessu vil ég svo aðeins geta þess, að blað hæstv. fjmrh., Tíminn, birti í gær grein, þar sem sagt er frá því, að mikil brögð muni vera að því, að spiritus sé smyglað inn í stórum stíl til landsins.