22.10.1953
Sameinað þing: 10. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í D-deild Alþingistíðinda. (3326)

212. mál, ólöglega innfluttar vörur

Fyrirspyrjandi (Bergur Sigurbjörnsson):

Herra forseti. Ég hygg, að aldrei hafi neinn ráðh. sýnt jafnlítilmótlega framkomu á Alþingi Íslendinga og hæstv. fjmrh. gerði hér áðan. Ég hef aldrei haft háar hugmyndir um kurteisi og siðmennilega framkomu þessa hæstv. ráðh. Ég hef aldrei látið mér detta í hug, að hann hafi af lærimeistara sínum, Jónasi Jónssyni, lært mikið í þeim efnum. Hins vegar hefði honum átt að vera vorkunnarlaust á langri starfsævi að læra hvort tveggja, kurteisi og siðmenntaða framkomu, af undirmönnum sínum í fjmrn. Ruddalegt orðbragð ráðh. í minn garð læt ég mig því litlu skipta og mun ekki einu sinni beina þeirri spurningu til hæstv. forseta, hvað langt þm. leyfist að ganga í slíku hér á hv. Alþingi.

Hæstv. ráðh. lagðist svo lágt í því að afsaka sjálfan sig í því máli, sem hér var til umr., að hann neitaði því, að bréf Félags ísl. iðnrekenda frá 17. nóv. 1952 væri til. Ég mun, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp stuttan kafla úr Íslenzkum iðnaði, ágústblaði 1953. Þar segir svo:

„Hinn 1. apríl s. l. ritaði F.Í.I. hv. fjmrn. bréf, þar sem vakin er athygli á því, að á markaðinn virðast koma ýmsar vörur, sem ekki eru fluttar inn á löglegan hátt og sleppa þannig undan tollgreiðslum. Mál þetta bar á góma á síðasta ársþingi F.Í.I. og samþykkti þingið einróma svo hljóðandi tillögu:

Þá vill ársþingið að marggefnu tilefni skora á hlutaðeigandi yfirvöld að skerast tafarlaust í leikinn um það, að ekki sé á boðstólum í verzlunum iðnaðarvarningur, sem ekki er leyfður innflutningur á. Þar sem oss er eigi kunnugt um, að hafizt hafi verið handa með athugun á þessu máli né eftirlit í þessu skyni hafi verið tekið upp, þrátt fyrir ósk vora í nefndu bréfi og ábendingu í bréfi dags. 17. nóv. 1952, viljum við enn eindregið fara fram á, að ákveðnar ráðstafanir verði nú þegar gerðar til upplýsinga og vægðarlaust bundinn endi á allt misferli, sem koma kann í ljós við þá athugun.“

Þetta held ég að nægi til þess að sanna það, að hæstv. ráðh. fór hér með rangt mál áðan, og til að sanna það sömuleiðis, að það var rangt, sem hann þar hélt fram, að Félag ísl. iðnrekenda hefði ekki óskað eftir rannsókn í þessu máli.

Að öðru leyti krefst svar hæstv. ráðh. varla athugasemda. Hann laut svo djúpt í því að reyna að afsaka sig, að hann bendlaði sjómannastéttina við þetta mál, til þess að reyna að draga úr áhrifum þess ástands og því hyldýpi spillingarinnar, sem hér blasir við í því, að það hefur liðizt mánuðum saman og kannske árum, að hér væru seldar fyrir opnum tjöldum á frjálsum markaði tollsviknar vörur, án þess að hin æðstu yfirvöld hreyfðu hönd né fót í því efni.

Þetta sinnuleysi stjórnarvaldanna verður þó e. t. v. skiljanlegra þegar menn athuga það, hverjir eiga hér hlut að máli. Það er í fyrsta lagi verzlunarstéttin, eftirlætisgoð hæstv. fyrrverandi ríkisstj., sú stétt, sem hæstv. fyrrverandi ríkisstj. gaf einkarétt á að féfletta almenning í þessu landi með því að heimila henni ótakmarkaða álagningu á allar vörur og leysa af allar þær hömlur, sem áður höfðu veríð þar á. Og í öðru lagi er hér um að ræða annað eftirlætisgoð hæstv. stjórnarvalda, nefnilega ameríska herinn. Með tilliti til þessa verður það e. t. v. skiljanlegt, að hæstv. ríkisstjórnir hafi ekki gert mikið í því að hreinsa til í þeim ósóma, sem hér hefur blasað við allra augum.

Svo að ég gangi nú ekki alveg eins langt í orðbragði og hæstv. fjmrh. leyfði sér hér áðan. held ég mér leyfist þó að spyrja, með tilliti til þess, sem hér liggur fyrir, hvenær þessi hæstv. fjmrh. telji tímabært að sýna af sér þá mannslund að segja af sér embætti fjmrh. og fela það í hendur einhverjum flokksbræðra sinna, sem meiri ástæða væri til að telja að gæti sinnt því eða gegnt því lýtalítið.