10.12.1953
Efri deild: 32. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég gerði við 1. umr. í stuttu máli grein fyrir afstöðu minni til þessa frv., og ég hef ekki miklu við það að bæta. Og þessar umræður, sem hér hafa farið fram, gefa mér ekki mikið tilefni til langra hugleiðinga.

Hv. frsm. meiri hl., hv. þm. Barð., hélt hér að mörgu leyti ágæta ræða, mér þótti hún að mörgu leyti alveg prýðileg. Hann gaf góða og beinlínis dramatíska lýsingu á starfsemi fjárhagsráðs, sem hann réttilega kallaði helstefnu. Aldrei hefur nokkurri stofnun verið gefið jafnvíðtækt vald, sagði hv. þm., eins og þessari stofnun. Það má segja, að Alþingi hafi afsalað sér henni valdið yfir veigamestu atvinnumálum þjóðarinnar. Svo spyr hann, hvernig tekizt hafi að beita þessu mikla valdi. Og hann svarar: Aldrei hefur nokkur stofnun á Íslandi orðið svo óvinsæl sem þessi. — Þetta er maðurinn, sem sjálfur átti þátt í setningu þessara laga og var með í samþykkt þeirra. Og þetta er maðurinn, sem nú er að leggja til, að þetta fyrirkomulag haldi áfram í öllum meginatriðum. Sú breyting, sem í þessu frv. feist, er helzt fólgin í því, að felldir eru niður nokkrir áróðurskaflar, sem blátt áfram eru orðnir að viðundri, og nokkur ákvæði, sem aldrei hefur verið reynt að framkvæma og aldrei ætlazt til að yrðu framkvæmd, eins og líka hv. þm. viðurkenndi sjálfur.

Ég harma það ekki, þó að þetta áróðursskvaldur sé látið niður falla, en mér finnst það ekki mikið til þess að hrósa sér af. Ástæðan fyrir því, að þetta hefur verið gert, er sú, að þessi ákvæði eru blátt áfram orðin að viðundri með þjóðinni, og þetta viðurkenndi hæstv. viðskmrh. alveg skýlaust í sinni ræðu. Hann virtist sem sagt hafa nokkuð svipaðar skoðanir og hv. frsm. á starfsemi fjárhagsráðs. Lýsing hans á því var að vísu ekki alveg jafndramatísk, en hún fór í sömu átt, en hann reyndi að koma því þannig fyrir, að óvinsældir fjárhagsráðs hefðu verið mestar undir stjórn Alþfl., meðan Alþfl. hafði stjórnarforustuna. Ég held, að þar verði nú ekki gert upp á milli, en hitt finnst mér dálítið skoplegt að heyra skammir um stjórn Stefáns Jóh. Stefánssonar af munni þessara hv. þm., þ.e. af munni sjálfstæðismanna, sem stóðu að þessari stjórn og mótuðu raunar stefnu hennar fyrst og fremst.

Ef þetta væri í raun og veru andlátsstund fjárhagsráðs, þá væri freistandi að tala hér nokkur orð yfir moldum þess. Hv. þm. Barð. gerði það nú raunar, en það var misskilningur, að hann væri að tala yfir moldum þess. Svo er nefnilega ekki. Fjárhagsráð lifir enn þá og á að halda áfram að lifa. Það gengur aðeins undir nýja skírn.

Ég held, að þessu frv. verði ekki breytt með einstökum brtt., svo að nokkurt vit verði í því frá mínu sjónarmiði. Ný og viturleg stefna í efnahags- og viðskiptamálum þjóðarinnar mundi krefjast algerlega nýrra laga, algerlega nýrrar skipunar á innflutnings-, gjaldeyris- og fjárfestingarmálum þjóðarinnar. Brtt. við einstakar greinar gætu aldrei orðið annað en bót á gamalt fat, þó að þær yrðu samþykktar.

Í hv. Nd. hefur þegar verið prófað, hvort til sé þingvilji til gagngerðra breytinga á þessum málum. Þingmenn Sósfl. báru þar fram till. um það, sem mestu máli skiptir, um það, að útflutningsverzlunin yrði gefin frjáls, að skýlaust sé tekið fram, að óleyfilegt sé að innheimta hinn ólöglega bátagjaldeyrisskatt og að allir skuli hafa jafnan rétt til innflutnings. Það sýndi sig, sem raunar var vitað, að allt stjórnarliðið stóð eins og blökk á móti þessum till. Og það er víst, að ástandið er nákvæmlega eins í þessari hv. deild. Hér hefur verið borin fram ein brtt. af hv. meiri hl. fjhn., en sú brtt. breytir efnislega engu, ekki nokkrum sköpuðum hlut. Það er aðeins viljayfirlýsing, sem raunar má lesa og hefur mátt lesa daglega í Morgunblaðinu undanfarin ár, en efnið er nákvæmlega hið sama og í frv. hæstv. ríkisstj., þ.e.: ríkisstj. ákveður með reglugerð hverju sinni, hvaða vörur skuli vera frjálsar og hverjar háðar innflutningi og hömlum, og það eru þessar innflutningshömlur, sem frv. fjallar um, þannig að hér er aðeins um orð að ræða, en efnislega ekki neitt.

Um till. hv. minni hl., hv. 4. þm. Reykv., vildi ég segja þetta: Aðalbrtt. hans fjalla um að gera innflutningsverzlunina algerlega frjálsa. Ég veit nú ekki, hvað þessar till. eru alvarlega meintar hjá hv. þm., og mér virtist ræða hans ekki benda til þess, að þær væru meintar í alvöru, því að það er augljóst mál, að meðan við höfum stóra vöruskiptasamninga við aðrar þjóðir, er óhjákvæmilegt, að til sé einhver opinber skipun þessara mála, sem gerir slíka samninga mögulega. Sjálfur sagði hv. þm., að það væri eingöngu undir gjaldeyristekjunum komið, hvað verzlunin gæti verið frjáls á hverjum tíma. En hitt er vissulega satt, að það er fróðlegt að sjá, hvernig stjórnarflokkarnir bregðast við þessum till. — Stjórnarflokkarnir lýsa því yfir hverja stund með miklum fjálgleik, að það sé þeirra æðsta hugsjón og tilgangurinn með þessa frv., sem nú er lagt fram, að gera verzlunina frjálsa. Ef þetta væri nokkuð annað en orð, nokkuð annað en glamur, þá mundu þeir greiða atkvæði með þessum brtt. hv. 4. þm. Reykv., sem einmitt fjalla um það að gera verzlunina frjálsa, þar sem þetta frv. hins vegar fjallar um hömlur á verzluninni, hömlur og viðjar á á öllum viðskiptum landsmanna og öllu þeirra efnahagslífi.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að stjórnarandstaðan hefði greitt atkvæði á móti 8. gr. í Nd., og vildi af því draga þá ályktun, að stjórnarandstaðan væri á móti því, að bygging íbúðarhúsa af ákveðinni stærð væri gefin frjáls. Ég veit ekki um það. Ég fylgdist ekki með því, hvernig stjórnarandstaðan greiddi atkvæði um þessa grein í Nd., en hitt veit ég, að þessi 8. gr. fjallar um allt annað en að gefa byggingu íbúðarhúsa frjálsa. Aðalefni þessarar till. er allt annað, það er fleira, sem stendur í gr. Þar stendur: „Aðrar framkvæmdir skulu háðar fjárfestingarleyfum, er innflutningsskrifstofan veitir.“ Og það er þetta, sem er aðalefni greinarinnar, og það var þetta, geri ég ráð fyrir, sem stjórnarandstaðan hefur verið að greiða atkvæði á móti. Hvað snertir ákvæðið um, að ekki þurfi leyfi til þess að byggja íbúðarhús allt að 520 m3, þá er ekki vitað, hvers virði slíkt frelsi er, hvort það hefur nokkurt raunhæft gildi. Það þarf nefnilega meira til að byggja hús heldur en formlegt leyfi. Það þarf aðgang að lánum, það þarf byggingarefni, og það þarf lóðir. Og allt er þetta háð sömu viðjunum og áður.

Í frv. þessu felst ekki hin minnsta von um það, að raunverulega verði dregið úr viðskiptahömlunum eða rýmkað um einokunina í utanríkisverzluninni. Útflutningsverzlunin er jafneinokuð, jafnalgerlega einokuð og hingað til, og það er eins og komið sé við kviku, ef minnzt er á að létta þeirri einokun af, þrátt fyrir öll hin fögru orð um frjálsa verzlun og þrátt fyrir alla þá hneykslun, sem hæstv. viðskmrh. lagði í orð sin, þegar hann var að tala um einokun í ræðu sinni hér áðan. Vald hæstv. ríkisstj. og hins nýja ráðs hennar yfir innflutningsverzluninni og til þess að halda henni í þeim viðjum, sem hún ákveður hverju sinni, er nákvæmlega hið sama og áður. Og það hafa ekki verið færðar neinar líkur fyrir því, að horfur séu á, að slakað verði á höftunum. Þvert á móti hygg ég, að það ástand sé nú fram undan, að það sé mikil hætta á, að gripið verði til stóraukinna innflutningshafta, ef haldið verður áfram á sömu braut í efnahagsmálum og utanríkisviðskiptum.

Allt talið um aukið frelsi í sambandi við þetta frv. er ekki annað en innantóm orð. Eina breytingin til bóta er fólgin í því, að mönnum er nú heitið því að sleppa við eina píslargönguna, ef þeir hafa hug á að koma sér upp þaki yfir höfuðið, gönguna til fjárhagsráðs. Enginn gæti lýst þeirri píslargöngu átakanlegar en hv. þm. Barð. Ég geri ráð fyrir því, að hæstv. ríkisstj. þykist eiga miklar þakkir skilið fyrir slíkt góðverk, fyrir það góðverk að létta þannig af einni plágunni, sem hún hefur sjálf lagt á menn.

Það er fjarri því, að fjárhagsráð sé lagt niður með þessum lögum, nema aðeins að nafninu til, heldur eru nú í raun og veru komin tvö fjárhagsráð fyrir eitt, annað þeirra er Framkvæmdabankinn, og hann er enn á ný lögfestur sem slíkur eða verður lögfestur sem slíkur, þegar frv. þetta verður að lögum. Framkvæmdabanki Íslands var stofnaður í fyrra. Banki þessi var stofnaður utan um mótvirðissjóð, sem þannig er gerður að fastri stofnun. Það er svo að sjá sem þær kvaðir, sem hvíldu á því fé, sem lagt var í mótvirðissjóð sem andvirði hinna óafturkræfu framlaga samkvæmt Marshallsamningnum, eigi nú að ná til þessarar föstu stofnunar, þ.e. einnig til þess fjár, sem inn kemur sem endurgreiðsla af lánum úr sjóðnum. Þar með eru líka yfirráð Bandaríkjanna yfir öllum helztu fjárfestingarframkvæmdum hér á landi, sem í Marshallsamningnum felast, orðin að fastri skipun í íslenzkum þjóðarbúskap. Ég spurði margsinnis um þetta, þegar Framkvæmdabankinn var til umræðu á síðasta þingi, og það varð ekki annað skilið af ræðum ráðherranna en að þeir staðfestu þennan skilning minn. Þetta þýðir sem sé, að Bandaríkin hafa með samþykki íslenzkra stjórnarvalda tekið sér vald til íhlutunar um fjárfestingu á Íslandi til frambúðar, enda þótt slíkt vald felist ekki í neinum samningum, sem Alþingi hefur samþykkt. Samkvæmt þessu er Framkvæmdabankinn yfirfjárhagsráð, og yfirstjórn hans er aftur í Washington.

Það er áreiðanlega mjög fjarri sanni, að þetta frv. hafi nokkurn sparnað í för með sér. Tvö fjárhagsráð, annað, sem fjallar um einstök atriði, hitt um stefnuna í stórum dráttum, verða varla ódýrari en eitt, enda er auðséð, að það er siður en svo gert ráð fyrir því í þessu frv. Hæstv. ráðh. sagði raunar, að þetta ætti að verða til sparnaðar, það ætti að fækka starfsfólki. Mér er það sem sagt óskiljanlegt, hvernig á því stendur, Þessi nýja stofnun, sem nú á að heita innflutningsskrifstofa, hefur sömu verkefnin, alveg sömu verkefnin og fjárhagsráð hafði, — ja, aðeins að undanskildum leyfisveitingunum fyrir smáíbúðirnar, að öðru leyti alveg þau sömu. Og ef svo er, þá hefur verið um mikið bruðl að ræða í fjárhagsráði, enda er þetta í algerri andstæðu, fullkominni mótsögn við fjárlögin, sem gera ekki ráð fyrir neinum slíkum sparnaði, og við þetta frv., þar sem gert er ráð fyrir sömu leyfisgjöldunum og áður. Það er sem sé auðséð, að það er síður en svo gert ráð fyrir neinum sparnaði í þessu frv., því að leyfisgjöldin eru hin sömu og áður og alls ekki gert ráð fyrir neinni lækkun ríkisútgjaldanna vegna þessa frv. — 1% leyfisgjald er enginn smáræðis skattur og engin smáræðis viðbót við söluskattinn, og við þetta bætist svo sá kostnaður, sem hvílir á þjóðinni vegna rekstrar yfirráðsins, Framkvæmdabankans.