22.10.1953
Sameinað þing: 10. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í D-deild Alþingistíðinda. (3331)

213. mál, lánveitingar út á smábáta

Fyrirspyrjandi (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Við höfum þrír þm., eins og þskj. 62 ber með sér, leyft okkur að bera fram fsp. um, hvað líði framkvæmd á þál., sem samþykkt var eftir till. frá okkur þremur á síðasta Alþingi, nánar tiltekið 5. des. s.l.

Ályktunin hljóðaði á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita áhrifum sínum til þess, að fiskveiðasjóður veiti framvegis lán út á smábáta í samræmi við lán út á stærri báta, án þess að krefjast baktryggingar, enda séu smábátarnir vátryggðir í samræmi við vátryggingu hinna og tryggingarfélög skylduð, ef með þarf, til þess að taka þá í tryggingu.“

Smábátaútgerðin er mjög þýðingarmikil fyrir þjóðina. Hún er yfirleitt áhættuminni en útgerð stærri skipa. Þar er minna lagt undir í hverjum leik og meira þess vegna við hæfi almennings. Þar af leiðandi eflir þessi útgerð sjálfsbjargarhug fólks, svo að hollt má telja. Hún er að mestu rekin frá heimahöfnum, og þeir, sem hana stunda, þurfa yfirleitt ekki að búa utan heimila sinna. Með því notast tómstundir útgerðarmanna betur og heimilislíf verður heilsteyptara. Fjölskyldur geta unnið að þessari útgerð og lagt þannig saman krafta sína, eins og gert er við bú í sveit og þykir giftusamlegt til þrifa. Þessi útgerð krefur ekki hafnarmannvirkja í líkingu við stærri útgerðina og er því á þann hátt þjóðfélaginu ódýrari. Hún viðheldur sjávarsíðumegin betur en flest eða allt annað jafnvæginu í byggð landsins, sem mjög er nú farið að verða umrætt og áhyggjuefni þjóðarinnar, ef raskast.

Þessi útgerð er ekki árviss, og það er engin útgerð á Íslandi, en hún hefur minnstum áföllum valdið fyrir þjóðfélagsheildina, og rekstur hennar hefur, þegar á allt er litið, minnsta opinbera aðstoð fengið. Síðan landhelgin var víkkuð og friðaðir voru firðir fyrir dragnótaveiðum, hefur trúin á útgerð þessara smáu báta aukizt, eins og eðlilegt er, og ýmsir telja, að þegar sé líka farinn að sjást vottur þess, að fiskgengd hafi aukizt á smábátamiðin. Eftir upplýsingum, sem ég hef fengið frá Fiskifélagi Íslands, þá gengu nú í sumar, í júni til ágúst, nálega þriðjungi fleiri opnir vélbátar til veiða heldur en sumarið áður, og bendir þetta til þess, hvert stefnir. Það er skylt og nauðsynlegt, að tekið sé fullt tillit til þessarar útgerðar af hálfu hins opinbera og þeim, sem kaupa sér eða láta smíða sér þessa báta, sé veittur sæmilegur aðgangur að lánsfé til þess að koma upp þessari útgerð. Jafnframt þurfa þessir menn að geta vátryggt báta sína, svo að bátarnir verði fullkomin veð fyrir nauðsynlegum lánum og til þess að draga úr tjóni, þegar slys verða.

Við þremenningarnir fluttum till. okkar í fyrra með þessum og fleiri rökum, sem þingheimur féllst þá á. Nú þykir okkur við eiga að biðja um skýrslu frá hæstv. ríkisstj. um það, hvað hún eða fyrirrennari hennar hefur gert til þess að framkvæma fyrirmæli þingsins í þessum efnum, hvort smábátaeigendurnir eiga nú sæmilega greiðan gang að lánum út á báta sína sem veð og hvort þeir eiga þess kost að vátryggja bátana. — Ég leyfi mér að vænta góðra frétta frá hæstv. ríkisstjórn.