22.10.1953
Sameinað þing: 10. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í D-deild Alþingistíðinda. (3342)

214. mál, atvinnubætur o. fl.

Fyrirspyrjandi. (Haraldur Guðmundsson):

Ég þakka hæstv. fjmrh. greinargóð svör við prentuðum fsp. og hef ekki frekar um að spyrja í því sambandi á þessu stigi málsins. Munnlegri fsp. minni í fyrri ræðunni um, að hverju leyti ástandið hefði breytzt á Seyðisfirði og Siglufirði frá því að fjárlagaheimildin var veitt og þangað til brbl. voru gefin út þann 30. marz s.l., hefur hæstv. ráðh. hins vegar undan fellt að svara.

Viðvíkjandi þeim kjörum, sem ráðh. skýrði frá að ríkisstjórnin hefði fallizt á eða Landsbankinn sett henni, verð ég að segja, að mér finnst það heldur þungir kostir fyrir hæstv. ríkisstj., að í viðbót við það að taka á slg ábyrgð á lánunum og skilvísri greiðslu þeirra skuli ríkisstj. þurfa að binda jafnháa upphæð á föstum reikningi í bankanum til þess að lánið fáist. En það verður að skoða sem mál milli hæstv. ríkisstj. og bankans, og sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða um það. Yfirleitt er sama að segja um svar hæstv. fjmrh. og skýrslu hæstv. félmrh.: Svör eru fullnægjandi svo langt sem þau ná, en gefa tilefni til athugunar á aðstöðu annarra staða, sem svipað stendur á fyrir.