28.10.1953
Sameinað þing: 12. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í D-deild Alþingistíðinda. (3349)

215. mál, Iðnaðarbanki Íslands h/f

Fyrirspyrjandi (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessi svör og vona, að þau geti borizt til stjórnar Iðnaðarbankans, þó að þau að sjálfsögðu séu ekki eins og hún hefði óskað og allir þeir velunnarar iðnaðarins, sem óskuðu að bankinn gæti að einhverju leyti gegnt því hlutverki, sem Alþingi hefur sjálfsagt ætlazt til, eins og aðrir aðilar í landinu, að hann gegndi, þegar ákveðið var, að hann skyldi stofnaður. Mér skildist, að það sé að sjálfsögðu eðlilegt og rétt, að raforkuframkvæmdir sitji fyrir, en til þess að jafnframt sé hægt að nýta þá auknu raforku og þá sér í lagi með tilliti til iðnaðarins, þá verði skilyrðislaust að athuga betur alla þá möguleika, sem fyrir hendi kunna að vera til þess að koma til móts við bankann og óskir bankaráðs, að bréfum þess sé a. m. k. svarað, því að bankinn, eins og hann starfar í dag, gegnir hvergi nærri því hlutverki, sem ég gat um áðan að hann ætti að gera, og er jafnvel lítils nýtur fyrir það verkefni, sem hann átti að leysa af hendi. Þess vegna er kannske út í hött, þegar verið er að samþ. á Alþingi heimildir fyrir ríkisstj. um lánveitingar eins og samþ. var 16. febr. 1953 til Iðnaðarbankans, ef svo eru ekki neinir möguleikar fyrir hendi um að uppfylla þær óskir.

Ég held, að það sé öllum ljóst, eins og kom fram í ræðu hæstv. fjmrh., að hér er á ferðinni mál, sem ekki þolir langa bið, mál, sem stærstur hluti allra vinnandi stétta í landinu byggir jafnvel afkomu sína á, að iðnaðurinn geti þróazt, a. m. k. ekki hægar en hann hefur gert síðast liðin ár þrátt fyrir margs konar misskilning af hálfu stjórnarvaldanna. Ríkisstj. ber því þrátt fyrir þær skuldbindingar, sem flokkar ríkisstj. hafa bundizt hvor öðrum um í núverandi ríkisstj., að sjá svo um, að þessari ósk frá 16. febr. 1953, sem samþ. var á Alþingi, verði fullnægt og til móts við hana verði komið og þá sér í lagi með tilliti til þess, að fullnægt verði óskum og kröfum, sem til Iðnaðarbankans eru gerðar og þess iðnaðar, sem byggir afkomu sína á að fá rekstrarfjárlán hjá bankanum.