28.10.1953
Sameinað þing: 12. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í D-deild Alþingistíðinda. (3354)

215. mál, Iðnaðarbanki Íslands h/f

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að ég hefði verið á móti því, að nýsköpunartogararnir væru keyptir til landsins. Þetta er ósatt hjá hv. þm., og hann veit það vel, það er svo oft búið að leiðrétta þetta. Ég var því fylgjandi, að togararnir væru keyptir. Ég vildi hins vegar afla fjár á annan hátt til þeirra mála innanlands en þeir, sem að því stóðu.

Hann sagði, hv. þm., að ég tryði á það, að pappírsseðlarnir sköpuðu auðinn. Þetta eru alveg öfugmæli, því að það er hann, sem trúir því. Hann heldur, að það sé hægt að leysa allan vanda og skapa nægilegan auð bara með því að gefa úr pappírsseðla. Hann hefur haldið hér langar prédikanir þing eftir þing, dag eftir dag, einmitt um þessa stefnu sína.

Þá var hv. þm. enn að nöldra út af þessu 4 millj. kr. láni til þess að byggja stöð á Rjúpnahæð í sambandi við alþjóðaflugþjónustuna, og það er helzt á honum að heyra, að Alþjóðabankinn hafi sagt okkur að taka þetta lán. Það er nú líklegt, eða hitt þó heldur, að Alþjóðabankinn hafi verið að skipta sér af þessu, Alþjóðabankinn hafi verið að skipta sér af því, hvort við byggðum hús á Rjúpnahæð eða ekki. Þetta sýnir bara slúður það, sem hv. þm. venur sig á hér á hv. Alþingi. Okkur var nauðsynlegt að koma upp þessu húsi, af því að Ísland hefur tekið að sér alþjóðaflugþjónustuna. Af því hafa fjöldamargir Íslendingar atvinnu; tugir, að ég ekki segi hundruð Íslendinga hafa nú orðið atvinnu af þessu. Þess vegna þurftum við að fá þessa peninga, og þess vegna þurftum við að koma upp þessu húsi. Af því að það stóð þannig á, að við gátum fengið þessa peninga okkur svo að segja gersamlega að útlátalausu að öllu leyti, einmitt með því að taka þá að láni, í staðinn fyrir að taka þá frá framkvæmdum hér innanlands, og að lánið er raunverulega endurgreitt af öðrum, — það, sem aðrir greiða okkur fyrir þessa þjónustu, gengur til að greiða lánið, — var auðvitað sjálfsagt að taka þetta lán. En ef það ætti að taka alvarlega þetta. sem hv. þm. er hér að skrafa. þá sýnist það vera hans álit, að við hefðum alls ekki átt að taka þetta fé þarna, heldur hefðum við átt að taka það af okkar eigin fjármunum og gera þá minna af öðru. Það hefði hann talið hyggilegra.

Hv. 5. landsk. þm. (Em7) sagði hér nokkur orð. Ég skal ekki svara þeim mörgum orðum. Hann sagðist telja, að ekki hefðu allir lánsmöguleikar verið notaðir. Mér er ekki kunnugt um annað en það hafi verið gert, og ég vil biðja hann að láta mig vita, ef hann veit einhvers staðar um möguleika fyrir ríkisláni, sem ég þekki ekki.

Þá var hv. þm. í ádeilutón að tala um, að það ætti að færa Iðnaðarbankalánið aftur fyrir, — ja, hann vissi ekki hvað mörg lán eða hversu mikið. Það var alveg ljóst af því, sem ég sagði, og hv. þm. er það skýr, að hann hefur vafalaust ekki misskilið það, að núverandi stjórnarflokkar hafa í málefnasamningi sínum ákveðið, að fyrir öllu öðru skuli sitja, nema sementsverksmiðjuláninu, að tryggja 100 millj. kr. lánsfé til raforkuframkvæmda víðs vegar um landið. Það er satt, það hefur verið ákveðið að taka þetta fram fyrir allt annað. Það var þetta, sem ég upplýsti, og annað ekki, og það er þetta, sem gefur hv. 5. landsk. þín. ástæðu til þess að fjandskapast hér í sambandi við þetta mál. Hann er því orðinn ber að því að fjandskapast við ríkisstj. fyrir það að hafa tekið fram fyrir annað að tryggja 100 milljónir til raforkuframkvæmda. Annað hefur ekki verið gert, og við það fjandskapast hv. þm. Hann um það.