28.10.1953
Sameinað þing: 12. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í D-deild Alþingistíðinda. (3365)

217. mál, smáíbúðalán

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hinn 11. des. s. l. voru samþykkt lög hér á hinu háa Alþ., sem svo hljóða, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórninni er heimilt að taka að láni allt að 16 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Fé þetta skal endurlána lánadeild smáíbúðarhúsa með sömu kjörum og það er tekið.“

Hæstv. fjmrh. skýrði frá því í fjárlagaræðu sinni, að ríkisstj. hafi tekið 10 millj. kr. lán til þess að endurlána smáíbúðadeildinni. Ég hef því leyft mér að spyrjast fyrir um, hvað líði notkun þessarar lántökuheimildar að öðru leyti. Um það þarf ekki að fjölyrða, að þeir. sem ráðizt hafa í byggingu smáíbúðarhúsa samkvæmt gildandi lagaákvæðum um það efni, eiga við að búa hinn mesta fjárskort. Það liggur við, að fjölmargir þeirra, sem hafa ráðizt í þessar framkvæmdir, verði að hætta við þær, geti ekki lokið þeim sökum þess, hve lánsfjárerfiðleikar eru gífurlega miklir. Má segja, að þeim, sem hér eiga hlut að máli, hafi verið lofað í upphafi meiru en efnt hafi verið af hálfu hins opinbera, og er það mjög miður. Þessir aðilar hafa lagt í mikla fyrirhöfn og mikinn kostnað til þess að leysa úr sárum vandræðum, og það er mjög miður, ef þessum framkvæmdum getur ekki orðið lokið vegna skorts á lánsfé. Til þess ber því hina brýnustu nauðsyn, að ríkisstj. geri allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að fullnægja þessum lagaákvæðum og sjái lánadeildinni fyrir 16 millj. kr. lánsfé, sem gert er ráð fyrir í þessum gildandi lögum. — Ég vildi leyfa mér að vænta þess, að hæstv. ríkisstj. hefði hagstæð svör að flytja um þetta efni.