28.10.1953
Sameinað þing: 12. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í D-deild Alþingistíðinda. (3366)

217. mál, smáíbúðalán

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Út af þessari fyrirspurn hv. 1. landsk. (GÞG), sem er í tveim liðum, get ég gefið þessar upplýsingar: Ríkisstj. tók snemma á þessu ári eða samdi um 10 millj. kr. lán í Landsbanka Íslands, sem var þá afhent lánadeild smáíbúðarhúsa til útlána, sem áttu að ganga til byggingar smáíbúða. Úthlutun á þessum 10 millj. var lokið 21. sept. s. l., og hafði þá 428 mönnum verið veitt lán, og þessir lántakendur eru dreifðir um allt land.

Út af 2. lið fsp. vil ég segja þetta:

Nú að undanförnu hefur ríkisstj. staðið í samningum við lánsstofnanir um 6 millj. kr. lán til viðbótar handa lánadeild smáíbúða. Ég veit ekki betur en að það sé algerlega öruggt, að það lán fáist og það nú á allra næstu vikum. Það eru þegar hafnar undirbúningsaðgerðir að úthlutun á þessari upphæð, þó að ekkert verði gert opinbert um það, fyrr en þetta liggur greinilega fyrir. En það yrðu mikil vonbrigði fyrir ríkisstj., ef þetta mál leystist ekki að fullu nú innan mjög skamms. — Ég sé ekki ástæðu út af þessari fsp. að taka fleira fram.