11.11.1953
Sameinað þing: 15. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í D-deild Alþingistíðinda. (3373)

67. mál, fiskskemmdir

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Fsp. sú, sem hér er beint til mín, er í þremur liðum.

„1) Hefur ríkisstj. látið framkvæma rannsókn á skemmdum þeim á hraðfrystum fiski, sem varð vart við s. l. vor?

2) Hafi sú rannsókn verið gerð, hver varð niðurstaða hennar?

3) Hvaða ráðstafanir hyggst fiskmat ríkisins eða ríkisstj. gera til að koma í veg fyrir slíkar fiskskemmdir?“

Mér heyrðist nú á hv. fyrirspyrjanda, að honum væri nokkuð kunnugt um fyrsta liðinn, að rannsókn hefði verið látin fara fram í þessum efnum, og hygg ég þá, að honum sé um fleira kunnugt, enda er hann þá ella einn af þeim fáu, sem hafa ekki áhuga fyrir slíkum málum, viti hann ekki meira um þessa rannsókn en fyrirspurnir hans virðast benda til.

Ég mundi þurfa alllangan tíma, og miklu lengri en ég álít ástæðu til að tefja störf þingsins með, til þess að gefa nákvæma skýrslu um þetta, en vil að gefnu tilefni segja það, sem nú skal greina.

Fyrstu þrjá mánuði þessa árs voru þeir Pétur Thorsteinsson, núverandi sendiherra Íslands í Moskvu, og dr. Oddur Guðjónsson, form. fjárhagsráðs, erlendis á vegum ríkisstj. í þeim erindum að semja um verzlunarviðskipti milli Íslands og ýmissa ríkja í Mið-Evrópu. Strax eftir heimkomu sína tjáðu þeir atvmrn., að viðskiptaaðilar í Tékkóslóvakíu og Austurríki hefðu skýrt þeim frá því, að verulegra skemmda og ills frágangs hefði orðið vart í íslenzkum hraðfrystum fiski, sem sendur hefði verið til þessara landa um síðustu áramót. Þetta mun hafa verið í fyrsta skipti, sem kvartanir bárust frá þessum löndum yfir gæðum hraðfrysta fisksins.

Sama dag og rn. barst þessi vitneskja, boðaði það ýmsa aðila þessa máls til fundar, og sá fundur var haldinn næsta dag. Þar mættu stjórn og varastjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, framkvæmdastjóri útflutningsdeildar S. Í. S., forstjóri Fiskiðjuvers ríkisins, fiskmatsstjóri, yfirmatsmenn og nokkrir fleiri. Á fundi þessum skýrðu þeir Pétur Thorsteinsson og dr. Oddur Guðjónsson frá því, sem þeir höfðu áður tjáð rn. um fiskskemmdirnar. Umræður urðu allmiklar um málið, og voru allir fundarmenn á einu máli um það, að grafast yrði þegar í stað fyrir orsakirnar til þessara fiskskemmda og að þeir, sem sekir reyndust, sættu verðskulduðum viðurlögum. Í fundarlok var samþykkt, að framkvæmd yrði rannsókn í hverju einasta frystihúsi landsins og að fulltrúum fiskframleiðendanna og fiskmatinu — ég vil sérstaklega vegna ummæla hv. fyrirspyrjanda leiða athygli að því, að það voru fulltrúar fiskframleiðenda og fiskmatið — þessum tveim aðilum yrði falið að annast þessa rannsókn.

Jafnframt var skipuð nefnd til athugunar á þessu máli, og skyldi þessi n. taka tafarlaust til starfa. Nefndina skipuðu Helgi Pétursson framkvæmdastjóri útflutningsdeildar S. Í. S., Ólafur Jónsson framkvæmdastjóri frá Sandgerði, tilnefndur af Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, og dr. Jakob Sigurðsson auk fiskmatsstjóra ríkisins.

Nefndin ákvað að miða fyrstu störf sín í aðalatriðum við eftirfarandi atriði: Í fyrsta lagi að hefja þegar athuganir á gæðum allrar freðfisksframleiðslu landsmanna, svo að hægt væri að koma í veg fyrir útflutning, ef skemmdir kæmu fram í einhverjum frystihúsunum. Í öðru lagi að komast fyrir um orsakir þess, að gölluð vara væri framleidd og flutt út . sem fullgild vara. Og í þriðja lagi að gera tillögur um raunhæfar úrbætur, sem tryggðu, að slíkir gallar á framleiðslunni endurtækju sig ekki í framtíðinni.

Næstu daga var safnað fjölda sýnishorna úr hraðfrystihúsunum við Faxaflóa, og þau voru síðan athuguð gaumgæfilega hér í Reykjavík. Sýnishorn þessi reyndust vera algerlega óskemmd vara. Jafnframt voru sendir sérstakir menn til þess að taka hæfilegan fjölda sýnishorna úr öðrum frystihúsum landsins og senda þau til Reykjavíkur til athugunar. Sýnishornin voru þídd upp og metin eftir sérstökum reglum og gerðar nákvæmar skýrslur um skoðun og mat á þeim. Mat sýnishornanna fór þannig fram, að ávallt skoðuðu hvert sýnishorn tveir yfirfiskmatsmenn, einn matsmaður frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og einn matsmaður frá S. Í. S. Fiskmatsstjóri var ætíð viðstaddur skoðunina og jafnframt framkvæmdastjórar sölusamtakanna eða fulltrúar þeirra.

Eftir þessar athuganir á gæðum fisksins úti á landi var stöðvaður í bili útflutningur á öllum fiski, sem vafi þótti leika á um varðandi gæði, og hafnar á þeim fiski nánari rannsóknir. Niðurstöður þeirra rannsókna voru þær, að nokkuð af fiski varð endanlega dæmt annars flokks, en þó verzlunarhæf matvara. Magn þeirrar vöru, sem þannig var dæmd annars flokks af framleiðslu ársins 1952, varð endanlega um 500 smálestir og var selt sem annars flokks vara fyrir lægra verð. Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að annars flokks hraðfrystur fiskur er ekki nýtt fyrirbæri, enda má segja, að eðlilegt sé, að af svo miklu magni sem framleitt er hér árlega komi ævinlega fram eitthvert magn af fiski með geymsluskemmdum, svo sem þornunum o. fl., og hefur þessi fiskur jafnan verið seldur sem annars flokks vara. Ég vil þó hér segja það sem mitt álit, að svo mikið magn sé óhóflega stór hlutfallstala af framleiðslumagninu sem annars flokks vara.

Þessi fyrsta athugun, sem fram fór, leiddi í ljós eftirfarandi:

Í fyrsta lagi, að reynt hefur verið að hagnýta togarafarma til vinnslu í frystihúsum úti á landi, frystihúsum, sem hvorki höfðu afkastagetu né aðbúnað til þess að vinna fiskinn nægjanlega fljótt. Í öðru lagi, að aðbúnaði og áhöldum frystihúsa var að ýmsu leyti ábótavant, svo að fullkomins öryggis gætti við varðandi framleiðsluna. Og í þriðja lagi, að matsmenn og framleiðendur virtust í einstökum tilfellum hafa sýnt tómlæti við vöruvöndun.

Í framhaldi af þessum athugunum fól rn. þeim dr. Jakob Sigurðssyni og dr. Þórði Þorbjarnarsyni með bréfi, dags. 12. júní, að ferðast um landið og halda áfram rannsóknum þessara mála. En þessir tveir menn eru, sem öllum er kunnugt, sérfróðir menn í þessum efnum. Í bréfi rn., erindisbréfi til þessara manna, segir m. a.:

„Æskilegt er, að rannsóknin beinist aðallega að þessum atriðum:

1) Hefur hráefnið verið hæft til vinnslu?

2) Hefur útbúnaður frystihúsanna verið fullnægjandi?

3) Hafa undirmatsmenn og verkstjórar verið starfi sínu vaxnir?

4) Hafa hlutaðeigandi yfirmatsmenn vanrækt starf sitt, og þá einnig hvort mistök hafi átt sér stað hjá yfirstjórn fiskmatsins í Reykjavík?

Ráðuneytið hefur falið fiskmatsstjóra og yfirmatsmönnum að veita rannsóknarnefndinni alla þá aðstoð, sem þeir geta látíð í té.“

Þessi síðari rannsókn leiddi í ljós, eins og sú fyrri, að útbúnaði frystihúsanna var sums staðar ábótavant. Enn fremur, að hráefnið hefur stundum verið gallað og að lestahreinsun á bátum hefur verið ábótavant.

Síðan þessi rannsókn fór fram, hefur fiskmat ríkisins ásamt Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og S. Í. S. unnið að gagngerðum endurbótum þessara mála, og hefur hin bezta samvinna ríkt milli þessara aðila. Mörg frystihús — ég hygg, að þau hafi verið þrettán — voru látin hætta framleiðslu og unnið að endurbótum á þeim. Nokkrir matsmenn hafa verið látnir hætta störfum og aðrir settir í þeirra stað. Í sambandi við þessar ráðstafanir var reglugerð um mat á hraðfrystum fiski endurskoðuð og hert á ýmsum ákvæðum um kröfur varðandi gæði hráefnis og útbúnað vinnslustöðva. Fyrirmæli um þessi efni höfðu áður verið gefin út af fiskimálastjóra í leiðbeiningaformi, en nú voru tekin upp í reglugerð skýr og ótvíræð ákvæði um þetta. Segja má, að eftirlit með allri framleiðslu hafi verið hert til muna.

Að lokum er rétt að geta þess, að síðna þessar aðgerðir hófust hafa ekki borizt kvartanir um gæði á hraðfrystum fiskflökum frá erlendum kaupendum. Nær öll framleiðsla þessa árs hefur nú þegar verið flutt út og seld, án þess að kaupendur hafi kvartað yfir gæðum þessa árs. Framleiðsla yfirstandandi árs mun að magni til vera komin fram úr meðalframleiðslu undanfarinna ára.

Ég vænti, að hv. fyrirspyrjandi og aðrir þeir, sem ekki hafa haft nægar sagnir af þessu, hafi séð það, að þegar í stað þegar atvmrn. í fyrsta skipti bárust slíkar kvartanir, var fljótt og mjög röggsamlega á málinu tekið. Daginn eftir eða samdægurs og okkur berst fréttin um skemmdirnar boðum við til fundar, sem haldinn er strax daginn eftir, og við boðum á hann alla þá aðila, sem við gátum náð til og við töldum að líklegastir væru til að geta ráðið bót á þessum málum. Til rannsóknar á málinu eru valdir ekki rangir aðilar, heldur þeir, sem a. m. k. við vitum réttasta, því að þetta er allt gert í samráði við fiskmatið, við framleiðendurna, og svo við tvo sérstaka vísindamenn, sem við áttum tök á til þess að rannsaka þetta mál, þá dr. Þórð og dr. Jakob.

Ég hygg, að það verði ekki heldur dregið í efa, að um leið og rn. bárust einhverjar sannanir um missmíð í þessum efnum, hafi það tekið mjög röggsamlega á málinu, vikið frá fiskmatsmönnum, stöðvað frystihús og gert yfirleitt allar þær ráðstafanir, sem við höfðum vit á og töldum líklegar til farsæls árangurs, enda er það sannast sagna, að af öllum starfsmönnum ríkisins dreg ég í efa að þeir séu margir, sem eru röggsamari í sínum störfum en sá, sem á nú mestan heiðurinn af þessum framkvæmdum, þ. e. a. s. Gunnlaugur Briem skrifstofustjóri í atvmrn., því að hann hefur að langsamlega mestu leyti staðið fyrir þessu öllu, sem gert hefur verið, en auðvitað í eðlilegu samráði við sinn ráðherra, en Gunnlaugur Briem er, eins og ég sagði, ágætlega viti borinn maður og mjög röggsamur embættismaður.

Ég segi það svo sem mína skoðun, að ég hef enga tilhneigingu til þess að hlífa þeim framleiðendum eða neinum þeim, sem vill falsa sínar vörur. Það er ekki hægt að gera sjálfum sér, sinni stétt né sínu landi verri skömm og skaða en með því að gera tilraun til svika. Ég mun enga linkind né hlífð sýna í þessum efnum, hver sem hlut á að máli. Ég get bætt því við, að þegar ég hafði með fiskframleiðslu að gera, átti ég daglega ferð um fiskmatshús, þar sem verið var að meta minn fisk, og það kom fyrir, að ég leyfði mér, þótt það væri kannske ekki alveg rétt, að gera athugasemd við fiskmatið. En það var aldrei, ekki í eitt einasta skipti, til þess að spyrja fiskmatsmann, hvers vegna þessi fiskur væri látinn í nr. 2, sem þó væri nr. 1. Ég sá auðvitað oft fisk, sem var nr. 1 látinn í nr. 2. Ég er alveg saklaus af að hafa gert nokkurn tíma athugasemd um það. En ég sá líka fisk látinn í nr. 1, sem var nr. 2, og ég leyfði mér að vekja athygli fiskmatsmanna á, hvílík höfuðnauðsyn það væri að vanda þetta og gera sér fulla grein fyrir því, hve stórvægilegt tjón þeir með slíku bökuðu eigendum fisksins og landinu og þjóðinni í heild. Ég tala nú ekki um, ef hægt er að fella menn undir grun um vísvitandi tilraunir til svika í þessum efnum. Ég vil ekki beina því að neinum á þessu stigi málsins, en ég vil segja hv. fyrirspyrjanda og öðrum það, að ég ber nægjanlegt skyn á, hversu þýðingarmikil vöruvöndunin er, til þess að vilja eiga í því fullan þátt að bæta úr því, sem miður hefur farið, og hef þar á verði fyrir mig þann dugmesta og bezta embættismann, sem ég get kosið mér, skrifstofustjórann í atvmrn.