11.11.1953
Sameinað þing: 15. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í D-deild Alþingistíðinda. (3377)

67. mál, fiskskemmdir

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég held það hafi ekki verið nema tvö eða þrjú atriði í ræðu hv. síðasta ræðumanns, hv. 3. landsk. (HV), sem gefa ástæðu til frekari upplýsinga frá minni hendi.

Hann spurði um það, hvort böndin hefðu borizt að yfirfiskmatinu. Mér hefur ekki borizt nein vitneskja enn þá um það, að böndin hafi sérstaklega að þeim borizt. Annars er mál þetta í höndum skrifstofustjórans, að öðru leyti en því, að við ræðumst við um þær aðgerðir, sem verður að hafa í frammi; jafnóðum og nauðsynin kallar á. En auðvitað kemur allt betur í ljós áður en þessu máli er lokið og þá líka, hvort eða að hvað miklu leyti má sakfella yfirmatið um vanrækslu. Og það er náttúrlega alveg rétt hjá hv. þm., að það stýrir engri lukku, að vikið sé frá einstökum undirmatsmönnum, ef svo þeir, sem höfuðábyrgðina bera, eru ekki kallaðir til ábyrgðar fyrir sína misbresti.

Varðandi hitt atriðið, sem hann minntist á, hvort ekki stafaði hætta af því, að sami maðurinn væri verkstjóri og matsmaður, þá verð ég að segja, að að órannsökuðu máli er ekki óeðlilegt, að mönnum detti þetta í hug. Það er ekki óeðlilegt, því að það er eins og hann sagði, hv. þm., að það er ekki víst, að allir fiskframleiðendur líti sömu augum á sinn hag, hvað þá heldur þjóðarinnar, í þessum efnum. En það mun verða sérstaklega rannsakað, hvort hægt er að leiða rök að því, að frekar sé um vanrækslu eða um skemmdir að ræða, þar sem þessi háttur er á hafður. Reynist svo, þá verður það bannað. Hins vegar langar mann ekki til að nauðsynjalausu að leggja stein í götu þessarar framleiðslu, hún á við næga örðugleika að etja. Það gildir um að reyna að láta þá, sem þetta stunda, sjómenn, verkamenn, útgerðarmenn og hraðfrystihúsaeigendur, bera sem skástan hlut frá borði og gera engin óþörf vandkvæði. En ef þessi rannsókn leiðir þessa hættu í ljós, þá verður ekki hjá því komizt að setja undir þann leka, þótt óþægindum valdi.

Ég endurtek svo, að rannsókn er ekki að fullu lokið. Hvort ástæða er til að gefa út um þetta einhverja opinbera skýrslu, skal ég ekki dæma að svo komnu. Í þessu er auðvitað ekkert, sem þarf að fara leynt í þennan hóp. En það getur vel verið, að það sé eitthvað, sem við út á við teljum okkur ekki til framdráttar að vera að birta, eins og hv. þm. líka gerði ráð fyrir að gæti hugsazt; um það veit ég ekki á þessu stigi málsins. En að sjálfsögðu eru engin leyniplögg í þessu, sem þeir mega ekki eiga allan opinn aðgang að, sem á þingi sitja, og aðrir þeir menn, sem líta á þetta mál frá hagsmunasjónarmiði Íslendinga og engu öðru sjónarmiði.

Ég lýk svo þessari stuttu aths. aðeins með því að segja, að það verður haldið áfram að rannsaka og það verður haldið áfram að gera tilraunir til úrbóta og engin linkind í því sýnd.