11.11.1953
Sameinað þing: 15. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í D-deild Alþingistíðinda. (3381)

88. mál, mannanöfn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi gat um, var fyrir nær einum mannsaldri sett löggjöf hér á Alþ. um mannanöfn, löggjöf, sem síðan hefur mjög lítið verið hirt um, eins og hann réttilega skýrði frá. Það mun sannast í þessum efnum, að enginn af þeim starfsmönnum stjórnarráðsins, sem um þessi efni fjalla, veit til að nokkurn tíma hafi verið gerðar ráðstafanir til að fara eftir þessari löggjöf eða fylgja henni, fyrr en hæstv. fyrrv. menntmrh. Björn Ólafsson hófst handa á árinu 1952 um það að láta fara fram rannsókn á íslenzkum mannanöfnum og fékk til þess einn hinn færasta mann, hagstofustjórann fyrrverandi, Þorstein Þorsteinsson, sem er nú, að því er mér er tjáð, að vinna úr þeim skýrslum og sérstaklega skýrslum frá prestum um mannanöfn, sem til eru nú á Íslandi. Áður en hæstv. fyrrv. menntmrh. gerði þessa ráðstöfun, sem hlýtur að vera undirstöðuráðstöfun til að framfylgja þessum lögum, er hvorki mér né öðrum kunnugt um, að neinar ráðstafanir hafi verið gerðar til þess að framfylgja þeim. Jafnframt hafði fyrrv. hæstv. menntmrh. í huga að skipa nefnd eða gera aðrar ráðstafanir til endurskoðunar l., en úr því mun ekki hafa orðið vegna þess, að beðið var eftir þeirri skýrslu Þorsteins Þorsteinssonar, sem ég gat um. Og úr því sem komið er, þá er það vissulega eðlilegt, að frumgögn málsins, ef svo má segja, liggi ljóst fyrir. Tel ég þetta vera þá skynsamlegustu vinnuaðferð í þessu, sem hægt er að hafa.

Það er engin furða, þó að það væri einmitt Björn Ólafsson, sem beitti sér fyrir þessu, vegna þess að hann hefur einmitt hér á Alþ. haft forgöngu um það, að nýir íslenzkir ríkisborgarar af erlendum uppruna yrðu knúðir til þess að taka sér íslenzk nöfn. Hefur raunar ekki öllum þm. sýnzt eitt um það, þó að þessi skoðun hafi orðið ofan á. En einmitt í samræmi við þær aðgerðir eru þessar aðgerðir hæstv. fyrrv. menntmrh., sem ég tel vera undirbúning og nauðsynlega forsendu þess, að hægt sé að fylgja þessum lögum.

Ég er hæstv. fyrrv. menntmrh., eins og ég segi, einnig sammála um, að nauðsynlegt sé að endurskoða lögin, því að auðvitað er það ekki rétt, sem hv. fyrirspyrjandi sagði, að lögin væru að öllu leyti einföld og auðveld í meðferð. Ef þau hefðu verið það, hefðu þau ekki verið látin liggja svo mjög í aðgerðaleysi eins og raun ber vitni um. Og segja má, að æði flókið og raunar mjög erfitt og allt að því óframkvæmanlegt sé að elta menn uppi fyrir það að taka sér ranglega ættarnafn, og er vafasamt, að sektir slíkar sem eru í l., þó að beitt væri, dygðu í þeim efnum. Um þetta eins og margt annað er það svo, að það er miklu meira málsmekkur og tilfinning manna, sem ræður úrslitum, heldur en beint lagaboð. Og það er enginn vafi á því, að þótt lögin frá 1925 hafi ekki verið framkvæmd eins og orð þeirra standa til, hafa þau samt haft stórkostlega þýðingu að því leyti sem þau felldu úr gildi fyrri ættarnafnalögin og þar með hindruðu, að menn gætu fengið löggildingu á nýjum ættarnöfnum. Þess eru að vísu nokkur dæmi, að einstaka menn hafa síðna tekið sér ættarnöfn, en það verður þó að teljast alger undantekning og gerbreyting frá því, sem verið hafði næsta áratug á undan, þegar mjög var títt og nærri daglegur viðburður, að hinn og þessi tæki sér upp ættarnafn. En við sjáum það einfaldlega af því að renna augunum yfir þingmannahóp hér, að hér eru nú sárafáir menn með ættarnöfn, og þá engir aðrir, að því er ég í fljótu bragði sé, heldur en til þess hafa þó löglega heimild, þannig að þegar litið er yfir menn þannig af tilviljun, þá er það ljóst, að jafnvel ættarnafnafaraldurinn, þó að ekki hafi tekizt að kveða hann alveg niður, eins og ég persónulega hef mikla löngun til, þá hefur með lögunum tekizt að draga mjög úr honum, tilfinning manna og málsmekkur nú gerir það að verkum, að vafalaust um ófyrirsjáanlega framtíð verður miklu minni löngun en var til þess að taka upp ættarnöfn, og það var a. m. k. annar höfuðtilgangur l. að koma í veg fyrir það. Og ég er engan veginn viss um, að það mundi greiða ákaflega fyrir í þessum efnum, þó að ráðuneyti tæki upp á því að elta þá með málsókn, sem á móti þessu hafa brotið. Ég held, að almenningsálitið og sú breyting á hugsunarhætti, sem þetta frv. var merki um, hafi í þessu miklu meiri áhrif.

En engu að síður er auðvitað leitt að hafa lög, sem menn hafa ekki treyst sér til að framkvæma bókstaf sínum samkvæmt, aldrei frá því að þau voru sett, neinir þeir, sem um það hafa fjallað, og þess vegna tel ég, að tímabært sé að endurskoða lögin, og ef ég gegni þessari stöðu, mun ég gera ráðstafanir til þess, jafnskjótt og fyrir liggur sú grundvallarrannsókn, sem fyrirrennari minn hafði fyrirskipað, sem sýndi, að hann hafði einmitt glöggan skilning á nauðsyn skynsamlegra aðgerða í þessum efnum.

Hitt er svo annað, varðandi óþjóðleg nöfn, að þar er kannske nokkru erfiðara að greina á milli en hv. fyrirspyrjandi vill vera láta. Það er enginn vafi á því, að nöfn eins og Jón, Jóhann og önnur slík nöfn, svo að aðeins séu nefnd dæmi, nöfn, sem eru mjög tíðkanleg í íslenzku, eru af óþjóðlegum uppruna. Er þrátt fyrir það hægt að fara nú að setja þessi nöfn á bannlista? Við skulum segja, mundi vera hægt að setja nafn eins og Ágústa á bannlista? En hver er aftur munurinn á nafni eins og Ágústa annars vegar og Oktavía hins vegar, sem hv. fyrirspyrjandi nefndi? Allt er þetta harla hæpið, og í raun og veru hefur málsmekkur fólksins og tilfinning í þessu meira að segja en bein fyrirmæli löggjafans. Hitt er svo vafalaust, að prestar og kennarar, ekki sízt prestar, gætu haft ákaflega góð áhrif með leiðbeiningum til almennings, og einmitt þess vegna, jafnvel þó að ekki væri fylgt eftir fullkomnu banni, gæti slíkur listi yfir óheppileg nöfn haft mikið uppeldisgildi fyrir almenning. Því er ég sammála. Einmitt þess vegna tel ég það mjög mikils virði, að haldið sé áfram við þann undirbúning á framkvæmd laganna, sem hæstv. fyrrverandi menntmrh. gerði ráðstafanir til nú fyrir rösku ári.