18.11.1953
Sameinað þing: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í D-deild Alþingistíðinda. (3387)

218. mál, verðtrygging sparifjár

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Á s. l. vori var samþ. samhljóða í Sþ. svo hljóðandi till. til þál. um verðtryggingu sparifjár með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að taka nú þegar til gaumgæfilegrar rannsóknar, hvort, eigi sé hagkvæmt og framkvæmanlegt að koma á þeirri skipan, að bankar og sparisjóðir taki fé til ávöxtunar með skuldbindingu um að greiða uppbætur á það, samsvarandi þeirri hækkun, sem verða kann á kaupgjaldsvísitölu eða vísitölu framfærslukostnaðar á þeim tíma, sem féð er geymt óhreyft á sama reikningi, en það sé eigi skemur en fimm ár, enda verði lántakendum þessa fjár sett það skilyrði, að þeir greiði bönkum og sparisjóðum verðuppbætur á lánsfé samkv. framangreindri reglu, ef vísitalan hækkar á lánstímanum. Þá er ríkisstj. og falið að vinna að því, að þetta fyrirkomulag um ávöxtun sparifjár og útlán þess verði upp tekið, ef jákvæður árangur verður af rannsókninni.“

Þannig hljóðaði þáltill. sem samþ. var á s. l. ári. Hér var hreyft við hinu merkasta máli. og var gott, að þessi till. skyldi vera samþykkt og þannig efnt til þessarar rannsóknar. Fregnir hafa birzt af því opinberlega, að þetta mál hafi verið rætt á fundi þjóðbankastjóra Norðurlanda, sem haldinn var hér á s. l. sumri. Einn af bankastjórum Landsbankans, Jón Árnason, flutti á þeim fundi mjög athyglisvert erindi, þar sem hann gerðist forsvarsmaður þessarar hugmyndar, og hefur þetta erindi verið birt opinberlega. Frá því hefur og verið skýrt í reykvískum blöðum, að í Finnlandi, sem hefur að ýmsu leyti átt við svipuð vandamál að etja í verðlagsmálum og Ísland, þótt að vísu í enn þá stærri mæli sé, hafi þetta mál verið mjög á dagskrá og mjög um það rætt, hvort ekki ætti að taka upp þá skipan, sem gert er ráð fyrir eða rætt er um í till.

Um það getur ekki verið ágreiningur, að í löndum, þar sem miklar breytingar verða á verðlagi og þar með á gildi peninga, sé það brýnt úrlausnarefni, hvernig forða skuli sparifjáreigendum og peningaeigendum yfirleitt frá því tjóni, sem af verðlagshækkuninni hlýzt, og þá jafnframt, hvernig eigi að koma í veg fyrir það, að lántakendur og skuldarar hagnist óeðlilega á verðlagshækkuninni eða verðfellingu peninganna. Þess vegna tel ég þessa till. hafa verið mjög tímabæra á sínum tíma og hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. ríkisstj. um það, hvort till. hafi komið til framkvæmda, hvort sú athugun, sem þar er um að ræða, hafi farið fram, og ef svo er, hver niðurstaða þeirra athugana þá hafi orðið. Leyfi ég mér að vænta svars hæstv. ríkisstj. um þetta efni.