18.11.1953
Sameinað þing: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í D-deild Alþingistíðinda. (3389)

218. mál, verðtrygging sparifjár

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskmrh. fyrir svör hans við fsp. — Varðandi það, að mál þetta hafi verið sent til þeirrar n.. sem starfar að endurskoðun bankalöggjafarinnar, er það að segja, að mér, sem á sæti í þeirri n., er ekki um það kunnugt. Það kann að hafa verið sent til formanns n., en hann hefur ekki lagt það fyrir n. í heild, enda hefur hún ekki starfað um alllangt skeið, sökum þess að fyrsta verkefninu, sem henni var falið að vinna að, er fyrir alllöngu lokið. Ef þetta liggur fyrir bankanefndinni, þá liggur það hjá formanni hennar og hefur borizt til hans eftir að bankanefndin hélt síðasta fund, en alllangt er síðna.

Hitt er svo annað mál, að það er mjög vafasamt, að það sé eðlilegt að senda slíkt mál sem þetta til mþn., sem starfar að endurskoðun bankalöggjafarinnar. Fyrst og fremst hefði veríð eðlilegt að leita eftir tillögum bankanna sjálfra um þetta mál, eða allra helzt að skipa n. sérfræðinga til þess að íhuga það, sem hér er um að ræða, vegna þess að þetta mál er algerlega sérstaks eðlis og í sjálfu sér óskylt sjálfri bankalöggjöfinni. Um þetta mundi auðvitað þurfa að setja alveg sérstaka löggjöf, en ákvæði um þetta ættu ekki heima í löggjöf um neinn af þeim bönkum, sem nú starfa, né heldur um sérstakan seðlabanka, þótt stofnaður yrði. Ákvæði um þetta ættu að vera alveg sérstök löggjöf. ef til kæmi, enda mun um það hafa verið rætt í Finnlandi, þar sem mál þetta hefur verið mest rætt. Þar mun engum hafa komið til hugar, að ákvæði um þetta ættu heima í almennri bankalöggjöf né heldur í löggjöf um hina einstöku banka. Ef hæstv. ríkisstj. hefur ekki gert annað í þessu en að senda það formanni millibankanefndarinnar, er að vísu erindið ágætlega komið í hans höndum, svo vel sérfróður sem hann er um þau mál, sem hér er um að ræða. En æskilegra teldi ég þó, að ríkisstj. hefðist eitthvað annað og meira að, fæli þessa athugun einhverjum sérfróðum mönnum í samráði við bankana og þá kannske í samráði við bankanefndina, sem nú starfar.

Tilgangur minn með fsp. var fyrst og fremst að fá vitneskju um það, sem kynni að hafa verið gert í málinu, og auk þess að vekja athygli á því, að hér er um að ræða mál, sem undir engum kringumstæðum má sofna og á skilið hina vönduðustu sérfræðilegu athugun.