18.11.1953
Sameinað þing: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í D-deild Alþingistíðinda. (3396)

97. mál, álagning á innfluttar vörur o. fl.

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskmrh. fyrir mjög greinagóð svör við fsp. mínum og gleðst sérstaklega yfir því, að von skuli vera á nýrri skýrslu um álagningu á innfluttar vörur, sem verðlagsákvæði gilda ekki um. Ég vona, að hún verði girnileg til fróðleiks, svo sem fyrri skýrslur um þessi efni, þó að ég voni að vísu líka, að niðurstöður hennar beri ekki vott um eins hróplega álagningu, í mörgum tilfellum eins hróplegt okur og fyrri skýrslur leiddu í ljós. Ég vona vissulega, að svo verði, og fagna því að fá tækifæri til þess að kynna mér þessar skýrslur.

En það kom í ljós, sem mig og marga fleiri hafði grunað, að sparnaður ríkissjóðs af því að fella niður nær allt verðlagseftirlit nemur í raun og veru hlægilegri upphæð. Hér er um að ræða 170 þús. kr. sparnað, og það verður nú ekki talin stór fjárhæð á meira en 400 millj. kr. fjárlögum. Sannleikurinn er sá, að hæstv. viðskmrh. og hæstv. fjmrh. hafa ekki ástæðu til að gorta mikið af þeirri sparnaðarviðleitni, sem leitt hefur af sér 170 þús. kr. sparnað við framkvæmd verðgæzlu í landinu.

Það er auðséð, að það hefur verið eitthvað allt annað, sem vakti fyrir hæstv. fyrrverandi ríkisstj., þegar hún afnam verðlagsákvæðin, en að spara ríkissjóði fé. Umhyggja fyrir almenningi hefur það ekki verið, því að það er vitað. að verðlag á innfluttum vörum stórhækkaði við afnám verðlagseftirlitsins. Það er umhyggja fyrir einhverjum öðrum aðilum, sem knúið hefur ríkisstj. til þess verks að afnema nær allt verðlagseftirlit í landinu.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri rétt hjá mér að nefna einhver dæmi um, að verðlag á innfluttum vörum hefði hækkað verulega við afnám verðlagseftirlitsins. Ég skal verða við þessari ósk hæstv. viðskmrh., að nefna þá örfá dæmi, sótt í skýrslu fyrirrennara hans í embættinu, hæstv. fyrrverandi viðskmrh., og verðgæzlustjóra.

Samkvæmt fyrstu skýrslunni, sem var birt, hækkaði meðalálagning heildsala á vefnaðarvöru fluttri inn samkv. frílista um 180% frá því, sem verið hafði meðan verðlagsákvæðin voru í gildi. Hún nær þrefaldaðist. Meðalálagning heildsala á bátagjaldeyrisvöru, sem flutt var inn, hækkaði um 128%, eða meira en tvöfaldaðist. Álagningarhækkun smásalanna var hins vegar allmiklu hóflegri, en útsöluverð þessarar vöru, sem fyrsta skýrsla verðgæzlustjóra tók til, hækkaði um 23% vegna álagningarhækkana heildsala og smásala. — Þetta finnst hæstv. ráðh. kannske ekki vera mjög mikið. En það er enginn vafi á því, að það er ekki ofsagt, sem ég sagði, að á þeim vörum einum, sem fyrsta skýrslan náði til, nam álagningarhækkunin nokkrum milljónum, og hafi hún verið tilsvarandi á öllum innflutningnum, hefur hún numið tugum milljóna.

Samkvæmt síðari skýrslunni, sem birt var, kom í ljós, að talsvert var farið að draga úr álagningarhækkuninni. Meðalálagningarhækkun á vefnaðarvöru var í heildsölu 108%, en álagningarhækkun smásalanna var 34%, og þetta olli 11% hækkun á útsöluverði allrar vefnaðarvöru fluttrar inn samkv. frílista. Kaupmáttur launa launamannsins var m. ö. o. lækkaður um 10% vegna álagningarhækkunar milliliðanna. Hver launamaður fékk 10% minna af vefnaðarvöru fyrir kaupið sitt beinlínis vegna þess, að álagningarákvæðin höfðu verið afnumin.

Af síðustu skýrslu hæstv. fyrrv. viðskmrh. mátti sjá, að heildsalar hefðu átt að fá 85 þús. kr. fyrir að flytja inn þær vefnaðarvörur, sem hún tók til, samkv. fyrrverandi verðlagsákvæðum, en þeir tóku 176 þús. kr. fyrir það. Smásalar áttu að fá 343 þús. kr. fyrir að flytja inn þær vörur, sem skýrslan fjallaði um, en þeir tóku 459 þús. kr. fyrir það. Þetta eru engar smáupphæðir. Og þess vegna er það vafalaust rétt, að almenningur í landinu hefur verið látinn greiða tugi milljóna króna meira en ella, vegna þess að verðlagsákvæði voru afnumin.

Fyrrv. ríkisstj. bar því við, þegar hún afnam verðlagsákvæðin, að hún vildi spara — spara ríkissjóði fé. Henni hefur tekizt að spara 170 þús. kr.; en almenningur hefur orðið að borga tugi milljóna króna til viðbótar. Þetta er stefna fyrrverandi og núverandi ríkisstj. í hreinni mynd, í allri sinni nekt. Almenningur má borga tugi milljóna, það er réttlætt með því, að ríkissjóður spari 170 þús. kr.

Það tjáir ekkert fyrir hæstv. viðskmrh. að halda því fram, að ekki megi bera núverandi álagningu saman við þau verðlagsákvæði, sem giltu áður, vegna þess að þau hafi ekki verið haldin. Ef hæstv. viðskmrh. segir þetta, þá er hann að halda því fram, að verzlunaraðilar, kaupmenn og kaupfélög, hafi áður brotið verðlagsákvæði í stórum stíl. Hæstv. viðskmrh. var sjálfur fyrirmyndar kaupfélagsstjóri, og ég trúi því ekki, að hann haldi því fram, að hans kaupfélag eða önnur kaupfélög eða kaupmenn almennt hafi brotið verðlagsákvæði í svo stórum stíl, að algerlega óheimilt sé að bera núverandi frjálsa álagningu saman við verðlagsákvæðin. Ef sá samanburður er óleyfilegur, þá er það versti áburður, sem íslenzk verzlunarstétt nokkurn tíma hefur orðið fyrir. Ég vænti þess ekki að heyra slíkan áburð úr munni hæstv. núverandi viðskmrh.