18.11.1953
Sameinað þing: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í D-deild Alþingistíðinda. (3401)

97. mál, álagning á innfluttar vörur o. fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins í tilefni af því, að hæstv. forseti hefur leyft hér einum af hv. þm. að fara lengra en þingsköp leyfa, mega vænta þess, að sú aðferð verði ekki tekin upp hér í Alþ. (Forseti: Ég mun gæta þess framvegis.) Nú hefði það verið sök sér, ef um hefði verið að ræða mann, sem flutti þinglega sitt mál, þótt þessi þingsköp hefðu verið brotin. En að hlusta hér dag eftir dag á tómar fullyrðingar, hálfgerðar svívirðingar á pólitíska andstæðinga og brjóta svo þingsköpin eins freklega og hér hefur verið gert, það verður náttúrlega ekki þolað af samþm. þessa hv. þm. Ég vil í sambandi við þetta leyfa mér að benda á. að hann hefur nýlega rætt hér og tekið meiri tíma í hvort skipti en hann hafði leyfi til samkvæmt þingsköpum um fyrirspurn, sem hann bar hér fram. og upplýst er. að málið hefur stöðvazt hjá ríkisstj. af því, að það er í höndum þessa hv. þm. enn þá til þess að svara málinu. Svo lítið veit hann um þau mál, sem hann er að bera fram hér í Alþ. — Ég vil einnig leyfa mér að benda á að hann hefur flutt hér — (Gripið fram í.) Ég vildi nú gjarnan, að hv. þm. þegði hér og bryti ekki þingsköpin á þann veg meðan ég er að tala samkvæmt þingsköpum. Hann hefur flutt hér þess utan þáltill. um að koma málunum í það horf, sem þau þurfa að komast í, en hann hefur sjálfur staðið á móti í þrjú þing að gætu komizt í það horf, sem hann nú heimtar að þeim sé komið í og ásakar ríkisstj. fyrir að vera ekki búin að koma þeim í.

Ég þóttist hafa ástæðu til þess að segja þessi orð og vænta þess, að hæstv. forseti leyfi ekki manni, sem fer jafnóvirðulega með málflutning hér á Alþ., að tala lengur en hann hefur leyfi til samkvæmt þingsköpum.