18.11.1953
Sameinað þing: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í D-deild Alþingistíðinda. (3405)

219. mál, olíumál

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Fyrir nokkru síðan, þegar frv. um olíueinkasölu ríkisins var hér til umr., þá var hér fátt af ráðh. á þingi. Það var á fundi í hv. Nd., og sérstaklega var mönnum þá vant viðskmrh. Með því að beita nokkrum hörkubrögðum tókst þó að fá hæstv. ráðh. til viðtals og fá þannig aðstöðu til að bera fram fyrir hann nokkrar spurningar um þýðingarmikið mál viðvíkjandi olíuinnkaupum þeim, sem ríkið hefur nú gert í sambandi við vöruviðskipti við Rússland. Mönnum lék t. d. hugur á að fá að vita, hvaða innkaupsverð hefði verið á þeim olíum, sem ríkisstj. festi kaup á í Rússlandi, en það hefur ekkert heyrzt opinberlega um verð á þessari vöru. 1. tölul. í fsp. þeirri, sem nú er til umr., er um það, hvaða innkaupsverð pr. tonn hafi verið á þeim olíum, sem ríkið keypti í Rússlandi nú fyrir skemmstu.

Það hafði flogið fyrir, en þó alls ekki fengizt staðfest, að olíufélögin, sem hér starfa, hefðu e. t. v. verið strax gerð að aðilum við kaup olíunnar í viðskiptalandinu, en flestir eru þeirrar skoðunar, að ríkisstj. Íslands sé aðili að samningnum, en þar sem það er hins vegar vitað, að olíufélögin fara eftir sem áður með verzlun olíunnar innanlands, þá standa menn í þeirri meiningu, að olíusamningur ríkisstj. hafi verið framseldur olíufélögunum, og er um það atriði spurt í 2. tölul. fsp., hvort ríkisstj. hafi ekki verið aðili að samningnum eða hvort hann hafi verið framseldur olíufélögunum.

Auðvitað skiptir það geysilega miklu máli, hvort hægt er að komast hjá óþörfum milliliðum í sambandi við olíuverzlunina, og er því spurt um það í 3. tölul., hvort olíusamlög útvegsmanna og sjómanna eigi þess kost að ganga milliliðalaust inn í samninga hæstv. ríkisstj. og fá þannig þessa vöru án milliliðakostnaðar. Manni skilst, að ef það er þannig, að olíufélögin hafi fengið að ganga inn í samninginn, þá ætti samlögum útvegsmanna og sjómanna ekki síður að leyfast það. Um þetta er spurt í 3. tölul. fsp.

Þá er það geysilega mikilsvert atriði í sambandi við verð á vöru eins og olíu, hver farmgjaldakjör eru fáanleg í sambandi við flutning vörunnar til landsins, og menn hafa látið sér detta í hug, að þegar um svo mikið magn er að ræða, sem keypt er á einum stað af einum aðila, þá hafi verið hægt að ná óvenjulega hagstæðum kjörum um farmgjöld. Er spurt um það í 4. tölul. fsp., hvort ekki hafi náðst við svo mikil heildarinnkaup á olíu hagkvæmari farmgjöld en við höfum áður átt að venjast.

5. og síðasti tölul. fsp. víkur að því hvort ekki sé að vænta hagkvæmara verðlags fyrir notendur olíunnar vegna hagkvæms innkaupsverðs í slíkum stórinnkaupum og vegna hagkvæmari farmgjalda, þar sem vitað er, að hægt er nú að flytja inn vöruna í geysistórum tankskipum.

Þetta eru allt saman atriði, sem ég vona nú að hæstv. viðskmrh. sjái sér fært að svara, af því að hér er um mál að ræða, sem heyra undir hans rn., og um vöruinnkaup að ræða, sem nema, eins og upplýst hefur verið, allt að sjötta hluta af vöruinnkaupum þjóðarinnar. Þetta eru allt saman atriði, sem skipta aðalatvinnuveg þjóðarinnar, sjávarútveginn, mjög miklu máli, og ég vona nú, að við fáum mjög ýtarleg svör við öllum liðum þessarar fsp., því að það eru margir, sem hafa hug á að fá sanna og áreiðanlega vitneskju um þessi atriði.