18.11.1953
Sameinað þing: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í D-deild Alþingistíðinda. (3410)

219. mál, olíumál

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskmrh. fyrir það loforð, sem hann gaf nú hér, og sætti mig fyllilega við það og get vel skilið það, að hann hafi ekki þessar tölur hér á reiðum höndum út af fyrir sig. Ég er honum þakklátur fyrir þetta loforð, því að mér leikur hugur á að vita hið sanna í þessu efni. En það, sem ég hjó aðallega eftir í því, sem hann sagði, og gerði það að verkum, að ég bað hér um orðið aftur, var það, að mér fannst hæstv. viðskmrh. leiða athygli manna hér að því, að með samningum þeim, sem nú hafa verið gerðir um fragt á þessum olíum frá Sovétríkjunum til Íslands, hafi í rauninni tekizt að lækka fragtina beinlínis um ca. 50 kr. á tonn, og má vel vera, að þetta sé rétt. (Viðskmrh.: Þetta voru nú ekki beinlínis mín orð, eins og ég tók fram. Ég tók fram, að fragtin hefði læknað síðan.) Já, alveg rétt, já, segjum það. Það skiptir í rauninni engu máli upp á þá ályktun, sem ég vil af þessu draga. Með öðrum orðum, fragtin hefur lækkað um 50 kr. á tonn, hvort sem það er vegna almennrar lækkunar á frögtum eða vegna hagstæðra samninga. En sé nú þetta tilfellið, þá vantar okkur lækkunina á olíunni, og það er það, sem skiptir öllu máli, og ég vil aðeins segja það, að ég vil vænta þess, að hæstv. viðskmrh. athugi þetta alveg gaumgæfilega. Hafi raunverulega tekizt að fá þessa lækkun almennt séð á flutningi olíunnar til landsins, þrátt fyrir það að raunverulega hafi nú flutningsleiðin lengzt, þá hlýtur að verða að koma allveruleg verðlækkun á olíum.