18.11.1953
Sameinað þing: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í D-deild Alþingistíðinda. (3411)

219. mál, olíumál

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, vegna þess að hv. síðasti ræðumaður virðist hafa misskilið nokkuð af því, sem ég sagði áðan. Ég benti á það, að fragtin hefði lækkað um ca. 50 kr. frá því í fyrravetur, miðað við þær tölur, sem ég nefndi. En ég vil þá um leið taka það fram, vegna þess að hv. ræðumaður taldi, að það þyrfti að koma fram lækkun á olíum og benzíni sem þessu næmi, að álagning á olíu og benzíni hefur ekki hækkað frá því í fyrravetur, og úr því að lækkunin hér heima kemur ekki fram, þá hlýtur það að liggja í því, að heimsmarkaðsverðið hefur hækkað, sem það líka hefur gert, enda liggur það alveg fyrir, og hv. þm. hlýtur að vita það, að álagning á olíu og benzíni hefur ekki verið hækkuð á þessum tíma. Það vil ég, að allir hv. þm. viti, og úr því að fragtin hefur lækkað, en útsöluverðið lækkar ekki þrátt fyrir það, þá stafar það af því, að innkaupsverð olíunnar hefur hækkað.