18.11.1953
Sameinað þing: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í D-deild Alþingistíðinda. (3415)

220. mál, vinnudeilur

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Mér virðist nú, að formáli sá, sem hv. fyrirspyrjandi hafði, og sú ræða, sem hann flutti hér áðan, væri að ýmsu leyti óþörf og ekki viðkomandi þeim spurningum, sem hann hefur lagt hér fram og mér finnst að mörgu leyti eðlilegar.

Hann spyr: „Á hvern hátt er það tryggt af hálfu ríkisstj., að sú lækkun álagningar á neyzluvörur komi til framkvæmda, sem lofað var og samið var um í sambandi við lausn vinnudeilunnar í des. 1952?“

Það er tryggt með verðgæzlunni, og hún á að hafa eftirlit með því. Og með bréfi, dags. 5. jan. s. l., fól viðskmrn. skrifstofu verðgæzlustjóra að fylgjast með, að verzlunarálagning verði ekki hærri en samtök kaupmanna og samvinnufélaga hafa lofað. Í sama bréfi benti rn. á, að nauðsynlegt væri, að skrifstofan krefði innflytjendur um verðútreikninga yfir umræddar vörutegundir, og var það gert með auglýsingu dags. 15. jan. s. l.

Annar liður: „Er ríkisstj. kunnugt um, hvort þessi ákvæði kjarasamninganna frá des. 1952 hafi verið haldin af hlutaðeigandi aðilum, svo sem til var ætlazt?“

Verðgæzlustjóri hefur skýrt mér frá, að ekki hafi annað komið fram við athuganir skrifstofu sinnar en að innflytjendur og smásöluverzlanir hafi staðið við hið gerða tilboð. Og í viðtali, sem ég átti við hann, telur hann þetta nokkuð öruggt, því að hann hefur haft útsendara hringinn í kringum landið til þess að fylgjast með þessu síðan loforðið var gefið, og hann telur öruggt, að þetta hafi verið haldið, enda mun það koma fram í þeirri skýrslu, sem mun verða birt um næstu mánaðamót, hvort þetta er ekki rétt.

Þá er þriðji liður: „Gilda sömu reglur um verðútreikninga á umræddum vörum eins og þeim vörum, sem enn þá eru undir verðlagsákvæðum ?“

Eftir afnám verðlagsákvæða ýmissa vörutegunda 10. júlí 1951 hækkuðu fljótlega ýmsir innflytjendur suma kostnaðarliði í verðútreikningum sínum frá því, sem leyfilegt var á vörum, sem enn voru undir verðlagsákvæðum. Þetta hefði nú gerzt, enda þótt þessar vörur hefðu verið undir verðlagsákvæðum eftir gengisbreytinguna, og um leið og vextirnir voru hækkaðir, þá hefði fjárhagsráð ekki komizt hjá því að leyfa hækkun á hinum ýmsu kostnaðarliðum, þótt hámarksákvæði hefðu enn þá verið í gildi. Tilboð kaupmanna og samvinnufélaga um hámarksálagningu byggðist á þeim verðútreikningsgrundvelli, sem myndazt hafði síðna á miðju ári 1951, eða eftir að hámarksálagningin var úr gildi numin. En það breytir ekki neinu í því, sem hér er spurt um eða talað um, því að tilboð kaupmanna og samvinnufélaga byggðist á lækkun frá því verði, sem gilti fyrir verkfallið.

Þá er spurt að því: „Hvaða viðurlög liggja við því, ef innflytjendur brjóta umrætt samkomulag eða bregða út af eigin tilboði um hámarksálagningu á þær vörutegundir, sem lagðar voru til grundvallar við lausn vinnudeilunnar í des. 1952?“

Mér er ekki kunnugt um, að það séu nein viðurlög í því efni, enda var hér um frjálst tilboð að ræða, og eins og ég sagði áðan, þá er ekki kunnugt um, að þetta hafi verið brotið, og hefur þess vegna ekki komið neitt til álita um það, hvort eða hvernig bæri að haga refsiaðgerðum í þessu tilfelli. En aðalatriðið er það, að verðgæzlan hefur fylgzt með þessu. og niðurstöður verðgæzlustjóra eru þannig, að hann telur, að þetta samkomulag hafi verið haldið af hálfu kaupmanna og samvinnufélaga.